Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2022

Menn eru gerendur hlutanna !

 

 

Eitt af þeim orðskrípum sem leiðandi fólk hefur gjarnan gripið til, ekki síst í seinni tíð, er að ekki eigi að deila á manninn heldur málefnið. Þetta er líklega gert í varnarskyni til að létta ádeilu á þá sem forustu-hlutverkum gegna. En það gleymist þá að menn eru fyrst og síðast gerendur hlutanna !

 

Á sem sagt að gagnrýna nazismann en ekki Hitler ? Á að gagnrýna kommúnismann en ekki Stalín ? Á að gagnrýna kapítalismann en ekki Morgan eða Rockefeller ? Af hverju er viðleitnin iðulega sú að fría þá menn við ábyrgð sem voru fremstir í því að skapa ógæfuferlið sem varð ?

 

Hvað hefði orðið úr nazismanum ef Hitler hefði ekki haft forustuna með sefjunarvaldi sínu og djöfullegum framgangsmáta ? Hvernig hefði kommúnisminn hugsanlega þróast ef Stalínisminn hefði ekki komið til ? Hverjir mögnuðu upp arðránseðli kapítalismans meira en Morgan og Rockefeller ? Staðreyndir Sögunnar segja oftast sitt með skýrum og afgerandi hætti !

 

Af hverju má þá ekki tala hreint út um hlutina og vísa ábyrgð illrar framvindu til þeirra sem fyrir henni hafa staðið og standa ? Við vitum auðvitað að þeir sem hafa völd og mikið af peningum eignast formælendur og áhangendur í þessum heimi langt umfram verðleika, en af hverju má ekki gagnrýna þá fyrir breytni þeirra ef hún gefur fullt efni til þess ?

 

Við vitum líka að keyptir formælendur og áhangendur eru ekki þekktir af því að vera sannleikans megin þegar mál eru gerð upp. Þar er hvorki sannfæring eða samviska vakandi í brjóstinu – aðeins buddunnar lífæð !

 

Málefni verða ekki til af sjálfu sér. Þau eru vakin upp og sett fram – af einhverjum. Ef þau eru og reynast fyrirlitleg frá eðlilegu, siðrænu og mannlegu sjónarmiði, þá er sá líka fyrirlitlegur sem veitir þeim brautargengi. Það ætti að vera auðvelt mál að skilja það !

 

Það er því ekkert óeðlilegt eða rangt við að gagnrýna viðkomandi mann fyrir að vekja upp það sem reynist illt og niðurbrjótandi fyrir heilbrigð samfélagsleg gildi. Gerandi slíks athæfis veldur upphafinu og hlýtur að teljast ábyrgur fyrir því sem hann hrindir af stað !

 

Gott er jafnan að gagnrýni sé hófstillt en ekki merkt ofstæki og öfgum. En að gagnrýna bolta en ekki mann er að drepa allri markvissri ádeilu á dreif og þar með árangri hennar. Einhver sparkar boltanum og boltinn gerir ekki neitt einn og sér. Gagnrýni þarf því að beinast að gerendum hlutanna !

 

Þeir sem boða niðurrif heilbrigðra samfélagslegra gilda eru ekki og mega ekki verða hafnir yfir gagnrýni. Laodíkeu andi þeirra hlýðir engum lögum og stefnir ekki að neinu góðu. Hann er víða á ferli í dag og gegn honum þarf að berjast fyrir uppbyggingarmálum réttlætis og sannleika, í nafni allra heilbrigðra siðagilda mannlegs samfélags !


Svíður í gömlum sárum, sagan er full af tárum !

 

 

Allar tilraunir sem gerðar hafa verið til að sameina þjóðir Evrópu í einn allsherjar sértrúarsöfnuð einhverra kennisetninga hafa mistekist og þær munu halda áfram að mistakast. Lúðvík XIV reyndi hvað hann gat að leggja allt undir sig á sínum langa valdatíma, en skildi við allt í miklu verra ástandi en hann tók við því. Napóleon kom eins og eldibrandur fram úr svartnætti frönsku byltingarinnar og tók sér alræðisvöld. Hvað varð um hann og alla hans sigurvinninga ? Slóð hans um álfuna var vörðuð líkum hundruð þúsunda manna sem hefðu átt að fá að lifa lengur og í friði !

 

Sameining Evrópu sem verða átti undir hakakrossfánanum og forræði nazista varð einn hryllingur frá upphafi til enda. Þar sökk ein hæfileikamesta þjóð veraldar svo djúpt í svörtustu ómennsku að þess eru fá dæmi. Sovétríkin með sinn kommúnisma buðu aldrei upp á neinn frambærilegan valkost til sameiningar Evrópu. Og það gerir Evrópusambandið ekki heldur með neinum hætti !

 

Hrokafull afskiptasemi Breta á gullaldartímum veldis þeirra náði til allra ríkja Evrópu. Alltaf var Bretinn annaðhvort beint eða óbeint að ráðskast með frelsi annarra þjóða álfunnar. Oftar var þó krumlu þeirri beitt að tjaldabaki og hinn sterki Englandsbanki þótti jafnan styðja ofríkið eins og best hann gat. Það var heldur ekki við öðru að búast !

 

En nú er Bretinn sem betur fer aðeins svipur hjá sjón. Þar sprikla bara litlir karlar eins og Boris Johnson nú til dags. Þeir reyna að vísu að rífa kjaft en fá ekki áheyrn eins og í fyrri daga. Stórveldis-stælar Breta eru eiginlega bara hlægilegir nú til dags og Englandsbanki hefur ekki það vægi sem hann eitt sinn hafði. Það ber enganveginn að harma það !

 

Við íbúar Evrópu ættum að vera búnir að fá fullkomna sönnun fyrir því að í einhverju risavöxnu skriffinsku-bákni verður frelsi mannsins aldrei vel fyrir komið. Skrifstofuvald sérhvers alræðiskerfis hefur alltaf og verður alltaf fjarlægt öllu eðlilegu mannfrelsi. Það hefur sannast til fulls í sögulegum skilningi í París, Berlín og Moskvu og mun sannast í Brussel og reyndar hvar sem er. Mannfrelsi unir aldrei hlekkjum til lengdar !

 

Eitt sterkasta ákall þjóða heims á öllum tímum hefur beinst að þeirri sjálfsögðu, mannlegu kröfu að þær fái að vera í friði. Að þær fái að ráða örlögum sínum og þurfi ekki að búa við ágang annarra. Fái að rækta sinn garð og sitt lífsmengi í friði. Stundum gerist það, að svonefndar vinaþjóðir eru verstar með það að láta fólk ekki í friði. Þar er hin yfirlýsta vinátta oftar en ekki skilyrt fyrirkomulag og í raun ekkert nema aukning á áþján !

 

Reynum að halda heilbrigðri sýn í moldviðrum samtímans. Vökum sjálf yfir velferð okkar og fylgjum engum fölskum vinum fyrir björg. Þó að sagt sé, að sælt sé sameiginlegt fall er það ekki þannig í veruleikanum. Hverri þjóð er einboðið að gæta sjálfs sín af fullri ábyrgð og vera á verði fyrir varasamri íhlutun annarra, jafnvel og engu síður, þó vinir teljist !

 

Eitthvert miðstjórnarbákn og sjálfskaparvítisvald er ekki það sem þjóðir Evrópu sækjast eftir. Hver þjóð vill fyrst og fremst fá að una við sitt í friði eins og ættsveitirnar fyrir daga konungsvaldsins. Allt hið brjálaða basl heilaþveginna kerfisþræla við að búa til risastóran miðstjórnarkastala til að stjórna öllu, yfirleitt í nafni einhverrar blekkingarbólginnar hugmynda-fræði, þjónar aðeins einum tilgangi – að koma öllu valdi á sem fæstar hendur. Það er líklega undirbúningsvinnan fyrir komu Antikrists !

 

Enginn er annars bróðir í leik og öll saga Evrópu bæði fyrr og síðar - er og hefur verið afar fórnfrekt vitni um þá ísköldu og óþægilegu staðreynd veruleikans !


Að kalla ógæfuna yfir sig !

 

 

Svíþjóð er og hefur verið í vondum málum. Það er augljóst hverjum þeim sem kýs að rýna í framvindu mála í þessari fyrrum háttlofuðu paradís jafnaðarmennskunnar. Fjölmenningarstefnan hefur þar beðið eitt sitt versta skipbrot í álfunni þó að fæstir vilji viðurkenna það og líklega síst Svíar sjálfir. Þessvegna mun framvindan halda þar áfram á sinni óheillabraut !

 

Svíar gengu einna lengst þjóða í að opna land sitt fyrir innflytjendum og þá var lítið sem ekkert hugað að því hverskonar fólk var að koma til landsins. Allir virðast hafa þar verið boðnir velkomnir, jafnt heiðarlegt fólk sem glæpamenn. Og það virðast hreint ekki svo fáir hafa nýtt sér gestrisnina með vanþakklátum og rangsnúnum hætti eins og dæmin sanna !

 

Slíkir innflytjendur hafa breytt Svíþjóð úr friðsömu, norrænu velferðarríki í óvissuríki allrar velferðar á tiltölulega fáum árum. Byssukúlur granda nú fleiri manneskjum í Svíþjóð en í nokkru öðru landi Evrópu þar sem ekki á að heita styrjöld í gangi. Það eru ávextirnir af kolrangri innflytjendastefnu og hreint og beint yfirgengilegum sleikjuhætti gagnvart fjölmenningar-átrúnaðinum !

 

Það eru margar þjóðir Evrópu enn í dag uppteknar við það að leyfa með sænskum hætti innflutning á vandræðum. En það er eðlilega mikill munur á æskilegum innflytjendum og óæskilegum. En það má ekki viðhafa neina greiningu í þeim efnum. Það er talið mannréttindabrot af öskurhópum eins og þeim sem iðulega hlaupa niður á Austurvöll til að skemmta sér í opinberu mótmælapartíi, með fullkomlega ábyrgðar-lausum hætti !

 

Það er hinsvegar alveg ljóst að fjölmenningarstefnan, sem átti víst að búa til alfullkomna Evrópumenn, soðna upp úr marglitum fjölþjóðapotti, er löngu hrunin og hefur aðeins skilið eftir sig slóð eyðingar í álfunni. Menningarverðmæti hafa verið fótum troðin og mörgu kastað á glæ sem síðar meir mun ótvírætt sannast að mikil þörf var að varðveita. Þar hefur margt glatast. En þjóðernislegar rætur í Evrópu liggja djúpt og þær verða ekki skornar burt með neinum hætti né gerðar að engu !

 

Aðstreymi fólks af öðrum kynþáttum og frá öðrum menningarheimum mun aðeins skerpa andstæðurnar þegar frá líður. Evrópumenn reyndu lengi að leggja undir sig Afríku en hinar afrísku þjóðir héldu fast í sitt. Suður-Afríka var sterkasta dæmið um það. Þjóðirnar heimafyrir stóðu fast á sínum frumburðarrétti til landsins og hann varð ekki frá þeim tekinn !

 

Eins er það með Evrópuþjóðirnar. Þær munu ekki gefa eftir sinn rétt þótt undanhaldsstefnan hafi verið ærin um skeið. Þjóðleg gildi munu aukast og endurskírast. Evrópa er ekki að sameinast. Hún er að fá gleggri sýn á hin þjóðlegu verðmæti. Hver þjóð þarf að hlynna að sinni arfleifð. Það gerir enginn annar, hvorki í Svíþjóð né annarsstaðar !

 

Tékkar og Slóvakar fóru hvorir sína leið. Júgóslavía var rifin upp og hver þjóð þar valdi sér sinn veg. Skotland vill fara sína þjóðfrelsisleið en hefur til þessa verið í klóm fjármálavaldsins í London. Þegar Skotar losna úr þeim fjötrum, er líklegt að Wales fylgi á eftir. Baskar hafa lengi barist fyrir eigin ríki á Norður Spáni og Katalóníumenn vilja ráða sínum örlögum !

 

Víða í Evrópu eru menn að átta sig á því að þeir hafa ekki gætt nægilega vel að sínum menningararfi og sofið á verðinum. Þar hefur hinn illa falski og uppskrúfaði fjölmenningar-draumur villt um fyrir mörgum vel meinandi mönnum, en hann er löngu orðinn að martröð um alla álfuna og menn eru sem betur fer að vakna frá þeim vonda draumi og fá vit sitt aftur !

 

Svíþjóð býr við áður óþekkt ofbeldi. Sænsk manngildis-sjónarmið eru ekki virt af fjölmörgum borgurum landsins, innflytjendum sem aldrei komu til landsins með þjóðhollustu í huga, heldur til að hafa gott af því sem þar stóð þeim til boða. Hvaða ríki er í þörf fyrir slíka þegna ?

 

Sérhvert ríki sem kallar yfir sig slíka óværu og ógæfu, verður að taka afleiðingum þess. Svíar voru á sínum tíma langt komnir á góðri leið, en þeir fóru út af hinni réttu braut þjóðlegra gilda og tóku til við að þjóna öðrum og vafasamari gildum. Af því súpa þeir seyðið nú !

 

Þeir verða annaðhvort að rífa sig upp úr fjölmenningarfeninu sem þeir hafa sökkt sér í eða að missa land sitt inn í endanlega upplausn og hrærigraut ofbeldis ólíkra hópa sem eiga enga samleið. Það er ekki annað í boði !

 

Ísland má líka vara sig. Fjölmenningarfarsóttin hefur skaðað margt hér til þessa og margir virðast enn sjá farsældarríkið í gegnum litað gler blekkinganna. En við Íslendingar erum ekki margir og megum ekki við miklu og hættan er mörg. Við skulum átta okkur á því að íslensk þjóðmenning er einskisvirði í augum þeirra sem ganga á seið gerninganna og ánetjast draumórum fjölmenningar-tálsins !

 

Varðstaða okkar fyrir eigin gildum verður að vera raunhæf. Lærum af óförum Svía og annarra þjóða sem hafa þegar glatað miklu af því sem var þeim til ávinnings og æru. Sem Íslendingar höfum við skyldur við eigin þjóð og þær eiga og þurfa að vera í forgangi. Það mun enginn gæta menningar okkar og þjóðararfs ef við gerum það ekki sjálfir !


Úthaldsleysi eða hvað ?

 

 

Sú var tíðin að stjórnmálaforingjar landsins voru eingöngu karlmenn og frammistaða þeirra var upp og ofan eins og jafnan er. Sumir voru dýrkaðir af fylgjendum og hataðir af andstæðingum og var þar sjaldnast hóf á hlutum. Maðurinn er nú einu sinni eins og hann er og batnar lítið !

 

Það virtist sem karlar væru í pólitík fyrir lífstíð eða meðan þeir héldu heilsu. Hannes Hafstein, Skúli Thoroddsen, Benedikt Sveinsson eldri, Jón Þorláksson, Jón Magnússon, Ólafur Thors o.fl.o.fl.

 

Í seinni tíð hafa konur, í samræmi við breyttan tíðaranda, sótt mjög fram til áhrifa í pólitík. Þær hafa margar komist þar til hárra metorða en úthald þeirra í baráttunni virðist stórum minna en karlanna !

 

Þeir héldu áfram fram í heilsuleysi og dauða, en þær virðast flestar vilja draga sig fljótlega út úr slagnum og víkja að einhverju friðvænlegra starfi – en líklega þó á góðu kaupi !

 

Margar hafa þær orðið ráðherrar og fengið talsverð völd um tíma, en svo er eins og þær koðni niður, missi áhugann á málabaráttunni og hverfi af sviðinu, kannski sárar, móðar og mæddar, og það eftir aðeins nokkurra ára vopnaviðskipti á hinum pólitíska vígvelli ! Og maður spyr sig óneitanlega, hvað veldur þessu meinta úthaldsleysi ?

 

Í þessum hópi sýnast mér vera Álfheiður Ingadóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Björt Ólafsdóttir, Eygló Harðardóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Jónína Bjartmarz,, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Sigríður Á. Andersen, Siv Friðleifsdóttir, Sólveig Pétursdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir ( reyndar komin aftur eftir hvíld ). Og reyndar mætti nefna nokkrar fleiri !

 

Af hverju er þetta svona ? Af hverju eru ekki einhverjar ,,Grand Old Ladies“ í pólitíkinni, reynslumiklar valkyrjur eftir áratuga glímu á hinu pólitíska sviði ? Er kannski einhver sálarleg skýring á þessu skammtímaskeiði kvenna í pólitískri forustu ? Hvað veldur ? Eru þær bara búnar á því eftir nokkur ár ?

 

Drífa Snædal hefur nú, sem kunnugt er, gefist upp við að leiða ASÍ eftir stutta formennsku þar, og nú er Kristrún Frostadóttir að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni. Það verður vafalaust logandi fróðlegt að sjá hvernig henni gengur að stjórna þar á bæ í allri jafnaðarmennskunni ?

 

 

 

 


Að þola og þola ekki – það er spurningin ?

 

 

Það fór sem mig grunaði, að Drífa Snædal myndi ekki valda því verki sem hún tók að sér og margir virtust halda að hún myndi gera. Afsögn hennar frá embætti forseta ASÍ staðfestir, að úthald hennar gagnvart þeim kröfum sem umrætt embætti gerir, reyndist ekki sem skyldi. Hún tók eiginlega aldrei alveg við embættinu, eins og ég hef áður sagt í pistlum varðandi þessi mál. Reynsluprófið verður fólki oft að fótakefli !

 

Þessar lyktir á afar skammvinnum forsetaferli Drífu Snædal innan ASÍ geta varla talist neinn sigurkrans á auknum valdasóknarvegi kvenna þar sem öll svonefnd karlavígi eiga að falla. Geta hennar til að sitja á fullum forsendum í stól forseta ASÍ, virðist í öllu falli geta talist mjög umdeilanleg eftir þessi starfslok !

 

Enginn maður, sem fram að þessu hefur gegnt stöðu forseta ASÍ, hefur að minni hyggju, talið sig setjast á einhvern friðarstól með því að takast á hendur umrætt embætti. Það segir sig sjálft. Það er tekist á um hin ýmsu mál og menn skipast í fylkingar með ýmsum hætti eftir því sem forsendur krefjast. Þannig hefur það alltaf verið !

 

Forseti ASÍ er í upphafi vafalaust kjörinn af meirihluta, sem talið hefur kjör hans æskilegt af ýmsum ástæðum, en svo getur fjarað undan mönnum og það jafnvel hratt, einkum ef þeir þykja ekki standa sig nógu vel !

 

Blokkamyndun eins og Drífa Snædal talar um með fyrirlitningu, hefur alla tíð verið til staðar í fjöldahreyfingum. Menn skipast þar í fylkingar sem takast á um markmið og leiðir. Þar er ekkert nýtt á ferðinni. Allir reyna að styrkja sína stöðu og efla málstað sinn. Í frjálsum félagasamtökum hlýtur frelsi manna til skoðana og samstöðu að vera þeirra réttur !

 

Ef Drífa Snædal hefur talið að hún væri sest á friðstól himinhæða í ASÍ þá hefur hún algerlega misskilið stöðu sína þar. Og ég held reyndar að hún hafi misskilið þar nokkuð margt. Kannski skildi hún ekki eðli baráttunnar og hin dýpri rök fyrir því að ASÍ þarf að vera til og standa undir nafni ?

 

Ef til vill átti Drífa Snædal ekkert erindi í þetta embætti ? Það virðist nú sem þeir einir sjái eftir henni úr forsetastóli þar sem helst myndu kjósa að launþegahreyfingin yrði ,,verulega hófsöm“ í kröfum við næstu samningagerð !

 

Það segir kannski sína sögu um ,,aðra blokk“ sem alltaf vill leika sér við litla fingur andskotans í kjaramálum alþýðunnar ?

 

En umsagnir falskra aðila af slíku tagi, eru auðvitað einskisverður áróður, frekast líklega  til notkunar í fjölmiðlum, og hann byggist vafalaust á öðru en velvilja til verkalýðshreyfingarinnar !

 

En umsagnir af þessu tagi virðast samt sem áður benda til þess - að slíkir menn hafi enganveginn litið á Drífu Snædal sem sterkan leiðtoga ASÍ og vilji kannski helst hafa slakan leiðtoga þar á bæ ?

 

Sumir vilja meina að Jón Baldvinsson hafi verið besti forseti ASÍ og síðan hafi þeim hrakað að atgervi, jafnt og þétt. Erfitt er um slíkt að dæma, ekki síst vegna breytileika aðstæðna og tíma og fleira kemur þar líka til !

 

En nú liggur fyrir að Drífa Snædal sem kosin var til embættis forseta ASÍ á fljúgandi væntingafaldi 2018, er hætt störfum, hefur sagt af sér, er búin að fá nóg. Hún virðist því ekki hafa skilið þær karphússkröfur sem embættinu hafa alltaf fylgt og er sár og leið og kennir auðvitað öðrum um !

 

Vonandi fæst einhver drífandi manneskja í starfið, sem veit um þær byrðar sem því fylgja, og er fús til að axla þær fyrir hag heildarinnar. Það virðist nefnilega orðið býsna langt síðan slíkur leiðtogi var til sem merkismaður ASÍ !


Leikið á svartar nótur um örlög Evrópu !

 

 

Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig staða mála væri í Evrópu ef Rússar væru bara ekki til ? Hefði þá ekki fyrir allnokkru síðan skapast fullkomið samkeppnisástand milli hins vesturevrópska Efnahagsbandalags og Bandaríkjanna ? Baráttan um peningalegan ávinning hefur löngum verið ráðandi afl afstöðumála í kapítalískum heimi !

 

Límið í samskiptum Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna hefur um langt skeið byggst á tilvist Rússa vegna sameiginlegrar andstöðu þessara aðila við þá, einkum og ekki síst á heimsveldistíma Sovétríkjanna. En hvernig væri sú samstaða ef Rússar væru ekki til staðar til að viðhalda henni ?

 

Bandaríkin og vesturevrópska efnahagsblokkin eru á margan hátt markaðslegir keppinautar og enginn er annars bróðir í leik og síst í kapitalísku gróðahyggjuferli. Í Rússalausum veruleika væri þá sennilega til annarskonar varnarkerfi Bandaríkjanna, líklega byggt á sérútfærslu á Monroe-kenningunni, kannski North American Treaty Organization – Nató – í allt annarri merkingu en nú er !

 

Samstaða ríkja byggist oft á furðulegum snúningi mála eins og sannaðist best í Síðari heimsstyrjöldinni. Fyrirfram úthugsaðar stríðsáætlanir snerust þá illilega í höndum auðvaldsherranna, út af sérstökum sólóleik eins manns, og þannig skapaðist bandalag þjóða sem átti ekki og mátti ekki verða til og enginn átti von á að gæti orðið til !

 

Á grundvelli þeirrar málaskekkju hvílir heimsástand okkar samtíma enn að miklu leyti. En það er verið að reyna með ýmsum hætti að leiðrétta þá meinlegu útafkeyrslu réttrar framvindu sem átti sér stað 1940, og halda svo áfram eins og átti að gera þá. Við erum að sjá það raungerast þó hægt fari !

 

Nýlendutíminn fór afar illa með Vestur-Evrópuríkin, ekki síst í siðferðilegum skilningi. Á þeim tíma lærðu þau að lifa á því að vera blóðsugur og arðræna aðra. Bretland, Frakkland, Belgía, Holland, Spánn og Portúgal fetuðu öll þar sína glæpaslóð. Ítalía og Danmörk líka !

 

Sennilega á Þýskaland einna skásta sögu ríkja Vestur-Evrópu hvað fyrri tíma nýlendukúgun snertir, en það var bara vegna þess hvað þau komu seint til leiks. Sameining Þýskalands tafði þar mjög fyrir málum !

 

Fyrri heimsstyrjöldin braust út að talsverðu leyti vegna þess að Þjóðverjar voru svo afskiptir hvað varðaði nýlendur. Sameinað Þýskaland vildi nefnilega fá að verða blóðsuga líka, vildi ,,New Deal“ í þeim málum !

 

Afríkuríkin eru nú sögð frjáls, en það er víðast bara að nafninu til, því flest eru þau í fjármálaklóm gömlu nýlenduríkjanna með einum eða öðrum hætti. Og nú er sameinað Þýskaland sannarlega með í leiknum á heimsvísu ef hægt er að fá sér bita og ætlar sér hvergi rýran hlut. Fortíðin virðist vera hætt að hamla Þjóðverjum hernaðarlega séð og fer styrkur þeirra á því sviði mjög vaxandi rétt eina ferðina !

 

Meðan ýmsar viðsjár aukast þannig í Evrópu og gamla valda-reiptogið magnast og herðist, fylgjast mörg önnur ríki vel með ástandi mála – ekki síst Kína og það er mikil spurning hvernig Kínverjar koma til með að halda á sínum málum við komandi aðstæður ? Líkur á því að Rússland auki orkusölu sína til Asíuríkja á kostnað viðskipta við Vestur-Evrópu hafa líka aukist verulega og þarf varla nokkur að furða sig á því !

 

Vandamál Evrópu eru margþætt og ekki síst tvíþætt. Flest Vestur-Evrópuríkin eru enn blóðsugur í pólitískum veruleika og hafa ekki lært að lifa án slíkrar blóðgjafar. Rússar eru enn til og passa ekki inn í neitt módel æskilegrar framvindu mála frekar en fyrri daginn. Sama gamla togstreytan um yfirráð og nýlendur er enn í gangi – bara með breyttu sniði !

 

Sumir virðast svo halda í fjölmiðlablekktum samtíma, að það verði miklu fjörugra og meira spennandi á hinu pólitíska sviði í Evrópu ef við fengjum bara fleiri sjónvarpshetjur í leikinn sem forseta og þjóðarleiðtoga !!!

 

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 1183
  • Frá upphafi: 316782

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 887
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband