Leita í fréttum mbl.is

" Píslarvottur sjálfstæðisflokksins " !

" Loksins, loksins ! "  á Kristján Albertsson að hafa sagt þegar Vefarinn mikli frá Kasmír kom út.  " Loksins, loksins " má nú segja þegar sjálfstæðisflokkurinn er að koma sér upp sínum fyrsta píslarvotti !

Það var vissulega tími til kominn að þessi flokkur eignaðist einhvern sem hefði látið eitthvað í sölurnar fyrir að tilheyra honum - já, með húð og hári og andlegu innvolsi ef eitthvað er. Yfirleitt hafa innvígðir og innmúraðir flokksmenn bara notið góðs af því að vera í flokknum, enda eru ekki svo fáir í honum einmitt af þeirri ástæðu einni saman.

Þessi yfirmáta sjálfhverfi flokkur hefur lengstum verið svo önnum kafinn við að búa til píslarvotta sem ekki hafa tilheyrt honum, að það virðist aldrei hafa hvarflað að mönnum þar að tímabært væri að þeir kæmu sér upp einum slíkum heimafyrir. Flestir sem lesið hafa mannkynssöguna vita hvað það er mikil nauðsyn fyrir hvern þann málstað sem standast þarf tímans tönn - að eiga píslarvott !

Af hverju skyldi kaþólska kirkjan vera enn við lýði eftir 2000 ár ?

Það er áreiðanlega ekki síst vegna þess að hún var svo forsjál að koma sér snemma upp píslarvottum. Hún gerði meira að segja í því sjálf að gera suma að píslarvottum, eins og til dæmis Jóhönnu af Örk. Síðan voru þessir píslarvottar gerðir að andlegum sendiherrum í þjónustu kirkjunnar út um allar jarðir undir heilagri gráðu, útgefinni af páfanum sjálfum. Jafnvel afteknir andstæðingar urðu þannig dýrlingar kirkjunnar !

Kannski er sjálfstæðisflokkurinn að koma sér upp andlegum sendiherra, kannski er að koma fram píslarvottur sem verður ákallaður í framtíðinni af afturhaldi og frjálshyggjuliði komandi tíma, og styrkir flokkinn.

Páfakirkjan og sjálfstæðisflokkurinn eiga áreiðanlega ýmislegt sameiginlegt !

Þeir vinstrimenn sem sjálfstæðisflokkurinn gerði að píslarvottum hér áður fyrr með ofsóknum og yfirgangi voru náttúrulega ekki píslarvottar í réttum anda og ekki nothæfir sem slíkir. En píslarvotturinn sem flokkurinn er sjáanlega að reyna að koma sér upp núna er af allt öðru sauðahúsi. Frá sjónarmiði Valhallar - páfadóms flokksins - er hann trúlega ekta !

Ýmsir hægri menn tala nú um að í hönd fari fyrstu pólitísku réttarhöldin í þessu landi ?  Það er greinilegt að ýmsar aðfarir gagnvart vinstri mönnum hér á árum áður, af hálfu hægrisinnaðrar valdstjórnar, eru ekki taldar með !!!

Pólitísk réttarhöld eru líklega bara í gangi ef hægri menn eru ákærðir um eitthvað, sem er að vísu nýlunda hérlendis, því yfirleitt hafa þeir komist upp með alla skapaða hluti.

En landsdómsmálið er merkilegt á margan hátt. Þar á að hefja réttarhald sem færa á sönnur á sekt eða sakleysi þess sem fyrir sökum er hafður. Ef viðkomandi telur sig saklausan ætti hann að fagna rannsókn og réttarhaldi sem ætti þá að sýna fram á sakleysi hans, en nei, viðkomandi verður beiskur og reiður og sýnir með viðbrögðum sínum talsvert annan mann en margir töldu að hann hefði að geyma. Landsdómur átti sem sagt að vera enn eitt fyrirbærið í kerfi okkar sem aldrei átti að grípa til. Enn eitt öryggisnetið um hagsmuni þjóðarinnar sem væri tóm blekking og héldi engu og þjónaði aðeins þeim tilgangi að telja almenningi trú um að hann byggi við eðlilegt borgaralegt öryggi !

Það sýndi sig líka, að þegar menn ákváðu að grípa til þessa laga-ákvæðis, vissi enginn hvernig með það skyldi fara. Enginn var þar bundinn af hugsun um réttlæti eða virðingu fyrir eðlilegum framgangi laga. Allir voru hinsvegar rígbundnir af flokkshagsmunum og pólitík. Og afleiðingin varð auðvitað sú, að alþingi varð sér enn eina ferðina til skammar sem þjóðþing Íslendinga !

Samfylkingin hugsaði aðeins um eitt, að bjarga sínum ráðherrum undan sekt eða sýknu landsdóms, en til þess að það væri ekki eins augljóst og ella, var fjármálaráðherranum sleppt við ákæru. Kratar þorðu hinsvegar ekki að gera málið að engu, með því að forða forsætisráðherranum líka. Hann er því einn látinn axla ábyrgð og fyrir sökum hafður.

Það getur samt ekki talist neitt óeðlilegt við það þó að forsvarsmaður og ábyrgðarmaður ríkisstjórnar sem talin er hafa brugðist þjóðinni, sé ákærður fyrir vanrækslu í starfi. Það vita það allir sem vit hafa, að allir fjórir ráðherrarnir hefðu átt að svara fyrir verk sín frammi fyrir landsdómi, og verði Geir fundinn sekur þar, verður sú sekt í hugum manna bundin við þau öll fjögur sem í hlut eiga. Flokkspólitísk atkvæðagreiðsla á þingi bjargar þar engum undan dómi þjóðarinnar, en skömm alþingis verður því meiri.

Fyrrverandi forsætisráðherra á að fagna því að fá að svara máli sínu fyrir landsdómi. Hann á að verja mál sitt þar og gera það eins og maður, en ekki væla í fjölmiðlum eins og hann sé píslarvottur allra píslarvotta !

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að erfitt sé að bera kostnað af málaferlum á Íslandi og ekki hafa sjálfstæðismenn bætt um það með því að reyna sem mest að þrengja gjafsóknarréttinn. Þeir hafa mér vitanlega aldrei verið áfram um það að venjulegt fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum.

En ef það er þungbært kostnaðarlega fyrir fyrrverandi formann sjálfstæðis-flokksins að reka sitt mál, geta menn ímyndað sér hvernig það væri fyrir réttan og sléttan Jón út í bæ !

Það er þó kannski með vissum hætti á þjóðar vitorði, að forustumenn sjálfstæðisflokksins hafi alltaf virst vera svo til félausir menn. Að minnsta kosti hafa þeir aldrei verið mikið fyrir félagslegar samstöðulausnir á málum, sem ganga nú oftast út á það að allir leggi eitthvað til í sameiginlegan framkvæmdasjóð lands og þjóðar. En kannski kemur þar nú til annað en beint féleysi !

Mér finnst hinsvegar geislabaugurinn falla nokkuð illa að höfði verðandi píslarvotts sjálfstæðisflokksins, ef hann telur sig þurfa að leita til almennings eftir fjárstyrk varðandi landsdómsmálið.

Hvernig er það annars, getur sjálfstæðisflokkurinn ekkert gert fyrir manninn eins og maðurinn er búinn að gera margt fyrir flokkinn og flokksmenn ?

Er ekki hægt að taka upp sérstakt Geirsauragjald innan flokksins meðan á þessum málaferlum stendur eða er kannski ætlast til að aðrir en flokksmenn borgi brúsann fyrir - " píslarvottinn " ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 224
  • Sl. sólarhring: 230
  • Sl. viku: 1029
  • Frá upphafi: 356925

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 825
  • Gestir í dag: 186
  • IP-tölur í dag: 185

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband