Leita í fréttum mbl.is

"Hershöfðingjalýðræðið !"

Lýðræði er stjórnarfyrirkomulag þar sem menn eins og John Adams, Thomas Jefferson, James Madison, James Monroe og John Quincy Adams ættu að vera leiðandi forsvarsmenn. En það eru ekki lýðræðisfrömuðirnir sem hafa oftast hlotið mestan stuðning eftir þá sigra sem unnist hafa. Það eru öllu heldur stríðsmennirnir, hershöfðingjarnir, sem hafa þá vinninginn.

Við skulum líta aðeins á bandaríska sögu með þetta atriði í huga.

Eftir sjálfstæðis-stríðið var Washington hershöfðingi kosinn forseti en John Adams varð í öðru sæti. Seinna kom Andrew Jackson hershöfðingi á forsetastól, hetjan úr stríðinu 1812 og John Quincy Adams varð að víkja.

Nokkru síðar varð William Henry Harrison hershöfðingi forseti, hetjan frá orustunni við Tippecanoe, en hann tórði bara sem forseti í 62 daga. Skömmu síðar varð Zachary Taylor hershöfðingi forseti, hetjan úr Mexicó-styrjöldinni.

Reynt var að velta Lincoln úr sessi 1864 með framboði George B. McClellan hershöfðingja en það tókst sem betur fer ekki. Síðan varð Ulysses S. Grant hershöfðingi forseti eftir að seinna kjörtímabili Lincolns lauk með Andrew Johnson í forsetastól. Reyndar voru menn svo óþolinmóðir eftir því að koma stefnu Lincolns fyrir kattarnef að reynt var að hrekja Johnson frá völdum og munaði litlu að það tækist. Þar var ljótur leikur í gangi sem svívirti í raun minningu hins myrta forseta.

Arftaki Grants á forsetastóli Rutherford B. Hayes var fyrrverandi hershöfðingi í sambandsher Norðurríkjanna. Hann hafði lýst því yfir fyrirfram að hann myndi ekki gefa kost á sér sem forseti nema til eins kjörtímabils og stóð við þau orð sín.

James A. Garfield varð forseti þar á eftir en hann var líka fyrrverandi hershöfðingi í her Norðurríkjanna. Hann hafði ekki fallið fyrir kúlu í stríðinu en féll hinsvegar sem forseti fyrir morðingjakúlu hálfu ári eftir að hann tók við embætti.

Benjamin Harrison varð svo forseti um áratug síðar en hann hafði einnig verið hershöfðingi í borgarastyrjöldinni og fyrrnefndur William Henry Harrison var afi hans.

Fljótlega þar á eftir kom Teddy Roosevelt, hann var að vísu ekki formlegur hershöfðingi en hegðaði sér sem slíkur og var óhemju vinsæll fyrir Rough Riders þátttöku sína í styrjöldinni við Spánverja og komst líklega til mikilla áhrifa meðal annars vegna þess.

John Pershing hershöfðingi hefði þannig samkvæmt reglunni líklega verið kosinn forseti eftir fyrri heimsstyrjöldina ef hann hefði farið í framboð, en hann var yfirhershöfðingi bandaríska heraflans sem sendur var til Evrópu 1917. Hann er hinsvegar undantekningin frá reglunni.

Dwight D. Eisenhower hershöfðingi sem gegndi samsvarandi stöðu í seinni heimsstyrjöldinni var kosinn forseti Bandaríkjanna 1952 og sat sem goð á stalli sín 8 ár. Hann var ekki atkvæðamikill forseti en sennilega frekar ljúfur maður í viðkynningu. Hann átti ýmsa að sem veittu honum stuðning bæði framan af og síðar, þungavigtarmenn eins og George C. Marshall.

1968 bauð hægriöfgamaðurinn George Wallace sig fram til forseta og varaforsetaefni hans var flughershöfðinginn Curtis LeMay. Þeir höfðu hinsvegar ekki erindi sem erfiði, enda svo langt til hægri að flestir bandarískir kjósendur máttu heita vinstrisinnaðir miðað við þá.

Eftir 1990 fóru sumir að tala um Colin Powell hershöfðingja sem vænlegt forsetaefni, en þær bollaleggingar runnu út í sandinn þegar ferill og orðstír viðkomandi manns varð nánast að engu í gereyðingarvopna-lygaferli bandarískra stjórnvalda gagnvart Írak.

Sumir hafa í tímans rás orðað fleiri hershöfðingja við forsetaembættið svo sem Douglas MacArthur og Norman Schwarzkopf, en slíkar pælingar hafa oftast komið fram hjá mönnum sem staðið hafa lengst til hægri í bandarískri pólitík og viljað hafa harðlínu hauka í Hvíta húsinu.

Í bókinni Sjö Dagar í Maí er lýst valda-togstreitu í Bandaríkjunum milli kjörins forseta og atkvæðamikils harðlínu hershöfðingja. Kvikmynd var gerð eftir bókinni og er sú mynd allrar athygli verð. Forsetinn er þar leikinn af Fredric March og hershöfðinginn af Burt Lancaster og gera þeir hlutverkum sínum góð skil sem vænta mátti.

Sagan segir að Kennedy forseti hafi talið að svona hlutir gætu komið upp á og hann hafi meðal annars vegna þess verið hlynntur því að myndin yrði gerð, en Pentagonhjörðin hafi hinsvegar ekki verið ánægð með framtakið.

En það getur vissulega verið talsverð spurning hvert hershöfðingjadýrkun af framangreindu tagi getur leitt kjósendur í lýðræðisríki og margir gætu trúlega svarað því svo - að stefnan gæti helst orðið í því tilfelli frá lýðræði til einræðis.

Vonandi reynir aldrei á slíkt með þeim hætti sem kvikmyndin Sjö Dagar í Maí greinir frá !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 125
  • Sl. sólarhring: 247
  • Sl. viku: 905
  • Frá upphafi: 357086

Annað

  • Innlit í dag: 113
  • Innlit sl. viku: 721
  • Gestir í dag: 113
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband