Leita í fréttum mbl.is

Líkin í lestinni !

Eftir að efnahagshrunið hafði staðfest með þjóðarhörmungum þann beiska sannleika, að íslensk stjórnvöld höfðu nánast allan Davíðstímann vanrækt skyldu sína í því að gæta almannaheilla, sáu samt afar fáir valdaaðilar ástæðu til að fara í það sem kalla mætti naflaskoðun.

Viðkvæðið var yfirleitt hjá öllum " ekki benda á mig ! "

Enginn var tilbúinn að axla neina ábyrgð og enn eru iðrunarmerki hvergi sýnd.

Rotnunarmerki spillingar og ógeðs eru því víða fyrir hendi í kerfinu.

Það er nefnilega kunnara en frá þurfi að segja, að það kemur fljótt ólykt af líkum. Það þarf því að grafa þau eða brenna eða losa sig við þau með einhverjum hætti. Maður sem ferðast um með lík á bakinu mun fljótt verða þess áskynja að menn munu fara að taka stóran sveig framhjá honum og forðast að vera honum samferða. En það eru ýmis fyrirbæri í okkar þjóðfélagi sem eru með lík í lestinni og vilja sjáanlega ekki skiljast við þau.

En lík eiga enga framtíð fyrir sér !

Gogol skrifaði eitt sinn um dauðar sálir. Það er margt sameiginlegt með dauðum sálum og líkum í lest. Þar vantar sammannlegan lífsneista, tilfinningu fyrir öðru lífi og rétti þess. Lík í lest og dauðar sálir geta þó verið lifandi að nafninu til, en andleg lífsmeðvitund verður samt hvergi fundin í þeim. Þar sem sjálfelskan ein ræður, gengur hún fljótlega að öllu heilbrigðu lífi dauðu.

Sjálfstæðisflokkurinn -  sem er í mínum huga Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn - er með allmörg lík í lestinni og því er ólyktin af honum svo megn og viðvarandi í vitund þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn eða Litli Þjóðarógæfuflokkurinn, losaði sig nokkuð fljótt við sín verst þefjandi lík, en steig samt ekki skrefið til fulls til trúverðugrar endurreisnar. Hann hefði átt að taka upp nýtt nafn og undirstrika með því að hann vildi verða nýtt pólitískt afl. Hann hefði t.d. getað tekið upp nafnið Samvinnuflokkurinn, sem hefði tengt hann hugsjón samvinnuhreyfingarinnar og þeim félagshyggjuarfi sem þar liggur fyrir.

En hugsjónin sú og félagshyggjan var algjörlega svikin af flokknum undir forustu Halldórs Ásgrímssonar og hirðar hans. Sú hirð varð að víkja því hún átti sér ekki viðreisnarvon eftir að afleiðingar verka hennar fóru að koma í ljós.

En Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki sína Hrunahirð víkja, sérgæskudansinn dunar enn innan flokksins, í stækri ólyktinni af rotnandi líkunum. Og á meðan svo er, verður skiljanlega allt tal um endurreisn og betri vinnubrögð af flokksins hálfu hræsnin ein.

Nú er ég eins og ég hef alltaf verið og mun alltaf verða, alfarið á móti Sjálfstæðisflokknum og stefnu hans og vildi náttúrulega helst af öllu að hann væri ekki til. Ástæðan fyrir því er ósköp einföld, ég er andvígur sérhagsmuna-stefnum og þeirri mismunun sem þeim fylgir. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sérhagsmuna og að mínu mati hefur hann aldrei verið teljandi varnarþing fyrir íslenska þjóðarhagsmuni eða almannaheill. Það var ekki lagt í sköpunarmót flokksins að hann ætti að vera það, enda hefur hann aldrei verið neinn þjóðvarnarflokkur. Hann hirti nafnið sem hann ber frá fyrri flokki sem var borinn uppi af verkum manna sem seint hefðu orðið " sjálfstæðismenn"  í dag.

Árið 1807 sagði John Quincy Adams, einn þeirra Bandaríkjamanna sem ég virði hvað mest, við einn samstarfsmann sinn á þingi : " Þetta mál mun kosta okkur þingsætin, en sérhagsmuni má ekki setja ofar almannaheill ! "

Slíka afstöðu hafa forustumenn Sjálfstæðisflokksins aldrei skilið því þeirra stefna hefur alltaf verið þveröfug. Almannaheill er þar afar gildislítið hugtak.

Sjálfstæðisflokkurinn er að minni hyggju fyrst og fremst flokkur undir ráðandi leiðsögn eigingjarnra sálna, manna sem hafa sérhæft sig í því að herja fjármuni út úr ríki og sveitarfélögum - oftast undir fölskum fánum  frelsis og manndáða !

En fyrst að Sjálfstæðisflokkurinn er því miður til, er það hrein og klár þjóðfélagsleg nauðsyn að hann verði það þá í eins heilbrigðri mynd og frekast er unnt. Reyndar veit ég ekki hvort hægt er að hafa þar eitthvað heilbrigt til staðar, en ég veit þó að líkin í lestinni munu seint gefa heilbrigða mynd.

Leið þessa flokks til heilbrigðari hátta, ef svo má að orði komast, hlýtur því að liggja í því að hann losi sig við þessi langlyktandi lík sem fyrst. Drjúgur hluti af þingliði flokksins fellur undir það sem ég vil kalla " lík í lestinni !"

Það er afdráttarlaus skoðun mín að það sé ekki forsvaranlegt að bjóða þjóðinni  upp á fólk með þá fyrirhruns-fortíð sem margir þingmenn sjálfstæðismanna eiga og reyndar má segja það sama um nokkra fleiri á þingi.

Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei auka gengi sitt og lífslíkur meðal þjóðarinnar með því að hampa á sínum framboðslistum dauðum sálum eða lifandi líkum, valkostum sem allt fólk með sæmilega sýn á það sem frambærilegt er - vill hvorki heyra né sjá !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband