Leita í fréttum mbl.is

Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?

 

Íslenskar samsteypustjórnir hafa löngum fengið það orð á sig, að þar hafi einhver aðilinn að samstarfinu verið svona fyrst og fremst til uppfyllingar varðandi þing-mannatölu og meirihlutatryggingu á alþingi. Menn geta velt því fyrir sér hver kunni að vera í því hlutverki í þeirri ríkisstjórn sem nú hefur sest í valda-stólana ?

 

Fyrr á árum var sjálfstæðisflokkurinn, í krafti stærðar sinnar, eins og eitruð planta fyrir alla samstarfsflokka. Hann bólgnaði út við að hafa ríkisstjórnar-valdið en samstarfsflokkarnir minnkuðu að sama skapi. Þeir urðu yfirleitt alltaf ósköp leiðitamir við íhaldið og urðu svo að gjalda fyrir það. En nú er margt breytt í pólitískum efnum og flestar fyrri stefnufestustoðir orðnar í lausara lagi og undirstöðujarðvegurinn lítið annað en sandur !

 

Hið fasta flokksfylgi fyrri ára er liðin tíð og nú virðist nánast allt kjörfylgi vera á fleygiferð í samfélaginu, líklega eftir því hver er talinn bjóða best. Þjóðin virðist að margra mati verða stöðugt tækifæris-sinnaðri og opnari fyrir markaðslegum tilboðum. Gamli Framsóknarflokkurinn virðist til dæmis ekki sérlega markaðshæfur tilboðsgjafi lengur. Hann er orðinn litli flokkurinn á þingi og líklegur til að verða það áfram uns hann dettur þar út endanlega sem leifar frá liðinni tíð !

 

Íhaldið í landinu er hinsvegar orðið þrískipt fyrirbæri. Það er hið ættar-tengda, bláa íhald í gamla sjálf-stæðisflokknum sem svo lengi réð þar öllu, en nú er flokkurinn varla lengur helmingur þess sem hann var og íhaldið þar því svipur hjá sjón !

 

Svo er verslunar og Brusselþjónkunar-íhaldið, sem virðist mjög sérhagsmuna-drifið klofningslið úr sjálfstæðisflokknum og talið raungerast í óþjóðleika sínum í öfugmælinu viðreisn, og svo virðist nýtt, sennilega nokkuð þjóðlegt íhald í gömlu gervi, vera að rísa á legg og vinna sér stöðu, í svonefndum Miðflokki !

 

Í samanlagðri þingmannatölu þessara flokka felst svo nærri því meirihluti á þingi í þrískiptu íhaldsfylgi og kannski gætum við átt eftir í náinni framtíð að sjá slíka samstjórn sem hægrisinnað bölvunarvald gagnvart almannaheillum í þessu landi ?

 

Vinstri grænir voru síðasta samstarfslið sjálfstæðisflokksins, sem var líklega að flestra mati, herleitt af honum til óhæfuverka gegn almennum þjóðar-hagsmunum. Íhaldið fékk sýnilega í gegnum þá samninga þá stöðu, að margra hyggju, að fá að rótast um í ríkisfjármálum að vild, gegn því að tiltekin manneskja fengi að vera forsætisráðherra. Sú pólitíska herleiðing stóð að mestu í sjö ár og henni lauk með því að Vond og glórulaus íhaldsundirlægja þurrkaðist út af þingi, vegna þjóðlegrar andstöðu, og það - að nánast almennu áliti - með skömm !

 

Flokkur fólksins þarf að vera vel á verði. Hann má ekki láta nota sig til neinna ranglætisverka gegn fólkinu í landinu. Ef hann ætlar að vera varnarvirki fyrir almannahagsmuni, verður hann í það minnsta að gera sér grein fyrir að hann er kominn í stjórnarsamstarf sem býður ýmsum hættum heim og það er staðreynd !

 

Einkum vegna þess að félagsskapurinn hlýtur að teljast vafasamur, svo ekki sé meira sagt. Stefnulegur ágreiningur getur auðveldlega komið upp og þá líklega helst milli Flokks fólksins og hinna tveggja. Og það er söguleg staðreynd að þegar valkyrjur fara í hár saman er sjaldnast von á góðu. Vond og glórulaus örlög ættu vissulega að geta hrætt í hverju því samstarfi sem er kannski ekki að fullu byggt á þeim heilindum sem þyrftu að búa að baki, svo vel fari !


Bloggfærslur 3. janúar 2025

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 88
  • Sl. sólarhring: 242
  • Sl. viku: 1254
  • Frá upphafi: 363746

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1090
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband