Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019

Um ljós og myrkur í samfélagi manna !

 

Oft er talað um ljós þegar vísað er til mannkærleika, góðsemi og gæsku. Það er mjög skiljanleg viðmiðun og eins þegar hatur, illvilji og öll ódyggð er kennd við myrkur. Í samfélagi okkar verðum við stöðugt vör við áhrif ljóss og myrkurs á líf okkar í gegnum öll samskipti okkar við aðra !

 

Og það segir sig sjálft, að eftir því sem áhrif ljóss og góðra gilda verða meiri því betra verður samfélagið, en andstæðan bætir hvorki samfélagið né nokkurn þann sem reynir að eitra út frá sér með rangsnúnu framferði. Því þarf alltaf að vera á verði fyrir hverjum þeim sem spillir samstöðu og þeim vilja meðal þegna landsins að láta gott af sér leiða !

 

Í seinni tíð hefur borið mikið á stórauknum sérgæðingshætti innan samfélags okkar. Allt virðist vera metið til verðs og peningahyggja fer hamförum. Félagsleg tengsl og fjölskylduleg skaðast iðulega við yfirgang einstaklinga sem virða ekkert nema eigin hag. Traust milli manna fer síminnkandi og allt sem þjónar illum tilgangi virkar sem niðurbrot fyrir samfélagsheildina !

 

Í eina tíð var sagt að lögin endurspegluðu siðferðisstöðuna á hverjum tíma. Það má vel vera að svo hafi verið, en í seinni tíð hefur lagasetning alls ekki virtst endurspegla almenna siðferðisstöðu, enda oft talið að það sé iðulega verið - með ýmsum lagasetningum - að styrkja stöðu einstakra vel megandi hópa innan þjóðfélagsins og þá yfirleitt á kostnað heildarinnar !

 

Miðað við gildi laga, þekkingu á lögum og virðingu fyrir lögum, mætti gefa sér það - að lögfróðir menn og fræðingar á því sviði ættu að vera manna löghlýðnastir. En margir hafa miklar efasemdir um að svo sé. Lögfræðingar virðast geta komið sér í allra handa klandur, þó menntun þeirra ætti að vera þeim viðvörun um hættumörkin og hvað langt megi ganga. Það eitt segir okkur að mikil þekking á lögum er alls ekki einhlít til að leiðbeina mönnum um farsæla og dyggðum prýdda vegi !

 

Sumir virðast einfaldlega þannig gerðir, að þeir vilji nota áunna þekkingu meira til ills en góðs. Það býr sem sagt í þeim meira myrkur en ljós. Og þegar sérfróðir menn í lögum þjóðfélagsins eiga í hlut með slíkum hætti, er ekki hægt að segja að þar sé borin mikil virðing fyrir því sem styrkt getur mannfélagið. Þá virðist menntun þeirra ekki hafa skilað sér til mikils !

 

Þá er öllu heldur til staðar tilhneiging til að misnota annað fólk á grundvelli einhverra yfirburða, kerfislægrar valdastöðu, fjárhagsgetu eða einhvers slíks. Það er vont að heyra af slíkum málum. Yfir þeim er ekkert ljós. Þar er myrkrið eitt til staðar í sálum, einbeittur brotavilji, hroki og forherðing !

 

Samfélags-sáttmálinn gengur út á annað. Hann segir okkur einfaldlega að við eigum samleið meðan við virðum sömu gildi. Þegar við hættum því förum við hvert í sína áttina og samfélagið hættir að vera til sem slíkt. Allt niðurbrotsverk gegn gildum samfélagsins er því liður í því að skapa glundroða og stjórnleysi. Það er ekki hægt að láta slíkt viðgangast !

 

Fólk sem stundar slík niðurbrotsverk verður því að sæta ábyrgð vegna framferðis síns, hvort sem það er löglært eða ekki. Öryggi samfélagsins krefst þess að settar séu skorður við slíku. Þá er ótvírætt um að ræða almannaheill. Enginn einstaklingur má komast upp með það að setja sig ofar lögum og svívirða eðlileg samfélagsleg lög með framferði sínu !

 

Á Íslandi hefur almennt verið litið svo á - að menn eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Því miður eru til ýmis dæmi um annað og kerfisleg tilhneiging virðist oft til staðar með að láta suma fá mjúka sérmeðferð !

Almenningsálitið verður að vera á verði fyrir því að misbeiting af slíku tagi verði ekki stunduð hér og gerist ekki venja. Slík varðstaða hlýtur að vera að öllu leyti í þágu okkar allra !

 

Reynum staðfastlega að auka ljósið í samfélaginu og vísum alfarið öflum myrkurs og meina á bug !


Nokkur hugvekjuorð rétt fyrir jólin !

 

Við sem lifum nú erum afskaplega bundin við það sem er, og eigum flest erfitt með að setja okkur inn í aðstæður í liðnum tíma. Af því leiðir að við erum alltaf að dæma fyrri kynslóðir eftir þeim mælikvarða sem við viljum hafa í gildi í dag. Þeim mælikvarða sem við teljum líklega hinn eina rétta í hofmóði núsins. En það voru aðrir mælikvarðar á hlutunum áður fyrr og verða aðrir mælikvarðar á hlutunum þegar okkar kynslóð er horfin af velli og gleymd að mestu !

 

Þegar náttúruöflin fara sínu fram eins og þau hafa gert að undanförnu, þykir fólki erfitt við það að búa. Þau eru óhamin, fara ekki eftir neinum reglugerðum og beygja sig ekki fyrir neinu valdi. Það er erfitt að reikna þau út, jafnvel á yfirstandandi tölvutímum. Fólki finnst vont við það að una, því það vill hafa frelsi til alls. Grundvallarstef Laodíkeu-tímans er réttindi fólksins, réttindi til hvers sem er !

 

Fólk vill í sjálfsánægju sinni hafa alla sína hentisemi nú á tímum. Það er jafnvel að skemmta sér við að labba ofan í gígum eldfjalla þegar gos hefst. Og þó flestir séu í tali sínu hliðhollir náttúrunni, einkum þó þeirri sem í þeim sjálfum býr, eru þeir ekkert hrifnir af því þegar höfuðnáttúran fer að spila á eigin forsendum og gera þeim lífið leitt. Þá verður fólk ergilegt á alla kanta því vont veðurfar setur því skorður og það vill engar skorður !

 

Eitt sinn var sagt í kvæði, að þegar vellystar-ómenning kæmi að utan með skipakomum, stæði hún helst við í kaupstöðunum, því ef hún færi út fyrir þá – í íslenskt veður – frysi hún í hel. Það var mikið til í þeirri umsögn og nú þegar skipakomur og samgöngur við landið fara helst í gegnum höfuðborgina, segir sig sjálft að það er helsta leið ómenningarinnar inn í landið; eða alls þess sem þyrfti - þjóðarinnar vegna - að fá að frjósa í hel við náttúrulegar íslenskar aðstæður !

 

Af þessum ástæðum stöndum við sem fyrr frammi fyrir þeirri einföldu staðreynd, að íslenskt mannlíf er heilbrigðast til sveita, í dreifbýlinu, þar sem innflutt uppdráttarsýki og arfgeng ómennska hefur enn ekki náð að lama manndóm og framtakssemi einstaklinga og samfélags !

 

Þegar náttúruöflin minna á sig með harðvítugum hætti, er það fyrst og fremst fólkið í sveitunum sem fær að finna fyrir því. Það er jafnan í eldlínunni með bú sín og fénað og þá reynir á. Við höfum fengið að sjá hvað það getur tekið á tilfinningar bænda að þurfa að berjast við það að moka skepnur sínar úr fönn, í þrotlausri viðleitni til að bjarga því sem bjargað verður. Við þéttbýlisfólk þekkjum ekki sambærilegar aðstæður nema að litlu leyti, þetta grimmilega návígi við náttúruna, þegar hún lætur til sín taka og beitir afli sínu !

 

Hvernig skyldi þetta hafa verið á fyrri tímum, þegar harðindi gengu yfir, þegar Lurkar og fimbulvetur gengu hart að þjóðinni, þegar hafísinn lagðist að, sá forni fjandi, sú barátta til lífs og bjargar sem þá var háð ? Hún hlýtur að hafa verið hörð ? Það féllu líka margir, og sennilega væri margt sem þá átti sér stað, talið gagnrýnisvert samkvæmt núgildandi mælikvörðum. En það gilti bara annað þá, ekki linkuleg sjónarmið nútíðarfólks sem aldrei hefur þurft að hafa fyrir hlutunum !

 

Það er ekki lengra síðan en laust eftir 1880, að það kom um það bil sex ára harðindakafli á landinu okkar sem gekk mjög nærri mörgum. Þá hrökk meira að segja kvæðið Volaða land af munni þjóðskáldsins okkar Matthíasar og fjölmargir gerðust vesturfarar, gáfust endanlega upp á lífinu hérlendis. Og síðan hafa stundum komið tímar sem hafa minnt okkur heldur óþægilega á það að náttúran getur verið varasöm og að hún á ennþá til ýmislegt grimmt og harðhnjóskulegt sem við höfum kannski minna mótstöðuafl fyrir nú en löngum áður !

 

Við skulum því jafnan hafa það hugfast, að fólk hefur búið við langtum erfiðari tíma á Íslandi, en nú er hvað náttúruskilyrði varðar, og lifað af. Þessvegna erum við hér í dag. Og við skulum ekki dæma fyrri tíðar fólk of hart eftir mælikvarða nútímans. Það er rangur mælikvarði hvað það snertir. Fyrri kynslóðir háðu sína baráttu á sínum tíma og við megum bæta okkur í öllum samanburði ef við ætlum að standa okkur betur í okkar tíma !

 

Göngum því inn í komandi jólahátíð með þökk í hjarta til þeirra sem hafa á undan okkur gengið um þetta land, og heitum því að reyna að ávaxta okkar manndómspund hvert og eitt, ekki á þeirra kostnað, heldur á eigin forsendum. Ísland þarfnast þess, ekki síður en England, að hver maður geri skyldu sína – við allar aðstæður sem upp kunna að koma !

GLEÐILEG JÓL !

 

 

 

 


Innviðir kerfisins og almannaöryggi ?

 

 

 

Hrunið sýndi okkur svart á hvítu hvernig hálaunaðar eftirlitsstofnanir okkar voru í raun og veru, hvað þær voru í veruleikanum falskar og ábyrgðarlausar. Margt gerðist sem átti ekki að geta gerst ef kerfið virkaði eins og fólki var talin trú um að það gerði !

 

Síðan eru liðin mörg ár og fólki hefur verið sagt að þetta og hitt hafi verið lagað, en hefur það verið lagað ? Hvernig á að trúa og treysta yfirvöldum þegar traustið er ekki lengur fyrir hendi ?

 

Og núna kemur veðurhvellur ! Ekkert meiri en stundum hefur komið áður. Hinsvegar var óveðrið mun víðtækara, náði svo til um allt landið. Og hvað kemur þá í ljós ? Kerfið þolir ekki þennan eina hvell sem stóð þó í tiltölulega skamman tíma. Rafmagnskerfið klikkar og þar með allt samband þar og hér.

 

Frá hreinu öryggis-sjónarmiði er þetta alls ekki ásættanlegt og segir okkur enn einu sinni að hlutir sem taldir voru í lagi voru það alls ekki og illa haldið utan um heildar-skipulagið !

 

Varaafl reynist ekki fyrir hendi sumsstaðar, virðist hafa verið fjarlægt eða selt, eða að sumra sögn, ekki verið gert klárt til notkunar. Brotalamir í öryggisnetinu virðast hreint ekki fáar.

Margir aðilar skipta kerfinu í einhverjum hlutföllum á milli sín og enginn virðist ábyrgur þegar á heildina er litið. Handahófslausnir virðast svo gripnar upp úr þurru þegar allt er komið í þrot !

Varðskip sem á náttúrulega að vera til staðar fyrir aðrar neyðar-skyldur, er til dæmis látið vera rafmagnsstöð fyrir stórt bæjarfélag svo dögum skiptir !

 

Það sem stóð sig fyrst og fremst við þessar aðstæður og stendur sig alltaf er björgunarsveita-fyrirkomulagið okkar. Þar voru dáðir drýgðar sem löngum fyrr. Án þeirra sveita veit ég satt að segja ekki hvar við værum eiginlega stödd í þessu landi ?

 

Maður hugsar með sér : Hvað kemur í ljós ef Katla fer að gjósa ? Fer þá allt í handaskolum og þar með einhver mannslíf ? Hvað ef meiriháttar Heklugos dynur á, er einhver viðbragsáætlun æfð og reynd og klár varðandi það ?

 

Hvað ef meiriháttar eldgos yrði á Reykjaness-skaganum eða jarðskjálfti af yfirstærð á höfuðborgarsvæðinu ? Það getur margt gerst í þessu landi og tæknin hjálpar okkur ekki mikið ef hún dettur öll út á örlagastundu ?

 

Nú verður að taka þessi mál föstum tökum. Öryggiskerfi landsmanna á ekki og má ekki fara eftir einhverri helmingaskiptareglu milli einkaaðila og ríkisins, þar sem samhæfð og ábyrg yfirstjórn virðist ekki vera fyrir hendi. Það er sama ógæfuferlið og er að rústa heilbrigðiskerfinu !

 

Þetta öryggiskerfi verður að vera í höndum Ríkisins og Ríkið verður að vera ábyrgt í heild fyrir lífsheill þjóðarinnar og geta sýnt með trúverðugum hætti að það sé hægt að treysta því til þess að standa þar viðunandi á verði !


1OO ár frá fjöldamorðunum í Amritsar !

 

13. apríl á þessu ári voru hundrað ár liðin frá því að Bretar frömdu fjöldamorð á Indverjum í Amritsar á Indlandi. Umrædd fjöldamorð eru líka oft kennd við Jallianwala Bagh. Friðsamur mótmælafundur gegn yfirráðum Breta var í gangi í almenningsgarði og nokkur þúsund manns höfðu safnast þar saman til að hlýða á ræðumenn !

 

Þarna voru samankomnir almennir borgarar, sem áttu sér einskis ills von, en það var illt í aðsigi og það kom fljótt í ljós að níðingur var í nánd.

Breski hershöfðinginn Reginald Dwyer kom á vettvang með herlið. Hann hafði með sér vélbyssuvagna en götur að garðinum voru svo þröngar, að hann gat ekki komið þeim við. En hann lét loka leiðum að svæðinu og hermenn sína hefja skothríð á mannfjöldann án nokkurrar viðvörunar !

 

Eftir um það bil 10 mínútna stanslausa skothríð á varnarlaust fólkið voru hermennirnir orðnir svo til skotfæralausir, enda búið að skjóta að talið er um 1650 skotum. Tala fórnarlamba var talin samkvæmt breskum heimildum 379, en indverskar heimildir segja um 1000 manns hafi fallið og þar að auki nokkur hundruð særst, sumir af þeim mjög illa. Meðal fórnarlambanna voru sögð yfir 40 börn, þar af eitt aðeins 6 vikna gamalt !

 

Dyer hershöfðingi varð auðvitað hetja í augum sinna líka og þar með efri deildar breska þingsins, en gerðir hans voru hinsvegar gagnrýndar mjög í neðri deild. Herbert Asquith fyrrverandi forsætisráðherra og Winston Churchill þáverandi hermálaráðherra fordæmdu atburðinn. Báðir tóku þar kröftuglega til orða !

 

Rithöfundurinn frægi og Nóbelsverðlauna-hafinn Rudyard Kipling, sem fæddur var á Indlandi og lifði þar sín fyrstu ár, sagði hinsvegar að Dyer hefði gert skyldu sína eins og hann sá hana. Kipling hefur líklega talið fjöldamorðin hluta af því sem hann kallaði byrði hvíta mannsins, en það var einhverskonar fegrunar-útfærsla hans af óboðlegu framferði nýlenduveldanna á sínum tíma !

 

Rabindranah Tagore, hinum indverska Nóbels-verðlaunahafa, var aftur á móti gjörsamlega misboðið. Hann skilaði riddaratign sinni aftur til breskra yfirvalda með þeim ummælum ,,að slíkir fjölda-morðingjar væru ekki hæfir til að veita öðrum neina titla eða virðingarheiti !”

 

Eftir fjöldamorðin voru sett herlög á svæðinu og yfirmenn Dyers virtust fullkomlega sáttir við þennan verknað hans. Hann hlaut hinsvegar heitið “Slátrarinn frá Amritsar” meðal Indverja. Bresk stjórnvöld reyndu í fyrstu að hindra fréttir af atburðinum en það var náttúrulega engin leið og ekki hægt að þagga niður slíkan glæp !

 

Rannsóknarnefnd var því sett á laggirnar og Dyer hershöfðingi var kallaður fyrir hana. Hann var spurður hvort hann hefði notað vélbyssurnar ef hann hefði komið vögnunum við ? Jú, hann taldi að hann hefði gert það. Myndi það ekki hafa þýtt að töluvert fleiri hefðu fallið, var hann þá spurður ? Hann gerði ráð fyrir því !

 

Rétt er að minna á að þessi atburður gerist rétt eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og virðist sem lítill lærdómur hafi skilað sér til sumra manna eftir morðæðið á þeim árum. Dyer hershöfðingi var heldur ekki ákærður fyrir morð eða dreginn fyrir herrétt. Hann var bara sendur heim og þar lést hann óáreittur árið 1927 án þess að hafa sýnt nokkra iðrun !

 

Sum bresk blöð á hægri kantinum lýstu honum þá sem hetju, en hið frjálslynda blað Westminster Gazette sagði þá : ,, Enginn einn atburður í gjörvallri sögu okkar á Indlandi hefur greitt trausti Indverja á breskri réttvísi eins þungt högg og fjöldamorðin í Amritsar !”

 

Afleiðingar fjöldamorðanna urðu gífurlegar og fjöldi Indverja, sem áður höfðu verið hlutlausir eða jafnvel hlynntir Bretum, snerust gegn þeim og krafan um að Bretar hypjuðu sig burt fékk stóraukinn slagkraft !

 

Gandhi tók það skýrt fram að þessi glæpur sýndi meðal annars hvað breska yfirstjórnin í Indlandi væri fjarri því að standa þar á heilbrigðum grundvelli. Það eina rétta sem Bretar gætu gert væri að koma sér burt !

 

Margt væri hægt að segja fleira um þennan ógnaratburð, en hér skal staðar numið. En fjöldamorð þessi eru enganveginn eina hryðjuverkið sem Bretar unnu meðan þeir komust upp með að deila og drottna í hinum fjölmörgu nýlendum sínum víða um heim. Sú saga er enn óskrifuð að mestu !

 

Enn í dag hafa bresk stjórnvöld ekki beðist opinberlega afsökunar á því sem gerðist í Amritsar, frekar en Tyrkir á meðferðinni á Armenum. Ekki hefur heldur virst vera mikill áhugi meðal vestrænna sagnfræðinga að rekja umrædda sögu. Það er líklega illa borgað fyrir slíkt !

 

 

 

 

 

 

 


Um hernám hugvana ginningar !

 

 

Sumir menn virðast þannig gerðir, að það er alveg sama hvað lærðir þeir verða á skólavísu, þeir koma alltaf fyrir eins og sérstök dæmi um þröngsýni og í sumum tilfellum getur sú þröngsýni komið fram með yfirþyrmandi hætti í bókstaflega öllum athöfnum viðkomandi einstaklinga !

 

Sem betur fer eru slík öfgatilfelli ekki beint algeng, en hver sem kynnist einu slíku tilfelli mun fljótt komast á þá skoðun, að það sé heppilegast á heimsvísu að þau séu sem allra fæst !

 

Eitt af því sem afhjúpar einna helst þröngsýni slíkra manna sem hér um ræðir, er að þeir aðhyllast ungir að árum einhverja kenningafræði. Hún heltekur þá síðan svo að ekkert annað kemst að í huga þeirra. Þeir verða nánast það sem sumir vilja kalla andsetnir !

 

Þegar svo er komið, nota þeir allt til þess að halda fram átrúnaðar-kenningunni, þeir sníða allt að henni, ekki síst aukna menntun og allar lærdómsgráður sem þeir mögulega komast yfir. Það verður allt að þráhyggju kenningarinnar hjá þeim. Þeir ná því ekki á nokkurn hátt að lifa eðlilegu lífi !

 

Þeir koma sér upp fræðilegum átrúnaðargoðum, sem verða á stalli í hugarheimi þeirra meðan öndin þöktir í vitum þeirra. Þeir ferðast þannig á einhjóli þröngsýninnar í gegnum allt lífið. Slíkir menn verða auðvitað seint frjálsir í hugsun, jafnvel þó þeir kunni að vilja kenna sig við frjálshyggju !

 

Það er í raun og veru hægt að líta á slíka innan gæsalappa fræðinga sem afar brjóstumkennanleg grey. Jafnvel þótt þeir belgi sig yfirleitt upp með miklum lærdómshroka, er viðtekin venja að lítið mark er tekið á þeim. Þeir loka sig af með þreytandi þráhyggju sinni. Flestir reyna að sneyða hjá þeim, svo þeir eru oftast einir sér á sjálfskapaðri eyðimerkurgöngu !

 

Á Íslandi geta eflaust verið nokkrir menn af þessu tagi, en það er kannski aðeins einn sem er verulega þekktur sem slíkur. Og hann er trúlega að margra mati samnefnari fyrir allt það sem sagt er hér að framan. Og eins og margir munu vita, á hann sín átrúnaðargoð og þau eru vafalítið bókuð og stimpluð í sál hans og sinni fyrir lífstíð !

 

Það eina sem slíkir menn geta hugsanlega kennt öðrum og þá líklega helst ómeðvitað, er að það þurfi að umgangast öll kenningakerfi með mikilli varúð, svo menn týni sér ekki alfarið inni í myrkviði þeirra, sjálfum sér og öðrum til meins og mæðu. Þeir eru nefnilega lifandi dæmi um það hvernig þá fer og það eru örlög sem allir ættu að forðast !

 

 


ALLT LÍF !

 

 

 

Allt líf, allt líf, er örskot eitt sem blekkir

og aldrei getur drýgra ferli sótt.

Því tímans hraðflug öllu ótt þar drekkir

og alla sogar niður býsna fljótt.

Það sýnist varla taka því að tóra

og tæpast vera í því nokkur glóra !

 

Allt líf, allt líf, með vindi fer og feykist

og finnst ei meir þá stund þess komin er.

Hver styrkur óðar fyrr en varir veikist

og veröldin þess merki í öllu ber.

Menn heilsast enn og vilja vini gleðja

en verða eftir skamma stund að kveðja !

 

Allt líf, allt líf, er brot af stuttu striki

sem strokast burt og því fær ekkert breytt.

Það er ei meira en ögn af augnabliki

sem eyðist strax og verður ekki neitt.

Og þó menn sjái hvergi neinar nauðir,

á næstu stund þeir eru kannski dauðir !

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 116
  • Sl. sólarhring: 302
  • Sl. viku: 1137
  • Frá upphafi: 309831

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 969
  • Gestir í dag: 103
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband