Leita í fréttum mbl.is

Saga síðustu 80 ára : Litið yfir svið þar sem lítið er um frið !

 

 

 

 

Það er nú enn svo árið 2025, að Bandaríkjamenn eru eina þjóðin sem hefur varpað kjarnorkusprengjum á aðra þjóð og annað fólk. Og það vita allir sem eitthvað vilja vita, að það var ekki gert af neinni brýnni hernaðarnauðsyn, heldur fyrst og fremst mikilli forvitni og löngun til að prófa nýtt vopn. Og jafnframt átti víst að undirstrika rækilega ætlaða yfirburði í hernaðarlegum samanburði við aðrar þjóðir og þá kannski sérstaklega Sovétríkin. Með þessum villimannlegu sprengjuárásum hófu Bandaríkin í raun og veru Kalda stríðið sem merkti svo afgerandi komandi tíma !

 

Eisenhower forseti sá ástæðu til að taka það síðar fram, að kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki hefðu ekki þurft að koma til. Japanar hefðu verið búnir að vera. En Trumanstjórnin vildi óð og uppvæg prófa nýja vopnið áður en stríðinu lyki, og ekki virðist hafa verið horft neitt í það, að það myndi þýða fórnarlömb í hundraða þúsunda tali og það almenna borgara. Auk þess munu Bandaríkin þegar til kom, ekki hafa viljað fá Sovétmenn inn í Japan að norðan, þó þau hefðu farið fram á þátttöku þeirra á Potsdam-ráðstefnunni í því að ganga frá Japönum að fullu !

 

Þó að það kunni að styttast í það að veröldin fari að kynnast átökum milli kjarnorkuvelda, er það þó - sem fyrr segir - alkunn staðreynd, að aðeins ein þjóð hefur gerst sek um hinn viðbjóðslega fyrrnefnda mannkynsglæp. Og það er sú þjóð sem hefur lengstum notið þess að henni hefur verið fyrirgefið margfalt meira en öðrum þjóðum, þó hún hafi sjaldnast látið í ljós iðrun og eftirsjá fyrir hræðilega glæpi sína um víða veröld. Stundum er mikil þörf á því að stilla framvindu mála upp með öðrum hætti en varð, til að hugleiða hvernig þá kynni að hafa verið tekið á málum ?

 

Segjum til dæmis, að Sovétríkin hefðu varpað kjarnorkusprengjum á eitthvert ríki eftir að þau voru komin með helsprengjur í sitt vopnabúr ? Það er ekki nokkur efi í mínum huga, að fordæmingaraldan um heim allan hefði þá orðið gífurleg og margfalt meiri en hún varð gagnvart kjarnorkuárásum Banda-ríkjamanna á Japan. Þar hefði ekki verið neinu saman að jafna. En nú er sú sögulega staðreynd öllum ljós, að Sovét-ríkin vörpuðu ekki kjarnorkusprengjum á önnur ríki og munu heldur ekki verða til þess héðan af og verða sem slík því varla fordæmd á heimsvísu fyrir það !

 

En það er jafnljóst að kjarnorkuveldum fjölgar, og Bandaríkin geta ekki með nokkrum réttlætanlegum hætti staðið í vegi fyrir því að aðrar þjóðir eignist þau vopn sem þau hafa lengi notað til að ógna öðrum þjóðum. Þau eiga kjarnorkuvopn, þau hafa notað kjarnorkuvopn gegn fólki og engin rök eru fyrir því að þau muni ekki gera það aftur !

 

Bandaríkin eru því enganveginn vörn heimsins gegn kjarnorkustyrjöld, þau eru miklu frekar líkleg til að valda því að slík átök kunni að brjótast út og geti brotist út. Það sem einu sinni hefur gerst, getur gerst aftur. Bandaríkjamenn hafa einir þjóða framið þennan höfuðglæp og Sagan undirstrikar því ábyrgðarleysi þeirra, umfram ábyrgðarleysi annarra, í meðferð gjöreyðingarvopna !

 

Allar líkur eru á því að eitt af því sem á að hjálpa til við að gera Ameríku mikla aftur, séu kjarnorkuvopn Bandaríkjanna. Það eitt eykur ekki svo lítið á þá hættu sem stafað getur af slíkum vopnum í vopnabúri Bandaríkjanna fyrir allt mann-kynið. Það væri svo sem eftir mörgu öðru í þessum heimi okkar, að það ríki sem hefur talið sig öllum ríkjum fremur hafa getað talað í nafni frelsis og manndáða, yrði til þess að lokum að tortíma veröldinni í geðveikislegri tilraun sinni til að endurheimta fyrri heimsveldisstöðu sína. Það yrði þá mesta misnotkun frelsisins frá upphafi vega og hver veit nema það verði einmitt hin endanlega niðurstaða !

 

Heimurinn er meira og minna í báli og hefur lengi verið það. Stórveldin hafa alla tíð skapað þar mestu hættuna. Sú hætta færist nær, enda virðist fátt vera gert til að hamla því að allt fari endanlega í kaldakol og það á heimsvísu. Leiðtogar heimsins virðast flestir afar vanburða væflur og sérstaklega þó þeir evrópsku. Sagði ekki Albert Schweitzer: ,,Maðurinn hefur glatað hæfileikanum til að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna. Að lokum mun hann tortíma jörðinni !“

 

Í Evrópu mun ófriðarsprengingin mikla að öllum líkindum verða að veruleika og þriðju heimsstyrjöldinni þar með verða startað. Þá verður ógæfa alls heimsins fullkomnuð í óstöðvandi kjarnorkublossum hins endanlega hruns og hvorki Ameríka né veröldin yfir höfuð geta orðið mikil aftur. Þá verður líklega öllum dyrum lokað nema dyrum helvítis !

 


Bloggfærslur 19. ágúst 2025

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.8.): 58
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 1047
  • Frá upphafi: 394101

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 899
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband