Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

Hugleiðingar um Davíð konung !

 

Ég hef tekið eftir því að mörgum þykir erfitt að átta sig á frásögn Biblíunnar um Davíð konung og reyndar er ég ekkert sérlega undrandi á því. Persónuleiki Davíðs virðist hafa verið mjög margslunginn því annarsvegar er hann mikill guðsmaður en hinsvegar á margan hátt býsna veraldlegur lífsnautnamaður !

 

Margt býr í manninum og Davíð Ísaíson er ekki minnsta dæmið um það. Margt innilega trúað fólk á erfitt með að höndla þá heildarmynd af honum sem Biblían gefur. Þessvegna er helst dvalið við hann sem unga, saklausa hjarðsveininn sem lék svo fallega á hörpuna sína. Það er sungið ,, Davíð var lítill drengur, á Drottins vegum hann gekk, o.s.frv.” En það segir ekki alla söguna !

 

Þegar Davíð óx upp beið hans líf sem var hvorki saklaust eða friðsælt. Hann varð stríðsmaður sem hafði báðar hendur blóðgar til axla. Hann felldi sín tíu þúsund og vafalaust miklu meira en það. Vegna manndrápa var hann ekki hæfur til að standa fyrir smíði musteris Guðs. Ferill hans er mörgum manninum sífellt umhugsunarefni !

 

Eiginkonur átti Davíð nokkrar. Ekkert er þó sagt hvað um þær varð eða hvernig skipti hans við þær voru eða hvernig þeim lauk. Einnig tók Davíð sér hjákonur lengi vel og virðist hann hafa þurft á miklu að halda í þeim efnum og verið kvennamaður mikill. Kannski var fjöldi hjákvenna einhver mæling á ríkidæmi, eins og dæmi eru til um í Austurlöndum, en takmörk hljóta þó að vera fyrir því hvað einn maður kemst yfir !

 

Þær tíu hjákonur sem hann skildi eftir til að gæta hallarinnar þegar hann flýði þaðan í uppreisn Absalons, urðu að þola það að hann lét setja þær í varðhald og sagt er að þannig hafi þær orðið að lifa innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna. Ekki er lýsingin fögur varðandi örlög þessara hjákvenna Davíðs !

 

Sagan segir að hann hafi engin samskipti haft við þær eftir uppreisnina vegna þess að Absalon hafði gengið inn til þeirra að ráði Akítófels. Sýnist þó á engan hátt vera hægt að ásaka þær fyrir það sem á undan hafði gengið og meðferðin á þeim því vera miskunnarlaus svo ekki sé meira sagt !

 

En við skiljum heldur ekki siðalögmál löngu liðinna tíma og dæmum út frá því sem gildir í dag og ekkert segir né sannar að það viðmið sé réttara en annað ?

 

En svo er það hið illræmda Batshebu-mál. Þar fyllist konungur mikilli ástríðu til giftrar konu, tekur hana og lætur síðan brugga manni hennar banaráð. Þar má líklega segja að Davíð hafi lagst lægst á sínum ferli. Margir hafa að vonum átt erfitt með að finna guðsmanninn í þessu framferði konungs og skilja hreint ekki hvað gerðist ?

 

Samt liggur skýringin að öllum líkindum fyrir í þeirri einföldu staðreynd, að Davíð hafi algjörlega gleymt sér fyrir ofurafli ástríðu þeirrar sem virðist hafa gagntekið hann er hann leit Batshebu augum. Hún er sögð hafa verið forkunnarfögur kona. Davíð var á þeirri stund bara maður á valdi tilfinninga sinna og réð ekki frekar en svo margur maðurinn við eigin löngun og þrá !

 

Það má Davíð þó eiga að þegar Natan spámaður opinberaði fyrir honum hvað hann hafði gert, opnuðust augu hans strax og hann iðraðist sárlega gerða sinna. En það kallaði ekki Úría til lífsins aftur eða hreinsaði burt synd hans. Davíð varð að búa við refsinguna fyrir þá synd til æviloka. Það var aldrei friður yfir húsi hans eftir þetta !

 

Einn mikilsverður kennimaður tekur það fram á einum stað í ritum sínum, að hann hafi þá trú að Davíð konungur hafi hryggt hjarta Guðs meira en nokkur annar maður á jörðinni, að Júdasi meðtöldum. Guð elskaði þennan hjarðsvein, þetta helgaða skáld, og gaf honum snemma ómælda smurningu. Hann greiddi honum veg í öllum erfiðleikum og var með honum í öllum reynslum hans og gerði hann að konungi !

 

Davíð fann í öllu að velferð hans var undir Guði komin eins og við ættum öll að finna. En honum var hætt og okkur er hætt. Við erum öll bundin mannlegu eðli sem leiðir okkur býsna oft frá því rétta. Davíð var blessaður af Guði, hann var orðinn konungur og allir hlýddu honum og hann var farinn að venjast því að fá allt sem hugurinn girntist, en þá gleymdi hann því sem var bannað – einnig honum !

 

Í kjölfar hórdómsins beitti hann svo lygum og þeim fylgdi að lokum morð. En Davíð var samt ekki hrifinn af hórdómi, hann hafði deilt hart á slíkt framferði sem og annað syndaferli í sálmum sínum, en hann gleymdi sér er hann sá Batshebu. Hann heillaðist af henni og annað komst ekki að í huga hans. Honum fannst að hann yrði að fá þessa konu !

 

Batsheba var ekki vond kona, síður en svo. Hún hafði verið trú manni sínum, en gagnvart hinum volduga konungi, guðsmanninum Davíð, gleymdi hún sér líka. Kannski hélt hún í fyrstu að ekkert sem Davíð konungur gerði gæti verið rangt !

 

Við skulum ekki gleyma því að þetta er konan sem átti eftir að verða móðir Salómons. Hún hlaut að búa yfir miklum mannkostum. Án andlegrar arfleifðar frá góðri móður hefði Salómon varla getað orðið sá maður sem hann varð. En fyrsti funinn, blossinn milli Davíðs og Batshebu varð að báli sem skildi víða eftir sitt brennimark. Þau urðu bæði að axla margt og þola margt fyrir brot sitt !

 

Sitthvað bendir þó til að hin seinni ár hafi samband Davíðs og Batshebu fyrst og fremst verið andlegt og byggst á sameiginlegri trú þeirra og lotningu fyrir Guði !

 

Við sjáum á örlögum þeirra hvílíkar afleiðingar það getur haft þegar guði helgaður maður og andleg kona opna sig hvort fyrir öðru án þess að hafa rétt skilyrði til þess. Þeim fannst þau eiga svo margt sameiginlegt, bæði elskuðu þau Guð og þeim fannst kannski bara eðlilegt að þau elskuðu hvort annað !

 

Kannski héldu þau bæði að kynni þeirra hefðu orðið fyrir vilja Guðs. Guð væri að styrkja þau með því að gefa þeim hvort annað. Einhvernveginn urðu þau bæði að trúa því að þau hefðu ekki gert neitt rangt með því að verða elskendur !

 

En Guð leit ekki þannig á málið. Synd var synd og synd hafði vissulega verið framin. Saklausu blóði hafði svo í kjölfarið verið úthellt. Glæpurinn var stór og afleiðingarnar hlutu að verða stórar. Þær urðu líka skelfilegar fyrir hús Davíðs !

 

Mannlegt eðli er löngum varasamt og enn í dag eru sömu hlutir að gerast, – jafnvel meðal guðsmanna. Enn segja menn: ,, Það bara gerðist ”, ,, við drógumst svo að hvort öðru, við vorum svo sameinuð í því andlega, það var eiginlega ekki líkamlegt, ekki eins og það var andlegt !” Þannig er talað en það breytir engu um verknaðinn !

 

Flestir sem drýgja hór hafa alls konar afsakanir á hraðbergi. Það bara gerðist….. segja þeir, en niðurstaðan er í öllum tilfellum sú sama – synd hefur verið framin og ekkert gott getur komið út úr því !

 

Davíð konungur varð mæðumaður sín seinni ár. Sverðið vék ekki frá húsi hans. Syndir hans komu niður á honum eins og drýgðar syndir koma niður á okkur öllum. Guð hlífði ekki Davíð frekar en öðrum við afleiðingum gerða sinna og Davíð var í raun meiri brotamaður en flestir aðrir þar sem honum hafði verið gefið svo mikið að ofan. En hann iðraðist og forhertist ekki. Það breytti miklu fyrir eilíf örlög hans !

 

Þegar við hugsum um Davíð, hjarðsveininn og sálmaskáldið, sem var kallaður til að verða konungur, megum við ekki einblína svo á syndir hans, að við gleymum því að hann hafði margt gott til brunns að bera. Eins er það í raun og veru með okkur öll !

 

Margt þurfum við vafalaust, hvert og eitt, að bæta í breytni okkar, en svo er Guði fyrir að þakka að öll, já, öll, höfum við eitthvað í fari okkar sem Guði er þóknanlegt og það þarf fyrst og fremst að fá að vaxa í hjörtum okkar !

 

Þar er um pundið okkar að ræða, talenturnar okkar, það sem okkur ber öllu öðru fremur að ávaxta í lífi okkar til endadægurs. En gerum við það ?

 

Væri okkur ekki hollast að minnast þess að við tökum ekkert með okkur sem blessun þegar við verðum kölluð burt úr þessum heimi, nema það í okkar lífi sem Guði hefur verið helgað !

 

 


Prump !

 

Til er maður sem virðist fara í stöðuga hringi. Hann hefur eiginlega fyrir furðulega framvindu hlotið völd sem hann virðist enganveginn fær um að höndla og margt hefur því farið úrskeiðis í þeim málum sem hann hefur með að sýsla. Það getur ekki farið framhjá nokkrum manni að það er meira en lítið að !

 

Maðurinn hefur ekki aðeins áreitt hefðbundna andstæðinga heldur og ekki síður gamalgróna bandamenn. Stefna hans virðist fyrst og fremst byggjast á síbreytilegu lýðskrumi sem undirstrikar það einna helst að viðkomandi viti ekki í neinu verka sinna skil !

 

Maðurinn er greinilega farinn að valda miklum usla þar sem síst skyldi, meðal vina og bandamanna. Til hvers fékk hann sín völd, líklega til að vernda það sem hann virðist helst vera að skadda ? Hvernig stendur á því að maðurinn kemst upp með slík skemmdarverk ? Hvað hugsa menn í kringum hann ? Hugsa þeir kannski ekki neitt ?

 

Er þeim alveg sama um orðspor eigin lands og eru þeir reiðubúnir til að fylgja ráðleysingjanum fyrir björg ?

 

Hvernig stendur á því að heilt stjórnkerfi, sem þrátt fyrir allt er byggt á nokkuð traustum grunnhugmyndum, lætur hafa sig út í það að spilla á margvíslegan hátt áratuga gömlum vinsamlegum samskiptum við önnur ríki fyrir tilverknað eins manns sem virðist ekkert vita hvað hann er að gera ?

 

Hvaða augum líta grónir embættismenn og kjörnir fulltrúar eigin ríkisheill ? Er þjónustan bundin einhverju öðru en hún ætti að vera bundin ? Hvaða öryggi er til staðar í kerfinu fyrir almenna borgara ? Eru menn farnir að skíta óvenjulega mikið í skóna sína ?

 

Var það svona sem það byrjaði með ýmsa ógæfuvalda mannkynsins á tuttugustu öldinni, er þeir hundsuðu lög og reglur. Þeir fengu að komast upp með það og voru ekki stöðvaðir í tæka tíð. Fóru að ráðskast með allt og alla ? Enduðu svo með því að fara með þjóð sína í heilu lagi ofan í helvíti mannlegrar eymdar ?

 

Maður sem fer í hringi og viðhefur lýðskrum og sýndarmennsku í hvívetna hefur enga fasta stefnu. Hann gengur á þunnum ís í flestum málum !

Við sjáum það æpa í nánast öllum uppátækjum þessa manns að honum sé ekki treystandi. Hvað ef það brotnar endanlega undan honum, hversu mikill skaði mun fylgja því, fyrir heim sem er á hverfanda hveli með svo margt og má ekki við svona framgöngu manns í lykilstöðu ?

 

Hvar og hvernig endar þetta gengdarlausa sjónarspil sýndarmennskunnar ? Gerir sér nokkur grein fyrir því ? Maðurinn virðist gjörsamlega glórulaus !

 

Allur ferill hans er að verða eitt allsherjar prump !


Ríki í höndum óvita !

 

Byssur eru átrúnaðargoð í bandarísku samfélagi. Jafnvel maður sem veit að hann er að öllu jöfnu mesti ræfill, trúir því að hafi hann byssu í höndum sé hann það ekki lengur heldur allt annað og meira. Þá hafi hann vald og burði til hvers sem er.

Þjóðfélagsandinn virðist hreint út sagt gegnsýrður sannfæringu á aukið manngildi fyrir tilverknað byssueignar. Þvílík reginvilla í hugsun á 21. öld eftir Krists burð !

 

Í Bandaríkjunum skrúfa menn sig enn fasta við skoðanir sem þóttu skiljanlegar á 18. öld. En allar aðstæður eru gjörbreyttar. Það eru engir hefndarþyrstir indíánar við dyrnar núna. Hættan í bandarísku þjóðfélagi nútímans er innandyra. Hún er sköpuð af viðhorfum sem verða til fyrir vaxandi öryggisleysi hvers og eins gagnvart hættulegu umhverfi og vafasömu mannlífi þar sem glæpir eru daglegt brauð í stórum stíl !

 

Í slíku samfélagi telja sýnilega flestir sig þurfa að vera gráa fyrir járnum þar sem enginn ber traust til annars. Og vopnin hlaðast upp á heimilunum, ekki bara venjuleg skotvopn, heldur líka hraðvirkar fjölskotabyssur. Framleidd verkfæri til drápa í miklu magni - fjöldamorða !

 

Og þegar einhver klikkast alveg við þessar afar óheilbrigðu mannlífsaðstæður, sem gerist æ oftar, verða afleiðingarnar oftast þær - að svo og svo margir liggja í valnum ! Og þeir sem hafa þannig verið drepnir með bandarískum heimilistækjum, hafa ekki fallið fyrir neinni utanaðkomandi ógn !

 

Þeir hafa verið skotnir af fjölskyldumeðlim, vini eða nágranna eða bara einhverju firringar-fórnarlambi þess byssu brjálæðis sem fær að drottna í Bandaríkjunum - hinum alræmdu byssudýrkunarríkjum !

 

Gömul sannindi segja, eins og ég hef áður minnst á, að það eigi ekki að leyfa óvitum að hafa í höndum hættulega hluti, hvað þá lífshættulega. Í Bandaríkjunum virðast hinsvegar vera til staðar óvitar í slíkum efnum alla leið upp í Hvíta húsið !

 

Þessir óvitar hafa það í höndum sem þeir kunna ekki með að fara og sem ráðamenn virðast þeir alveg ófærir um að setja lög til varnar borgurum landsins. Þeirra eigið frelsi frá fyrri tíð er sýnilega að tortíma þeim og öllum þeim friði sem þeir ættu að geta búið við, ef þeir kynnu að gæta heilbrigðra lífshátta !

 

Samfélagshugsun í Bandaríkjunum er ekki þróað fyrirbæri þar sem einstaklingshyggjan hefur fengið að drottna í öllum greinum og öllum er innrætt að hver sé sjálfum sér næstur. Lífsfirring við slíkar samfélagsaðstæður er eðlileg afleiðing rangra viðhorfa sem eru miklu nær því að rífa niður en byggja upp !

 

Það þarf víst enginn að vera hissa á því að um 45000 borgarar Bandaríkjanna fremja sjálfsmorð á ári og er sú dánarorsök meðal þeirra tíu algengustu í þessu sjálfskipaða dýrðarlandi frelsisins. Nóg hefur jafnan verið um manndrápin í Bandaríkjunum enda morðtólin alls staðar við hendina, en sjálfsmorðin eru meir en tvöfalt fleiri.

 

Það er sjáanlega svo í augum margra að það sé of áhættusamt orðið að lifa í landinu sem drembilátir Kanar kalla gjarnan Guðs eigið land !

 

Hvað er til ráða ? Hvað getur breytt þessum geðveika hugsunarhætti sem virðist flæðandi um allt stjórnkerfi Bandaríkjanna og gerir þetta stórveldi heimsins að varnarlausu sjálfskaparvíti fyrir borgara landsins, að höfuðvígi heimskunnar, að aðalbraut hins ótakmarkaða byssuvalds ?

 

Það verður að stöðva þennan hugsunarhátt því hann er rangur, hann er hættulegur öllu löglegu valdi og stendur allri eðlilegri framvindu mála fyrir þrifum. Öryggisleysi manna getur orðið svo mikið að hver drepi annan !

 

Rodney King óeirðirnar hafa sýnilega ekki kennt mönnum neitt. Enn er vegið í sama knérunn víðasthvar í Bandaríkjunum og sáð fyrir verri hlutum í komandi tíð.

 

Unga fólkið í Bandaríkjunum er að sjá þetta í gegnum hrylling daganna og vakna til vitundar um þá hættu sem ógnar samfélagi þeirra og allri framtíð. Það segir : Hingað og ekki lengra !

 

En ráðamennirnir, ríkiskerfið, lögreglan, þeir sem völdin hafa, fylgja enn hinum ofbeldissinnuðu sjónarmiðum byssuvaldsins. Þar má ekki hagga við neinu, að þeirra dómi. Þeir segja : ,, Með illu skal illt út reka” og veifa kokhraustir skotvopnum sínum. Sjálfstæðisyfirlýsingin heldur ekki Bandaríkjunum saman að þeirra mati, heldur byssan. Sá sem heldur á byssunni hefur valdið og fær þannig að drepa !

 

Þessir blindu ráðamenn rífa Sjálfstæðisyfirlýsinguna niður á hverjum degi, gera lítið úr vægi hennar, gildisfella hana lið fyrir lið, skilja ekki söguleg sannindi og einskisvirða arfleifð þjóðarinnar. En byssuna hefja þeir til vegs og virðingar í hverju skúmaskoti hinnar amerísku ríkishallar og fylgja hverjum óvitahætti í þeim málum eins og frekast má – í nafni frelsisins !

 

Fórnarlömbunum mun því líklega fjölga enn um sinn, en vonandi heldur unga fólkið baráttu sinni áfram gegn þessum mannskemmandi hugsunarhætti sem ræður og vonandi birtir svo til á næstu árum að 45000 manns hætti að taka sitt eigið líf árlega vegna vonleysis og vantrúar á lifandi framtíð - í ríki sem óvitar stjórna !

 

 

 

 


HE Too byltingin !

 

Það hlýtur nú senn að fara að líða að nýrri samfélags-byltingu, einskonar réttlætisbyltingu til að breyta þeirri eitilhörðu ímynd sem karlmaðurinn hefur alltaf þurft að dröslast með og hefur auðvitað gert honum lífið erfitt og leitt frá fyrstu tíð !

 

Það er löngu kominn tími til að berjast gegn kröfunni um þennan svokallaða karlmennskubrag sem heimtað er að karlinn sýni við allar hugsanlegar aðstæður. Og oftast hafa það nú verið blessaðar konurnar sem hafa - meðvitað eða ómeðvitað - heimtað slíkan brag eða stíl af hans hálfu !

 

Það hefur aldrei virtst skipta neinu máli þótt karlmaður hafi verið mesta tuska á allan hátt. Alltaf hefur hann orðið að axla það hlutskipti að vera þetta ætlaða karlmennskutákn og bera þann kross – oft á veikum herðum. Því skiljanlega mun það hafa verið mörgum manninum þungur kross að eiga að heita karlmaður, en hafa enga burði til þess sem ætlast er til af honum og finna það líklega manna best sjálfur !

 

Sannleikurinn hefur nefnilega býsna oft verið sá, að veruleikinn hefur ekki rímað rétt við þær ímyndir sem reynt hefur verið að halda uppi. Á bak við lítinn og vesallegan karl hefur í býsna mörgum tilfellum staðið stór og stæðileg kona !

 

Já, virkjamikil kona, sem hefur rekið karlinn sinn áfram og krafið hann á ýmsum úrslitastundum um að sýna nú karlmennsku, þó enginn í heiminum ætti að vita betur en hún að hjá honum sé enga karlmennsku að finna. Þar hafi aldrei neitt staðið nema í hálfa stöng og varla það !

 

Og þá er það nú orðin töluverð spurning hvorum megin ofbeldið er, þegar krafist er að karlmenn sýni manndóm sem ekki er til. Reisn manna er nefnilega svo afstæð og mismunandi og sums staðar er hún hreint ekki nein !

Og hverjir skyldu kvarta mest yfir þeim ,,karlmennsku-skorti ?´´

 

He Too bylting gæti vafalaust hjálpað karlmennsku-snauðum karlmönnum heilmikið og jafnvel til sjálfsbjargar, enda ber að líta á það að slíkir karlmenn eru hreint ekki svo fáir og þeim fer líklega hraðfjölgandi í komandi tíð ef fer sem horfir !

 

Allt í nútíma samfélagi leggst á eitt með að rýra karlmennskuna. Konur tala hana niður seint og snemma og þykjast þó vilja henni allt hið besta. Karlmenn sýnast enganveginn vita hvernig þeir eiga að hegða sér, þeir hringsnúast bara og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Allt sem þeir reyna að gera virðist fyrirfram dæmt óboðlegt af einhvers konar hæstarétti femíniskra sjónarmiða og þeim til ævarandi skammar !

 

Svo það þarf greinilega að vinna að því hörðum höndum að opna skilningsrásir kvenna fyrir því að karlmenn eigi einhvern mannlegan rétt, að þeir megi gráta, að það sé ekkert óafsakanlegt þó karlmenn séu ekki alltaf harðir, að karlmenn megi vera mjúkir og jafnvel lingerðir ef því er að skipta. Að karlmaður þurfi bara alls ekki að vera neitt hnefaréttar hótandi hörkutól ef út í það fer - eða hverjir skyldu vilja hafa þá þannig ?

 

Allar götur í mannkynssögunni hafa það verið konur sem hafa argast í körlum og stundað það grimmt að herða þá upp, já, bæði til góðs og ills !

 

Jessabel ráðskaðist seint og snemma með Akab ræfilinn, Guðrún Gjúkadóttir og Brynhildur Buðladóttir voru grimmar í skapi og stjórnuðu yfirlýstum hetjukörlum út og suður, Sesar og Antoníus voru eins og smjör í höndum Kleópötru, Theódóra var miklu harðari í horn að taka en Jústiníanus o.s.frv. o.s.frv. Dæmin eru fleiri en fært er að nefna um sögulegt ofurvald kvenna !

 

Nú gæti einhver sagt : ,, Ja, þú ert þarna bara með einhverjar útlendar kellingar, okkar konur eru allt öðruvísi og miklu mýkri og betri !”

 

Jæja, hvernig voru konurnar hérlendis, til dæmis Guðrún Ósvífursdóttir, Hallgerður langbrók, Þorgerður Egilsdóttir og Þuríður móðir Víga-Barða, svo tekin séu dæmi ? Allt grimmar hörkukellingar sem völtuðu yfir karlpeninginn fram og aftur !

 

Og ef sagt er, þetta eru konur úr löngu liðinni tíð, þær eru allt öðruvísi í nútímanum !

Jæja, þá vil ég spyrja, vantar hörkuna í þær núna, ég held nú síður. Hvernig hefur það verið til dæmis með Jóhönnu Sigurðardóttur, Rannveigu Rist, Ingibjörgu Sólrúnu og Sigríði Á. Andersen, svo einhverjar baráttukonur nútímans séu nefndar. Þær eru að sögn svo harðar af sér að karlmenn þora ekki öðru en að ganga á tánum nálægt þeim !

 

Nú á tímum er mikið talað um víkinga og oftast út frá fjárans karlmennsku-viðmiðinu. En það er alröng viðmiðun því þessir svokölluðu víkingar voru það sem þeir voru eingöngu vegna þess að þeir voru víkingakellinga-kallar !

 

Þeir hunskuðust í víking vegna þess að kellingarnar ráku þá til þess með endalausu kvabbi og nuddi um að það vantaði þetta og hitt. Á hverju átti að reka heimilin, ekki vinnu kallanna, þeir nenntu engu !

 

Það eina sem þeir fengust til að gera var að stela frá öðrum. Og það hafa afkomendur þessara víkinga gert allar götur síðan eins og dæmin sanna. En það voru áreiðanlega kellingarnar sem með endalausum kvörtunum sínum komu þeim af stað í upphafi með ránskapar-ósiðina !

 

Það sést á þessu að það veitir ekki af því að fá einhverja He Too byltingu til að leiðrétta ýmislegt misrétti gagnvart körlum sem hefur lengi verið við lýði, en aldrei hefur verið talað um eða yfir höfuð mátt tala um ?

 

Þeir eru hreint ekki svo fáir karlarnir sem eru eins og innistæðulausir bankareikningar – karlmennskuatgervið bókstaflega ekki neitt og annað eftir því. Og hvaða kona lítur við karli sem er innistæðulaus ?

 

Jafnvel alræmdur útrásarvíkingur sem verður skyndilega  blankur vegna óráðsíu og eyðslusemi hefur ekki mikla kvenhylli, það er nútímahlaðin staðreynd. Víða kreppa karlmennskukröfur kvenna svo að vesælum karlaumingjum að þeir eru nánast með grátstafinn í kverkunum allar stundir, ræfils greyin !

 

Það hefur alltaf legið fyrir að konurnar eru meiri víkingar en karlarnir. Það eru fyrst og fremst þær sem hafa alltaf komið nánast öllu á hreyfingu og af stað. Þær eru hið súpergeníska hreyfiafl í allri sögu mannkynsins !

 

Svo kenna þær körlunum um allt þegar illa fer og þykjast hvergi hafa komið nærri. Þær eru miklu lúmskari en karlarnir og hafa alltaf verið það !

 

Me Too getur auðvitað komið mörgu góðu til leiðar ef rétt er á haldið, en He Too verður líka að fá sitt tækifæri svo þeir karlar geti rétt úr kútnum sem sannarlega eru beygðir. Og af hverju skyldu þeir vera beygðir ? Þeir eru beygðir vegna þess að þeir valda ekki ímynd sem hefur um allar götur Sögunnar verið neydd upp á þá – og af hverjum, mér er spurn ?

 

Ætli það séu ekki fleiri hliðar á sumum málum en látið er í veðri vaka !

 

 

 

 

 

 

 


Nýja útibúið frá íhaldinu !

 

Það ætti nú að fara að verða jafnvel blindum mönnum ljóst að hið villuráfandi Vg er algerlega komið í fulla þjónustu við íhaldið. Sveitarstjórnarkosningarnar sýna að tap þeirra er umtalsvert. Dýr mun forsætisráðherra-stóllinn verða áður en lýkur !

 

Sú var tíðin að Vg var ekki varnaraðili fyrir stórútgerðarvaldið í þessu landi. Íhaldið og Framsókn höfðu verið talin einfær um þá skeiniþjónustu. En nú brunar stjórnarþrenningin fram undir fullum seglum undir forustu Vg, í þeirri siðlausu viðleitni að verja sérréttindin !

 

Vg er nú ömurlegur flokkur undir hæfnislausri forustu Katrínar Jakobsdóttur. Ímynd flokksins er orðin stórlöskuð og ferill formannsins heldur betur skaddaður. Fyrir tveimur árum hefði enginn talið að Kata Kobba ætti eftir að standa að málum eins og hún hefur gert síðan þá. Þvílíkur umsnúningur á manneskjunni !

Þar hefur sannast hið fornkveðna – að lengi má manninn reyna !

 

Það er engin furða þó margt vinstra grænt fólk beri nú höfuð hallt og viti ekki sitt rjúkandi ráð. Ég hef sem betur fer aldrei verið vinstri grænn, en ég hef kosið Vg vegna þess að ég taldi líklegast að með því kysi ég gegn íhaldinu. En hverjum manni er skylt að læra af reynslunni og þau mistök geri ég ekki aftur !

 

Sjaldan hefur yfirlýstur vinstri flokkur sokkið jafn djúpt og Vg gerir nú í siðblindri íhaldsþjónkun sinni. Þar er aðeins hægt að benda á undirlægjuhátt krata við íhaldið eftir stríð og lengi eftir það. Ekki hefði ég haldið að nokkur myndi samsama sig þeirri breytni en veruleikinn sýnir það nú svart á hvítu !

 

Í mínum huga hafa Kata Kobba og Steingrímur J. tekið sér sögulega stöðu við hlið Stefáns Jóhanns, Guðmundar Í og annarra slíkra og eru þar ekki hótinu skárri en þeir voru á sinni tíð. Og leiðum er þar að líkjast !

 

Já, forsætisráðherrastóllinn verður Vg dýr og Kötu líka. Það er þegar orðin söguleg staðreynd. Alltaf undrast maður hvað sumir virðast eiga auðvelt með að fleygja öllum fyrri gildum frá sér fyrir mannlega fordild og framasýki !

 

Getur Vg gengið öllu lengra en orðið er í því að vera pólitískt útibú fyrir íhaldið ?


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 1179
  • Frá upphafi: 316778

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 883
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband