Leita í fréttum mbl.is

Margt er skrítið málum í / margir hafa orð á því. Andann sem er óhollur / ekki bætir Glókollur !

Undarleg hafa vinnubrögð forustumanna sjálfstæðisflokksins verið undanfarnar vikur og þó enn undarlegri eftir að Ólafur Ragnar Grímsson reyndi að slá sig til höfuðriddara íslensks lýðræðis 5.janúar sl. Fyrst var barist gegn samningum við Breta og Hollendinga á þeim forsendum að við ættum ekki að borga neitt, sbr. orð leiðtogans mikla um skuldir óreiðumanna, svo var dregið í land með það, en sagt að við yrðum að ná mun betri samningum en ríkisstjórnin væri búin að semja um. Það ætti alveg að vera hægt ef sæmilega skynsamt fólk stæði að málum.

Sem sagt ríkisstjórnin og margt af okkar færasta fólki í milliríkjasamningum fékk þarna asnastimpilinn ríkulega útilátinn. Svo var þess krafist að viðhöfð yrði  þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Fólk með sérfræðikunnáttu í milliríkjamálum átti að vera að gera tóma vitleysu í þessu máli og allt í einu vildi sjálfstæðisflokkurinn að almenningur á Íslandi tæki ákvörðun þess í stað.

Það er sannarlega ný afstaða af hálfu þessa flokks sem aldrei hefur verið spenntur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hingað til en virðist nú dansa í dómgreindarlausa hringi með það eitt í huga að gera ríkisstjórn landsins allt til miska.

Ég hef alla tíð talið mig alþýðusinnaðan félagshyggjumann. Lýðræði er mér hugstætt en lýðskrum ekki. Það er álit mitt að þetta mál sem hér um ræðir eigi mjög takmarkað erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mun líklegast fara svo að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kjósa eiga þar, mun ekki geta kynnt sér málavexti til neinnar hlítar. Almennt fólk hefur einfaldlega ekkert svigrúm til að setja sig inn í þetta flókna mál. Milliríkjadeila af þessu tagi krefst mikils tíma og ástundunar og almenningur á Íslandi hefur sannarlega nóg með sín vandamál sem hafa nú margfaldast af völdum ábyrgðarlausra pólitíkusa og frjálshyggju-pestargemlinganna, þó þetta bætist ekki við.

Við höfum kosið okkur stjórnvöld til að leysa svona mál og ríkisstjórnin hefur verið að vinna í þessu fyrir þjóðina, þrátt fyrir erfiðleikana af völdum stjórnarandstöðunnar og nú síðast Ólafs Ragnars.

En nú á að fleygja hátt í 200 milljónum í þessa atkvæðagreiðslu og gera að litlu eða engu margra mánaða vinnu og spilla ýmsum möguleikum í málum endurreisnar og viðgangs þjóðarinnar.

Það er vonandi að sem flestir geri sér grein fyrir lýðskrums-kjaftæði stjórnarandstöðunnar og snúist gegn ábyrgðarlausu framferði hennar. Og það má minna á að það getur ýmislegt gerst á nokkrum vikum í pólitík.

Og það virðist nú sem sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn eitthvað hræddur við verk sín og feril rétt einu sinni. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem hann vildi er nú ekki neitt höfuðatriði lengur og svo er samhnýtingin við Ólaf Ragnar þeim sjálfstæðismönnum  hreint ekki geðfelld - mörgum hverjum.

Og spyrja má, hvar geta sjálfstæðismenn og hinn óvænti bandamaður þeirra á Bessastöðum hugsanlega staðið eftir nokkrar vikur ?  

Kannski í virðingarsnauðu tómarúmi ábyrgðarleysisins !

Við Íslendingar þurftum oft að finna fyrir Bessastaðavaldinu hér áður fyrr og sagan er því miður gjörn á að endurtaka sig, einkum með það sem miður fer.

Nú hamast sjálfstæðismenn í þeirri viðleitni sinni að komast inn í það björgunarstarf sem stjórnvöld hafa verið að vinna, svo þeir geti síðar haldið því á lofti að þeir hafi átt þátt í endurreisn Íslands.

Allt í orðum þeirra og athöfnum miðast við hagsmuni flokksins. Þeir eru enn komnir inn í öfuga hlutverkið, það sama og þeir léku í landhelgismálunum, að þykjast aldrei hafa verið á móti þegar mál eru að komast í höfn.

En fólk þarf og verður að muna hvernig menn og flokkar halda á málum. Það er ekki hægt að strika yfir orð og gerðir endalaust. Það er ekki hægt að afgreiða hrunið með því að nokkrir óreiðumenn hafi verið að verki.

Það voru sjálfstæðisflokkurinn og framsóknarflokkurinn sem gerðu þessa eftir á kölluðu óreiðumenn út. Þeir störfuðu á ábyrgð þessara flokka og komust svo langt sem raun ber vitni vegna þess að þessi stjórnmálaöfl héldu hlífiskildi yfir þeim fram í rauðan dauðann og gera jafnvel enn. Regluverkið virkaði ekki vegna þess að það var tekið úr sambandi gagnvart athöfnum þessara manna af pólitískum ábyrgðarmönnum þeirra. Það er hinn beiski sannleikur málsins.

Það virðist oft býsna stór fimmta herdeild vera fyrir hendi í þessu landi, önnum kafin í því verkefni að berjast gegn öllu sem flokkast undir almenna þjóðarhagsmuni. Þar fylkja sér flestir þeir sem sjá ekki Ísland og íslenska þjóð fyrir sérgæðingshætti og flokkslegum eiginhagsmunum og svo þeir amlóðar sem vilja draga okkur inn í Evrópusambandið.

Hætturnar eru sem sagt ekki bara fyrir hendi til hægri, það eru líka hættur til vinstri. Hin íslenska farsældarleið liggur í því að forðast þessar hættur og varast vítin á báða bóga - nóg ætti reynslan að hafa kennt okkur að undanförnu til þess að við föllum ekki í fleiri helvítisgryfjur að sinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 85
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 654
  • Frá upphafi: 365552

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 566
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband