Leita í fréttum mbl.is

Um sérstakt tímabil sjálfstæðisvöntunar og öfugheita í íslenskri pólitík !

 

 


Einstaklega ómerkilegu tímabili í pólitískri sögu þjóðar okkar hlýtur að fara að ljúka senn hvað líður. Tímabili þar sem engin manneskja í valdasessi hefur unnið sér nokkurn eðlilegan orðstír samkvæmt þjóðlegum, íslenskum mannskilningi !

 

Það er eins og fólk, sem telur sig þó líklega öðrum fremur borið til mannaforráða, hafi fallið nokkrar manndómströppur niður á við á undanförnum árum. Það er eins og viðmið gagnvart heilbrigðari mælikvörðum sem áður giltu, hafi skekkst og séu jafnvel ekki til lengur. Svo mikil er ösin orðin á græðgis-götum mannlífsins !

 

Núverandi ríkisstjórn er að minni hyggju vesalmennskustjórn. Hún er æpandi auglýsing um aumingjaskap og bakslag í öllum þeim málaflokkum sem eiga að bera frjálsri og sjálfstæðri þjóð góðan vitnisburð. Þeir sem sitja í þessari stjórn eiga aldrei eftir að heyra það hjá neinum að þeir hafi setið þar til góðs.

 

Þar hefur nánast allt verið gert þjóðarhag til óþurftar og flest reynt til að hanga við völd sem lengst og geta svo endað ferilinn með ráðherra-eftirlaun til hinsta dags fyrir ekki neitt. Það fjölgar líklega fyrrverandi ráðherrum á Kanarí innan skamms, en öllum er þeim haldið uppi af íslenskum almenningi, þó þeir gangi þar um eins og útblásnir froðuskúmar og þykist líklega hetjur þjóðar sinnar !

 

Núverandi ríkisstjórn hefur mér vitanlega aldrei staðið undir nafni sem slík eða yfirleitt í lappirnar Pólitíkin í kringum hana virðist vera soðin saman á einhverjum ógeðslegum spillingarforsendum sérhagsmuna, svo maður fær æluna upp í kok við óhreinar gerðir hennar. Lengi getur vont versnað, segir máltækið, og það leynir sér ekki að þannig er ferlið !

 

Það hafa margar afleitar ríkisstjórnir setið við völd á Íslandi, en þessi sem nú óhreinkar þar sviðið er ein af þeim ömurlegustu sem troðið hefur verið upp á okkur og hún hefur, að mínu mati, komið óorði á nafn Íslands með ýmsum hætti !

 

Þessi ríkisstjórn hefur þegar setið of lengi til einskis gagns. Samstarfið innan hennar virðist hanga saman á einhverri samtryggingar-formúlu sem langlyktar af skítlegheitum og skemmandi manndómsleysi. Það verður sannur fagnaðardagur í sögu þjóðarinnar þegar þetta óhæfa sjálfdæmda lið verður að hypja sig burt úr ráðherrastólunum, eftir að hafa setið þar á einu stóru núlli frá byrjun, flestum til angurs og leiðinda !

 

Stjórnmálaforustan í landinu er orðin óþjóðleg að öllu leyti og sérgæskan ræður þar ríkjum. Það virðist engin heiðarleg hugsun þar til grundvallar einu eða neinu. Enginn virðist í raun vera að vinna fyrir land og þjóð, allir bara að krafsa sér í hag, á kostnað almannaheilla. Arðránið á öllum auðlindum íslensku þjóðarinnar er komið í sögulegan hápunkt sem þýðir að almenn velferð er á hröðu undanhaldi í landinu. Til hvers vildum við stefna að sjálfstæðu Íslandi, ef ávextirnir áttu virkilega að verða svo óþjóðlegir og úrkynjaðir eins og þeir sem við blasa ?

 

Íslensk yfirvöld virðast þegar orðin þjóðinni verra arðránsafl en Danir hefðu getað orðið og það er blóðugt að þurfa að játa það. Græðgi íslenska stjórnkerfisins og sérgæskuaflavernd þess í gegnum hið rangláta kvótakerfi og önnur blóðsugubatterí er löngu komin yfir öll siðleg mörk. Ríkiskerfið er orðið óíslenskt fyrirbæri og ríkisstjórnin sem situr hér að völdum illu heilli, virðist helst finna sér samstöðu í því að flysja niður íslenskt sjálfstæði og flytja það í pökkum pólitískrar prettvísi til framtíðar-vistunar í ríkiskastala Evrópu-sambandsins í Brussel ?

 

Líklega felst í þeim óskemmtilegheitum öll framtíðarsýn kötu-bjarnasigurðar sjálfstæðis-vöntunar stjórnarinnar sem nú situr og virðist sannarlega vilja snúa öllu öfugt í málum sem snúa þyrftu rétt við augum allra sannra Íslendinga ?

Erum við endanlega hætt við að vilja vera sjálfstæð þjóð ?

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 23. september 2023

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 185
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 1482
  • Frá upphafi: 367644

Annað

  • Innlit í dag: 151
  • Innlit sl. viku: 1270
  • Gestir í dag: 147
  • IP-tölur í dag: 146

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband