Leita í fréttum mbl.is

Um ,,líknarstörf“ í lengd og bráð !

 

 

Þó heimurinn sé ekki geðslegur og síst kannski um þessar mundir, er oft þörf á því að lífga sér lund með léttara hjali. Mannlífið býr yfir svo mörgu sem maður getur haft gaman af að velta fyrir sér, og þá reynir maður um leið að gleyma eða ýta til hliðar þeim skuggahliðum sem geta spillt svo miklu í lífinu um allan heim !

 

Oft finnst mér alveg sérstakt hvað sumir ganga langt í því að klæða sérgæsku sína dularklæðum og villa á sér heimildir og þykjast þannig vera miklu betri en þeir eru !

 

Einkennileg hefur mér til dæmis löngum fundist sú sérgæskufulla nálgun við kynlíf sem virðist koma fram í viðhorfum svo margra. Sumir þykjast alltaf vera eingöngu að gefa af sér í kynlífi, gera öðrum gott og þar fram eftir götunum og vera alveg lausir við að krefjast einhvers fyrir sig, þó sérgæskan sé þar í hæstu hæðum !

 

Slíkir sjálfskipaðir ,,björgunarmenn“ fara yfirleitt aldrei neinum orðum um eigin ávinning og virðast bara helst vera með það í huga að gera eitthvert gustukaverk á annarri manneskju af einskærri manngæsku eða yfirþyrmandi líknarvilja, sem er svo yfirleitt ekki neitt eða lítið þegar upp er staðið. !

 

En kynlíf er svo eðlilegur þáttur í lífinu, að án þess er vandséð hvernig mannkynið eigi að geta haldið áfram göngu sinni. Það á náttúrulega fyrst og fremst með réttum hætti að styðjast við þá meginforsendu að tvær manneskjur kjósi af frjálsum vilja að elskast, því þá er í raun ekkert sem mælir því á móti.

 

Í þeim samskiptum er auðvitað æskilegast að vilji beggja sé fullkomlega jafngildur til athafna, og lögum sem land byggja sé fylgt í hvívetna, og ljóst í beggja hugum að báðum sé verið að gera gott. Kynlíf án sérgæsku og eigingirni er auðvitað það besta !

 

Þegar ég var strákur skildi ég eiginlega aldrei hversvegna það mátti ekki sýna fólk elskast í kvikmyndum, en hinsvegar mátti drepa fólk miskunnarlaust í öllum myndum. Samt var bannað með lögum að drepa fólk en engum í sjálfu sér bannað að elskast ?

 

En þannig er ósamkvæmnin og tvöfeldnin svo oft ráðandi í allt of mörgu í samfélagi okkar mannanna og þannig fær það að grafa undan öllu náttúrulegu og eðlilegu viðhorfi og skemma út frá sér !

 

Oft er líklega hið gamla líknarsjónarmið til staðar í þessum efnum, sem oftast virtist koma fram hjá körlum hér áður fyrr og kemur reyndar enn fyrir, þar sem þeir þykjast vera að hjálpa upp á kvenfólk sem sé alveg að farast vegna vöntunar á kynlífi !

 

Það virðist því öllu frekar um að ræða sem það sé einhverskonar alþjóðlegur hjálparstarfsemisvilji í gangi hjá slíkum aðilum, en ekki eitthvað sem ætti fyrst og síðast að vera sjálfburða mæting gagnkvæmrar þarfar !

 

Í þessu sambandi öllu kemur mér í hug sagan af Borga-Magnúsi, sem var þekktur flakkari á nítjándu öld. Hann var reyndar talinn hafa óbeit á kvenfólki og vildi yfirleitt ekki nærri því koma, en eins og löngum vill vera, brýtur nauðsyn lög !

 

Það var eitt sinn að Magnús var á ferð um páskaleytið, í bölvuðum norðangarra og nokkru frosti. Þegar hann kom á stað nokkurn sem Skrínuleiti heitir, mætti hann vinnukonu frá prestssetri í nágrenninu og hafði hún fresskött með sér !

 

Magnús kastaði kveðju á stúlkuna og spurði hvert hún væri eiginlega að fara með þennan helvítis kött ? Stúlkan svaraði því til að læðan á prestssetrinu væri breima og hún væri að sækja köttinn til að líkna henni. Það hnussaði í Magnúsi við þetta og hann hreytti því út úr sér að það væri nú lítil þörf á því !

 

Stúlkan tók þegar í stað upp þykkjuna fyrir læðuna og sagði að það væri ekki nema gustuk að líkna blessaðri skepnunni. Á þeim tíma var það beinlínis til siðs að sækja fressketti fyrir læður. Var það kallað að líkna þeim og sagt vera hreint mannúðarverk !

 

Við orð stúlkunnar virtist ljós renna upp fyrir Magnúsi því hann sagði þegar formálalaust við stúlkuna : ,, Viltu kannski að ég líkni þér ?“ Stúlkan ansaði að bragði : ,, Það er ekki hægt hérna, þá missi ég frá mér köttinn !“ ,,Ég skal sjá fyrir kettinum“ svaraði Magnús !

 

Stúlkan fékk honum þá köttinn, en Magnús tók af sér hattinn, hvolfdi honum yfir köttinn og bar steina á börðin. - Síðan líknaði hann stúlkunni undir vörðu þar á leitinu og skipti þar afleitt veðurlagið engu. Hefur varðan sú verið kennd við Magnús síðan !

 

En Magnús lét ekki þar við sitja. Hina næstu nótt eftir líknarverkið á Skrínuleitinu, gisti hann á bæ þar skammt í frá. Þegar vinnukonan þar fór út í fjósið um kvöldið, fór Magnús á eftir henni og sagði umsvifalaust við hana : ,, Nú tökum við til verka !“ Þeirri stúlku líknaði hann svo í moðbásnum !

 

Og á næstu dögum mun hann hafa líknað þriðju stúlkunni einhvers staðar á flakki sínu. Svo mikið er víst að þrjú börn voru honum kennd í framhaldinu, öll fædd í sama mánuðinum. Eftir þau afrek var ekki til þess vitað að Magnús væri oftar við kvenmann kenndur og hefur hann líklega gengið fram af sér í líknarverkunum !

 

Þarna virðist gengið út frá því að kvenfólk þurfi líknar við í þessum efnum og einhver björgunarstörf séu því í gangi. Og þetta gerist í sálfræðilegum einfaldleika sínum fyrir daga alþjóðlegra hjálparsamtaka. Það má því segja með sanni að fjölbreytt sé tilverustigið alla jafna og margt geti verið þar í fullu ferli víðsvegar um heiminn, á skrínuleitum nýrrar sköpunar !

 

Því má líka bæta hér við, að lífið heldur vonandi áfram, og til þess að svo verði er kynlíf að sjálfsögðu nauðsynlegur þáttur í framhaldsferli tilverunnar. Menn ættu þó ekki endilega að líta svo á að þar eigi eingöngu að vera um líknarstarfsemi annars aðilans að ræða !

 

Það ætti kannski miklu frekar, að öllu samanlögðu, að líta svo á að þar geti verið um gagnkvæma líkn að ræða, og í þeim skilningi séu mál kannski öllu nær því að vera það sem vera ætti !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 292
  • Sl. viku: 1659
  • Frá upphafi: 319913

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1365
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband