Leita í fréttum mbl.is

Sérfræðingasúpan – ,,naglasúpa allsnægtanna“ !

 

 

Alltaf erum við Íslendingar að eignast sérfræðinga á nýjum sviðum. Og það virðist ekki skipta neinu máli þó sérfræði-þekkingin sé á einhverju því sviði sem gagnast þjóðinni lítið sem ekkert. Við verðum samt að hafa sérfræðinga á fullum launum á sem flestum sviðum ef eitthvað kemur upp á, fullyrða sérfræðingar umræðunnar. Hvað skyldu annars laun sérfræðinga vera á nauðsynlegum sviðum á Íslandi í dag ?

 

Við vitum að við eigum nú slatta af náttúruvársérfræðingum, enda stöðugt kynntir nýir slíkir til sögunnar í gegnum veðurfréttir. Sumir í þeim hópi virðast reyndar vera svo ungir, að maður gæti haldið að þeir væru varla nema um 40 kíló, að meðtalinni skólatöskunni. En allt er þetta unga fólk sagt vera sprengfullt af sérfræðiþekkingu og gráðurnar allt í kring. Nýverið heyrði ég til dæmis að við værum búin að eignast skriðufalla-sérfræðing og sjálfsagt er Veðurstofan búin að ráða hann til starfa vegna öryggishagsmuna þjóðarinnar og skriðu-fallavarnardeild ríkisins hlýtur að vera á næsta leiti í kerfinu sem björgunarlegt varnarlið !

 

Og í gegnum allt þetta ferli er okkur almennum borgurum talin trú um að samfélagið sé alltaf að batna, alltaf að verða öruggara og innviðir hér séu með því besta sem gerist. Líklega með hliðsjón af höfðatölu. Þjóðin sé þannig pökkuð inn í öryggishlíf sem geti ekki bilað og öllu sé þar tryggilega fyrir komið. Og þar til næsta brotalöm kynnir sig, jafnvel með háum hvelli, halda allir að öll mál séu hér í frábæru og fullkomnu lagi. Allt í höndum hálærðra og hálaunaðra sérfræðinga, sem sjái til þess upp á hvern dag, að öllu sé til skila haldið í öryggismálum hinnar ómetanlegu íslensku þjóðarheildar !

 

Og sérfróðu lærdómsstéttunum fjölgar og gráðurnar stíga dans í fullum takti við efnalegt tekjustig og hagsmunalegt öryggi sjálfra sérfræðinganna, jafnvel þó menntun þeirra hafi í raun lítið sem ekkert vægi gagnvart því öryggisneti sem þjóðin er talin þurfa að búa við. Allir eru sagðir verða að fá að njóta menntunar sinnar með sjálfstæðum hætti og eiga rétt á að fá vinnu í kerfinu í samræmi við sína sérfræðiþekkingu, þó stundum megi segja að viðkomandi þekking komi landi og þjóð lítið við og kannski ekkert - eða ætlum við að ganga fyrir björg í þessum efnum ?

 

Þá hljóta sérfræðingar að flæða fram í nánast öllu. Þá munu sérfræðingar í sérfræðimálum koma fram, útsýnis-sérfræðingar sem segi fólki hvar bestu útsýnisstaðir landsins séu og hvað þeir bjóði best upp á, menningarvalkosta-sérfræðingar, sem kenni fólki að krjúpa fyrir menningarlegum verðmætum, einkum þeim sem ráðandi elítur mæla með, innrifegurðarsérfræðingar sem bjarga ófríðu fólki frá örvæntingu með því að greina hvað það sé í raun fallegt hið innra, o.s.frv.o.s.frv. !

 

Og svo eru allir sérfræðingarnir sem líklega ætti að vera hægt að fara að framleiða í ótölulegu magni í gegnum hin fjölmörgu kyn, sem verið er að telja okkur trú um að séu fyrir hendi innan mannkynsins, sem á víst allt að fara að verða hinsegin að kröfu sumra. Gróskan í þeim möguleikum getur vafalítið orðið ólýsanlega mikill hafsjór innan skamms, sem kannski á eftir að drekkja okkur öllum með tíð og tíma ef fer sem horfir !

 

Af þessu má sjá að það er engin hætta á því að það verði einhver sérfræðingaþurrð í landinu á komandi tíð. Og almenningur verður svo auðvitað að skilja það, að fólk sem hefur menntað sig - pung eða píkusveitt - sem sérfræðingar, verður að hafa þokkalegt kaup þegar það kemur til starfa - eftir allt menntunarbaslið, sem sagt er að hafi verið – að sjálfsögðu - í þágu lands og þjóðar !

 

Það bendir þannig allt til þess að Íslendingar fari að einhenda sér inn í virkilega áhugaverða atvinnulífs byltingu, þar sem allir verða smám saman hérmegin eða hinsegin sérfræðingar í hver öðrum. Menn hætta að veiða fisk, stunda landbúnað og smíða þetta og hitt. Þjóðfélagið allt verður gert að inngrónu sérfræðinga-súpuveldi þar sem allir koma til með að lifa á öllum – á góðu kaupi, hvaðan svo sem peningarnir eiga að koma – fyrir allri vitleysunni !!!!!!!

 

 


Bloggfærslur 10. september 2025

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 128
  • Sl. sólarhring: 141
  • Sl. viku: 1279
  • Frá upphafi: 397282

Annað

  • Innlit í dag: 123
  • Innlit sl. viku: 1154
  • Gestir í dag: 121
  • IP-tölur í dag: 120

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband