Leita í fréttum mbl.is

Enginn haldi í íhaldið

 

 

" Flokkur með ógeðs ýtnum

anda er fjarri sátt.

Liggur í ljótum skítnum,

lagast á engan hátt ! "

 

Það er margsannað mál að sagan hefur tilhneigingu að endurtaka sig. Kannski ekki alveg nákvæmlega en furðu nákvæmt þó. Á sínum tíma var Bjarni Benediktsson leiðandi innan Sjálfstæðisflokksins í því að koma Íslandi inn í Nató en með því var snúið baki við þeirri hlutleysisstefnu sem átti að vera ófrávíkjanlegt grundvallaratriði í utanríkismálum Íslands. Nú þegar annar Bjarni Benediktsson er orðinn formaður flokksins, má kannski spyrja sig þeirrar spurningar, verður hann sá maður sem á eftir að gegna hliðstæðu hlutverki við að plata þjóðina inn í Evrópusambandið ?

Í því sambandi er vert að hafa það í huga, að Sjálfstæðisflokkurinn er enganveginn eins mikill Sjálfstæðisflokkur og hann vill vera láta. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að innan flokksins hafi  verið og séu ýmsir sérhagsmunir yfirleitt mun þyngri á metaskálunum en sjálfstæði lands og þjóðar !

Nú um stundir hafa Sjálfstæðismenn hinsvegar kosið að hampa andstöðu við aðild að Evrópusambandinu og þóst allra manna þjóðlegastir, en ástæðan er einfaldlega sú, að þeir liggja í skítnum í öllum öðrum málum. Þeir hafa engu öðru að flagga fyrir væntanlegar kosningar en hugsjón sjálfstæðisins, en flokkurinn er þó enganveginn heill í því máli.

Veit einhver hver er afstaða Bjarna Benediktssonar í því máli eða afstaða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur ?  Áfram mætti líka spyrja, hvaða afstöðu hefur Illugi Gunnarsson til þess máls ?  Ætli það sé ekki nokkuð loðið viðfangs að vita það ?

Bjarni Benediktsson hefur alls ekki verið sjálfum sér samkvæmur í afstöðu sinni til þessa stóra máls og í raun og veru veit enginn hver afstaða hans er og hvar hann er staðsettur í málinu. Kannski er það einmitt þessvegna sem hann er orðinn formaður flokksins - nokkurskonar persónugerð málamiðlun !

Evrópusambandssinnar í flokknum hafa líklega talið að Bjarni væri þeim hliðhollur, en hafi kosið af klókindum að láta það ekki uppi um sinn. Þeir hafa því kosið hann í trausti þess að hann kæmi til liðs við þá síðar.

Andstæðingar aðildar hafa áreiðanlega haft efasemdir um heilindi Bjarna, en kosið hann í von um betri tíð og blóm í haga, einkum eftir að Bjarni fór að tala meira svo þeim líkaði.

Gamla fólkið í flokknum kaus svo Bjarna vegna nafnsins og heldur víst og vonar að það sé að fá gamla foringjann sinn aftur endurborinn. En í því sambandi er áreiðanlega óhætt að fullyrða að hinn nýi Bjarni Ben er ekki gamli Bjarni Ben endurfæddur þó kynið sé það sama.

Það er alltaf leiðinlegt að sjá hvað íslensk pólitík er yfir höfuð á lágu gæðastigi.

Það er ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn að sakast í þeim efnum, þó að sá aðili valdi auðvitað miklu sem mestu völdin hefur haft í þjóðfélaginu og mestu burðina til að gera illt af sér ef út í það er farið. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn negldi sig alveg niður við spillingu kvótakerfisins fór hann gersamlega yfir öll mörk eðlilegrar siðvitundar og hefur setið í þeim skít síðan. Þar vann hann það skemmdarverk á almennum íslenskum frjálsræðisanda sem seint eða aldrei verður bætt.

Þegar Geir H. Haarde gumaði af því að hann og flokkur hans hefðu frelsisvætt íslenskt samfélag, en sumir ekki kunnað með það frelsi að fara, gleymdi hann greinilega því mikla ófrelsi sem kvótakerfismismununin færði með sér gagnvart öllum þeim mikla fjölda sem úthýst var frá fornum íslenskum mannrétti. Og hann átti áreiðanlega ekki við kvótagreifana þegar hann sagði að sumir hefðu ekki kunnað með það frelsi að fara sem þeim hefði verið fært upp í hendurnar.

En Sjálfstæðisflokkurinn rændi svo miklu sjálfstæði af íslenskum almenningi með kvótakerfinu að fæstir gera sér fulla grein fyrir því enn hvílíkur glæpur var þar drýgður gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Það er því ljóst að þessi vandræðaflokkur þarf að fara í ítarlega naflaskoðun á sjálfum sér og nauðsyn ber til að hann sé utan stjórnar meðan hann verður í þeim skylduga hreinsunareldi. Ég myndi halda að sú skrúbbun á flokknum tæki í það minnsta 4 ár og þar til henni er lokið ætti enginn að reikna með Sjálfstæðisflokknum færum til eins eða neins.

Kjósendur þurfa því í komandi kosningum að tryggja það að þessi réttnefndi Þjóðarógæfuflokkur sé ekki að þvælast fyrir endurreisn þjóðarinnar í komandi tíð, því ekkert bendir til þess að hann sem iðrunarlaus gerandi sé líklegur til að leggja þar eitthvað gott til mála.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 178
  • Sl. sólarhring: 318
  • Sl. viku: 1609
  • Frá upphafi: 318432

Annað

  • Innlit í dag: 164
  • Innlit sl. viku: 1250
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 162

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband