Leita í fréttum mbl.is

Gústi Guðsmaður !

 

Mér skilst að nú hafi verið sett upp á Siglufirði stytta af einum fyrri tíðar borgara staðarins. Ekki er þar þó um að ræða bæjarpólitískan leiðtoga, menningarfrömuð í venjulegum skilningi þess orðs eða forustumann úr atvinnulífinu eins og víðast hvar er gert. Veraldleg framganga þess manns sem heiðraður hefur verið með þessum hætti var eiginlega með allt öðrum hætti en flestra þeirra sem styttur eru steyptar af.

 

Siglfirðingar hafa nefnilega, þvert á hefðir hégómans, reist í virðingarskyni í bæ sínum styttu af óbreyttum alþýðumanni, manni sem var sjálfum sér samkvæmur og trúr í stóru og smáu, manni sem vildi láta gott af sér leiða og gerði litlar kröfur fyrir sjálfan sig – styttan er af Gústa Guðsmanni !

 

Í dag eru menn af slíku tagi næsta fáir, enda rís sjálfhverfur tíðarandinn gegn allri óeigingirni og fórnfýsi eins og fjandinn sjálfur. Nútíðin snýst aðeins um eitt stef og það er – ég, um mig, frá mér, til mín. Svo langt hefur okkur borið af leið samstöðu, félagshyggju og samhjálpar, að flest er að verða þar í einhverju skötulíki !

 

Ég held að Gústi vinur okkar hefði átt erfitt með að stunda útgerð með Guði á Íslandi í dag. Í fyrsta lagi er Guð ekki hafður með í útgerðarmálum hérlendis nú til dags, í öðru lagi snýst útgerð landsins um auðgun í eigin þágu og í þriðja lagi er kvótakerfið ekki í neinum tengslum við himininn. Það á upphaf sitt að rekja á allt annan stað !

 

En Siglfirðingar muna þá tíð þegar Gústi rak sína útgerð í samfélagi við Guð og lét afraksturinn ganga til góðra mála. Hann var eini útgerðarmaður landsins sem gleymdi eigin hag og gerði ekki neinar kröfur í eigin þágu !

 

Sérhver fiskur sem hann veiddi var framlag til meiri manngæsku í kristnum anda um heim allan. Manni finnst eiginlega stórmerkilegt að slíkur útgerðarmaður skuli hafa verið til á Íslandi og sannarlega er sú manngerð hvergi til staðar í brimi og boðum nútíma útgerðar !

 

Sigurvin hét bátur Gústa og sá sem á Drottin að á sannarlega sigurvin. Og Guðs vegir liggja um lönd og höf allrar tilveru og hver vill ekki eiga slíkan sigurvin að á lífsleiðinni, vin sem aldrei bregst og leiðir menn heila í höfn hamingjunnar að lokinni ferð ? Svo sannarlega þurfum við öll á því að halda að eiga þann sigurvin á lífssiglingu okkar !

 

Ófáir voru þeir sem nutu betri lífsgæða af fórnfúsu framlagi Gústa og þó að hann þekkti ekki til þeirra persónulega skipti það hann engu máli. Honum var það nóg að gefa til góðs. Hann treysti Guði og vissi að hann myndi sjá til þess að starfið yrði til heilla. Og enginn vafi er á því að sú blessun fylgdi Gústa sem skilaði hlýjum náðarstraumum um hans heimaslóðir og vermdi mannlífið þar !

 

Gústi las Guðs Orð fyrir samborgara sína á Ráðhústorgi Siglufjarðar og miðlaði þar versum úr Biblíunni. Í meira en fjörutíu ár sinnti hann þeirri köllunarskyldu sinni af einlægri þjónustulund. Svo gekk hann heim í Antonsbragga, - barnslega fagnandi og glaður í hjarta – heill í trú til hinstu stundar !

 

Slíkur maður á trúlega góða heimvon í ríki því sem er hið efra og vel gera Siglfirðingar með því að minnast hans með þeim hætti sem nú hefur verið gert !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 241
  • Sl. sólarhring: 475
  • Sl. viku: 1880
  • Frá upphafi: 320134

Annað

  • Innlit í dag: 215
  • Innlit sl. viku: 1570
  • Gestir í dag: 213
  • IP-tölur í dag: 211

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband