Leita í fréttum mbl.is

Sagan endurtekur sig !

Flestir vita að Bandaríkin eignuðust einn sinn frægasta son í þeirri atburðarás sem átti sér stað í aðdraganda borgarastyrjaldarinnar og meðan á þeirri mannskæðu styrjöld stóð. Abraham Lincoln var ekki bara einhver forseti þarna fyrir vestan, hann var stórbrotinn persónuleiki og göfugmenni af bestu gerð. Það hafa ekki margir setið á forsetastóli í Bandaríkjunum sem hafa verið jafn miklir menn í sjálfum sér sem þessi maður sem ólst upp meðal alþýðunnar, þekkti venjulegt fólk og elskaði það af öllu hjarta og fann sig best á meðal þess.

Lincoln var mannvinur í eðli sínu, en sú ógnarþunga byrði var lögð á hans herðar að vera stríðsleiðtogi og það í borgarastyrjöld. Hann þjáðist því mjög á sál sinni þann tíma sem styrjöldin stóð og beið þess stöðugt að upp birti og hægt væri að binda um sárin og græða þau og leiða þjóðina inn á sameinaðan sáttaveg.

Flestir vita hvernig framvindan varð. Andlega sjúkur ofstopamaður myrti Lincoln í hefndarskyni fyrir ósigur Suðurríkjanna, en drap þar með einu vonina um manneskjulega meðferð á uppreisnarríkjunum og gerði Suðurríkjunum það mesta ógagn sem hægt var að gera á þessum tíma. Þegar Lincoln var ekki lengur til staðar, réðu stríðsgróðaöflin meðal sigurvegaranna öllu og þeirra leið var að gera allt öfugt við það sem Lincoln hefði gert.

Stjórnvöld í norðurríkjunum sviku þannig stefnu Lincolns og meðhöndluðu Suðurríkin af fyllstu hörku og allskyns ófarnað leiddi af því. Og eftir að Andrew Johnson hafði verið rutt úr vegi með valdatöku Grants var það lið fullkomlega við völd sem bætti lítið sem ekkert en gerði margt til bölvunar. Það var því ekki bundið um sár, það voru þvert á móti sköpuð ný sár og kannski hefur Bandaríkjaþjóðin enn í dag ekki uppskorið alla þá ógæfu sem á rætur sínar í svikunum við mannúðarstefnu Lincolns. Það voru fyrstu stóru svikin af þessari gerð !

Í lok fyrri heimsstyrjaldar sat annar mikill mannvinur á forsetastóli í Bandaríkjunum – Woodrow Wilson. Hann vildi taka fast á vandamálunum eftir stríðið og vinna í anda þeirra sátta sem geta orðið varanlegar ef vel tekst til. En leiðtogar gömlu, blóðugu álfunnar voru á öðru máli. Þeir fóru á bak við Wilson, hæddust að hugsjónum hans og friðartali, brugguðu stefnu hans banaráð og fóru með allt í sama gamla haturs og hefndar farið.

Bandaríkjaþing og stjórnvöld heima fyrir brugðust líka forsetanum og stefnu hans þegar mest á reið og því fór sem fór. Þjóðabandalagið fékk aldrei þann slagkraft sem þurfti og Wilson missti heilsuna í baráttunni og dó stuttu síðar sem útslitinn maður.

Menn sem voru að meðtaka sínar pólitísku lexíur í Evrópu á þeim tíma, menn eins og Mussolini og Hitler, komust á þá skoðun út frá Versalaráðstefnunni og meðferðinni á Wilson og stefnupunktum hans, að Bandaríkjamenn væru ómerkingar og það þyrfti ekki að reikna með miklu frá þeim eða taka tillit til þeirra. Þeir töluðu fallega en stæðu ekki við það sem þeir segðu.

Ólíklegt er að slíkir menn sem fyrrnefndir einræðisherrar hefðu komist til valda ef tekið hefði verið á málum í anda Wilsons á ráðstefnunni í Versölum, en afleiðingar hennar fæddu af sér seinni heimsstyrjöldina með öllum þeim hörmungum sem henni fylgdu.

Lengi hefur það verið svo að það er lítið talað um Woodrow Wilson, og það er eins og Bandaríkjamenn sjálfir margir hverjir skammist sín fyrir framkomuna við hann, og telji því best að hafa sem fæst orð um sögu hans. En Wilson er samt einn háleitasti hugsjónamaður sem hefur sett mark sitt á bandaríska stjórnmálasögu og væri betur að þar hefðu fleiri haft þá réttsýni að leiðarljósi sem hann hafði um sína daga.

Við af Wilson tók forseti sem talinn er einn sá slakasti meðal forseta Bandaríkjanna, maður af allt annarri og síðri manngerð en fyrirrennari hans. Svo mikil varð andstaðan gegn hugsjónum Wilsons að allt þótti betra en að berjast fyrir þeim. Grafið var undan forsetanum og það jafnvel á ólíklegustu stöðum. Og í valdatíð eftirmannsins er sagt að forsetaembættið hafi séð einn sinn lægsta punkt í virðingarlegu tilliti !

En í fáum orðum sagt - þannig fór fyrir Woodrow Wilson og með þessum hætti var mannúðarstefna hans svikin í Evrópu sem og heima fyrir. Það voru önnur stóru svikin af þessari gerð !

Í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og fram á árið 1945, var enn á ný mikill hugsjónamaður á stóli forseta Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt. Hann lést rétt fyrir stríðslok og sá er tók við af honum var maður af allt öðru tagi. Stefnu Roosevelts var kastað út og framvindan eftir stríð sýndi ljóslega að fylgt var öðrum og verri viðmiðum.

Harðlínuöflin höfðu fengið sinn mann inn sem varaforseta 1944 en sá sem því starfi gegndi áður, Henry A. Wallace, var síst af öllu maður að skapi áhrifamanna í Wall Street og þeirra sem stjórnuðu auðhringunum. Ein afleiðing gjörbreyttrar stefnu var að Sameinuðu þjóðirnar fengu aldrei þann slagkraft og tiltrú sem þörf var á og urðu að mestu leyti pólitískt leiktæki í höndum vesturveldanna. Framvindan varð því taka tvö af Þjóðabandalaginu !

Nú í dag getur enginn maður sem vill sýna fulla dómgreind borið meira en mjög takmarkaða virðingu fyrir Sameinuðu þjóðunum sem stofnun. Þau eru að mestu fallin á sínu mikla raungildisprófi þó þau lafi við lýði nú á dögum sem fjölmenningarlegur kjaftaklúbbur !

Svik bandarískra stjórnvalda 1945 voru þriðju stóru svikin af þessari gerð sem hér um ræðir og mannkynið er enn að glíma við miklar og illar afleiðingarnar af þeim fyrir Bandaríkin og heiminn allan !

Flestir menn hafa eitthvað til brunns að bera, en oft eru alrangir menn til staðar þegar aðrir og betri menn hefðu þurft þar að vera. Það var ekki góðum málum í heimi hér til framdráttar að Grant varð forseti eftir að kjörtímabili Lincolns lauk. Það var heldur ekki til góðs að Harding tók við af Wilson og Truman af Roosevelt !

Í öllum þessum tilvikum var um að ræða spor aftur á bak og ávöxtum dýrkeypts sigurs spillt stórlega. Það er aðeins eitt sem getur hugsanlega réttlætt miklar fórnir sem færðar hafa verið. Það er að barist hafi verið til einhvers, að eitthvað betra taki við !

Við getum spurt okkur þeirra spurninga varðandi stríðslokin 1865, 1918 og 1945 ?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 117
  • Sl. sólarhring: 141
  • Sl. viku: 922
  • Frá upphafi: 356818

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 736
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 101

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband