Leita í fréttum mbl.is

" Hann er upprisinn " !

Það hafa alltaf verið til menn í þessum heimi sem hafa fjandskapast út í kristindóminn. Og það segir sig sjálft, að menn sem eru fyrst og síðast og alfarið af þessum heimi, hljóta að vera andstæðir öllu því sem kemur frá himnum.

Svo það hefur aldrei vantað að árásir hafa verið gerðar á fylgjendur Krists og þær munu verða gerðar, meðan sá sem er aflvaki þeirra leikur lausum hala.

En kristnin hefur staðið allt slíkt af sér í gegnum aldirnar og mun halda velli og sigra því lífsforsendur hennar eru hreinar !

Upprisa Jesú var til dæmis staðfest með mjög sérstökum hætti á sínum tíma. Gröf Hans var nefnilega innsigluð að rómverskum sið og hervörður settur um hana. Það var gert samkvæmt kröfu æðstu prestanna og átti að tryggja að lærisveinar Drottins rændu ekki líki Hans og segðu Hann svo upprisinn.

En allt var þetta til einskis og staðfesti aðeins það yfirnáttúrulega sem gerðist !

Það varð ekki hrakið að gröfin var tóm og engin frambærileg skýring fannst !

Og vegna sigurhrópanna " Hann er Upprisinn " flæddi kærleiksbylgja kristninnar í framhaldi mála yfir löndin og allir sem áttu lifandi hjarta í brjósti sér, fundu að eitthvað ferskt og gott var orðið að veruleika. Það var sannarlega eitthvað komið í heiminn sem frelsaði og skapaði nýtt líf !

Og frumherjar trúarinnar, postularnir og samverkafólk þeirra, karlar sem konur, allt þetta fólk kom saman í sannri einingu fyrir kraft Heilags Anda, og flutti fagnaðarerindið um nýjan sáttmála fyrir blóð Jesú Krists, um allt rómverska heimsveldið á tiltölulega skömmum tíma. Það gat ekki öðruvísi farið því alls staðar voru einstaklingar með opin hjörtu sem meðtóku frelsisboðskapinn og boðuðu hann síðan öðrum í krafti kærleikans.

Saga kristninnar felur í sér allt það besta sem mönnum hefur verið gefið, en hún er ekki hluti af svokallaðri trúarbragðasögu mannkynsins, því trúarbrögð eru og hafa verið búin til af mönnum. Kristnin kom hinsvegar að ofan og er himneskt tilboð um samfélag við hinn Lifandi Guð, í gegnum Hann sem er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið !¨

Krossinn sem var áður tákn um hræðilegan dauða varð að tákni sigrandi lífs og flutti hvarvetna með sér lifandi von til manna, von um opnar inngöngudyr til eilífðar Guðs !

En það hafa alltaf verið til menn sem hafa ekki skilið fagnaðarerindið og snúist öndverðir við inntaki þess og anda. Slíkum mönnum hefur jafnan fundist sem kristnin setji þeim of miklar skorður og einkum varðandi það sem þeir vilja og þrá, en vita þó að er ekki forsvaranlegt.

Það er hið synduga eðli mannsins sem rís þar til uppreisnar sem löngum fyrr !

Það hefur margt verið afhelgað á síðustu árum á Íslandi vegna taumlausrar efnishyggju og Mammonsdýrkunar og afhelgun andlegra verðmæta er aldrei góð. Borgarstjórn Reykjavíkur afhelgaði til dæmis vorið 1991 55 daga í árinu vegna ásóknar verslunar og gróðahyggju. Sumir telja það hafa verið stærstu einstöku aðgerðina til afhelgunar þjóðfélags okkar frá upphafi vega.

Morgunblaðið lýsti því margsinnis yfir að þar hefðu úreltar hömlur verið afnumdar og enginn mótmælt, en sannleikurinn er hinsvegar sá, að með þessari aðgerð færðu menn sig töluvert nær því að láta lögmál hins veraldlega átrúnaðar ríkja allar stundir.

En þrátt fyrir þá aðför eiga enn að vera til fjórir alhelgir dagar á dagatalinu, það er Jóladagur, Föstudagurinn langi, Páskadagur og Hvítasunnudagur og hver þeirra helgast ákveðnum höfuðþætti kristninnar. Jóladagur tengist fæðingu Frelsarans, Föstudagurinn langi dauða Hans sem friðþægingarfórnar á krossi, Páskadagurinn upprisu Hans og sigri lífsins og Hvítasunnudagurinn helgast gjöf Heilags Anda !

Það væri engin kristni til ef Kristur hefði ekki fæðst inn í þennan heim !

Það væri engin kristni til ef Hann hefði ekki fórnað lífi sínu fyrir okkur öll !

Það væri engin kristni til ef Hann hefði ekki risið upp og sigrað dauðann !

Það væri engin kristni til ef Heilagur Andi hefði ekki verið gefinn !

Öll þessi fjögur höfuðatriði þurftu að koma til svo að kærleiksblessun himinsins næði til okkar mannanna og ekkert megnaði að hindra það.

Og þessvegna er kristnin ósigrandi, það sigrar enginn himininn og engum er það betur ljóst en þeim sem varpað var út úr himninum á sínum tíma með sínu uppreisnarliði. Eina takmark sálnaóvinarins er og hefur því verið að draga eins marga með sér í glötun og hann frekast getur.

En við eigum lifandi von og dauðinn þarf ekki að vera hlutskipti okkar !

Tilboð himinsins um hlutdeild í hinu eilífa lífi stendur okkur enn til boða fyrir blóð Jesú Krists !

Fallinn heimur á ekki að vera takmark okkar heldur hin nýja Jerúsalem !

En til þess að taka við þeirri blessun sem boðin er, þurfum við að vera kristin og játast Kristi og taka þátt í sigurhrópinu " Hann er upprisinn !"

Það sigurhróp sé því áfram lifandi kveðja kristins fólks um allan heim, þegar það fellst í faðma og fagnar á páskum upprisu FRELSARANS !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 122
  • Sl. sólarhring: 271
  • Sl. viku: 902
  • Frá upphafi: 357083

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 718
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband