Leita í fréttum mbl.is

,,Nýja Kalmarsambandið“ og glóruleysisgangan !

 

 

 

 

Við Íslendingar erum nokkuð sérstök þjóð þó við teljumst til örþjóða. Það finna meira að segja ýmsir aðrir en við sjálfir og löngum er margt hjalað um landann, bæði innanlands og erlendis. Stærstur hlutinn af því afþreyingar málæði er náttúrulega hégóminn einber, en eitthvað verður fólk að hafa fyrir stafni og aldrei getur allt af því verið vitlegt sem þá er gripið til. Sumir segja ,, betra er illt að gera en ekkert“ en ekki er ég nú sammála þeirri speki og vísa henni til sinna vafasömu föðurhúsa !

 

En sem sagt, við Íslendingar erum sannar-lega með réttu örþjóð, þó minnimáttar-kenndin hafi – svona af og til í það minnsta, – smitað okkur af andstæðunni sem er auðvitað stórmennsku-brjálæði. Við ætlum oft að sigra heiminn, reyndum það jafnvel í eitt sinn í fjármálasnilli, sem reyndist svo bara botnlaus lántaka ófyrirleitinna skólastráka í innlendum og erlendum bönkum. En jafnvel forseti lýðveldisins trúði á þá snilli og sagði þar margt ókomið enn. Og einn ráðherra, sem enn dansar á valdagólfinu, úthúðaði dönskum manni sem var gagnrýninn á snilldina, en sá var nú bara raunsær eins og Dönum var oftast tamt að vera !

 

Á síðustu árum höfum við svo með stórmennskubrjálæðislegum töktum blandað okkur inn í stórveldaslaginn og lagt þar líklega af mörkum ófáa milljarðana til vígreifra vopnakaupa og annarra hernaðar-þarfa, að sögn fyrir lýðræðið í heiminum. Við sönnuðum þar rétt einu sinni, að við erum voldugusta smáþjóð í heimi, en að vísu á öfugum nótum !

 

Við stofnuðum líka nýlega til sérstaks innviðaráðuneytis, sennilega vegna þess að helstu innviðir okkar voru þá að hrynja og eru það enn. Vegakerfið er gatslitið vegna ofkeyrslu, heilbrigðiskerfið á hliðinni og alls staðar vantar peninga til að berja í brestina. Þar að auki er Nató skattheimtan orðin nokkuð íþyngjandi fyrir ríkishaginn, jafnvel fyrir örþjóðar-stórveldi af okkar einstöku gerð. En íslenskur mikilleikur er auðvitað sem fyrr verulega afstæður og að auki stærð-fræðilega óútreiknanlegur !

 

Eftir nokkra daga tekur Donald Trump við völdum í Bandaríkjunum og fyrirrennarinn fer líklega á elliheimilið þar sem hann hefði átt að vera síðustu árin, ef allt hefði verið samkvæmt náttúrulegum niður-stöðum. En hvað kemur til með að gerast við þessi merkilegu tímamót ? Þeir sem hafa trúað því statt og stöðugt allt fram að þessu, að Trump væri ofurmenni, verða fljótt fyrir herfilegum vonbrigðum og Ísland verður líklega að senda sérsveitarlegan viðreisnar-herafla til Úkraínu !

 

Norðurlöndin, sem virðast öll komin í hamslausan hergír, þurfa sennilega þegar á heildina er litið, að vígbúa þegar í stað 75 - 100 fullmannaðar herdeildir, og senda þær sömu nauðbjargarleiðina til frelsunar lýðræðinu, í hinni lýðræðislausu Úkraínu. Þar með getur Nató trúlega andað léttar, vitandi að hörðustu mál dagsins, stríðsmálin sjálf, eru komin í sterkari hendur. Kalmarsamband nútímans virðist nefnilega gengið til öruggrar forustu til varnar allri hinni gífurlegu stjórnmála-spillingu í Vestur-Evrópu, jafnt í Úkraínu sem Brussel !

 

Sennilega á svo að taka norræna sigurstefnu, beint frá Kursk inn á mitt Rauða torgið í Moskvu, þar sem Selenski verður líkast til hylltur af nýja Kalmarsambandinu, í svipuðum stíl og þær Kata og Kolla hylltu hann í Kiyv fyrir ekki svo löngu. Eða er ekki svo ?

 

Nei, því miður, það gerist víst ekki, draumsýnir eiga ekki samleið með neinum veruleika, jafnvel ekki norrænar draum-sýnir. Og auðvitað er það alfarið bölvuðum Rússunum að kenna eins og allt annað. Jafnvel nýja Kalmarsambandið er - satt best að segja – skelfilega hrætt við mannætur Moskvuvaldsins, og þá svakalegu hervæðingu sem sögð er komin á fullt í Rússlandi á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn !

 

Hernaðaruppfærslutíðindin að austan geta þannig jafnvel hrist móðinn úr voldugustu smáþjóð í heimi, sem ætlaði sér víst fyrir tiltölulega skömmu að trekkja upp gangverkið í Bandera-klúbbnum í Kiyv. Já, og það bara fyrir atbeina funandi forseta-faðmlaga tveggja topp-píu-glansnúmera frá örþjóðar-eyríki norðurhjarans. Og nýlega hefur enn ein topp-pían frá Íslandi og líklega ein af nákvæmlega sama tagi, flogið út til að endurnýja faðmlögin við hina lýðræðislausu ráðamenn í Kiyv !

 

Og í ljósi allrar þeirrar vitleysu sem í gangi er og illrar meðferðar á íslenskum þjóðarfjármunum, er skiljanlega hreint ekki svo galið af einföldum Íslendingi að spyrja :

Erum við Íslendingar ekki farnir að spila okkur á öfugum nótum út úr allri lifandi músík heimsbyggðarinnar, og farnir að þrautspila þungarokks fantasíuna sem kann að vera undanfari endanlegrar brot-lendingar íslensku þjóðarinnar og íslenskra þjóðarhagsmuna, í gegnum brunandi hraðferð, niður á við, beint á ónefndan ógæfustað ?

 

 

 


Bloggfærslur 9. janúar 2025

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 18
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 1301
  • Frá upphafi: 364086

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1149
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband