Leita í fréttum mbl.is

Frjáls og óháð umræða ? - eða þannig !

Ég er lítið fyrir að hlusta á Bylgjuna, enda hef ég aldrei verið hrifinn af einhliða viðhorfum og innihaldslitlu blaðri en hvorttveggja virðist mér fyrirferðarmikið á umræddri stöð. En stundum er ég staddur þar sem Bylgjan er í gangi og heyri hvað er verið að tala um og ég verð að segja að sjaldan finnst mér það merkilegt fyrir minn smekk !

Ég man það til dæmis að fyrir nokkru var Helgi Hjörvar tekinn þar í viðtal út af skuldaleiðréttingar-málunum og hann hafði ekki lengi setið fyrir svörum þegar útvarpsmaðurinn, viðmælandi hans, sagði heldur fruntalega : „Þið sátuð nú í 4 ár og gerðuð ekki neitt !

Helga virtist hálfpartinn fatast við þetta inngrip og hann greip ekki til hvassra andsvara, sem vissulega hefðu þó átt fullan rétt á sér í þessu tilfelli. 

Daginn eftir var Bjarni Benediktsson í viðtali og þá var nú talað á heldur notalegri hátt. Það var greinilegt að engum á Bylgjunni datt sú ósvinna í hug að segja við Bjarna : „ Þið sátuð nú í 18 ár samfleytt og það endaði með allsherjar hruni !"

En vinstri stjórnin 1209-2013 átti skilyrðislaust að þrífa upp 18 ára skít hægri flokkanna á þessum 4 árum og fyrst hún gat það ekki, var hún vegin og léttvæg fundin ! Og ekki nóg með það, þeir sem drulluðu hér yfir allt og ollu hruninu, gerðu stjórninni það eins erfitt að vinna þjóðina út úr vandanum og þeir frekast gátu !

Ragnheiður Elín Árnadóttir var á Bylgjunni fyrir nokkrum vikum og fór þá mörgum fögrum orðum um það að margt gott væri í gangi og menn mættu ekki vera svo neikvæðir að sjá það ekki. Það yrði að gefa stjórnvöldum svigrúm til athafna og vinnufrið !

Já, það er nefnilega það ! Var hún ekki ein af þeim sem var í því í fjögur ár samfleytt að rakka niður allt sem vinstri stjórnin var að gera og sjá til þess að hún hefði sem minnstan vinnufrið, við allt að því óbærilegar efnahagsaðstæður ? Ég man ekki betur. Alveg er það með ólíkindum hvernig sumt fólk getur talað !

En það er sitthvað að vera í stjórn og vera í stjórnarandstöðu. Það virðist til dæmis lítill vilji til að  semja í vinnudeilum af hálfu annars aðilans, þegar treyst er á það að lög verði sett á verkföll og það er ekkert nýtt að slíkt sé gert þegar hægristjórn er í landinu. Það er líka enn auðveldara núorðið þegar druslur dóminera í ASÍ !

Áróður er víða rekinn eins og margir vita og sannleikurinn er þá sjaldnast mikils metinn. Ég velti því fyrir mér hverjir eigi í raun Bylgjuna og á hvaða forsendum hún sé rekin ?

Líklega er hún skilgreind sem frjáls, óháð útvarpsstöð, en er eitthvað slíkt til í veruleikanum ? Það er svo mikill hægri andi í þeirri umræðu sem fer fram á þessari stöð, að ég læt engan segja mér að þar sé eitthvað frjáls og óháð á ferðinni. Það leynir sér ekki hvaða sjónarmið liggja á bak við rekstur Bylgjunnar !

Ég heyrði um daginn í mönnum þeim sem ég kalla Bylgju-Láfana. Þeir töluðu um að það væri verið að hirða allt af fólki, sjávarauðlindin hefði verið tekin, lífeyrissparnaður fólks og nú væri verið að taka viðbótarsparnaðinn og svo þyrfti þjóðin að fara að borga gjald fyrir að sjá sínar eigin náttúruperlur !

„Það er allt hirt af fólki" sögðu þessir sérfræðingar og útvarpsmaðurinn alfrjálsi spurði  í heimatilbúnu sakleysi sínu : „Og hver gerir það ?" Og þá var svarið : „Þú getur nú sagt þér það sjálfur !" Og svo hlógu allir mikið........já, hlógu  !!!

En mér finnst þetta ekkert fyndið. Það sem er og hefur verið að gerast eru grafalvarlegir hlutir. Og þó að Bylgju-Láfarnir - sem eru að minni hyggju, í einkavinahópi fjármagnselítunnar í landinu, tali oft í útvarpi eins og þeir séu sérútvaldir talsmenn manneskjuvænna sjónarmiða, tel ég þá samt sem áður innmúraða og innvígða í valdablokk sem hefur aldrei haft manneskjuleg sjónarmið að leiðarljósi. Og kannski var það einmitt þessvegna sem þeir gátu hlegið svo hressilega yfir stöðu mála ?

Hverskonar menn eru það eiginlega sem hlægja svona að ógæfu eigin þjóðar ? Er það eitthvað til að gantast með þegar allt er hirt af fólki ?

Já, kannski er það svo, þegar menn eru í raun og veru sammála því sem verið er að gera, þó þeir láti annað uppi. Sérhagsmunatilhneigingar koma alltaf upp um sig með einum eða öðrum hætti og Bylgju-Láfarnir eru þar sterklega grunaðir um græsku bæði af mér og öðrum. Skoðið bara feril þeirra og berið hann saman við orð þeirra á Bylgjunni og sjáið hvernig útkoman verður ?

Yfirlýst „frjáls og óháð útvarpsstöð" eins og Bylgjan - er hvorki frjáls eða óháð í mínum skilningi og þjónar - að minni hyggju - aðeins því sem henni var og er ætlað að þjóna og þessvegna er hún til sem slík !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 7
  • Sl. sólarhring: 201
  • Sl. viku: 1079
  • Frá upphafi: 358593

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 923
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband