Leita í fréttum mbl.is

Atgervismál í skötulíki !

Joe Biden heitir maður sem gegnir því vansæla hlutverki nú um stundir að vera varaforseti Bandaríkjanna. Hefur hann þó líklega ekki staðið sig neitt verr í því embætti en ýmsir forverar hans og jafnvel hugsanlega eitthvað betur en sumir. Joe er að vísu ekki talinn neitt sérlega sterkur til höfuðsins, en hverju skiptir það. Fyrir embættisins hönd hafa heldur ekki verið gerðar neinar sérstakar kröfur varðandi vitsmuni til þeirra sem þurfa að gegna því, að minnsta kosti ekki í seinni tíð !

Stjórnkerfi Bandaríkjanna er satt að segja orðið þannig að margra áliti, að það  hefur ákaflega lítið með það að gera að þarlendir stjórnmálamenn þurfi að vera sterkir til höfuðsins. Aðalatriðið er að þeir skilji hverjir ráða bandaríska stórríkinu í raun og veru og hafi það í sér að hlýða þeim öflum út í eitt - og þar eru náttúrulega risa auðhringirnir efstir á blaði.

Þó þau öfl teljist strangt tekið vera utan stjórnkerfisins eru þau innan þess líka og fara þar nánast með öll völd þegar grannt er skoðað. Menn sem gegna háum embættum í bandaríska stjórnkerfinu þurfa því að vita hvernig þeir eigi að fjalla um mál þannig að þeir fylgi þeirri línu sem þeim er uppálagt - bak við tjöldin -  að halda sig á !

Sumir virðast hinsvegar ekki kunna allskostar þann línudans og virðast í þokkabót jafnvel halda að þeir eigi að tala út frá einhverri sannfæringu. Kannski er Joe Biden einn af þeim, því hann á það til að tala nokkuð frjálslega og það svo að stundum þarf hann að útskýra eftir á hvað hann meinti og stundum er útskýringin þá afskaplega þvert á það sem hann sagði - eins og hafi verið hnippt í hann í millitíðinni !

Ég er viss um að Joe karlinum þykir það leiðinlegt þegar þannig tekst til, því hann er í raun alls ekki eins ómerkilegur og sumir kunna að halda. Hann vill eflaust vera trúr því sem hann tengir sig við og friðarverðlaunahafinn mikli í Hvíta húsinu á ábyggilega hollustu hans í hvívetna, en Joe á það sem sagt til að missa út úr sér ýmislegt sem væri líklega betur ósagt. Þeir aðilar eru að vísu til sem vilja kannski líta á slíkt sem sjarmerandi breyskleika og sönnun fyrir því að viðkomandi maður sé bara svona hjartahreinn, en það á þó líklega ekki við í umræddu tilfelli !

Veruleikinn í Washingtonborg er nefnilega sagður einstaklega vel til þess fallinn að þvo úr mönnum allan hjartahreinleika og það á tiltölulega skömmum tíma. Það hefur heldur enginn Mr. Smith farið til Washington í háa Herrans tíð til að flytja þar vakningarræður um þjóðleg gildi, enda mun varla nokkur maður þar í borg skilja hvað þjóðleg gildi eru á nútíma-mælikvarða. Það þarf líklega einhverja sem eru sæmilega sterkir til höfuðsins til að skilja slíkt og þeir finnast varla í höfuðborg Bandaríkjanna og allra síst í alríkis-stjórnkerfinu þar !

Annars kippa Bandaríkjamenn sér svo sem ekki mikið upp við það þó varaforseti þeirra - eða aðrir æðstu menn þeirra - eigi það til að tala skringilega, því þeir eru ýmsu vanir í þeim efnum frá fyrri tíð. George Bush yngri forseti átti það nú til að verða æði oft fótaskortur á tungunni og Dan nokkur Quayle sem var varaforseti í eina tíð, talaði oft þannig að menn áttu stundum erfitt með að átta sig á því hvar hann hefði eiginlega verið fæddur og enn erfiðara með að átta sig á því hvar hann hefði eiginlega verið uppfræddur !

Geta menn sem best fundið ýmis gullkorn þessara manna á netinu enn í dag og glaðst yfir þeim einfalda frumleika sem þar kemur fram -  að því er virðist - algerlega án tengsla við mannlega vitsmuni !

Og þegar hugsað er til þess, að Bandaríkjamenn eru um 312 milljónir talsins og að úr þeim fjölda hafi ekki verið hægt að skila hæfileikameiri mönnum upp í efstu valdastóla bandaríska alríkisins en heimsbyggðin hefur þurft að þola undanfarinn aldarfjórðung eða svo, fer maður að skilja dálítið betur - á jöfnum forsendum -hversvegna forustulið Íslendinga er jafn yfirmáta ömurlegt og raun ber vitni !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 10
  • Sl. sólarhring: 94
  • Sl. viku: 816
  • Frá upphafi: 356661

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 648
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband