Leita í fréttum mbl.is

Mótmæli á sautjánda júní !

Það virðist liggja fyrir að þjóðhátíðardagurinn okkar sé að sumra mati dagur sem eigi ekki og megi ekki notast sem mótmæladagur. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en hinsvegar er það lýðræðislegur réttur fólks að fá að mótmæla þegar það telur að stjórnvöld standi sig illa í stykkinu. Ég hefði hinsvegar kosið að þeir sem voru að mótmæla hefðu staðið þannig að málum að láta allt detta í dúnalogn rétt á meðan Þjóðsöngurinn stóð yfir. Það hefði verið mjög áhrifaríkt og skilaboðin verið með skýrasta móti!

Við skulum líka hafa í huga að 17. júní er þjóðhátíðardagur okkar vegna þess að Jón Sigurðsson fæddist þann dag og varla er frægari mótmælandi til í sögu þjóðarinnar en hann. Eins og kunnugt er, lýsti hann því yfir á þjóðfundinum 1851 að hann mótmælti gerræði Dana í málefnum Íslands og líklega var framganga hans þar hans stærsta stund.

Það er því ekkert að því að nota daginn til að mótmæla því sem fólki finnst illa gert af valdhöfum gagnvart landi og þjóð. Gerræðisleg vinnubrögð verða ekkert geðslegri við það að íslenskir valdhafar viðhafi þau og þeir sem halda að 5-7% topp-elíta sé öll þjóðin eru á algjörum villugötum gagnvart þjóðarviljanum !

Það má líka hugleiða það, að þegar athafnir stjórnvalda eru allan ársins hring ekkert nema níðangurslegar árásir á almannahag með einum eða öðrum hætti og venjulegt fólk fyrirlitið og kjör þess einskisvirt, sé hinum sömu stjórnvöldum hreint ekki stætt á því að halda einhverja prumphátíð með sléttu yfirbragði þegar eldur óánægjunnar kraumar undir í þjóðlífinu.

Tiltekinn sagnfræðingur talaði um það í fjölmiðli að helgi þjóðhátíðardagsins,Þjóðsöngsins og forsætisráðherra hefði ekki verið virt ! Ég veit vel að sumir telja að þjóðhátíðardagurinn eigi að falla inn í ákveðið hátíðarform, þó ég telji það út af fyrir sig ekkert sjálfsagt mál, helgi Þjóðsöngsins er ég tilbúinn að virða hvar og hvenær sem er, en helgi forsætisráðherrans kannast ég ekki við og veit ekki til þess að neinn helgur maður hafi gegnt umræddu embætti til þessa á Íslandi !

Það má vel vera að fólk eins og Vigdís Hauksdóttir, sem talaði um það nýlega í fjölmiðli að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri líklega langmerkasti stjórnmálamaður Íslands frá lýðveldisstofnun, sé með þá skoðun að umræddur maður eigi að teljast helgur og sé orðinn einhversskonar dýrlingur en ég get ómögulega fallist á það. Og ég held, að ef forsætisráðherra hefði verið að segja satt í þjóðhátíðarræðu sinni um hinn mikla jöfnuð sem ríki nú á Íslandi, hefði legið ljóst fyrir að engir mótmælendur hefðu verið að trufla hátíðarræðu hans !

Það er einmitt sú beiska staðreynd, að fátækt er að verða böl á Íslandi á nýjan leik, sem skapar reiði meðal fólks í garð stjórnvalda sem fyrst og fremst eru í því að hygla gráðugum og oföldum sérhagsmunaklíkum landsins. Þessvegna kemur fólk saman til að mótmæla, því stór hópur Íslendinga veit að sankti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er í merg og bein fulltrúi sérhagsmuna-aðalsins í landinu og einmitt þessvegna gengur ekki hnífurinn á milli hans og Bjarna Ben. Þar er hugsunin ein og hin sama – mettuð sérgæsku silfurskeiðunganna !

Það er fróðlegt að skoða söguna aðeins með hliðsjón af því hvernig þeir menn hafa getað orðið helgir sem aldrei áttu fyrir því. Ólafur digri Haraldsson er þjóðardýrlingur Noregs, en hann var í raun slíkur konungur að bændur landsins sáu sig loks tilneydda til að fara að honum og drepa hann. Í framhaldinu var hann gerður helgur af kirkju og konungsvaldi og sagan lagfærð honum til heiðurs ! Í Danmörku var Knútur II. Sveinsson afar illræmdur konungur sem herti mjög að almenningi og lauk harðstjórn hans með því að hann var drepinn í uppreisn sem varð meðal bænda. Það stóð ekki á því að hann var yfirlýstur helgur af kirkjunni og hafði þó ekki nokkra inneign fyrir slíku. Þannig eignuðust Danir sinn fyrsta helga mann. Það virðist þannig lengi hafa verið nokkuð rík siðvenja meðal höfðingjavalds ríkis og kirkju að gera þá menn helga sem verst hafa komið fram við alþýðu manna !

Kannski má segja að enn dragi ýmislegt dám af þessu gamla spillingarspili hinnar lagfærðu sögu. Og kannski er vilji til þess hjá sumum að gera vissa menn helga í dag ? En nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því hvað er satt og rétt í málum og hegði sér í samræmi við það. Það sem hægt er að virða á að virða en það sem ekki er hægt að virða á ekki að virða. Réttur fólks er að fá að mótmæla þegar því er misboðið og fólk ætti ekki að vera skyldað nú til dags til að leggjast hundflatt fyrir öfugum lagasetningum og kerfislegu ranglæti !

Það skiptir engu þó einhverjir sápuþvegnir elítu-refir tali um helgi einhverra valdamanna, það hefur ekkert gildi þegar verk þeirra tala ekki með þeirri túlkun. Það getur líka vel verið að sumir vilji tala um skrílslæti þegar fólk mótmælir, en því er til að svara að mannréttindi eiga ekki að vera einskorðuð við efstu tröppur þjóðfélagsstigans. Það ætti öllum að vera ljóst að mótmæli kvikna ekki af engu og mótmælin á Austurvelli á sautjánda júní eru hrópandi vottur þess að enn virðist gjáin breikka milli hinna tveggja - alls óskyldu - tekjuþjóða sem byggja þetta land !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 836
  • Frá upphafi: 357104

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 679
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband