Leita í fréttum mbl.is

EHF- Eiginhagsmuna frjálshyggja !

Þegar pólitískir varðhundar einkaframtaksins tryggðu lagalega með lævísum hætti það sem þeir kölluðu nýjar leikreglur á sviði atvinnulífsins, hið svokallaða ehf – EinkaHlutaFélag, var að mínu mati í raun og veru verið að búa til allt annað ehf, eða hina alræmdu EiginHagsmuna-Frjálshyggju, sérhagsmunagjörning sem firrti rekstraraðila nánast allri ábyrgð á því sem þeir voru að gera hverju sinni.

Þá fengu óvandaðir fjármagnseigendur og fyrirtækjabruggarar nánast ótakmarkað skotleyfi á samfélagsheildina með þeim hætti að uppsöfnuðum skuldum ábyrgðarlauss reksturs var miskunnarlaust skotið yfir á skattgreiðendur !

Þar með hófst fyrir alvöru hinn siðvillti dýrðartími kennitöluflakkaranna. Og ástæðan fyrir því að aldrei hefur verið tekið á því forkastanlega svindli sem þar á sér stað er að þeir sem það stunda eiga alltaf sína hauka í horni í skúmaskotum kerfisins ! Sjá menn virkilega ekki hverjir það eru sem alltaf verja þennan viðbjóð ?

Það er stöðugt talað um að endurvekja traust eftir hrunið, því jafnvel ólíklegustu menn neyðast til að viðurkenna að almennt talað var traust stórlega skaddað á umræddum örlagatíma. Já, það er talað um skort á trausti, en það er hinsvegar lítið sem ekkert gert til að byggja upp traust á ný. Spillingin virðist orðin í meira lagi landlæg, jafnt í kerfinu sem í almennum viðskiptum. Verslunarlegt arðrán hefur síður en svo minnkað og svindl og svínarí gagnvart hagsmunum neytenda er daglegt brauð !

Það virðist sem það sé staðfastur vilji valdaelítunnar í stjórnarkastalanum syðra, að sjá til þess með öllum ráðum að almenningur njóti ekki neins af því ríkidæmi sem náttúru-auðlindir okkar búa yfir og eiga að geta skapað þjóðinni til velsældar. Hinir útvöldu eiga að njóta þeirra gæða og ekki aðrir. Það koma stöðugt fram ný og ný dæmi um svívirðilegt siðleysi þeirra sem vaða í peningum hérlendis, peningum sem í flestum tilvikum eru illa fengnir !

Blóðpeningar eru aldrei ávísun á hamingju og ég bið þess af heilum hug og öllu hjarta að allir þeir sem auðgast hafa hér á landi á óheiðarlegan hátt, í gegnum spillingu og stuld á þjóðareignum og allrahanda fjármálamisferli, á undanförnum óþverratíma óþjóðlegrar græðgishugsunar, fái að gjalda þess á fullum forsendum !

Það varð hér hræðilegt hrun sem olli víðtækri mannlegri ógæfu, en enn hefur enginn axlað ábyrgð á einu eða neinu. Engin siðbót hefur átt sér stað innan stjórnmálaflokka. Afneitun ábyrgðar er og hefur verið viðvarandi hjá íhaldi og Framsókn. Það er ein ömurlegasta upplifunin í kringum hrunið að verða vitni að því að fjöldi manna tók flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni.

Menn reyndust á hinu þjóðlega manndómsprófi - samkvæmt mínum skilningi, miklu frekar vera sjálfstæðisflokksmenn en Íslendingar. Og fastir í sinni afneitun á því sem gerðist tala slíkir menn um hrunið eins og það hafi verið náttúruhamfarir !

En það var ekki náttúran sem sleppti þar fram af sér beislinu, hrunið varð af mannavöldum. Hrunið varð einkum vegna takmarkalausrar græðgi ríkra manna í meiri auð og algers ábyrgðarleysis þeirra gagnvart velferð og öryggi eigin þjóðar og jafnframt svívirðilegs sofandaháttar og sviksemi þeirra sem áttu að gæta þjóðarhagsmuna á sinni stjórnarvakt.

Það var hinn óhefti kapitalismi sem fékk að flæða yfir landið með tilstyrk aukins orkuflæðis siðleysis og hroka frá einum versta græðgis-getnaði sínum – frjálshyggjunni !

Og enn í dag sjást hér og þar djöfulleg dæmin um það skítlega eðli og það skollabúða hugarfar sem skapaði fyrst og fremst forsendurnar fyrir hið hrikalega efnahagshrun og skaddaði samfélagsheild okkar meira en dæmi eru til um í seinni tíð. Almennir þjóðarhagsmunir eru hvarvetna í vörn fyrir botnlausum ágangi þeirra sem svífast einskis og sýna stöðugt í græðgi sinni að mikið vill meira.

Tryggingafélögin ætluðu að bæta hluthöfum sínum upp arðleysið eftir hrunið, því auðvitað áttu slíkir aðilar ekki að taka á sig nein skakkaföll vegna þess. Það áttu bara aðrir að gera. Og menn skulu gera sér grein fyrir því að þó að klíkan þar hafi látið undan síga fyrir kröftugum mótmælum almennings og réttlátri reiði fólks, er víst að lítil sem engin hugarfarsbreyting er þar að baki. Græðgin bíður bara færis !

Dæmin eru mörg og ég tel að á alþingi Íslendinga séu nú í dag engir raunverulegir og trúverðugir varðgæslumenn til staðar fyrir almannahag á Íslandi. Þar virðast bara vera leikhópar að störfum, æfðir í einhverjum tilbúnum hlutverkum sem ríma ekki lengur við íslenskt mannlíf til sjávar og sveita. Þar virðist ekki lengur vera fyrir hendi nein þjóðleg jarðtenging við líf fólksins í landinu. Fjölmenningarfarsóttin ríður þar sýnilega húsum hvern dag og gengur fyrir öllu í hugsanaheimi íslenskra þingmanna !

Þar er þetta fólk sem hefur verið kosið til að ávaxta velferð okkar og öryggi, allar stundir á kafi í flóttamanna-kjaftæði eins og það sé samviska heimsins holdi klædd. En gagnvart vaxandi fátækt á Íslandi og allskonar aukningu á samfélagsmeinum sem hafa orsakast vegna félagslegrar afturfarar, virðist það vera orðið meira og minna ónæmt og það sem verra er - samviskulaust !

Þetta er fólkið sem hefur á sinni vakt látið misskiptingu og ranglæti stóraukast í þjóðfélaginu og nítt niður félagslegt jafnræði jöfnum höndum – ýmist með afskiptum eða afskiptaleysi. Ég spyr bara, er íslensk þjóð virkilega orðin svo heillum horfin að hún verðskuldi svo afspyrnu lélega fulltrúa sem raun ber vitni - á sjálfu þjóðþinginu ? Nei, ég trúi því ekki, við hljótum að geta gert okkur vonir um betra hlutskipti !

Ég segi því enn og aftur, við þurfum að fá nýtt fólk inn á þing, fólk af annarri gerð, fólk sem vill starfa fyrir þjóðina og hefur hjarta fyrir slíku starfi !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 827
  • Frá upphafi: 356672

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 655
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband