Leita í fréttum mbl.is

"Aðstoðarmenn aðstoðarmanna ráðherra !"

Simmi silfurskeið og BB hafa sýnt það eins og margir á undan þeim, að það er annað að sitja í ríkisstjórn en vera í stjórnarandstöðu. Það sem þeir bannsungu í stjórnarandstöðunni hjá fyrri ríkisstjórn er nú gott og gilt og svei mér þá ef þeir eru ekki búnir að finna alveg nýja leið til að gera löggjafarvaldið enn undirgefnara og háðara framkvæmdavaldinu en það var áður. Hefur þó sjaldnast þurft að auka þar við því svo hundflatt hefur þingið yfirleitt verið gagnvart framkvæmdavaldinu að það er löngu alræmt innanlands og aðhlátursefni í nágrannalöndum okkar sem búa við miklu meiri þingfestu í störfum en þekkist hér.

Ásmundur Einar Daðason þingmaður sem var í VG þegar sannfæring hans var á þeirri línunni, en hefur verið í Framsókn síðan sannfæringin í sellum hans vék sér aðeins til hægri, hefur verið útnefndur sérstakur auka-viðbótar-aðstoðarmaður Simma silfurskeiðar og verður hann þannig flugnæmur tengill þings og stjórnar, „sá fyrsti sinnar tegundar þessu landi á", eins og segir á vísum stað.

Ekki þarf að efast um það að á komandi árum verði þingmenn í allskonar aukahlutverkum á vegum ráðherra og framkvæmdavaldsins og að sjálfsögðu ólaunaðir sem slíkir. Menn geta nefnilega sinnt ýmsum aukastörfum meðan þeir eru á þingmannslaunum og svo eru sérskipaðir yfirþjónar í stjórnarráðinu líklegir til að öðlast aukin völd og áhrif sem alltaf geta skilað einhverju, þó það verði ekki komið neinni sérstakri krónumælistiku á þann ágóða.

Ég spái að þau verði fleiri nýmælin sem Simmi silfurskeið muni brydda upp á í stjórnarráðinu því hann er maður sem hikar ekki við að breyta hlutunum ef hann telur, prívat og persónulega, að það geti orðið til batnaðar. Svo það verður ef til vill áleitin spurning hversu dómgreindarlegur ráðherrann kemur til með að verða í sínum breytingaplönum og hvað mikið af þeim verði í raun til batnaðar ?

Ef til vill eigum við eftir að upplifa það, að útnefndur verði nýr ráðherra á næstunni, svokallaður Loforðamálaráðherra, til að annast þann mikla málaflokk sem Nýi Framsóknarflokkurinn hefur skapað í þeim efnum. Sá ráðherra getur svo haldið áfram að skipa í nefndir, safna upplýsingum, reikna út, vega og meta, skilgreina og fella hugsanlega að lokum úrskurð um það hvort ríkisstjórnin eigi eða þurfi að standa við skuldaleiðréttindaloforðin sem fleyttu henni til valda í vor !

Það sjá það náttúrulega allir að það mun taka sinn tíma að komast að niðurstöðu í þessum viðamiklu efnum og viðbúið að kjörtímabilið fari í það og gott betur ! Það er trúlegt að bæði Simmi og BB vilji vanda þar vel til verka og báðir telji það verjandi þó seinkun verði á hlutunum. Það er nefnilega allt annað að þjónusta kvótaaðalinn en landslýðinn, fyrri aðilinn þarf forgangsþjónustu eins og hann er vanur að fá úr kerfinu en fólkið getur beðið !

Nú virðist stefna í það, að aðstoðarmenn ráðherra fari að hafa svo mikið að gera, að þeir þurfi líka á aðstoðarmönnum að halda, enda er hagræðing á kostnaðarmálum ríkisstjórnarinnar þegar staðfest mínushagræðing á stofnanamáli. Kerfisútþenslan lætur ekki að sér hæða og íslenskt stjórnkerfi endar líklega með því að verða pýramídi á haus ; undirstaðan verður engin en yfirbyggingin svakaleg ! Og ef svo fer, mun allt taka að róla til vegna brotinna burðarlögmála og falla svo líkast til heldur þyngslalega á hægri hliðina - eins og síðast !

Sá sem forherðist og vill ekki læra af fyrri brotum, endar oftast með því að fremja meiri og verri brot. Þeir flokkar sem voru arkitektar efnahagshrunsins með stefnu sinni, hafa ekki sýnt á neinn gildisbæran veg að þeir hafi axlað ábyrgð eða sýnt með orðum og gjörðum iðrunarvilja og afturhvarfshugsun. Það er ills viti og þó að þeir hafi fengið tækifæri sem fáir hreppa sem líkt hefur staðið á fyrir, til að bæta fyrir afglöp sín og rísa frá brotlendingu til betri siða, hef ég vondan grun um að þannig verði ekki staðið að málum.

Simmi silfurskeið á líklega stysta stjórnmálaferil íslenskra forsætisráðherra upp í þann eftirsótta valdastól, en það er spurning hvort hann komi ekki líka til með að eiga einn stysta stjórnmálaferil sem um getur sem pólitískur forustumaður, því ef hann landar ekki loforðum sínum með sæmilega viðunandi hætti, er meir en líklegt að fólk taki ekki mikið mark á honum eftirleiðis !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 111
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 680
  • Frá upphafi: 365578

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 592
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband