Leita í fréttum mbl.is

Lífsstíll eða trú, hvert stefnum við ?

Það er fátt í okkar heimshluta sem hefur haft eins mikil áhrif síðustu 2000 árin og kristindómurinn. Nánast hver einasta manneskja sem hefur virkilega verið öðrum til blessunar í verulegum mæli á lífsleið sinni á Vesturlöndum á þessu tímaskeiði hefur verið kristin og nærst andlega af brunni Krists !

Við getum nefnt þar ótal nöfn, en það er ekki efni þessa pistils, heldur að fara nokkrum orðum um stöðu hinna kristnu á Vesturlöndum í dag og þar er Ísland innifalið. Í siðrænum efnum stöndum við þar núna sem vegir virðast liggja til allra átta og það virðist svo að æ fleiri hallist að því að prófa eitthvað nýtt, jafnvel bara tilbreytingarinnar vegna.

Þær hættur sem því fylgja óhjákvæmilega eru afgreiddar með ábyrgðarlausum hætti og að því er virðist fullkomnu kæruleysi, enda sálarleg staða fólks í nútímanum orðin afskaplega doðakennd eftir efnishyggjueinræði síðustu áratuga. Tilfinning fólks fyrir andlegum verðmætum virðist því orðin mjög brotakennd og hreint út sagt í sögulegu lágmarki !

En sú var tíðin að kristindómurinn var helsta vörnin við öllu því sem vildi ýta undir að fólk ætti mök við andaheiminn. Og þó margt í þeirri varnarviðleitni færi stundum á verri veg en æskilegt hefði verið og sumir sem áttu að vita betur hafi valdið öðrum tjóni, er ljóst að mörgum var oft forðað frá meiriháttar sálargrandi meðan vökul varðstaða var fyrir hendi, gegn þeirri mögnuðu hjátrú og þeim hindurvitnum sem oftast eiga svo greiða leið að fólki sem á sér einhverja drauma um að verða andleg stórveldi í krafti einhverra strauma að handan !

En það er með kristindóminn eins og margt annað, að fólk getur verið í tengslum við hann með margvíslegu móti. Því miður virðast mjög margir meðtaka hann nú á tímum sem einhversskonar form á lífsstíl, en þeim virðist aftur á móti fækka sem beinlínis vilja rækta hann í lífi sínu sem leiðina til sambands við hinn Lifandi Guð, Skapara himins og jarðar.

Margt fólk sem tilheyrir hinum kristna geira, er í raun fólk sem aðhyllist kristin gildi fyrst og fremst sem lífsstílsmál, en áskilur sér um leið fullan rétt til að velja þar og hafna eftir eigin geðþótta. Það er því ekki svo, að það viðurkenni alfarið Guðs Orð sem grundvöll réttrar breytni, því það er hreint ekki óalgengt að ýmis tíðaranda-sjónarmið hafi þar betur. Í því sambandi má benda á viðhorf til kvenréttinda og viðhorf til mannréttinda í þeim ofurvíða skilningi sem lagður er í þau mál á nútímavísu !

Svo Biblían er fyrir slíku fólki, þó það segist vera kristið, ekki bjargföst undirstaða lífssjónarmiða eða handbók fyrir lífsgönguna, heldur öllu fremur viðmiðun, sem virðist býsna mikið á fljótandi gengi, þegar tíðarandinn er annarsvegar !

Slík afstaða er, eins og gefur að skilja, enganveginn undirstöðugóður kristindómur og raunar spurning hvort þar er yfirleitt um kristindóm að ræða ?  Það er nefnilega ljóst, að þaðan hafa komið ýmis tækifærissinnuð málamiðlunarviðhorf í þann samsuðugraut tíðarandans sem ræður sjónarmiðum í dag og það vægast sagt á mjög villukenndan hátt !

Það virðist orðið tómt mál að tala um þjóðfélög á Vesturlöndum nú á dögum sem kristin. Það fer ekki mikið fyrir skýrum línum í því sem þar kallast kristindómur í dag og býsna margir sem eru í forsvari fyrir kirkjudeildir og söfnuði nútímans virðast öllu öðru fremur - og fyrst og fremst - vera á vinsældavakt í starfi sínu.

Það er sagt að mikilhæf og mæt Guðs kona sem nú er látin, hafi sagt fyrir nokkrum árum, að þó Andi Guðs hyrfi alfarið af jörðinni myndi 90% kirkjustarfs halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Það segir kannski sitt undir hvaða áhrifum er verið að vinna víða í nafni kristnihalds nú á dögum !

Það er meira framboð af svokölluðu andlegu fóðri í dag en lengst af hefur verið og kemur þar margt til. Upplýsingatæknin er orðin miklu meiri en áður þekktist og margir hafa tekið hana í þjónustu sína og á ýmsum mjög mismunandi forsendum. Alls konar lífslausnir eru boðnar fram nú á tímum sem lítið komu við sögur áður og austurlensk hindurvitni vaða uppi um öll Vesturlönd !

Það er þó sammerkt með flestu af þessu sem boðið er fram, að það kemur oftast fljótt í ljós að það snýst aðallega um peninga. Það eru ótal tilboð um yoga þetta og yoga hitt, allt á það að hjálpa fólki, en það kostar hreint ekki svo lítið. Svo þekkjum við söguna um heilun og reiki og hvað þetta allt saman heitir, sem á að lyfta fólki upp á við og opna þetta og hitt fyrir því sem áður var lokað. Og þar verða menn fljótt meistarar að mennt og útskrifaðir sem slíkir til að leiða aðra !

Og svo er til fólk sem er önnum kafið við að lyfta þeim átrúnaði sem þjóðin hvarf frá fyrir þúsund árum, vegna þess að flestir hinna bestu manna þess tíma sáu að hinn nýi siður var miklu háleitari, kærleiksríkari og fegurri á allan hátt en sá gamli. En þetta fólk telur sig í dag vita miklu betur en göfugmennin Gissur hvíti, Hjalti Skeggjason og Síðu-Hallur, og það kafar ofan í forneskjubrunna fyrri tíma af mikilli áfergju og leitar svara í dularfræðum goðsagnaheimsins !

Það er Tolkien-andinn sem tjáir sig þar eins og yfirleitt alls staðar þar sem leitast er við að setja gömul aflögð goð á stalla á ný. Menn verða oft sem andsetnir af yfirþyrmandi hugmyndum sem sækja að þeim og ég tel mjög líklegt að svo hafi verið með Tolkien. Hann var að sjálfsögðu starfandi prófessor í háskóla og ég spyr bara, hvað annað hefði hann átt að vera ?

En sem fyrr segir, framboðið af svokölluðu andlegu efni er mikið í dag og það segir okkur einmitt að þar hljóti ýmislegt að vera sem þörf sé að varast. Magnið er yfirfljótandi en gæðin áreiðanlega ekki. Og spyrja má, til hvers höfum við dómgreind ef við notum hana ekki okkur til verndar og viðgangs í lífinu og til að varast það sem varast ber ?

Það ætti flestum að vera ljóst, að það er umtalsverður aðgangseyrir að öllum þessum yfirlýstu andlegu gæðum sem verið er að bjóða fram nú á dögum, því það er með ólíkindum hvað margt fólk - sem segist bara vera fyrir andlega hluti og vera stórlega upplýst í þeim efnum, virðist þurfa mikið af peningum, og hvað það teygir sig langt eftir þeim efnislegu verðmætum sem mölur og ryð fær grandað !

Fégræðgin virðist vera þar nánast óseðjandi og það ætti nú að geta verið mörgum viðvörun um að ekki sé nú allt eins og það ætti að vera !

Það er til drjúgt af fólki í þessu litla landi okkar sem leggur sig niður við það að spá fyrir öðrum og þykist geta upplýst menn með þeim hætti um það sem á eftir að gerast. Og eins og fyrr segir, er fjáröflunarviðleitnin á fullu í kringum slíkt !

Það er jafnvel svo komið víða, að þau mörk sem ættu skiljanlega að vera á milli  menningar og kukls eru farin að verða ákaflega óskýr, svo að það sem í eina tíð hefði með afgerandi hætti verið talið ómerkilegt kukl, virðist núorðið geta verið talið til menningar og jafnvel vera styrkt sem slíkt !

Það sést líka á ýmsu, að sitthvað af því sem tilheyrir föstum lífsháttum Sígauna, virðist eiga sér sínar hegðunarsamstæður hérlendis, og með hliðsjón af því mætti segja að íslenskir sígaunar séu til sem stundi sambærileg „tekjuöflunar-trix !"

Að öllu samanlögðu má segja, að býsna margir sem segjast vera kristnir í þessu landi, hafi lífsstíl og sterkar tengingar við afkomumál sem greinilega eru af öðrum anda en þeim sem heiðrar raunverulegan kristindóm. Og hin nöturlega staðreynd er, að stærstur hluti þess sem kallast kristindómur í landinu er út í gegn kaldrifjuð og óforskömmuð málamiðlun á kostnað kristinna gilda !

Það er því skiljanlegt að íslensk þjóð hafi lent í hruni, og neiti enn í forherðingu að læra nokkuð af því, og taki þannig stefnuna í fullkominni blindni beint í annað og verra hrun !

Málið er nefnilega þveröfugt við það sem tiltekinn forsætisráðherra sagði hér um árið. Guð blessar ekki Ísland meðan þau öfl ráða hér ferð sem hatast við kristin gildi og stunda niðurrif á öllu því sem mest og best hefur varðveitt þessa þjóð í gegnum aldirnar !

Við erum á andlegum og siðferðilegum villugötum með okkar samfélag í dag og aðeins bænir fyrri kynslóða verja okkur endanlegu syndafalli !

Við stefnum ekki inn í bjarta framtíð, við stefnum inn í sorta siðleysunnar !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 159
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 728
  • Frá upphafi: 365626

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 639
  • Gestir í dag: 154
  • IP-tölur í dag: 152

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband