Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

,,Glannar, fantar og fífl !”

 

 

Það mun hafa verið árið 1920 sem heiðursmaðurinn Sigurður Jónsson, bóndi á Brimnesi í Seyðisfirði eystra, sagði við Guðmund Hagalín þáverandi ritstjóra, til skýringar á þjóðmálalegri afstöðu sinni : ,, Ég legg mest upp úr því, að þeir fái að njóta sín, sem vilja og gera sitt besta, og að litið sé eftir glönnunum og föntunum, - á fíflunum á að vera hægt að vara sig !” Þannig hljóðuðu orð manns sem alltaf kunni fótum sínum forráð á lífsins för!

 

Nú er senn öld síðan þetta var mælt og hvað hefur breyst í þessu tilliti ? Þeir sem vilja og gera sitt besta hafa ekki fengið að njóta sín til þessa dags, nema að litlu leyti. Ekki hefur mikið verið litið eftir glönnunum og föntunum og er hrunið gleggsta sönnunin fyrir því. Og þó það ætti að vera hægt, hefur þjóðin ekki enn lært að vara sig á fíflunum eins og menn ættu að geta séð, ef þeir augnfara stjórnkerfið. Það má því með sanni segja, að seingengin sé þroskagatan hjá mörgum í þessu jarðlífi !

 

Þegar þjóðræknir Íslendingar hötuðust við dönsk stjórnvöld um aldamótin 1900 og börðust af fullum krafti fyrir sjálfstæði Íslands, hafa þeir áreiðanlega haft aðrar og hærri hugmyndir um það hvernig íslenskt stjórnvald kæmi til með að verða en þær útgáfur hafa sýnt sem veruleikinn hefur kynnt til þessa. Skyldi ekki danska ráðuneytis möppudýrið og það íslenska vera hvort öðru býsna líkt ?

 

Hefur ekki íslenska sjálfstæðið verið þynnt út í það þynnsta af okkar eigin stjórnvöldum og snobbið og hégóminn upphafið sig hér á sama hátt og í Danmörku ?

Ganga ekki íslenskir kerfis-tauhálsar jafnt sperrtir um í snobbveislum hérlendis með orðurnar sínar eins og danska ráðuneytishyskið gerði fyrr á tíð og gerir enn ?

 

Hvar er þessi rammíslenski og þjóðlegi andi sem talað var um í sjálfstæðisbaráttunni forðum ? Af hverju hafa forustumenn þjóðfrelsis okkar á þeim tíma fallið svo út í allri síðari tíma umræðu að það er varla á þá minnst lengur ? Hver man nú Bjarna frá Vogi, Benedikt Sveinsson, Ara Arnalds og aðra landvarnarforingja ? Af hverju eru ýmsir aðrir - og það öllu síðri menn, oftar nefndir í nútíma umræðu en þessir viðurkenndu og þjóðræknu verðleikamenn sinnar tíðar ? Skyldi rétta svarið við því ekki blasa við ?

 

Jafnvel menn sem fyrrnefndur bóndi í Brimnesi hefði vafalítið talið til glanna og fanta rísa hátt á bylgjufaldi nútíðar sem áhrifamenn og þeir sem hann hefði líklega talið til fífla, hafa fengið að dansa á kostnað alþjóðar með margvíslegu og býsna óþjóðlegu framferði í dag. Er slíkt eitthvað sem menn vilja telja til framfara og eru einhverjar þjóðþrifnaðarlegar áherslur finnanlegar í slíku ? Ekki sýnist mér það. Halda virkilega einhverjir í alvöru að þar sé verið að ganga einhverja götu til góðs ?

 

Yfirgengileg sérgæskan sem ræður allri umræðu nú um stundir og finnur sig í upptrekktum hroka á einhverjum toppi tilverunnar, mun finna sig dauða fyrr en varir. Það fólk sem hreykir sér þar hæst nú um stundarsakir úreldist fljótt og dettur út og nýtt menningarslepjulið tyllir sér þar í staðinn, fullt af sambærilegum tilvistarhroka, en þó ekki heldur til langs tíma. Engin nútíð er til lengdar og jafnvel glannar, fantar og fífl syngja sitt síðasta og hverfa af sviðinu !

 

Af hverju getum við ekki lært að meta raunverulegt manngildi á eðlilegum forsendum og þar með losað okkur við þennan yfirborðsgljáa sem settur er á allt nú til dags ? Hvað myndi Sigurður bóndi í Brimnesi segja ef hann fengi að líta yfir sviðið í dag ?

Vegna hvers þarf alltaf að reka þetta litla samfélag okkar í undirgefnu og skríðandi kompaníi við glanna, fanta og fífl og það í yfirgnæfandi mæli ?

 

 


Á helgráu svæði !

 

Nú þykir mörgum landanum það hið mesta óvirðingarmál að Ísland hafi verið sett í flokk með tilteknum þjóðum vegna skorts á skýru skipulagi í fjármálakerfinu, það er að segja, vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þannig virðast erlendir aðilar túlka stöðu okkar og hægt er að hrökkva upp við minni fréttir en það !

 

Hin alþjóðlegu samtök Financial Action Task Force ( FATF) hafa nú talið rétt að skipa okkur í þennan lítt virðingarverða flokk, enda áttum við víst þannig - að því er sagt er - að mati ,,bestu þjóðarvina okkar” Bretlands og Bandaríkjanna, að verða öðrum víti til varnaðar !

 

,,Það verða gífurleg vonbrigði ef þetta gerist” sagði forsætisráðherra í viðtali í Rúv fyrir skömmu. En af hverju unnu þá stjórnvöld ekki heimavinnuna sína í tíma og fullnægðu þeim skilyrðum sem sett voru ?

Uppfylling á 28 tilmælum er ekki nóg þegar enn vantar að fullnægja 12 !

 

Samkvæmt því sem lesa má af dómi FATF vantar að uppfylla atriði varðandi fullnægjandi lagaumhverfi, virkni eftirlits og framfylgd þess. Þau atriði virðast enn vera í nokkuð brotinni stöðu hérlendis. Hvöss brýning um lagfæringar hefur víða verið í gangi síðan hrunið varð, en innan kerfisins virðist enn í dag vera lítið hlustað á slíkar gagnrýnisraddir !

 

Eftir hrunið kom í ljós að býsna margir höfðu verið á háum launum hjá Ríkinu varðandi allskonar eftirlit með fjármálakerfinu, en það eftirlit reyndist hinsvegar ekki hafa verið sérlega virkt og framfylgd þess í einskonar skötulíki. Því fór sem fór. Og enn virðist ekki hafa verið ráðin bót á þeim alvarlegu vanköntum þrátt fyrir ýmsar kröfur þar um !

 

Það er íslenskum stjórnvöldum fullkomlega til skammar að láta erlenda aðila negla sig með þessum hætti. Að hafa hafnað í þessum falleinkunnar-flokki virðist nefnilega alfarið klúður hérlendra stjórnvalda. Þau hafa þannig stillt okkur upp við hlið Mongólíu, Zimbabve, Yemen, Sýrlands og Panama, ríkja sem við höfum nú ekki beint viljað miða okkur við fram að þessu. Svo þessi staða okkar er ömurlega dæmandi niðurstaða !

 

Við verðum að standa okkur betur í alþjóðlegum skuldbindingum og hætta að láta eins og okkur sé það á sjálfsvald sett hvað við gerum hverju sinni.

Ef við skrifum undir samninga verðum við að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Það þýðir ekki að hegða sér eins og Bjarni sé……….nei, fyrirgefið, að Palli sé einn í heiminum hvað það snertir !

 

En við þurfum líka að gæta okkur á því að skrifa ekki undir neitt það sem verður okkur til óheilla í samskiptum við aðrar þjóðir og neglir okkur á einhvern klafann, en það hefur líka átt sér stað í sögu okkar og valdið okkur stundum ómælanlegum skaða með margvíslegum hætti !

 

Að vera á verði fyrir hagsmunum heillar þjóðar er ekki öllum gefið og við Íslendingar þekkjum það vel hvað oft hefur vantað á varðstöðuna í þeim efnum. Hvenær skyldu annars ráðamenn landsins verða færir um að læra af reynslunni ?

 

 

 

 


Svartliðabragur

 

 

 

Hér ég vil af huga og sál

hefja ræðu um þjóðar mál.

Yrkja af krafti kræfan brag,

kannski að verði á því lag !

 

Oft er rót í Reykjavík,

rausað margt í pólitík.

Gleiðir standa glámar þar,

gleypa margar dúsurnar.

 

Höfuðborgin heimtar allt,

hennar líf er sálarkalt.

Efnishyggju hítin þar

hirðir þjóðartekjurnar.

 

Steingervingar steins í höll

standa þrátt við Austurvöll,

ófærir um alla dáð,

eiga hvergi til nein ráð.

 

Rotin mál hjá ríki og borg

rekkum valda hugarsorg.

Víða spilling þungbær þrífst,

þar við fátt er löngum hlífst.

 

Fjármagns sjúkir fólar þar

fara á svig við reglurnar.

Siðleysingjar sækja um völl,

sálarlaus er hirðin öll.

 

Lands og þjóðar þroska svið

því fær síst af öllu frið.

Þar er allt á þrauta leið,

þráfalt tíðkuð spjótin breið.

 

Niður höggvið allt þar er,

enginn neitt til vega sér.

Sérhver hugsjón svelt í hel

sem þar gæti dugað vel.

 

Hrægammar á hægri slóð

hugsa síst um land og þjóð.

Brugga launráð bak við tjöld,

bera aldrei hreinan skjöld.

 

Sérgæskunnar svartliðar

sýna skítlegt hugarfar.

Vilja í græðgi og gróðaþrá

ganga öllum dyggðum frá.

 

Burgeisar í breiðri sveit

bjóða gullin fyrirheit.

Kaupa fylgi klækjum með,

kunna að taka í sálum veð.

 

Svikulir í innstu æð

enn þeir nota vopnin skæð.

Sækja í það að sjúga blóð,

sérstaklega úr eigin þjóð.

 

Böðulshugsun þeirra er þekkt,

þar sem öllu góðu er hnekkt,

bundin einu um ævidag,

að ýta málum sér í hag.

 

Þar sem rótin ills er ein

ávaxtar hún stöðug mein.

Hver sem þjónar hennar hít

hefur gildi einskisnýt.

 

Auðgunar við ærna fíkn

ekki er neinu boðin líkn.

Mammonsgræðgin mikla þar

merkir allt til glötunar.

 

Því við lífsins brunnið blys

beina leið til helvítis

fari að réttum sakar sið

sérgæskunnar glæpalið !

 

 

 

 

 

 


Ríkisvald á flótta ?

 

Til að hægt sé að halda uppi virðingu fyrir lögum og rétti, verða stjórnvöld að standa fast í fætur og sýna getu sína til þess. Þau forsendurök eru og eiga að vera gildisbær í öllum þjóðlöndum heims !

 

En í sumum löndum virðist sem hugtök laga og réttar séu komin í hinar mestu ógöngur og kannski einna helst í hugum þeirra sem eiga að líta á það sem skyldu sína að verja þau. Það er óheillavænleg framvinda mála !

 

Nú hefur glæpalýðurinn í Mexíkó knúið ríkisstjórn landsins til að láta lausan einn helsta glæpaforingjann þarlendis og þar með hrósað sigri í átökum sem blossuðu upp við handtöku hans !

 

Hvað verður um virðingu ríkisstjórnar sem gefst upp fyrir þeim öflum í landinu sem virða hvorki lög né rétt ? Hver verður eftirleikurinn þegar slík uppgjöf hefur átt sér stað ? Liggur ekki fyrir að gengið verður á lagið ?

 

Hvers er ríkisstjórnin í Mexíkó megnug, hvers er lögreglan þar megnug og hvers er her landsins megnugur ? Er þetta allt orðið svo grafið í spillingu að ekki sé hægt að treysta þar á neitt ?

 

Eru bandarísk stjórnvöld kannski fyrst og fremst að reyna að vegg-verja sig gegn ástandinu eins og það virðist vera orðið í Mexíkó ? Er Mexíkó kannski að komast alfarið undir forræði glæpahópa ?

 

Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar samfélags-valdið virðist komið í hendurnar á óæskilegasta hluta þjóðarinnar – þeim hluta sem hefur lifibrauð sitt af glæpum. Morðöldur í Mexíkó hafa risið hátt um langt skeið og þar virðist ýmislegt í gangi sem gengur þvert á það sem vera ætti !

 

Uppreisnarandi er fyrirferðarmikill í samtímanum og til er að framferði lögreglu og glæpahópa sé nánast sambærilegt. Þegar yfirvöld hegða sér, eins og raunin virðist vera sums staðar, verður öryggi almennings lítið !

 

Það er áhyggjuefni á heimsvísu þegar óhæfir menn eru kosnir til valda í gegnum lýðskrum og óheilindi og fara að ráðskast með heilu þjóðlöndin á ólíðandi hátt eins og fjölgandi dæmi sýna. Margir litlir Hitlerar geta orðið til þess að skapa einn stóran !

 

Í slíkum tilfellum sést til dæmis máttleysi Sameinuðu þjóðanna. Þar er ekkert afl til staðar þegar taka þarf á málum. Öðruvísi átti það nú að vera í upphafi, en sú von er löngu brostin og lögleysið veður uppi !

 

 


Um skurðgoð allra tíma !

 

 

Frá Tróju komu Æsir upphaflega

og urðu guðir víða um Norðurlönd.

Menn gengu þar um slóðir villuvega

og voru eins og lagðir þar í bönd.

 

Því goðsagnir þar gripu hugi opna

og gátu síðan ráðið yfir þeim.

Menn tengdu allt við stríð og veröld vopna

og vildu deyja inn í guðaheim.

 

Þeir hetjuveröld sína reyndu að róma

og rækta loga á goðsagnanna kveik.

Og sögðu að Valhöll biði í björtum ljóma,

er blóðugir þeir kæmu úr hildarleik !

 

Þar manndráp áttu manndómsgildi að sanna

en mildi sögð var aumingjum í hag.

Menn hugsuðu því stíft til illra anna

og ennþá gera margir það í dag !

 

Þó breyttist margt er kristnin kuklið hrakti

og kynnti í fyrstu miklu betra svið.

En spilling jókst og allt það endurvakti

sem ól að nýju svikult valdalið.

 

Svo skurðgoðum er þjónað eins og áður,

sú auma staða þekkist víða um lönd.

En ævivegur illum verkum stráður

mun aldrei skila góðu í nokkra hönd.

 

Um heiminn allan blóð úr benjum rennur

og böðlar setja á dauðalista nöfn.

Sú heift sem víða í hjörtum manna brennur

er hnattræn vá og kjarnorkunni jöfn !

 

Og enn er Valhöll heiðið hugarvígi

sem hyllir líkt og forðum auð og völd.

Og þar er allt sem áður byggt á lygi

og ekkert nema falsið bak við tjöld.

 

Þar koma þeir sem kjósa að dýrka valdið

og krjúpa í auðmýkt fyrir böðlum þeim

sem húka þar á bak við bláa tjaldið

og boða allt sem skaðar þennan heim !

 


,,Ég ætla bara að láta brenna mig !”

 

 

Oft hef ég heyrt fólk ræða um það hvernig það vill að útför þess fari fram að loknu jarðlífinu. Og þá kemur mjög oft í ljós, að fólk á erfitt með að hugsa sig andlega lifandi. Það virðist vilja hanga fast við líkamann út yfir gröf og dauða. ,, Ég læt ekki grafa mig,” segja sumir, ,, ég get ekki hugsað mér að fara ofan í jörðina !”

 

Fjöldi fólks virðist alfarið ætla að vera í líkamanum eftir að hann er dauður. Menn virðast hvorki geta hugsað um sig sem sál eða anda !

 

Í nánast altækri efnishyggjuveröld okkar tíma virðist stefnan sú að útrýma hinu kristna fyrirheiti sem hljóðar þannig: ,,Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa !” Og Ritningin segir ennfremur, ,,þegar maðurinn deyr fer andinn til Guðs sem gaf hann !”

 

Fyrirkomulagið er skýrt. Líkaminn deyr, en andi mannsins og sál bíða upprisunnar, sem er þriðji hluti fyrirheitsins og þar með endurnýjun lífsins. Hljóðar það ekki upp á ásættanlega niðurstöðu ? Hvert er þá vandamálið ?

 

Vandamálið er, að fólk vill ekki hlíta þessu. Það vill ekki verða að jörðu þó að það sé komið af jörðu. Það vill miklu heldur láta brenna sig eins og það orðar það. Sama fólkinu og hryllir við því að verða grafið, finnst allt í lagi að það sé brennt. Það er einkennilegur tvískinnungur í þeirri afstöðu. Undir hvaða fyrirheiti er fólk brennt ? Er eitthvað fyrirheit þar að baki ?

 

Í vissri tegund af heiðni sem nú er víða hyllt, er mikið lagt upp úr því að líta á jörðina sem móður. Margt í þeim kenningum virðist upprunalega komið frá indíánum, en samt virðast margir sem tala fyrir slíku viðhorfi, ekki sérlega hrifnir af því að samlagast jörðinni, ekki einu sinni að þeim hluta sem eftir verður hér þegar lífið skilur við hann !

 

Það sem lifir þegar maðurinn deyr jarðneskum dauða er sannarlega ekki líkaminn. Hann er einungis húsið sem sálin býr í meðan jarðneska tilveran varir. Hann er aðeins hylki, umbúðir, og enganveginn hinn óforgengilegi hluti þeirrar sköpunar sem við erum. Við ættum öll að vita fullkomlega um endanleg afdrif líkamans, en samt virðist allt annað í gangi varðandi hann !

 

Líkamsdýrkun nútímans er nefnilega orðin með ólíkindum og það fólk sem allt er í efninu talar yfirleitt eins og það sé ekkert nema líkami. Það ræktar líkamann af blossandi ástríðu alla daga og virðist hirða öllu minna um sálina og nánast ekkert um andann. Svo þegar það deyr er það bara dauður líkami, ekki til að verða að jörðu, heldur ösku. Til hvers var þá öll súper-ræktunin ?

 

Biblían talar um að maðurinn skuli fara vel með líkama sinn og ástunda heilsusamlega lifnaðarhætti. Og skýringin er sögð sú, að meðan maðurinn lifir sé líkaminn musteri Heilags Anda sem í mönnum er fyrir atbeina Guðs. Síðan er sagt : ,,Vegsamið því Guð með líkama yðar !”

 

Menn reyna eftir efnum og ástæðum að fara vel með hús sín, ekki vegna þess að húsið sé lifandi í sjálfu sér, heldur vegna þess að það geymir lífið sem stendur mönnum næst – fjölskyldulífið !

 

Það þarf að varðveita heimilið í sem bestu ásigkomulagi vegna þess hlutverks sem það hefur, að innifela og tryggja fjölskyldunni skjól og varnir meðan á jarðlífinu stendur. Eins er það með líkamann. Hann þarf að vera það skjól sem honum er ætlað að vera þann tíma sem þörfin krefur !

 

Gömlu Grikkirnir sögðu ,,Mens Sana in Corpore Sano,” heilbrigð sál í hraustum líkama. Andleg og líkamleg heilbrigði þarf að eiga samleið, þá er manneskjan heil. Ofuráhersla á líkamlega atgervisstöðu kemur yfirleitt, með einum eða öðrum hætti, niður á andlega lífinu sem líkaminn geymir !

 

Þegar jarðlífið er að baki, er það eðlilegasta af öllu eðlilegu að líkaminn fari aftur til jarðarinnar. Jarðneskar leifar eiga að vera jarðneskar leifar.

Þegar lífið er farið úr líkamanum og tenging sálar og anda við líkamann þar með rofin, hefur líkaminn lokið sínu hlutverki !

 

Það er ekkert ,,ég” sem tengist því að vera grafinn eða brenndur. Lífið sem var í líkamanum er farið annað. Og þar sem það líf er, þar er það líka sem menn vilja nota hugtakið ,,ég” um. Og líf okkar er þar varðveitt af Guði !

 

Við erum þannig enganveginn tengd því sem dautt er, heldur fullum forsendum áframhaldandi lífs. Við eigum sem sagt - þegar þar að kemur, hlutdeild í því eilífa lífi sem Guð einn gefur !


,,Ó, þessar leiðinda launagreiðslur !”

 

Í eina tíð var litið svo á að menn sem stæðu fyrir atvinnurekstri væru vinnuveitendur. Og í nokkrum tilfellum í gamla daga var jafnvel talið að sumir þáverandi aðilar sem höfðu atvinnurekstur með höndum, væru fyrst og fremst vinnuveitendur !

 

Þá er líklega verið að vísa til manna eins og Haraldar Böðvarssonar, Einars Guðfinnssonar og slíkra, sem höfðu það líklega í og með sem ákveðna lífshugsjón að byggja upp heimabæi sína og skapa kröftugt atvinnulíf og blómlegt mannlíf !

 

Og seint verður framlag slíkra öndvegismanna metið til fulls, en samt er það svo að þegar litið er til heildarmyndar, hafa slíkir menn ekki verið margir. Flestir sem stóðu í rekstri voru miklu frekar og öllu heldur atvinnurekendur en vinnuveitendur !

 

Það er að segja, hugarfarið var með þeim hætti. Þeir voru fyrst og fremst að þjóna auðgunarhvöt sinni sem leiddi þá suma hverja nokkuð langt eins og dæmin sönnuðu. Það varð til þess að arðránið varð svo mikið að það kallaði á andspyrnu og margháttuð átök. En hér er ekki hugsað til þess að rekja þá sögu, enda hefur það víða verið gert !

 

Hinsvegar mætti hugleiða nokkuð þá manngerð sem virðist helst vilja stunda rekstur í dag. Þar er sýnilega að langmestu leyti um atvinnurekendur að ræða sem margir hverjir virðast vera býsna hallir undir afgerandi frjálshyggjusjónarmið !

 

Það virðist engin sérstök hugsun beinast að því að skapa atvinnu, þaðan af síður vera til staðar einhver samfélagsleg uppbyggingarsjónarmið. Nei, eina hugsunin og eini drifkrafturinn virðist vera löngunin til að auðgast með einhverjum hætti !

 

Fyrir hrun margfaldaðist í þeim dúr sú árátta í mörgum, við galopin kerfisskilyrði, að stunda ítrustu áhættusækni til að hámarka hugsanlegan ávinning. Fjármálakerfið allt virtist ganga fyrir ótakmarkaðri græðgi og eftir því sem menn voru gírugri virtust þeir fá meiri fyrirgreiðslu !

 

Afleiðingar urðu þær að þjóðfélagið fór á hliðina og slík efnahagsafbrot áttu sér stað að aldrei verður unnt að gera þá hluti upp til neinnar viðhlítandi leiðréttingar. Viljinn til þess af hálfu kerfisins hefur líka oftast verið talinn í blekkingarfullu skötulíki og mikil tilhneiging til að gleyma öllu saman. En mörg eru samt sárin sem blæða enn frá þessum ræningjatíma og munu lengi blæða !

 

Ein afleiðingin frá umræddum tíma er - að fyrirhrunsárin virðast hafa byggt upp hérlendis einskonar oligarka-klíku sem náði ómótmælanlega að auðgast ótæpilega með ýmsum hætti við hinar óeðlilegu aðstæður og situr enn að mestu ótrufluð að sínum fúlgum !

 

Frá þeim sjálfhverfa hópi heyrast stundum umsagnir í fjölmiðlum sem upplýsa nokkuð vel hvernig þar er hugsað. Sérstaklega er athyglisvert þegar slíkir aðilar tala um að það væri ekkert mál að reka fyrirtæki ef launin væru ekki svona há. Það væru launin sem væru allt að drepa !

 

Á slíkum yfirlýsingum sést gjörla að viðkomandi aðilar eru ekki miklir vinnuveitendur. Þeir myndu hinsvegar áreiðanlega treysta sér í hvaða rekstur sem væri ef þeir gætu alfarið ráðið launakjörunum !

 

Best væri líklega að þeirra mati að vera með þræla, en auðvitað má ekki nefna neitt slíkt. En í raun og veru virðist það vera draumastaðan, að losna við allt sem heitir verkalýðs-varnarþing og atvinnubundin mannréttindi. Þá væri nú hægt að dansa um víðan völl og skammta eftir rekstraraðstæðum !

 

Jafnvel rekstraraðilar sem hafa ekki kunnað fótum sínum forráð, hafa farið offari í græðgi eða bara skort alla hæfni til að stunda rekstur með vitsmunalegum hætti, eiga það til að kenna of háum launakostnaði um þegar allt er strandað. Það er þó býsna hláleg afsökun !

 

Launaliðir eru oftast mjög fyrirsjáanlegir og ættu að geta verið nokkuð skýrir á borðinu þegar mörkuð er stefna til komandi tíðar. En þegar ráðist er í allskonar útrás í ótaminni græðgishugsun, án þess að hirða um fastan fyrirliggjandi rekstrarkostnað, er oftast lítil sem engin fyrirhyggja höfð að leiðarljósi. Þá er bara einblínt á væntanlegan óskagróða !

 

Og þegar ferlið springur í höndunum á forstjóranum, er því um að kenna að hans sögn, að starfsfólkið hafi verið á allt of háum launum. Það var of gráðugt – ekki hann !

 

Það er skrítið þegar afdankaðir gjaldþrotafurstar, menn sem hafa flogið allt of hátt, koma fram í fjölmiðlum og halda svona hlutum fram beinlínis eða undir rós. Einkum er það skrítið að fjölmiðlamenn skuli ekki reka svona fleipur ofan í þá og sýna þeim fram á að slíkur málflutningur haldi ekki vatni. Nei, það er ekki verið að andmæla svona staðhæfingum !

 

Virðingin fyrir oligörkum og illa fengnum auði þeirra virðist vera slík að ekki megi anda á þá og því komast þeir upp með að halda fram ýmsum fjarstæðum sem hafa enga tengingu við eðlilega glóru !

 

Þar fylgja með fullyrðingar um að allt of mikill launakostnaður hafi fyrst og fremst staðið allri viðskiptasnilld þeirra fyrir þrifum !

 

Sú viðskiptasnilld getur nú verið gæsalappagreind í flestu, enda er það svo að samfélagsgildi slíkra ofursérgæðinga er svo lítið að það mælist ekki !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 440
  • Sl. viku: 1462
  • Frá upphafi: 315443

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 1179
  • Gestir í dag: 53
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband