Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2019

Með völdum skal veg tryggja !

 

 

Búa að völdum brattir menn,

branda sveiflur iðka.

Draugaglottin dafna tvenn,

dárar sporin liðka.

 

Virðist nokkuð víða deilt,

vantar hugsun gáða.

Sárt er þegar samstarf heilt

sést í engu ráða.

 

Séu mál til meina gerð,

mörgum boðinn klafi.

Þá er hroki þar á ferð,

það er enginn vafi.

 

Gæði hvergi greinast þar,

gníst er jafnvel tönnum.

Þegar heiftar hugarfar

hrærist upp í mönnum.

 

Samskiptin þá sigla í strand,

safnast fyrir þreyta.

Stórir höfði stinga í sand,

stöðu mála neita.

 

Fyrst þá verður fjandinn laus,

fljúga eitruð skeytin.

Svo að ekki halda haus

heilu ráðuneytin.

 

Kerfið snýst í heimsku hring,

hrokann fer að verja.

Möppudýra margfalt þing

magnar villu hverja.

 

Fráleitt lausn má finna þá,

flóna skarinn bullar.

Koppnum deildin æðsta á,

yfir málin drullar !

 

 

 

 

 

 


Þegar traustið er farið er ekkert eftir !

 

Það virðist hrikta þónokkuð nú til dags í margri gamalgróinni valdaskipan í ríkiskerfinu á Íslandi. Menn sem hafa setið og setið og setið virðast sumsstaðar vera farnir að missa tökin. Gamla þýlyndið er ekki til staðar eins og það var og undirlægjuhátturinn ekki heldur. Sennilega eru bara sumir hlutir í framför hjá okkur þó erfitt hafi verið að koma auga á það !

 

Valdamenn af gamla skólanum, með strangleika sinn og kröfu um grjóthart goggunarraðarferli, eru líklega bara á leiðinni út. Jafnvel þótt reynt sé að setja vörn um vald slíkra manna með afgömlum flokkshollustukröfum, gengur vægast sagt illa að halda óánægjunni yfir starfs-aðferðum þeirra í skefjum !

 

Ef reynt verður að kúga menn til að sætta sig við óbreytt ástand, þegar slík staða er komin upp innan einhvers embættis, er hætt við að lítill friður verði til góðs samstarfs á viðkomandi stað í komandi tíð !

 

Það eru ekki tímar Vilhjálms II. Þýskalandskeisara í dag og vald sem illa er farið með tapar einfaldlega virðingu sinni nú á tímum. Og þegar traust er ekki lengur til staðar í samskiptum milli manna hvað er þá eftir ?

 

Þegar yfirgnæfandi afstaða manna til mála undirstrikar að ástand sé orðið óþolandi breytir engu þótt einn tækifærissinnaður aðili vilji halda sig til hlés. Einhverntíma var sagt að heimili sem er sjálfu sér sundurþykkt fái ekki staðist. Það gildir í miklu víðara samhengi. Þar sem menn geta ekki lengur unnið saman, verður að höggva á hnútinn sem myndaður hefur verið, þó það kunni að vera sársaukafullt fyrir einhvern !

 

Velferð samfélagsins byggist ekki og á ekki að byggjast á valdaferli einstakra manna. Þá skiptir heldur engu hversu vel og lengi þeir hafa hreiðrað um sig innan kerfisins. Þaulseta manna í embættum getur oft orðið bæði þeim sjálfum og samfélaginu sem þeir telja sig þjóna til skaða. Ýmis dæmi eru til um slíkt.

 

Á sínum tíma var einn maður orðinn svo rótfastur að völdum innan bandaríska stjórnkerfisins, að jafnvel forsetar sem vildu ekki hafa hann, urðu að sitja uppi með hann !

 

Við þurfum umfram allt á friði að halda og samstarfi innan okkar viðkvæma samfélags. Þegar mál hafa fengið að vanþróast svo að allskonar vandi hefur orðið til, verður að taka óviðunandi samskipti til afgerandi skoðunar og finna lausnir sem tryggja traust og samstarfshæfni að nýju !

 

Að sópa vandanum undir eitthvert flokksteppið mun ekkert leysa heldur þvert á móti aðeins gera hann meiri. Menn þjóna samfélaginu best með því að friður sé tryggður, ekki síst í sambandi við öll öryggismál þjóðarinnar !


Um nasistahneigðir fyrr og nú !

 

Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að sumir gallharðir hægri menn eru afskaplega nálægt því að vera nazistar í sínum hugsunarhætti. Þegar skoðað er hvert þeir fóru sem studdu nazismann hér á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina, þarf ekki að koma á óvart að flestir slíkir gengu til liðs við íhaldið. Enda er sagt að flokksmálgagnið hafi á sínum tíma lýst þeim fjálglega sem ,, ungum mönnum með hreinar hugsanir !”

 

Enn í dag er hægt að sjá að öfgakenndir hægri menn gera mikið af því að setja sama sem merki milli Þjóðverja og Rússa, milli nazista og kommúnista, milli Hitlers og Stalíns. Þegar fjallað er um voðaverk Þjóðverja, hvort sem í hlut áttu Gestapo, SS, þýski ríkisherinn eða önnur verkfæri nazista, er alveg sama hvað rætt er um, alltaf er bætt við af hálfu þessara manna, ,,Rússar voru ekkert betri“ eða ,,Rússar voru verri,“ ,,Stalín var miklu verri en Hitler“ o.s.frv. Sést þar gjörla hvað þessum aðilum er í raun mikils virði að verja nazista !

 

Það getur hver maður líklega tekið undir það, að þessi veröld okkar hefði þurft að vera laus við þá báða Hitler og Stalín, og þeir eru fleiri sem hefðu betur aldrei fæðst. En allur samanburður milli þessara blóðugu einvalda er samt mjög villandi og oftast settur fram, meðvitað eða ómeðvitað, til þess eins að verja Hitler af þeim sem þar rennur blóðið til skyldunnar !

 

Þegar harðir hægri menn lenda í umræðum varðandi það hverjir áttu langdrýgsta þáttinn í því að sigrast á Stór-Þýskalandi nazismans og guldu fyrir það með um 20 milljón mannslífa, reyna þeir alltaf að gera sem minnst úr framlagi Rússa. Og ef það er viðurkennt að þeir hafi lagt þar eitthvað til, er það sagt allt að þakka hinum gífurlegu vopnasendingum að vestan ?

 

Mig minnir nú samt að í tilteknum bandarískum samtímaheimildum hafi verið sagt að þó að hergagna-flutningarnir til Sovétríkjanna með skipalestunum hafi verið miklir að vöxtum, hafi þeir ekki nægt til að vopna nema lítinn hluta af rússneska heraflanum. Mestan hlutann hafi Rússar sjálfir orðið að sjá um að hervæða !

 

Og sé þar rétt frá skýrt, er skiljanlegt að þeim upplýsingum hafi ekki lengi verið haldið á lofti, enda voru þær ekki í anda kalda stríðsins sem farið var að keyra upp strax upp úr stríðslokum. Síðan hefur verið býsna hljótt um staðfesta tölfræði í þessum efnum. En þeir fáu menn sem telja að sannleikur skipti máli, geta auðvitað kynnt sér þessi mál í gegnum netið nú á dögum og reynt að fá botn í það hverjar staðreyndirnar voru varðandi þetta !

 

Annað má nefna, að hægri menn hafa svo sem ekki neitað því að seinni orustan við El Alamein og Stalingrad-orustan hafi verið vendipunktar í styrjöldinni. En þeir tala iðulega um þessar orustur eins og þær séu alveg sambærilegar. En menn geta kíkt á þetta á netinu. El Alamein orustan var auðvitað mikilvæg sem slík, en það breytir því ekki að hún var smáorusta miðað við Stalingrad. Það ber enginn maður með dómgreind nokkurra daga orustu með mannfall upp á hámark 25.000 manns saman við margra mánaða orustu með mannfall upp á lágmark 1,1 milljón manns !

 

Varðandi þá sífelldu staðhæfingu hægri manna að Rússar hafi bara verið með drasl, má benda á að T-34 skriðdrekinn sovéski var líklega jafnbesti skriðdreki stríðsins og þýski herinn átti þegar til kom ekkert svar við honum. Þessari skriðdrekagerð var linnulaust dælt út úr verksmiðjunum austan Úralfjalla og þeir fóru jafnvel ómálaðir beint í stríðsaðgerðir !

 

Auk þess er hægt á síðari tímum að benda á Kalashnikov riffilinn sem dæmi um að Rússar geti svo sem búið til drápsvopn á við hvern sem vera skal, ef út í það er farið. En hæfni á því sviði er annars vafasamur heiður !

 

Þegar kalda stríðið var komið í hámark og Kóreustríðið í gangi, var sagt að vestrænir hernaðar-sérfræðingar teldu að Vestur-Evrópa myndi ekki standast rússneska stórárás nema í viku. Það eina sem væri til varnar væru kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna. Þannig var alið á stríðsóttanum af hálfu vestrænna hauka og það tiltölulega skömmu eftir stríðslok !

 

En sú hugsun hefur hinsvegar mjög ólíklega verið til staðar hjá Rússum að gera slíka árás á fyrri bandamenn. Þeir voru að reisa stóran hluta lands síns úr rústum eftir styrjöldina og hafa sjálfsagt þurft á flestu öðru fremur að halda en áframhaldandi styrjöld eins og flestir ættu að geta skilið. Blóðtakan hafði líka verið drjúg og flestar fjölskyldur voru í sárum !

 

Bandaríkjamenn þurftu hinsvegar ekki að reisa neitt úr rústum og voru því Truman-tilbúnir í kalt stríð og jafnvel heitt. Churchill var látinn gefa tóninn í Fulton-ræðunni, enda var hann maður sem þreifst á stríði, en var enganveginn nothæfur í friði. Jafnvel hans eigin þjóð gerði sér grein fyrir því og afsagði forustu hans í stríðslok !

 

Það er eitt stórkostlegasta sveiflufyrirbæri sögulegrar framrásar, að Vesturveldin skyldu á örlagaþrunginn hátt þvingast í þá stöðu að verða bandamenn Rússa og þar með kommúnista í síðari heimsstyrjöldinni.

Til annars höfðu refirnir svo sannarlega verið skornir !

 

Fjármagnið sem kom fótunum undir nazistaríkið kom allt að vestan. Hitlers Þýskaland var fjárhagslega pumpað upp til höfuðs Sovétríkjunum. En framvindan varð á annan veg. Sumir stórkapitalistar vestra náðu aldrei að jafna sig á því hvernig hin ,,snilldarlegu plön“ þeirra misfórust, vegna þess að djöfulmennið sem átti að nota sem verkfæri lét ekki að stjórn !

 

Það fer enginn sálarlega heill og lifandi frá því að hafa mök við fjandann !


Stef varðandi minkinn í hænsnahúsinu !

 

Það sannast hið fornkveðna á liði samverkamanna Donalds Trump að allt er það sjálfu sér sundurþykkt. Höfðinginn býður upp á það. Jafnvel þeir sem virðast þar grónir á grunni geta skyndilega steypst úr vistinni !

 

Nú hefur John Bolton verið sparkað og sumir myndu nú telja það ákveðna hreinsun í valdsstjórn Trumps, en það eru svo sem nógir eftir af svipuðu tagi og heldur ólíklegir til góðra verka !

 

Þó að Bolton sé yfirlýstur haukur og vilji að Bandaríkin skipti sér af öllu út um allar jarðir, hafði hann engan áhuga á því að berjast sjálfur í Víetnam á sínum tíma og kom sér hjá því. Það virðist löngum vera svo með menn af hans tagi, að þeir vilja senda aðra í hættuna og forðast hana sjálfir !

 

Margir velta því fyrir sér, nú þegar líða fer á kjörtímabil Trumps, hvort hann eigi einhverja möguleika á endurkjöri og víst er um það að svo getur alveg verið. Það er að vísu mikið lagt á heimsbyggðina, ef hún þarf að þola slíkan mann í önnur 4 ár, en staðreyndin er samt sú að margt virðist benda til að demókrötum muni ganga illa að koma upp vænlegu mótframboði !

 

Ef Joe Biden er það eina sem á að bíta í þeim efnum fyrir hönd demókrata, er hætt við að það dugi ekki til. Demókratar verða að koma sér upp bitastæðari manni ef þeir hugsa sér að vinna komandi kosningar. Ákveðin harðlínuöfl til hægri í Bandaríkjunum fylkja sér fast að baki Trumps og telja sig vera að heyja varnarbaráttu fyrir því að Bandaríkin haldi sig þar sem þau eigi að vera !

 

Valdahlutföll milli þjóðfélagshópa í Bandaríkjunum eru tekin að raskast mjög frá fyrri tíð og hið gamal-enska forræðisvald norðausturhlutans er mikið að gefa eftir. Suðurhluti Bandaríkjanna frá Florida og vesturúr er að verða í yfirgnæfandi mæli spænskumælandi menningarsvæði. Það land sem Bandaríkin tóku með hervaldi af Mexikó upp úr 1840 virðist vera að skila sér til baka í þjóðmenningarlegum skilningi og það er þá ákveðið réttlæti að koma fram í því !

 

Af slíkum og þvílíkum ástæðum er þeim sem standa lengst til hægri í Republikanaflokknum ekki rótt. Og þar hefur kjarnafylgi Trumps aðallega verið til húsa. Bandaríkin, – sem eru tilbúið samfélagsfyrirbæri innflytjenda úr öllum áttum, hafa aldrei náð því að vaxa saman í eina þjóð og munu aldrei gera það fremur en önnur gerviblóm fjölmenningarinnar !

 

Valdaklíkan í Washington er sýnilega stöðugt að verða hræddari við vaxandi fjölda og aukin áhrif spænskumælandi fólks í alríkinu. Suðurhlutinn er þegar undirlagður þeim áhrifum. Í örvæntingu sinni eru menn farnir að tala um að byggja múra !

 

Verstu öfl Bandaríkjanna fylkja sér um Trump og það væri hættulegt að vanmeta getu þeirra til að koma illu til leiðar. Bandarískir Boltonar eru margir og hvergi til góðs. Demókratar verða að velja vel ef þeir ætla að sigrast á því óþurftarliði sem fylgja mun Trump í næstu forsetakosningum í vesturheimska ríkinu !

 

 

 

 


Að kunna að velja sér í hag !

 

Það virðist alveg augljóst mál, að Bjarni Benediktsson sé einn af þeim sem vill ekki hafa allt of sjálfstæða karaktera í kringum sig. Hann vill hafa þar hlýðið fólk sem á honum allan frama sinn að þakka. Fólk sem fyrst og fremst er líklegt til að sýna honum hollustu !

 

Nýir þingmenn, enn blautir á bak við eyrun, hafa fengið mikið uppstreymi frá Bjarna, hafa fengið að stökkva yfir þrjár til fjórar tröppur á frama-fluginu, hafa fengið að hlaupa létt upp í ráðherrastóla fyrir atbeina hans !

 

Bjarni er greinilega mikill æskudýrkandi og vill sýnilega helst hafa unga og flotta ráðherra, ekki síst ungar konur, sem taka sig vel út í sjónvarpi, einhverjar sem eru svo flottar, að menn taka jafnvel ekki eftir því sem þær segja. Það virðist líka algert aukaatriði, ef þær þykja bara nógu flottar !

 

Bjarna er líklega ekki mikið um reynda menn gefið, menn sem vita kannski meira en hann, menn sem hafa dýpra stöðuskyn og eiga kannski eftir að verða keppinautar hans um formannsstólinn og völdin í flokknum !

 

Nei, Bjarni vill ekki slíka fugla. Þessvegna er líklegt að menn eins og Birgir Ármannsson og Páll Magnússon og fleiri slíkir verði aldrei ráðherrar. Bjarni vill þá ekki. Þeir virðast enganveginn henta fyrir hans stjórnarhætti í flokknum !

 

Bjarni myndi líklega helst vilja vera eingöngu með kvenkyns-ráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni, en staða sumra karla í flokknum leyfir það líklega ekki. Þeir eru þar allt of óþægilega sterkir. Kannski er það ákveðið vandamál í augum Bjarna, eitthvað sem þyrfti að laga og leysa - og það með flottum hætti - í komandi tíð ?

 

Bjarni vill greinilega byggja forustulið flokksins upp í kringum sjálfan sig. Hann er sýnilega þannig foringi, kannski hrifnastur af viðhlægjendum ?

 

Líklega sér hann sig sem reddara og velgjörðamann svona í og með. Hann er sá sem reddar framavonum annarra og gerir þá stóra. Hann lyftir þeim nánast af jafnsléttu, upp í valdahæðir, með beinum handlegg !

 

Það eru engir aumingjar sem gera slíkt. Þannig menn kunna að drottna og deila. Bjarni telur sig því líklega eiga skilið þakklæti, mikið þakklæti !

 

Bjarni veit sem sagt að öllum líkindum hvað hann syngur. Öll mannleg samskipti á Íslandi eru verslun og hann kann að verða sér úti um inneignir. Það fer ekki á milli mála. Klókir stjórnmálamenn spila einmitt svona !

 

Jónas frá Hriflu gerði það á sínum tíma. Hann lyfti Hermanni og Eysteini upp eins og menn muna kannski - lyfti þeim ofurhátt !

 

En þakklátsemin er að vísu stundum mesta vandakind því sumir geta reynst vanþakklátir, og jafnvel stolið embættis-stólum undan rössunum á velgerðar-mönnum sínum. Það er virkilega óhuggulegt að hugsa til þess hvað sumir hafa verið og geta verið ómerkilegir !

 

En slíkt gerist varla núorðið, það er haft fyrir satt að nú sé þakklátssemin orðin miklu flottari – vel háskóluð og afar hreinræktuð. Þetta unga fólk í dag, - ekki síst stelpurnar, er svo vel menntað og siviliserað, að það gerir áreiðanlega ekkert andstætt þakklátssemi og göfugum hugsunarhætti - og sýnilegt er líka að Bjarni treystir því !

 

Við vitum líka að heimurinn er alltaf að breytast og út í löndum er mjög ungt fólk að láta til sín taka æ meir. Við þurfum náttúrulega að vera framsækin og fylgja þeirri línu. Það sýnir svo mikið víðsýni að treysta unga fólkinu, því auðvitað tilheyrir framtíðin því !

 

Sjáum til dæmis Malölu frá Pakistan með Nóbelsverðlaunin sín og Gretu Thunberg frá Svíþjóð, sem er líklega á leiðinni með að verða alheims-sendiherra heilbrigðra lífshátta í veröldinni. Glæsilegir fulltrúar báðar tvær.

Og leikskólarnir eru sjálfsagt fullir af frambærilegu valdafólki !

 

Kannski kemur senn að því að falleg lítil telpa verði skipuð ráðherra hjá okkur á Íslandi, einhver sem er svona 30 kg með skólatöskunni. Þá er æskan hreinust !

 

Og kannski verður helsti frumkvöðull æskudýrkunarinnar í stjórnmálum landsins svo gæfusamur þegar þar að kemur - að skipa slíkan ráðherra ?

 

Ekki ætti það að þurfa að koma á óvart eftir það sem á undan er gengið !


Margföld svik !

 

Enn einu sinni hefur sannast hvað fulltrúalýðræðið er vafasöm trygging fyrir réttri málsmeðferð. Enn einu sinni hefur skapast gjá milli þings og þjóðar. Enn einu sinni er fólkið í landinu svikið um réttinn til að kjósa um eigin örlög. Margföld hugarfarsleg jarðýta sérgæða og sérhagsmuna hefur enn einu sinni valtað yfir grasrótina í landinu og þar með þjóðarviljann !

 

Alltaf getur það valdið manni furðu hvílíkir vesalingar geta sperrt sig á tveimur fótum og talið sig vera menn ; en samt alltaf verið á fjórum fótum þegar kallið kemur að utan. Skriðdýrsháttur getur verið með ólíkindum !

 

Hvenær verður hægt að koma í veg fyrir vinnubrögð á alþingi sem hindra að mál séu afgreidd gegn vilja þjóðarinnar ? Hvenær verður hægt að setja í lög að þjóðaratkvæðagreiðslu sé skylt að halda ef ákveðinn fjöldi kjósenda krefst þess ? Hvenær verður eðlilegt lýðræði viðhaft á Íslandi ?

 

Hvenær verður framkvæmdavald og löggjafarvald aðskilið svo að sömu menn sitji ekki þar á báðum stöðum ? Það er fáheyrt að menn eigi að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það er ekki að undra þó kerfið skili sér illa fyrir almenning. Svik eru alltaf í gangi af þess hálfu og sjaldnast einföld, þau eru tíföld, fjörutíu og sexföld, stundum allt að því hundraðföld. Og skrattanum er sannarlega skemmt yfir lýðræðis-spillingunni á Íslandi !

 

Getum við ekki heyrt landvætti Íslands kveða um þau brigð sem í gangi eru og hafa verið, heyrum við ekki jötunninn kveða með kuldalegri og djúpri rödd við Lómagnúp um fordæðuskapinn í íslenskri pólitík ?

Ef við heyrum það ekki heyrum við ekki lengur neitt sem íslenskt er !

 

Enn er verið að undirbúa að selja landið, ekki í einu lagi heldur í smáskömmtum. Það þykir víst gefa besta raun. Menn sem væru taldir þjóðsvikarar og landráðamenn víðast hvar erlendis virðast geta orðið toppásar allra turna hér. Það sýnir andann sem ræður !

 

Hvergi greinist þjóðlegt þor,

þannig fer hvert árið.

Ryðst um land með rotin spor

Reykjavíkurfárið !

 


Um varðveislu þjóðfrelsisins !

 

 

 

Það er ekki sjálfgefið að þjóð búi við frelsi. Í flestum tilfellum er þjóðfrelsi áunnið með einum eða öðrum hætti. Það hafa trúlega einhverjir fært fórnir fyrir það frelsi. En eftir því sem menn búa lengur við það, virðast þeir hafa minni tilfinningu fyrir því að það sé eitthvað sem þurfi að varðveita. Með öðrum orðum, menn fara að halda að það sé sjálfgefið !

 

Í orkupakkamálinu mátti heita að línur væru gerðar eins óskýrar og frekast var unnt. Við getum velt því fyrir okkur af hverju slík staða kom upp ? Sérfræðiálitin gengu sitt á hvað og út frá þeim einum hefði enginn fengið tilvísun á rétta niðurstöðu. Samt eiga þau að vera það sem vísa á veginn !

 

En nú skulum við segja, að allir tilkvaddir sérfræðingar hefðu verið á einu máli um það, að samþykktin fæli í sér skerðingu á fullveldi Íslands. Hefði þá ekki leiðsögnin fyrir þjóðina verið skýr og nánast hver maður tekið afstöðu gegn því að samþykkja slíkt ?

 

Og ef við snúum dæminu við, og segjum að ef allir sérfræðingar hefðu verið sammála um það, að það væri óhætt að samþykkja pakkann því ekki væri um neitt framsal þjóðréttinda að ræða. Hefðu þá ekki nánast allir tekið það gilt og ekki sett sig á móti því ?

 

En nú liggur fyrir að sérfræðiálitin voru ekki samhljóða og raunar hvert uppi á móti öðru. Og þá stöndum við frammi fyrir miklum vafa í þessu sambandi. Engu er sýnilega hægt að treysta alfarið í gegnum hin fengnu álit. Hvar stöndum við þá ?

 

Verðum við þá ekki að hugsa til þess að þjóðfrelsið er ekki sjálfgefið og nauðsynlegt að vaka yfir því. Að þjóðfrelsið sé svo stórt mál að það megi aldrei samþykkja neitt sem hugsanlega getur skert gildi þess. Og þegar vafi er á því hvort svo sé, megi menn ekki leyfa sér að hundsa þann vafa !

 

Í öllum slíkum tilfellum verða menn sem vilja kallast þjóðhollir Íslendingar að segja nei. Við getum ekki og megum ekki leika okkur með fjöregg okkar á neinn veg. Það er ekkert sem menn geta kastað sín á milli í ábyrgðarlausum leik í einhverri von um stundarhagnað !

 

Þjóðfrelsið verður að ganga fyrir öðru í hugsun okkar, því að glata því er höfuðglæpur gagnvart liðnum kynslóðum og jafnframt þeim sem á eftir koma. Samtíðin má ekki fremja slíkan glæp !

 

Enginn vafi má vera á því í neinu máli, að við höldum fullu þjóðfrelsi okkar þegar við gerum samninga við aðra. Ef einhver vafi er varðandi það, þá höfum við aðeins einn sómasamlegan kost, þá verðum við öll að mótmæla og segja ákveðið nei !

 

Önnur afstaða er ekki boðleg og aðeins samboðin þrælum og þjónustumönnum svikræðis. Fullveldismál Íslands eiga ekki að vera verslunarvara og mega aldrei verða það !

 

Það er fyrst og síðast okkar skylda að tryggja að við séum og verðum frjálst fólk í frjálsu landi ?


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 1179
  • Frá upphafi: 316778

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 883
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband