Leita í fréttum mbl.is

Um siðræn rök og samviskufrelsi !

Í öllu því efnishyggjuæði og tækniframfaraflóði sem ráðið hefur för í heiminum undanfarin ár, hefur farið lítið fyrir andlegum gildum og skyldi engan undra. Þar sem Mammon er settur í hásæti er fátt tignað annað en peningjahyggjan hörð og köld, þar sem viðkvæðið er að allt skuli sett á markað. En þó að siðferðileg viðmið hafi verið á miklu undanhaldi á seinni árum og samviska manna virst vera orðin allt að því almenn söluvara, er siðferði samt enn til og samviska líka !

Og þau góðu gildi sem þar ráða för munu vissulega snúa aftur þegar tímar iðrunar og afturhvarfs hefjast eins og löngum áður. Þegar maðurinn hefur fengið nóg af spilltum lífsháttum og spilltu umhverfi, fer hann að taka til hjá sér. Það getur tekið tíma og illgresið hrúgast auðvitað upp í lífsgarðinum á meðan, en að því kemur að þörfin fyrir tiltekt nær knýjandi stöðu. Þá fyllast menn vilja til að bjarga síðasta óspillta blómstrinu í garðinum frá því að hverfa undir illgresið að fullu og öllu og berjast að því marki og bjarga sál sinni um leið !

Það er í raun saga mannsandans í hnotskurn, að snúa aftur frá sínum illu vegum þegar allt virðist vera að hverfa til heljar, þegar djöfullinn virðist vera að hrósa fullkomnum sigri, að rísa þá upp til baráttu fyrir eigin sálarheill og annarra. Hinn niðurbrotni mannsandi brýst þá upp úr svartnætti sorans og iðrast synda sinna og ranginda. Þá endurnýjast hann við náð og miskunn Skaparans og nær að sjá til sólar á ný !

Það hafa alltaf verið til marktækar vörður á vegferð lífsins og meðal þeirra eru siðferði og samviska. Réttir vegvísar eru til og munu finnast ef vilji er til að lúta leiðsögn þeirra. En sá sem reikar um veginn, fullur af hungri sjálfsins eftir veraldlegum hégóma, hugar hinsvegar ekki að neinum kennileitum og sér engar vörður sem vísa honum leið. Hann er á valdi annarlegra afla sem búa í honum sjálfum og leiða hann afvega - í öfuga pílagrímsför !

Maðurinn er sem sköpun margslungið fyrirbæri. Í honum býr svo margt, bæði gott og illt. Eitt sinn var kveðið um kunnan alþingismann : „Mér er um og ó um Ljót/ég ætla hann vera dreng og þrjót./ Í honum er bæði gull og grjót/ hann getur unnið mein og bót/. Og þannig er það með okkur flest.

Það er stöðug glíma háð í sálarlífi mannsins, þar sem öflin tvö takast á, hið góða og hið illa. Séra Ketill fer víða hamförum og það er hreint ekki alltaf sem hann breytist í Gest eineygða. Hið illa hrósar stundum sigri í lífi einstaklinga og þá er glötunin það eina sem við tekur !

En hvernig er það með samviskufrelsið ? Hvernig ávaxtar maður það innra með sér og varðveitir það óspillt af margvíslegum fjötrum og felligildrum samtímans ? Fyrst og fremst er í þeim efnum nauðsynlegt að ánetjast engu því sem bindur menn við einhæfa sýn á menn og málefni. Að ganga ekki ungur að árum og óþroskaður til liðs við eitthvað sem maður veit í raun ekki hvað er. Að fjötrast ekki þröngri hugsun eiginhagsmuna og sjálfsdýrðar. Menn þurfa að halda áfram að vera frjálsir í hugsun meðan þeir ganga  veginn og hafa sýn af vörðunum og læra að halda horfi með hjálp þeirra. Til þess eru þær settar að halda okkur á réttri leið !

Maður sem er til dæmis innmúraður félagi í leynireglum eða stjórnmálaflokki er ekki frjáls, hvorki að samvisku né sannfæringu. Hann verður fljótt bundinn af þeim sjónarmiðum sem ráða þar og  gegnsýra allt umhverfi hans. Hann fer alltaf að verja eitthvað sem hann ætti ekki að verja og brátt kemst það upp í vana að hagræða sannleikanum í þágu hagsmuna. Þetta ferli sýnir sig um allan heim, hérlendis sem erlendis. Þar skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli hvort um er að ræða frímúrararegluna, mafíuna eða bara Sjálfstæðisflokkinn. Kjarni málsins er að menn eiga ekki að leggja neitt sem varðar eigið samviskufrelsi í annarra hendur, að fjötra það aldrei rangri ábyrgð sem þeir geta ekki tekið á sig sem heiðarlegir menn !

Samfélög nútímans á Vesturlöndum eru stefnulaus og hafa að mestu týnt vörðum sínum og vegvísum. Ágirnd í auð og völd og hóflaus peningagræðgi hefur þar lengi tröllriðið öllu og ekkert mettar þá hít sem þar er til staðar. Siðleysið er orðið þrúgandi vandamál í samtímanum og lausnin er aðeins ein. Við verðum að finna gömlu göturnar aftur, hamingjuleiðina einu og sönnu, finna vegvísana um réttlætið og sannleikann sem þar standa og munu alltaf standa. Við þurfum að læra gömlu fræðin upp á nýtt og rita þau á hjörtu okkar eins og fyrri kynslóðir gerðu á tímum siðbótar og afturhvarfs !

Mörgum hugnast illa að leggja á sig fórnir og vilja ná takmarki sínu án þeirra. En raunverulegir sigrar vinnast aldrei nema með fórnum. Og leiðin til baka úr villu verður aldrei öðruvísi en vegur reynslu og þrenginga. Það er engin auðgengin braut til bjargar fyrir þá sem vilja snúa sér frá altari gullkálfsins, hætta að dansa þar og huga að því sem æðra er !

Maðurinn er skapaður með frjálsan vilja. Hann getur tortímt sálu sinni með því að gefa sig alfarið að því sem illt er og opnar honum glötunarveginn að fullu og öllu. Hver maður sem gengur þá leið fyrir breytni sína, kallar yfir sig stærsta ósigur sem ein mannsál getur beðið á vegferð sinni. Þar er um að ræða veg hins endanlega dauða !

En maðurinn getur líka valið að fylgja framrás lífsins með fórnfúsu hjarta og verða síðan um eilífð aðnjótandi þeirrar blessunar sem tekur við, þegar hann fær að ganga sem sigurvegari inn í ljósheima þess lífs sem þekkir engan dauða !

Það er þó alveg ljóst, að enginn mun ná því marki án siðrænnar framgöngu í samviskufrelsi !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 47
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 853
  • Frá upphafi: 356698

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband