Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Til heljar eða heim aftur ?

 

 

Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn gengur til komandi kosninga í mestu nauðvörn sem hann hefur komist í á öllum ferli sínum. Það er ekkert mál til sem hann getur notað sér til framdráttar nema ef vera skyldi andstaðan við Evrópusambandsaðild, sem er þó alls ekki á hreinu innan flokksins frekar en annað. En Sjálfstæðismenn sjá ekki neitt sem þeir geta frekar gert út á en það mál og virðast ætla að standa fast á því. Ég tel það í sjálfu sér gott en veit þó vel að flestir sjálfstæðismenn eru andvígir aðild á grundvelli ýmissa sérhagsmuna, eins og t.d. LÍÚ-klúbburinn er glöggt vitni um. Ég met þetta mál hinsvegar alfarið út frá því sjónarmiði, að almannahagsmunir liggi í því að við varðveitum sjálfstæði okkar og sjálfsákvörðunarrétt fyrir okkur og ókomnar kynslóðir.

Sjálfstæðisflokkurinn ber, eins og flestir vita og viðurkenna, öllum öðrum fremur ábyrgð á því að íslenska þjóðin er sokkin á kaf í kreppu og skuldafen og það er kannski ekki að öllu leyti tilviljun að flokkurinn var stofnaður kreppuárið mikla 1929. Og menn skulu hugleiða það og minnast þess, að efnahagslegt hrun þjóðarinnar vegna þeirrar ábyrgðarlausu stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir, hefur gert það að verkum að sjálfstæði okkar er mjög takmarkað sem stendur og raunverulega vegum við nú salt á barmi hengiflugs varðandi allan ákvörðunarrétt yfir okkar málum.

Þessvegna er það grátbroslegt að heyra sjálfstæðismenn eins og Hannes heillumhorfna, tala um hvað það sé nöturlegt að hafa norðmann í stöðu seðlabankastjóra, en það er bein afleiðing þess hvernig þeir sjálfir léku öllu í strand í okkar málum. Það er vegna fjárhættuspils þeirra og ábyrgðarleysis að við þurfum að leita út fyrir landsteinana að fólki sem hægt er að treysta og ætla má að sé hafið yfir þá spillingu sem hér hefur viðgengist. Norðmaðurinn í Seðlabankanum og Eva Joly væru ekki hér að störfum ef mál væru ekki svo illa komin sem raun ber vitni - af völdum Sjálfstæðisflokksins !

Og nú erum við að fá stöðugt skýrari mynd af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að takast á við vandann og gera upp við frjálshyggjuna ?

Við eigum að fá aftur yfir okkur Bjarna Benediktsson, Illuga Gunnarsson, Guðlaug Þór, Pétur Blöndal, Birgi Ármanns og Sigurð Kára.......... endurnýjaða menn eða hitt þó heldur, allt fordekraða frjálshyggjumenn !

Það liggur líka fyrir að Bjarni Benediktsson verður kjörinn formaður flokksins því það verða hreint ekki svo fáir sem telja nóg að hann heiti þessu nafni. Hann þarf ekki að hafa neitt annað til að bera í augum fjölmargra flokksmanna.

Og svo til að kóróna skömmina, er hætta á því að Tryggvi Þór Herbertsson komist auk fyrrnefndra manna inn á þing með sín frjálshyggjuplön. Sjálfstæðisflokksforustan hefur bersýnilega ekkert lært og sér ekki nokkurn skapaðan hlut að frjálshyggjunni og ætlar sýnilega að taka upp sama þráðinn að nýju ef hún fær brautargengi til þess. Það hefur verið kallað eftir siðbót innan þjóðfélagsins en umfram allt þarf siðbót innan Sjálfstæðisflokksins og hana mikla. Meðan flokkurinn sem slíkur neglir sig við frjálshyggjusjónarmiðin og neitar að iðrast framinna misgerða, getur svo farið að lokum að það verði enginn ærlegur maður eftir innan hans vébanda nema Árni Johnsen !

Það vantar líka sárlega skúringakonur í Sjálfstæðisflokkinn og það liggur ljóst fyrir að Þorgerður Katrín, Arnbjörg og Ásta Möller duga ekki í slík hlutverk.

Það þarf að skrúbba flokksmaskínuna, sópa skúmaskotin og syngja við raust :

" Út með allan skítinn svo einhver vilji lít´inn ! "

En þar sem traustið er týnt og langan tíma þarf til að vinna slíkt upp aftur, er það von mín, fyrir hönd þjóðar minnar, að sem fæstir vilji líta inn til Sjálfstæðisflokksins á kjördag.

Íslenska þjóðin í heild þarf að gera það upp við sig hvort hún vill halda áfram á veginum til heljar eða snúa heim aftur - til eðlilegra íslenskra þjóðfélagsgilda ?

Það ber nefnilega að hafa það í minni, að það verður fyrst og fremst kosið um tvennt í vor, ætlar fólk að skapa forsendur fyrir áframhaldandi samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, styðja að því stjórnarfyrirkomulagi sem vinna mun eftir hugsjónum félagshyggju og jafnaðar eða ætla menn virkilega að opna möguleika fyrir endurupptöku samstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar -  eða með öðrum orðum - ana út í  nýtt frjálshyggjufen sem mun trúlega endanlega gera út af við þessa þjóð  ?

Við kjósendur höfum valið um það í komandi kosningum hvor leiðin verður farin  ?

 

 


Bölvun Íslands

 

Kvótakerfið er réttnefnd bölvun Íslands á síðari tímum ! Það má leiða ljós rök að því að forsendurnar fyrir allri efnahagsmálavitleysunni í landinu undanfarin ár hafi að fullu átt rætur sínar í kvótakerfinu. Þá gátu útvaldir ríkisómagar farið að fjárfesta í öllum sköpuðum hlutum og fengið peninga til þess á færibandi frá ríkinu. Aðeins átta árum eftir síðustu landhelgisdeiluna, var þannig búið að stýra ávinningi þjóðarinnar af útfærslunni inn í spilltan sérhagsmunadilkinn !

Þeir stjórnmálamenn sem stóðu að þeim gjörningi munu alla tíð teljast meðal verstu óhappamanna Íslandssögunnar, því það sem þeir gerðu var himinhrópandi  misindisverk gagnvart alþjóðar hagsmunum. Bundið hafði verið í lög að sjávarauðlindin væri sameign þjóðarinnar, enda voru landhelgisstríðin háð með það fyrir augum, en allt var það svikið og einni verstu sérhagsmunaklíku landsins afhent þessi lífshlunnindi til viðvarandi arðráns og auðsöfnunar.

" Föðurland vort hálft er hafið " stendur í góðu kvæði og landhelgisgæslan hefur, eftir því sem ég best veit, þá hendingu sem sín einkunnarorð, en þessi helmingur föðurlandsins var svikinn úr höndum þjóðarinnar og kvótaaðallinn leiddur á legg í kjölfarið. Þá gerðist það að margir útgerðarmenn sem höfðu verið á hausnum áður, fóru að fjárfesta í flugfélögum og hverju sem þá lysti, því þeir voru komnir á fast ríkisframfæri og fengu hundruð milljóna sendar heim úr ríkiskassanum á hverju ári í formi veiðiheimilda.

Sú misnotkun leiddi til algerrar siðblindu meðal þess hóps sem naut góðs af svínaríinu. Og spillingin breiddist út frá kvótagreifunum og gróf um sig uns allt siðferði var horfið úr viðskiptum hérlendis og græðgin ein hafði völdin.

Sú græðgi fékk sína helstu rótfestu með tilkomu kvótakerfisins !

Við vitum hvað af því leiddi og hvernig óþverranum í fjármálaheiminum hefur verið sturtað reglulega niður til almennings undanfarna mánuði, síðan bankahrunið varð, meðan þjófarnir sitja í paradís vellystinganna og eru verndaðir í bak og fyrir af félögum sínum í frjálshyggjugenginu illræmda.

" Þeir brutu engin lög " hefur verið viðkvæði þeirra sem staðið hafa í vörn fyrir sérhagsmuna og forréttinda gaurana, en það er ekki minnst á það, að lögin voru í meira en áratug sveigð og beygð eftir óskum þeirra og þörfum.

Niðurstaðan er vantrú fólks á að það búi við eðlilegt lagaumhverfi. Réttarkerfið hefur stórlega sett ofan vegna meintrar hagsmunagæslu fyrir kvótakerfið og nú er svo komið að vaxandi hópur landsmanna telur íslenskt réttarkerfi orðið beinlínis hættulegt og andstætt almannahagsmunum. Það sé fyrst og fremst orðið að veiðistöð fyrir óprúttna lagarefi sem sérhæfi sig í að plokka fé af almenningi.

Þegar svo er komið málum, má segja að stoðir réttarríkisins beri lítið uppi lengur

og framhaldið geti aðeins versnað, nema til komi gagnger siðbreyting.

Ekkert gæti stutt betur að slíkri siðbreytingu en einmitt afnám mesta ranglætisins - kvótakerfisins !

Og það er sannarlega þjóðarþörf að leggja niður þetta margbölvaða kerfi, því það vita allir í dag, að það hefur hvorki bjargað atvinnugreininni eða fiskistofnunum, eins og áróðurinn fyrir því gekk út á. Nú ættu allir að sjá að kvótakerfið var eingöngu sett á til að koma auðlindinni undir útvalda sérgæðinga. Og þeir hafa sannarlega makað krókinn á kostnað alþjóðar.

Með því var liðin tíð óvirt, samtíðin svikin og framtíðin lögð í hlekki arðráns og spillingar. Þannig byrjaði græðgis-rúllettan að spinna sig upp í þann tryllta leik sem endaði með bankahruninu.

Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður til höfuðs því ranglæti sem býr í kvótakerfinu. Það var gott skref, en þegar forustumenn flokksins voru skensaðir með því að flokkurinn væri eins máls flokkur, gengu þeir í gildruna og fóru að dreifa kröftunum. Frjálslyndi flokkurinn átti eingöngu að halda sig við baráttuna gegn kvótakerfinu því það mál er svo stórt að það hefur sín áhrif á öll önnur mál í þjóðfélaginu. Kvótakerfið er átumein íslensks samfélags, æxlið sem sýkir þjóðarlíkamann allan.

Ef endurreisn Íslands á að vera gerleg, er stærsta og þýðingarmesta málið að afnema bölvun Íslands - kvótakerfið - sem fyrst.

Verði það ekki gert, verður allt annað sem gert verður fálm eitt og fánýti.

Þjóðin og byggðir landsins eiga sjávarauðlindina með öllum rétti !


Pólitísk endurnýjun - eða blekkingar ?

Það er mikið talað um endurnýjun í stjórnmálalífinu þessa dagana, þar sem ljóst er að stór hluti fólksins í landinu ber afar lítið traust til pólitíkusa, eftir að þeir urðu berir að því að sofa á þjóðarverðinum á nánast öllum vígstöðvum.

Framsókn skipti um einn mann í brúnni og átti að endurnýjast öll við það. Valgerður Sverrisdóttir hefur síðan ákveðið að fara vegna þess að hún taldi séð að tími hennar væri liðinn og henni sjálfri fyrir bestu að hætta. Hún var ekki látin fara - hún fer !

Sjálfstæðismenn tala líka mikið um endurnýjun þessa dagana en það er nokkuð merkilegt hvernig þeir virðast ætla að taka á þeim málum.

Í því sambandi ber að hafa það í huga að menn geta verið að hætta án þess að það sé verið að taka mið af einhverju endurnýjunarferli. Ef menn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum af heilsufarsástæðum er það allt annað en að hætta vegna endurnýjunarkröfu. Ef menn eru að hætta vegna þess að þeir hafa lent út í horni í eigin flokki með sinn málflutning er ekki verið að hætta vegna kröfu um endurnýjun. Allt þarf þetta að skoðast í ljósi staðreyndanna.

Árni Mathiesen ætlaði ekki að hætta og fór að athuga með bakland sitt í kjördæminu. Skemmst er frá því að segja að hann fann það ekki hvernig sem hann leitaði og ákvað að hætta. Það er eina ákvörðunin sem Árni Mathiesen hefur tekið sem ég hef talið fagnaðarefni. Það er engin eftirsjá að honum.

Einar K. Guðfinnsson hættir ekki og veitti þó ekki að því að endurnýja í hans tilfelli. Mér hefur aldrei fundist neinn mergur í honum eins og var áreiðanlega í þeim gamla sem hann er trúlega heitinn eftir.

Pétur Blöndal ætlar að halda áfram og væri þó sannarlega gott að hann kæmi ekki meir að málum. Mér finnst hann eiginlega vera búinn að gera nóg af sér.

Frjálshyggjugaurarnir Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson og Sigurður Kári Kristjánsson, ætla allir að halda áfram og teldi ég þó mikla blessun að því fyrir landsfólkið, ef hægt væri að losna við þá alla. Þeir voru allir stuðningsmenn þess hvernig haldið var á málum fyrir bankahrunið, harðir fylgjendur afskiptaleysisstefnunnar og vildu að útrásarvíkingar og bankagreifar fengju að fara sínu fram sem minnst áreittir, og trúðu því að hér væri verið að byggja upp fjármálaveldi á heimsmælikvarða.

Þessir snáðar mynduðu stuttbuxnadeild Davíðsklíkunnar og eru því réttnefndir Dabbalingar til orðs og æðis. Það er réttnefnd hrollvekja að þurfa að hugsa til þess sem Íslendingur, að þessir menn muni líklega verða meðal helstu ráðamanna Sjálfstæðisflokksins í þeirri framtíð landsins barna sem umræddur flokkur hefur stórslasað með efnahagsstefnu sinni undanfarin ár.

Ásta Möller baðst afsökunar um daginn á því, skildist mér, að hafa haldið illa á málum með umboð sitt sem þingmaður, en samtímis opnaði hún skrifstofu til að berjast fyrir endurnýjuðu umboði frá kjósendum. Mikil var iðrunin hjá henni !

En Þjóðarógæfuflokksmenn margir hverjir eru satt best að segja meiriháttar viðfangsefni, sálfræðilega séð. Það er svo merkilegt hvað auðvelt virðist vera að forrita alla hjörðina í einni svipan. Ég á til dæmis einn ágætan vin í þeirra hópi, sem slæst við samvisku sína daglega vegna þægðar sinnar við flokkinn. En þó að samviskan sé með uppsteit ræður þægðin við flokkinn alltaf þegar upp er staðið. Samt er þetta maður sem hefur margt til brunns að bera, þó hann sé þrjóskari en allt sem lífsanda dregur, þegar sá gállinn er á honum.

Um daginn hitti ég þrjá Þjóðarógæfuflokksmenn sem tóku mig tali um þjóðmálin, hver út af fyrir sig. Allir eru þeir hinir sæmilegustu menn fyrir utan þennan ágalla að vera forritaðir flokksmenn. Ég tók auðvitað strax eftir því að þeir töluðu allir eins, það var eins og sömu setningunum hefði verið troðið ofan í kok á þeim. Þeir ældu upp nákvæmlega sömu klisjunum !

Það var sem þeir hefðu allir verið pólitískt mataðir eftir reglustriku. Og það er einmitt þetta línukjaftæði sem er svo dapurlegt fyrir þá, svona manngildislega séð. Síðan handjárnin voru tekin upp í flokknum virðist enginn þora að opna munninn þar öðruvísi en eftir línunni að ofan. Það verður kannski stutt í það að menn fari að tala um Valhallar- heilkennið í þessu sambandi !

Það er sannarlega ekki lýðræðislega uppbyggilegt að menn séu svona múlbundnir, þó það sé heldur ekki æskilegt að hver höndin sé upp á móti annarri í flokki. En svigrúm þarf þó að vera fyrir menn til að fylgja sannfæringu sinni og þegar sannfæringin er komin út úr búknum og niður í skúffu hjá flokksforustunni, er ekki á góðu von.

Pólitísk endurnýjun er auðvitað nokkuð sem þarf að eiga sér stað reglulega, en það er hinsvegar vitlaust að henda mönnum út sem hafa staðið sig vel, bara vegna þess að það eigi að endurnýja. Það þarf að halda í góða menn.

En það er nú vandamálið, að það virðast vera svo fáir góðir menn til staðar - liðið sem hefur verið á þjóðarframfæri í þinginu hefur mikið til reynst þannig að það mætti sem best henda 80% af því út án þess að nokkur atgervisbrestur myndi fylgja því. Alþingi Íslendinga þarf að vera miklu betur skipað en það hefur verið og það gildir einnig um framkvæmdavaldið, enda koma þeir sem það skipa yfirleitt úr þingmannaliðinu.

Verum á verði fyrir því hvort yfirlýst pólitísk endurnýjun sé raunveruleg endurnýjun, og gætum okkar á því að láta ekki blekkja okkur á kjördag til að kjósa það sem við hefðum alls ekki átt að kjósa.

Það er mikið í húfi að vel takist til og kjörseðillinn er vopn lýðræðisins !

 

 


Burt með Kristján IX

 

Það er alkunna að sögulegar staðreyndir verða oft að lúta lágt þegar goðsagnir fara á flug. Það er eins og sagt er í kvikmyndinni  The Man Who Shot Liberty Valance , "Þegar goðsögnin gengur í bága við staðreyndir,  seturðu goðsögnina á blað."

Við Íslendingar eigum ýmsar slíkar goðsagnir sem ganga þvert á staðreyndir.

Það vita til dæmis flestir að Ingólfur Arnarson var ekki fyrsti landnámsmaður Íslands og sennilegast er að Írar hafi verið hér mun fjölmennari fyrir en almennt er viðurkennt. Þeir munu hinsvegar hafa verið drepnir, hraktir burt eða kúgaðir til þrælsstöðu. Kolskeggur Ýrberason hefði getað frætt okkur um margt ef hann hefði skilið einhver rit eftir sig sem hefðu verið varðveitt.

Náttfari mun ekki hafa þótt nógu mikil persóna til að fá nafnið fyrsti landnámsmaðurinn, enda mun hann hafa verið hrakinn burt af landnámi sínu af manni sem var miklu aflameiri en hann. Þannig mátti fyrsti Íslendingurinn ekki láta fara með sig !

Snorra Sturlusyni hafa löngum verið eignuð ritverk sem engin fullkomin sönnun liggur fyrir að hann hafi ritað. Styrmir fróði gæti þessvegna hafa verið höfundur þeirra sumra. En menn hafa óspart tileinkað Snorra verkin og sú goðsögn stendur.

Það hefur verið fjallað um Jón Arason Hólabiskup í ótal tilfellum sem einhverskonar frelsishetju Íslands. Vísir menn hafa étið það hver upp eftir öðrum að hann hafi barist fyrir íslenskum þjóðarmálstað gagnvart hinu hataða danska konungsvaldi. En það er hrein goðsögn.

Jón Arason var kaþólskur biskup á Hólum, hann átti sér eitt yfirvald fyrst og fremst, páfann í Róm. Meðan danski konungurinn var kaþólskur var Jón Arason dyggur konungsþjónn. Hann var ekki síður harðdrægur fyrir hönd kirkjunnar en Ögmundur Pálsson var í Skálholti. En svo ákvað Kristján III Danakonungur að ganga lúterskunni á hönd, enda langaði kauða að koma höndum yfir hin miklu auðævi kirkjunnar, gera klaustur upptæk í Danaveldi o.s.frv.

Þá rann Jóni Arasyni blóðið til skyldunnar, hann reis upp gegn konungsvaldinu í nafni páfavaldsins í Róm, ekki í nafni íslensku þjóðarinnar. Uppreisn hans var heimskuleg og vonlaus frá upphafi eins og sr. Sigurður sonur hans sá fyrir og jafnvel Ari sonur hans líka. En Ari kaus að fylgja föður sínum í dauðann eins og Skarphéðinn forðum Njáli og hefðu þeir báðir betur gert annað.

Eftir því sem kúgun kaþólsku kirkjunnar fjarlægðist hugsun manna og kúgun konungsvaldsins óx, fóru menn að dýrka Jón Arason fyrir þessa uppreisn gegn kónginum. Menn kusu að gleyma því að hann tók afstöðu gegn kónginum vegna páfans og kaþólsku kirkjunnar. Hann var þannig gerður að frelsishetju á fölskum forsendum. Í raun og veru skildi lítið á milli Ögmundar Pálssonar og Jóns Arasonar, enda sáu þessir keppinautar við vaxandi ásókn konungsvaldsins, að þeir voru að verja sameiginlega hagsmuni. Jón Arason mun þó hafa haft það fram yfir Ögmund, að geta verið leiftrandi húmoristi þegar þannig stóð á.

Goðsögnin um Jón Arason mun lifa áfram þó staðreyndir sögunnar mótmæli henni.

Og svo er það Kristján IX, einn mesti erki-afturhaldskóngur sem Danmörk hefur burðast með í sinni sögu. Íslendingar margir hverjir héldu ekki vatni 1874 yfir hrifningunni á kóngsa og þjóðskáldið orti " Með frelsisskrá í föðurhendi, þig fyrstan konung Guð oss sendi " ! Þvílíkur samsetningur !

Kristján IX kom áreiðanlega ekki með stjórnarskrá og löggjafarvald til okkar af fúsum vilja og þaðan af síður var hann einhver sending til okkar frá Skaparanum. Hann hefði vafalaust verið manna ánægðastur ef hann hefði séð einhvern Estrupinn halda lýðnum niðri hérlendis. Það er því argasta skömm að hafa styttu af þessum aristókrata fyrir framan stjórnarráðshúsið í Reykjavík. Aumingja Hannes að þurfa að búa við þann falska félagsskap !

Nær hefði verið að hafa þar styttu af Friðriki VIII sem var miklu geðþekkari maður og okkur Íslendingum velviljaður, en annars á hvergi að hlaða undir kónga og þessháttar hyski. Nóg er að fortíðin skuli vera full af því slekti og það ætti hvergi að vera til í dag !

Konungsmerki og kóróna ætti auðvitað ekki að sjást á alþingishúsinu. Hvað erum við að gera með slíkt á húsi sem á að vera frelsismusteri lýðréttinda þjóðarinnar - eða eru konungsþrælar enn að störfum þar ?

Pétur Blöndal alþingismaður sagði nýlega í Kastljósi varðandi forsetaembættið, að í tíð Ólafs Ragnars hefði embættið færst nær einhverskonar kóngastigi og það er nokkuð til í því. Pétur sagði að við Íslendingar vildum enga kónga og það er líka talsvert til í því, en það hafa nú samt margir viljað vera kóngar hér og með sína hirð. Flestir slíkir smákóngar hafa náttúrulega verið Bláhandarmenn.

En Pétur Blöndal starfar væntanlega í alþingishúsinu og situr þar sem aðrir þingmenn undir kórónu Kristjáns IX. Það fylgir því varla nein blessun !

Ef alþingi Íslands, sem hefur fallið mjög í áliti hin síðari ár meðal landsmanna, verður einhverntíma aftur fært um að vera sú brjóstvörn lýðræðisins, sem ætlast er til að það sé í þessu landi, þarf það að sitja í húsi sem er laust við tákn um blekkingar liðinnar sögu og erlenda áþján.

Alíslenskt merki á að sjálfsögðu að vera framan á húsinu og vel færi á því að táknmynd Fjallkonunnar væri sett upp á alþingishúsið, ef til vill eftir þeim hugmyndum sem koma fram í teikningum Gröndals.

Burt með styttuna af Kristjáni níunda af stjórnarráðsblettinum og burt með kórónu hans af alþingishúsinu. Slík tákn eiga aðeins heima á ruslahaug sögunnar.

Hvað skildu þeir áar okkar sem flýðu hingað forðum undan konungsvaldi segja,  ef þeir vissu að Alþingi Íslendinga bæri yfir sér konungsmerki ?

Þeir myndu varla telja að afkomendur þeirra væru frjálsir menn !

 

 

 


Rauði krossinn og hlutleysið ?

Það þarf víst ekki að segja neinum það, að Rauði krossinn á að baki stórbrotna sögu í friðar, líknar og mannúðarmálum. Það merki sem Henri Dunant hóf forðum á loft með hjálparstarfi sínu á vígvellinum við Solferino, hefur lengi verið tákn um margt það besta sem býr í manninum og hefur því að verðleikum notið almennrar virðingar. Í stuttu máli sagt, hefur saga Rauða krossins þannig lengi vel verið saga hinna góðu eiginda mannsins, mitt í þeim hörmungum sem hinar illu eigindir hans skapa oft og tíðum í þessum heimi.

Í hugsjón Rauða krossins var frá upphafi gengið út frá því að ekki skyldi taka afstöðu til deilumála og stríðandi fylkinga - heldur aðeins hugsað um að líkna særðum, veita aðhlynningu og hjálpa, koma alls staðar fram í nafni friðar, mannúðar og mannkærleika.

Kjörorð Rauða krossins var frá upphafi hlutleysi, sjálfstæði með mannúð til friðar ! Á seinni árum mætti hinsvegar halda að það kjörorð, einkum með tilliti til hlutleysisins, væri ekki lengur í gildi sem fyrr og ef svo er, ber að harma það.

Ég ætla ekki að fjalla hér um það hvernig Henri Dunant var vikið til hliðar á einu stærsta augnabliki ævihugsjónar sinnar, og aðrir svo sem lögfræðingurinn Gustave Moynier, uppskáru á margan hátt það sem hann hafði til sáð.

Það er ný og gömul saga að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, en sú saga er utan við ætlað efni þessa pistils og verður ekki sögð hér.

Hinsvegar ber að fagna því að Dunant fékk fyrstur manna, ásamt Frédéric Passy, friðarverðlaun Nóbels og þó að Passy væri alls góðs maklegur, hefði farið betur á því að Dunant hefði einn orðið handhafi verðlaunanna 1901 og röðin síðan komið að Passy á næsta ári.

En höldum okkur nú við friðar og líknar hreyfinguna sem Dunant kom á fót og hugleiðum aðeins hvar hún er á vegi stödd í samtímanum.

Lengi vel hélt Rauði krossinn sig fast við upphaflega stefnu og vann hvert afrekið af öðru í hugsjónastarfi sínu fyrir líkn og mannúð um allan heim. En að því kom að hlutirnir fóru að breytast. Menn virtust fara að binda sig við nýjar og nokkuð framandi áherslur miðað við fyrri hugsjónir og tilgang.

Samstarf var tekið upp við rauða hálfmánann og síðan þá virðast hinar upphaflegu kristnu áherslur hreyfingarinnar hafa verið settar nokkuð til hliðar og jafnframt gengið í mörgu til móts við áherslur í samtökunum sem virðast taka mið af einhverjum pólitískum jafnvægisdansi og þá einkum gagnvart múslimum.

Þar sem átök og deilur eru og hafa víða verið milli múslima og annarra, hefur þótt bera á því að starfsmenn bandalags Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafi úttalað sig um mál með pólitískum hætti.

Nú er svo komið að hlutleysi Rauða krossins í afskiptum af deilum er dregið í efa af mörgum og sú alþjóðlega viðurkenning sem samtökin höfðu áður unnið sér hefur beðið nokkurn hnekki. Traustið er ekki eins og það var.

Aðilar á vegum Rauða krossins hafa stundum tjáð sig með þeim hætti í fjölmiðlum, að það er hreint ekki hægt að segja að þeir hafi viðhaft hlutleysi gagnvart átökum og deilum sem í gangi hafa verið. Það hefur t.d. þótt koma fram í deilumálunum fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Ég vil nefna hér eitt afgerandi dæmi um framgöngu Rauða kross starfsmanns í fjölmiðlum.

Sólveig Ólafsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins hefur víða starfað fyrir samtökin. Hún hefur verið í Grenada, Pakistan og eflaust á fleiri stöðum.

Um tíma var hún í Simbabve og var það um það leyti sem kosningarnar voru í landinu, kosningarnar sem Mugabe forseti hafði síðan að engu.

Þá var Sólveig fengin í viðtal í íslenska ríkissjónvarpið varðandi ástand mála í Simbabve. Það mun hafa verið í byrjun apríl 2008.

Þá stóð Morgan Tsvangirai leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve í ströngu við einræðisherrann, sem búinn var að rústa efnahag landsins og setja allt um koll. Verðbólgan var komin upp í stjarnfræðilegar tölur og þjóðin stóð frammi fyrir geigvænlegum aðstæðum.

Við þær kringumstæður lét Sólveig Ólafsdóttur sendifulltrúi Rauða krossins m.a. hafa þetta eftir sér í umræddu viðtali:

" Tsvangirai skortir leiðtogahæfileika og margir segja að hann skorti hreinlega greind til að takast á við jafn skarpgreindan mann og Mugabe óneitanlega er ! "

Þetta leyfði sendifulltrúi Rauða krossins sér að segja í íslenska sjónvarpinu. Þarna tel ég að um sé að ræða beint inngrip í pólitík viðkomandi lands og ekkert hlutleysi er viðhaft.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar er dæmdur fyrirfram vegna vöntunar á greind, en manninum sem rústað hefur landi sínu og komið þjóð sinni á vonarvöl, er hrósað í hástert fyrir að vera svo gáfaður !

Eru svona ummæli samboðin hinum gamalvirta anda Rauða krossins ?

Nei, segi ég, en Rauði krossinn er heldur ekki í dag það sem hann var.

Það virðist nefnilega sitthvað benda til þess að þessi miklu samtök geti orðið í náinni framtíð eins og einhverskonar andlegt útibú frá Rauða hálfmánanum og hlutleysið verði þá í samræmi við það. Þá er illa farið, ef hugsjón Henri Dunants, um kristna mannúðarhreyfingu, starfandi um allan heim að hjálpar og líknarstörfum, kafnar undir nafni í höndum pólitískrar, múslimskrar yfirstjórnar og handbenda hennar.

Ég hætti snemma að geta tekið mark á því sem sumir starfsmenn Rauða krossins létu hafa eftir sér í fjölmiðlum varðandi Bosníu og Kosovo á sínum tíma, og ég taldi mig ekki heldur geta tekið mark á því sem sambærilegir aðilar sögðu nýlega varðandi atburðina á Gaza.

Sjúkraflutningamenn á vegum Rauða krossins þar, af arabísku þjóðerni, eru að mínu mati ekki trúverðug vitni þegar þeir eru að ófrægja Ísraelsmenn í fjölmiðlum. Hlutverk þeirra er ekki að vera talsmenn pólitískra sjónarmiða !

Verst þykir mér þó, að ég skuli eiginlega verða að taka Rauða krossinn sjálfan með fyrirvara, varðandi það hlutleysi sem hann á að sýna í þeim deilumálum sem upp koma nú til dags - og það virðist einkum eiga við um mál þar sem múslimar eru annar deiluaðilinn - sem iðulega er.

Staðreyndin virðist orðin sú, að pólitískar raddir séu farnar að tala það hátt í aðalstöðvum Rauða krossins, að rödd Henri Dunants fái litla hlustun þar núorðið. Ég harma það mjög ef svo er og vona að menn átti sig í tíma og leiðrétti stefnu þessara merku samtaka, áður en trúverðugleiki þeirra í þágu upphaflegra stefnumála sinna verður hugsanlega svo illa leikinn að ekki verði um bætt.

Við getum nefnilega illa án Rauða krossins verið, og einkum ef hann reynist og verður áfram sá Rauði kross sem byggður var upp á hinni kristilegu manngæskuhugsjón Henri Dunants.

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 103
  • Sl. viku: 1183
  • Frá upphafi: 316782

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 887
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband