Leita í fréttum mbl.is

Soramörkin segja til sín !

Þegar spilling er fyrir hendi liggja fyrir hverjum manni tvær leiðir, annaðhvort að vinna með henni eða berjast gegn henni. Hlutleysi gagnvart spillingu er ekki til. Eins er það með réttlæti, annaðhvort styðja menn réttlæti eða ekki. Þar er enginn millivegur. Sannleikurinn er annað dæmi. Annaðhvort standa menn að málum með sannleikann á vörum eða lygina.

Því miður eru þeir allt of margir sem halda að í þessum efnum sé hægt að gera  málamiðlanir. En það er bara ekki svo. Sérhver málamiðlun í þessum efnum setur þann sem gerir hana í stöðu leiksopps blekkingar og svikaferlis.

Ef þú ánetjast spillingu ertu fangi þeirrar spillingar. Ef þú styður ranglæti, ertu kominn út af vegi réttlætisins. Ef þú notar lygina til að koma þér áfram, verður líf þitt smám saman að einni allsherjar lygi þar sem sannleikanum verður  úthýst með öllu. Allt helst þetta svo í hendur. Spilltur maður verður ranglátur, lyginn og ómerkilegur. Það verða ávextir breytninnar !

Átta menn sig ekki á því út frá þessu hversvegna fjármálageirinn í landinu er eins og hann er ?

Skilja menn ekki í ljósi þessara staðreynda, hvernig alþingi með litlum staf og yfirvöld í þessu landi eru orðin vegna svikuls flokksræðis sem er að ganga að lýðræðinu dauðu ?

Enginn flokkanna í landinu getur nú þvegið af sér áunnið, innbrennt soramark !

Spilling er því miður orðin landlæg pest í þessu landi - eftir 1991 virðist beinlínis hafa verið farið að líta þeim augum á menn, að þeir væru því frambærilegri sem þeir væru spilltari og móttækilegri fyrir málamiðlanir.

Slíkir menn voru verðlaunaðir með vegtyllum í kerfinu því þeir studdu fúslega að því sem baktjaldamafían vildi láta styðja að - meiri samtryggingu, meiri spillingu og meira siðleysi !

Og nú er það orðið sem aldrei fyrr að öfugsnúinni listgrein í kerfinu - að tala eitt og gera annað. Leyndarhyggjan virðist orðinn allsráðandi mottumars kerfisins. Fyrirmælin eru :

Sópið öllum skítnum undir mottuna og talið jafnframt um að allt þurfi að vera gegnsætt !

Íslensk stjórnvöld eru hreint út sagt orðin þaulæfð í því hlutverki að níðast á almenningi og í því samhengi virðist mikið til sama hvaða flokkar eru við völd.

Auglýsingar eru aftur farnar að enduróma fyrirhrunstaktinn. Þar er sagt að íslensk verðbréf byggi á trausti og bankarnir segja - við þjónustum ykkur frá A til Ö, komið til okkar, við leysum málin fyrir ykkur !

Hvaða mál bjóðast þeir til að leysa ?

Vandamálin sem þeir sköpuðu og urðu fyrst og fremst til af þeirra völdum !

Og svo eru íslensk verðbréf auglýst sem farsæll fjárfestingakostur !

Varla þó fyrir þá sem þegar hafa tapað öllu sínu á slíkum pappírum !

Ef þetta er ekki siðleysi hvað er þá siðleysi ?

Vilhjálmur Egilsson, einn af þeim sem verðlaunuðu Icesave-gjörninginn 2007, talar um að nú sé algjör nauðsyn að efla atvinnu í landinu.

En hann er harður á því að ekki megi hækka laun manna þó allt annað hafi hækkað stórkostlega. Hann vill sem sagt fá fleiri á þrælalaunin, þessi maður sem er áreiðanlega með tugfölduð almennings-laun !

Þannig hugsa gullkálfar frjálshyggjunnar - fólk virðist bara til eins gagns í þeirra hugsun - til arðráns !

Ég veit um ýmsa menn sem tala mikið, ekki síst núna, um að menn eigi að vera bjartsýnir, sannir og heiðarlegir, og auðvitað er það góðra gjalda vert að vera það - en spurningin er hinsvegar, hafa þeir hinir sömu sýnt þá birtingarmynd í lífi sínu og starfi ?

Hafa þeir verið andvígir spillingu, hafa þeir fylgt réttlætinu og talað í nafni sannleikans ? Eða hafa þeir kannski stundað málamiðlanir og eru enn að því ?

Er það kannski ástæðan fyrir öllu bjartsýnistali slíkra manna - mitt í allri spillingunni, ranglætinu og lyginni - að þeir telja sig hafa allt sitt á þurru vegna þess að þeir hafa alltaf dansað með spillingunni ?

Hvernig töluðu forsprakkar íhaldsins, slegnir ótta, fyrst eftir hrunið :

" NÚ ÞURFUM VIÐ ÖLL AÐ STANDA SAMAN !

Eftir ránin og viðbjóðinn, áttu menn sem sagt að sameinast í einingu þjóðbræðralagsins með þeim sem rændu þá og stýrðu þjóðarskútunni beint á rjúkandi feigðarboðann !

Ég vil hvetja alla til að safna upplýsingum um hvernig efnahagshrunið - af mannavöldum drýgt -  fór með fjöldann allan af fólki í þessu landi.

Það þarf að skrá þetta allt svo að það liggi sem ljósast fyrir hvernig fólk var svikið og rænt af spilltum yfirvöldum og taglhnýtingum þeirra.

Það þarf að safna slíkum upplýsingum saman í einn allsherjar gagnabanka.

Þá ættu allir - nema þeir allra blindustu - að geta séð, að sumir menn geta bara ekki haldið því fram að þeir hafi góða samvisku og hreinan skjöld.

Það er ófrávíkjanleg sannfæring mín, að það sé ekki til nokkur atvinnupólitíkus í þessu landi, sem getur á réttum forsendum sagst hafa góða samvisku og hreinan skjöld. Pólitík gengur út á málamiðlanir - einkum þó afslátt á öllum góðum gildum - og við sjáum það á öllu sem gerist frá degi til dags.

Þjóðræknir þingmenn virðast fullkomlega útdauð manntegund á Íslandi og ég hika ekki við að segja að það situr nú enginn maður á alþingi sem ég get borið virðingu fyrir - eftir það sem á undan er gengið.

Þar ríkir greinilega algjört sinnuleysi gagnvart almennu mannlífi í þessu landi. Best væri því fyrir þjóðina að svo sálardauðu húsi væri lokað sem fyrst.

Þjóðin þarf á öðru að halda en blekkingartilburðum og sýndarmennsku !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 813
  • Frá upphafi: 356658

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 645
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband