Leita í fréttum mbl.is

"Ólafur afturgenginn, er Ólafur verri en fyrr !"

Sú var tíðin að andlegir tvíburabræður voru við völd í þessu landi og gerðust meðal annars umsvifamestu seljendur ríkiseigna sem þjóðarsagan kann frá að greina. Þeir seldu bankana og lýstu því fjálglega yfir hvað það væri gott að fá svo öfluga innspýtingu í íslenska hagkerfið sem bjórmilljarðana frá Björgólfunum. Þeir settu Ísland prívat og persónulega inn á stríðsrás bandarískra hauka og svo seldu þeir Símann til að fjármagna hátæknisjúkrahús sem yrði landsmönnum öllum kærleiksheimili allrar velferðar.

Þetta sem hér er sagt er nú bara brot af afrekum þessara valdatvíbura sem voru turnar sinna flokka á þessum tíma. Svo sprakk allt í höndunum á þeim og flokkum þeirra og landsmenn sátu eftir í sárum og svo mun lengi verða. Það er greinilega ekki gott að byggja þjóðlega farsæld á tvíburaturnum, hvorki af holdi og blóði né öðrum efnum. Það hefur áþreifanlega sannast í Stóru-Ameríku og hér í litlu eftirlíkingunni !

Bankasalan er einn alræmdasti gjörningur íslenskra stjórnvalda frá upphafi og er ljóst að þar verður aldrei rannsakað eitt eða neitt með nokkrum skilum, því svo skítlegt var allt við málið að það tekur engu tali. Aldrei kom nein milljarða innspýting í íslenska hagkerfið því Landsbankinn var einfaldlega keyptur fyrir lánsfé frá Kaupþingi. Það er að segja, það sem borgað var.

Milljarðarnir eftirsóttu munu fyrst og síðast hafa verið notaðir af handhöfum sínum til alþjóðlegra fjárfestinga og komu því aldrei við sögu í íslenskum þjóðarbúskap eða þvottavélum hérlendis. Hátæknisjúkrahúsið er enn í draumheimum Davíðstímans, og peningarnir sem inn komu fyrir Símann, það sem kom á annað borð, voru líklega settir í geymslu svo utarlega í sólkerfi sérgæskunnar, að engan rekur lengur minni til þess hvar þeir eru og hvað hefur orðið af þeim. Og nú er talað um þjóðarátak til að koma þessu margumtalaða sjúkrahúsi upp, þessari Hörpu heilsugæslunnar í landinu !

Það þýðir að almenningi er ætlað að borga þetta í gegnum einhverja fjáröflunarherferð, sem verður náttúrulega pumpuð upp í gegnum fjölmiðlana rétt eina ferðina. Síminn var sem sagt seldur eða gefinn á fölskum forsendum og seint verður því haldið fram með réttu að þjónustan þar á bæ sé betri en hún var. En kannski eignast þjóðin kærleiksheimili allrar velferðar þegar hún verður búin að borga hátæknisjúkrahúsið tvisvar sinnum. Þá verður svo gott að vinna á tæknitorgi heilbrigðismálanna, að okkar ástkæru landflótta læknar, sem hafa náttúrulega lifað árum saman við sult og seyru í útlöndum, munu koma fagnandi heim til að lífga upp á landann og almennt heilsufar Íslendinga !

Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn, sjálfstæðisflokkurinn með litlum staf, eða bara íslenska teboðshreyfingin, er nú komin í það sögulega far að sitja í ríkisstjórn undir forustu Litla Þjóðarógæfuflokksins. Slíkt gerist ekki nema ákveðið skilyrði sé uppfyllt að mati forustu stóra bölvaldsins, það er að hún geti verið viss um að formaður litla bölvaldsins sé í raun sjálfstæðismaður og ekkert annað. Og nú telur valdaklíka Valhallar sjáanlega að því skilyrði hafi verið fullnægt og rúmlega það, og þjóðin fer hugsanlega að sjá hvað úr hverju að það muni rétt vera.

Það er slæmt þegar menn eru í skökkum flokkum og enn verra þegar þeir verða þar formenn og gera viðkomandi flokka að einhverju allt öðru en þeim var ætlað að vera. Það ónáttúruferli virðist vera að gerast í annað sinn á stuttum tíma með flokkinn sem eitt sinn var þekktur undir nafninu Framsóknarflokkurinn en varð að Litla Þjóðarógæfuflokknum sem handbendi Stóra Þjóðarógæfuflokksins og ætti kannski helst í dag, með sérstöku tilliti til síðustu kosninga, að heita Atkvæðasóknarflokkurinn !Hver er annars munurinn á núverandi ríkisstjórnarflokkum ? Er þar ekki bara um að ræða tvö höfuð á sama finngálkninu ?

Íslenskir kjósendur eru vissulega stundum óþolinmóðir en stundum líka undarlega þolinmóðir. Eftir samfelldan valdatíma Stóra Þjóðarógæfuflokksins frá 1991 fram í janúar 2009, þar sem staðið var þannig að málum að allt endaði með kollsteypu og efnahagslegu hruni, fengu vinstri flokkarnir fjögurra ára umboð til að þrífa upp allan skítinn, allan flórinn eftir Davíðstímann og frjálshyggjufylleríið mikla.

En eftir þessi fjögur ár var þolinmæðin á enda hjá kjósendum gagnvart stjórnvöldum og þau skömmuð í bak og fyrir að hafa ekki mokað út á þessum tíma og komið öllu í lag aftur ! Og svo var þjóðarólánsklíkan kosin á ný til valda, þó þúsundir Íslendinga séu enn í sárum eftir afleiðingar fyrri valdaferils hennar og verði það um ófyrirsjáanlega tíð.  En nú virðist þolinmæðin aftur sest að í hugum kjósenda og þeir virðast ætla að bíða og vona og vona og bíða eftir því að silfurskeiðardrengir sérhagsmunanna standi við gefin loforð um viðreisn almannahagsmuna í þessu landi, viðreisn heimila ásamt afnámi verðtryggingar og skuldaleiðréttingu vegna stökkbreyttra svikræðislána hins einkavædda bankakerfis !

Það eru þá menn við stjórn eða hitt þó heldur sem líklegir eru til að framkvæma þessi réttlætisverk ! Ætli glóruleysi hinnar takmarkalausu trúgirni í íslenskum stjórnmálum geti yfir höfuð orðið öllu meiri ?

Endurkoma fulltrúa hrunsflokkanna að stýri þjóðarskútunnar er hreint ekki góður vitnisburður um heilbrigða dómgreind íslenskra kjósenda. Í því tilfelli verður mér hugsað til vísu sem ég held að Halldóra B. Björnsson hafi ort eitt sinn þegar Ólafur Thors fór frá og kom svo brátt aftur til valda: „ Góður er sérhver genginn / geti hann þá legið kyrr/ En Ólafur afturgenginn / er Ólafur verri en fyrr !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband