Leita í fréttum mbl.is

Frakkland 1789 - Ísland 2010 !

Veisluár frjálshyggjunnar munu líklega koma til með að teljast svartasti bletturinn í sögu íslenska lýðveldisins. Ábyrgðarlaus yfirvöld og einkavæddir bankar komu þjóðinni á vonarvöl á undraskömmum tíma. Menn voru ölvaðir í sigurvímu vitleysunnar og sáu ekki skriftina á veggnum. Samt voru þeir sem ábyrgðina báru, jafnt í bönkunum sem í ríkisstjórn og á þingi, samtaka um að fullyrða fram á síðasta dag fyrir hrun að allt væri í stakasta lagi.

Fólk þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, allt væri undir stjórn og engin hætta á ferðum. En síðustu mánuðirnir fyrir hrunið voru notaðir af æðstu stjórnendum bankanna til að tæma þá innanfrá. Milljarðar hurfu í skattaskjól og ræningjarnir nutu verndar og náðar kerfisins á meðan rányrkjan stóð yfir. Hundruð manna voru á háum launum hjá ríkiskerfinu við að fylgjast með öryggisnetinu okkar og tryggja að það virkaði, en enginn virðist hafa verið að vinna fyrir kaupinu sínu.

Og þegar upp er staðið virðist heldur enginn eiga að vera ábyrgur. Það heitir víst á máli pólitíkusa að ekki megi persónugera vandann. Eftir situr að íslensk yfirvöld hafa tapað trausti þjóðarinnar. Það er sama hvort við tölum um ríkisstjórn, þing, forseta, dómstóla eða annað, það hefur orðið slíkur trúnaðarbrestur í afstöðu fólks til yfirvalda að þar verður traust seint endurvakið í fyrri mynd.

Stór-fjármagnseigendur hafa alltaf verið sleiktir í bak og fyrir af stjórnvöldum þessa lands. Allan Davíðstímann var t.d. verið að setja lög þeim til þægðar og afnema önnur sem settu þeim skorður. Einkahlutafélagslögin eru nákvæmlega þannig tilkomin, svo að menn í rekstri eða einhverskonar fjárhættuspili væru nú firrtir allri ábyrgð ef illa færi. Kvótakerfið og framsalsmálin eru einnig afar ógeðslegur hluti Íslandssögunnar sem vitnar um sömu vinnubrögð.

Hrunið sem hér varð var af völdum sérhyggjunnar, gegndarlausrar græðgi og sjálfselsku manna sem aldrei fengu nóg. Og hrifning sitjandi ríkisstjórnar af frjálshyggjunni var svo mikil að það mátti ekki anda á bankakerfið. Og þó að öll viðvörunarljós blikkuðu sagði þáverandi stýrimaður þjóðarskútunnar " Við róum bara áfram " já, þó komið væri út í svartnættisþoku váboðanna fyrir þjóðarbúið. Sá maður var þó að áliti margra sér í lagi menntaður og reyndur til að takast á við aðstæður. En það sem var að gerast hafði í raun lítið með menntun og reynslu að gera, því ferðinni réð óhamin græðgi ýmissa afla sem höfðu allt of lengi fengið að leika sér með fjöregg þjóðarinnar og töldu sig þegar hér var komið nánast eiga það. Yfirvöld voru bara núll og nix.

Sjálfselska græðgisklíkunnar var orðin svo mikil að hún var komin langt út fyrir öll siðræn mörk. Sigurður Einarsson talaði á þeim tíma niður til danskra fjármálamanna sem höfðu vogað sér að vara við rúllettunni, hann kallaði þá í sinni upphöfnu sjálfumgleði, gamaldags menn með úreltar hugmyndir.

En þessir dönsku fjármálamenn sáu fyrir sínum hag og þjóðar sinnar og standa keikir enn hvað sem Sigurði Einarssyni líður.

Það er sárt til þess að vita að gerendur hrunsins skyldu vera Íslendingar, menn fæddir upp við svipaðar aðstæður og aðrir í þessu landi, en einhver veila hefur verið í þeim sem gerði það að verkum að þeir urðu gjörspilltir af gullþorsta. Þeir þoldu ekki meðlætið og fóru að hegða sér eins og þrítugasta kynslóð siðspilltra aðalsmanna í Frakklandi 1789 rétt fyrir byltinguna.

Þeir sögðu í hroka sínum og sjálfbirgingsskap " Ég má þetta, ég á þetta " og drambsemin var orðin slík að sjálfum djöflinum brá í brún við alltumgrípandi umsvif lærisveinanna.

Á forsíðu Fréttablaðsins birtist fyrir nokkru fyrirsögnin " Klíkan sem mergsaug Glitni ". Sú fyrirsögn fæddi sjálfkrafa fram eftirmæli hinna einkavæddu banka :

 

Mafían sem mergsaug Glitni

með því framdi brotin stór.

Þó að kannski vanti vitni

vita allir hvernig fór.

 

Kom þar fram með skömm og skaða

skollabragða eyðsluhít.

Engin fannst þar ærleg staða,

allt á kafi í ljótum skít !

 

Landsbankinn með líkum hætti

lék á kerfið virðist mér.

Síst að þörfum þjóðar gætti,

það er ekki venjan hér.

 

Þóttist víða vera að græða,

vék af margri réttri leið.

Þar til fólkið fékk að blæða

fjötrað sárri skuldaneyð !

 

Kaupþing síst með siðum betri

sýndi í skiptum margan prett.

Hafði fé af Páli og Pétri,

pantaði sjeik í eftirrétt.

 

Blekkingar á borðum réðu,

bankastjórnar svikaspil.

Stjórnvöld sitt í leikinn léðu,

lögin virtust hvergi til !

 

Og það er meinið, engin lög virðast til í þessu landi nema þegar þarf að beita þeim gegn almenningi og níðast á litla fólkinu. Og það er gert miskunnarlaust af þeim blóðsuguöflum sem hér hafa ráðið og ráða enn illu og ómanneskjulegu ríkiskerfi. Það kerfi er sagt rekið í almannaþágu en það er langt frá því eins og einkahlutafélagslögin, kvótakerfið og annar viðbjóður í farteski yfirvalda vitnar best og réttast um.

Það er sagt að hver þjóð fái það yfirvald sem hún á skilið. Ég á samt ákaflega erfitt með að trúa því að íslenska þjóðin sé svo slæm að hún verðskuldi yfirvöld eins og þau sem hún hefur þurft að búa við mörg undanfarin ár og býr enn við, þó nöfn þeirra séu nú önnur sem sitja í stólunum. Sami níðingsandinn er samt í þessu liði öllu þegar kemur að því að verja þarf almannahagsmuni.

Það þarf það sama að gerast í alþingiskosningum og gerðist í nýafstöðnum kosningum í Reykjavík og á Akureyri. Nýir aðilar þurfa að koma til með umboð frá fólkinu til að stjórna.

Pólitíkusar þessa lands þurfa að komast í þá stöðu, að verða að viðurkenna það sem beinharða staðreynd að fólkið í landinu er búið að fá hyldjúpa og inngróna skömm á þeim yfir línuna og vill sem minnst af þeim vita.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 813
  • Frá upphafi: 356658

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 645
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband