Leita í fréttum mbl.is

Reykjavíkursæðið !

Nýlega leit ég yfir ritstjóragrein í blaði sem heitir Akureyri og er að mér skilst dreift um allt norðurland. Blað þetta ætti auðvitað að heita Norðurland en ekki Akureyri, en sumir eru víst þannig gerðir að þeir sjá ekki norðurland fyrir Akureyri. Þeir eru eins og sumir syðra, sem sjá ekki landsbyggðina fyrir umfangi Reykjavíkur !

Í þessari ritstjóragrein var einmitt verið að fjalla um Reykjavíkursvæðið en svo hafði viljað til að seinna vaffið í orðinu hafði fallið út svo eftir stóð Reykjavíkursæðið !

Þetta varð til þess að ég fór að hugsa enn meira en endranær um það hverskonar sæði það sé fyrir land og þjóð sem sáð er í Reykjavík nú á dögum. Mér finnst það nefnilega vont sæði ! Og þegar andinn á höfuðborgarsvæðinu stjórnast af stöðugri sáningu þessa sæðis er ekki von á góðu. Við erum með hverju árinu sem líður að fjarlægjast þau gildi sem ber að fylgja – og það blasir við, að sérgæskan sem enn virðist tröllríða öllu í Reykjavík er þjóðlega séð ekkert nema bölvun ! Það leiðir af sjálfu sér að ekkert gott getur fylgt framferði sem ræðst af taumlausri eigingirni og gengdarlausum hroka, sjálfselsku og sérgæðingshætti. Mér virðist margt benda til þess að séríslenska alheims-fjármálaveldið sé í uppsiglingu á nýjan leik og menn hafi ekkert lært af biturri reynslu. „You Ain´t Seen Nothing Yet“ er kannski víða enn í kortunum !

Í Bók bókanna talar sjálfur Frelsarinn í líkingasögu um sæði, hvernig því er sáð og hvernig það skilar sér. Mér finnst að það sæði sem sáð er í höfuðborg landsins sé að stórum hluta óheilbrigt og landi og þjóð til ófarnaðar. Það er eiginlega sama hvort við tölum um sáðmanninn í líkingu stjórnvalda, ríkiskerfisins,fjármálakerfisins, heilbrigðiskerfisins, alls staðar virðist sáningin vera komin í einhvern þann farveg að verið sé að búa illa að fólki. Það er orðið mörgum ljóst að það er ekki starfað í anda þjóðlegra velferðarmarkmiða í þessu landi, heldur með græðgissýn og arðrán fyrir augum !

Í Reykjavíkursæðinu býr rót alls ills, ágirndin holdi klædd, fíknin í meiri og meiri peninga. Þar sem menn koma saman er talað um peninga, eignir og efnisleg hlunnindi. Andleg málefni eru orðin síðasta sort hjá stórum hluta Íslendinga nú á dögum. Allt virðist snúast um það að ná í peninga, helst með eins lítilli fyrirhöfn og frekast er hægt !

Það vita líka allir að enginn eignast nokkra peninga að ráði á Íslandi nú á dögum með heiðarlegum og sanngjörnum hætti, til þess verða að koma til einhver hjálparmeðul, kvóti eða einhver hliðstæð arðráns-hlunnindi. Og fjölmargir sem enginn veit til þess að hafi nokkurntíma unnið ærlegt handtak eru orðnir ríkir í þessu landi, einkum á síðustu árum, og slíkt gerist ekki þar sem heilbrigðir viðskiptahættir eru við lýði !

Reykjavíkursæðið er ekki gott og það er því miður byrjað að sá sér út um landið, en ég segi, Guð forði landsbyggðinni frá þeirri óþjóðlegu sendingu. Á flestu öðru þurfum við sem á landsbyggðinni búum frekar að halda, en því andavaldi ágirndarinnar sem kemur að sunnan. Enn lifir samt víða í hinum dreifðu byggðum andi samhjálpar og samstöðu, það félagslega afl sem lyfti þessari þjóð frá örbirgð til bjargálna á síðustu öld. Þar býr það allt sem þarf að styrkja og efla til þjóðlegra heilla !

Og meðan landsbyggðin stendur fyrir sínu, mun íslensk dyggð eiga einhversstaðar heima, eins og segir í góðri vísu. En íslenskar dyggðir vaxa sannarlega ekki upp af því sæði sem ræður lögum og lofum í Reykjavík. Þar er annað afl í gangi sem virðist engin takmörk þekkja í einokunar kapitalisma sínum, græðgisvæðingu og frjálshyggjukeyrslu í öllum málum. Sæði sem sáir sér þannig að það tortímir góðum gildum og spillir þjóðlegum vaxtarmætti og upphefur einstaklinginn í tilbeiðslu á eigin sjálfi, er illt og ekkert nema illt !

Ég vil óska þess innilega að þetta Reykjavíkursæði mætti í heilu lagi sökkva á sextugu djúpi – ásamt öllum sundurlyndisfjandanum sem er að rífa þessa þjóð okkar á hol. Ég vil að þjóðin rísi upp til varnar sínum fornu gildum og betra er seint en aldrei !

Við þurfum heilbrigð yfirvöld sem leiða í stað þess að eyða. Við þurfum ríkisstjórn, þing og dómstóla sem njóta trausts, við þurfum endurreisn þjóðlegra gilda og vakningarbylgju réttlætis í þessu landi okkar !

En við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því, að slík endurreisn verður aldrei að veruleika meðan illt sæði fær að fjölga sér án afláts út frá höfuðborgarhreiðrinu - á ómældan kostnað lands og þjóðar !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 837
  • Frá upphafi: 357105

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 680
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband