Leita í fréttum mbl.is

Palladómur um meintan ,,sjallasleiki" !

Össur Skarphéðinsson heitir maður einn og kannast margir við gripinn. Hann hefur víða komið við og talið sig vera á ýmsum stöðum til húsa, þó ekki hafi þar mál alltaf gengið upp samkvæmt skráningu þess marks sem upp hefur verið gefið. Um tíma þóttist maðurinn vera róttækur vinstri maður og sem slíkur mun hann hafa bankað upp á hjá Þjóðviljanum og gerst þar innanbúðarmaður um skeið. En Össur var auðvitað enginn róttæklingur og það var orðið flestum ljóst talsvert löngu áður en hann uppgötvaði það sjálfur.

Það sem helst sat náttúrulega í genum Össurar var mikil löngun til að komast áfram í lífinu og eignast nokkuð skrautlega ferilskrá. Hann sá því fljótlega að hann hafði farið illa með tímann með því að vera að hangsa á Þjóðviljanum því það bauð auðvitað ekki upp á mikinn frama. Líklega skemmdi það ferilskrána frekar en hitt og eftir að Össur hafði sannfærst um að framaleiðin væri ólíkt tryggari í herbúðum krata, þótti honum í raun ósköp leitt að hafa verið svo mikið flón í eina tíð að hafa verið búrkoppur á Þjóðviljanum.

En þar sem Össur er alla jafna hress í lund og getur verið skemmtilega glettinn þó hann telji sig nú krata, lætur hann oftast sem Þjóðviljadvöl hans hafi aðeins verið æskuóratími og hann hafi svo þroskast og séð að hann væri ekki á réttum stað og þaðan af síður að gera rétta hluti. Slíkar afsakanir hafa fallið afskaplega vel að eyrum sumra og einkum þeirra sem Össur telur nú vænlegast að hafa góða.

Össur hefur gegnt ýmsum háum stöðum síðustu árin, ekki síst vegna leikni sinnar í að hafa ekki neinar fastmótaðar skoðanir heldur taka nótus af veðri og vindum hverju sinni. Hann kann að tala þannig við fjölmiðlamenn að þeir fái það á tilfinninguna að honum þyki hreint og beint vænt um þá, svo þeir verða mjúkir á manninn við hann og eru ekkert að angra hann með óþægilegum og leiðinlegum spurningum.

Össur er líklega mesti urriðasérfræðingur landsins og kann því öllum pólitíkusum betur að lepja strauma og bíða færis. Hann hefur líka haldist nokkuð vel á sinni pólitísku sporbraut á meðan fljúgandi furðuhlutir í halastjörnulíki eins og Ingibjörg Sólrún, hafa kastast langar leiðir af sinni sporbraut og hafnað einhversstaðar í Fjarskanistan!

En Össur væri hinsvegar löngu orðinn óumdeildur Samfylkingarhöfuðgoði, ef hann hefði haft burðina til þess. Þó ferilskráin hefði sannarlega orðið mun skrautlegri við það, hefur komið glöggt í ljós að Össur er ekki þeim hæfileikum búinn sem geta gert hann að óumdeildum foringja - ekki frekar en Árni Páll !

Svo Samfylkingin má enn um sinn búa við það foringjaleysi sem hefur hrjáð hana frá fyrstu tíð, og víst er að þó Össur lepji strauma lengi enn, verður hann aldrei sá maður sem leysir þann forustuvanda. Hans tími varðandi það mál er liðinn og bætti litlu við hans persónulegu gengismál.

En Össuri er samt enganveginn alls varnað. Hann er glaðbeittur í tali og sæmilega ritfær. Hæfni hans með pennann slípaðist kannski helst og best á Þjóðviljanum forðum, en það myndi hann aldrei viðurkenna eða fallast á nú til dags, enda ættu flestir að geta skilið það. Hann segist bara vera ritfær vegna þess að hann hafi fæðst með þann hæfileika og séð sjálfur um að þjálfa sín stílbrögð.

Og nú hefur Össur gefið út bók og nýlega var ritverk það til umræðu hjá Bylgju-Láfunum og vantaði ekki að þeir gæfu því góða umsögn og þarf víst enginn að vera hissa á því. Össur hefur náttúrulega til margra ára verið eins og góður húsköttur upp við fætur íhaldsins og nuddað sér þar fram og aftur og það hefur áunnið honum mikla velþóknun þar á bæ.

Það var dálítið annað hljóð í Bylgju-Láfunum gagnvart bók sem Steingrímur J. Sigfússon hefur skrifað um hrunið og eftirmál þess, en það kom heldur ekki á óvart, því frjálshyggju-málpípur eru svo sem alltaf auðþekktar á rophljóðinu úr endagörninni !

En Össur á það auðvitað skilið að íhaldið víki góðu að honum, eins og hann hefur nú verið þægur og ljúfur við það í öllum samskiptum undanfarinna ára. Það er til dæmis haft fyrir satt að hann hafi aðstoðað Árna Matt við að fá vinnu eftir hrunið, og í margskonar hjálp við nauðstadda sjálfstæðismenn, hefur Össur eiginlega viljað vera - eins og Rauði krossinn holdi klæddur, - allt frá hruni !

Sumir hægri menn hafa því nánast það álit á Össuri að hann sé eins og jólasveinn sem komi með fullt fangið af gjöfum þegar mest á ríður og víst er að maðurinn hefur að gamalgrónum kratasið virst hafa mest yndi af því að stjana við sjálfstæðismenn. Nú vitum við að gömlu jólasveinarnir okkar hétu ýmsum merkilegum nöfnum sem tóku mið af helstu tilhneigingum þeirra, svo sem Gluggagægir, Bjúgnakrækir, Hurðaskellir og Þvörusleikir............ Kannski hefði Össur - ef hann hefði nú verið ekta jólasveinn - sem best getað heitið Sjallasleikir !

Það má að minnsta kosti hafa það í huga, þegar bók hans er lesin, að viðkvæmni hans gagnvart sjálfstæðismönnum sé líkleg til að gera umsagnir hans um þá heldur innihaldslausar. Að sama skapi gætu svo umsagnir hans um aðra - þar sem viðkvæmni er ekki þröskuldur í vegi - verið stóryrtari en ella !

Mér hugnast ekki bækur þar sem starfandi pólitíkusar láta gamminn geisa hver um annan. Flest myndi ég heldur vilja lesa. Og þar að auki er það lið sem situr á þingi, að mínu mati, ólíklegast allra í landinu, til að verða manni til einhverrar ánægju !

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 113
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 682
  • Frá upphafi: 365580

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 594
  • Gestir í dag: 109
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband