Leita í fréttum mbl.is

Íslenska græðgin !

 

Heimurinn hefur kynnst mörgum slæmum hlutum sem hafa verið afleiðingar af óheilbrigðu framferði og endað á verðskuldaðan hátt – með skömm og skaða !

Á síðustu árum hefur íslensk peningagræðgi sannarlega skorað hátt í þeim efnum og nýjustu birtingarmyndirnar af þeirri græðgi hafa sýnt sig með býsna ljótum hætti í því hvernig ferðamenn virðast arðrændir til hins ítrasta þegar þeir koma til landsins.

Ísland sem kynnt er fyrir heiminum sem hið hreina og óspillta náttúruland, reynist stundum allt annað þegar ferðamennirnir eru komnir hingað. Þá er þeim selt vatn á flöskum á hóteli í höfuðborginni vegna þess að kranavatnið er sagt svo eitrað og hættulegt. Hvernig getur svona háttalag farið saman við ærlega hluti og hvernig er hægt að hegða sér svona gagnvart öðru fólki ?

Öll verðlagning hækkar og hækkar stöðugt í krafti græðginnar og allir sem vilja meira og meira eru að byggja hótel og gistiheimili út um allt land til að fá hlutdeild í gróðanum sem alltaf á að vaxa. Áætlanir hljóða upp á stöðuga aukningu ferðamanna á næstu árum, enda má engin áætlun hljóða upp á annað !

Það má enginn vara við eða skemma veislufagnaðinn, ekki frekar en hérna um árið þegar allt fjármálahyskið fór á þankeyrslu með þjóðfélagið út og suður og nánast til andskotans í græðgisferð óvissunnar !

Einstaklingsframtakið virðist rótast í þessum málum á fullu og sjáanlega undir þekktri viðmiðunarreglu: “Gróðinn til okkar, kostnaðarliðir sem mest á ríkið !”

Af hverju er ekki hægt að fara með skynsemi í málin ? Af hverju þarf alltaf að miða allt við hámarksgróða og helst meira ? Af hverju þarf að reyta blóðfjaðrirnar af öllu sem við komum nálægt, hver mjólkar kúna þegar hún er dauð ? Hver hagnast á slíku þegar til lengdar er litið ?

Hvernig var með síldina forðum þegar hún stakk af úr veislunni ? Hvernig var með verslunarævintýrin í Dublin, Edinborg, St. Johns og víðar, þegar Íslendingar komu í stórhópum þangað til að versla vegna hins hagstæða vöruverðs ? Á fáum árum steig verðið svo að ávinningur varð að lokum lítill sem enginn. Allir vildu græða á Íslendingunum og kaupmenn viðkomandi borga fóru að okra hver öðrum meira á íslensku kúnnunum svo viðskiptin drógust saman og fjöruðu út að mestu.

Græðgi er auðvitað víðar til en á Íslandi en af hverju þurfum við að vera svo gráðugir að það sé haft á orði víða um lönd, talað um litla, gráðuga Ísland ?

Nú hefur verslunardæmið snúist við og nú vilja Íslendingar sýnilega okra á ferðamönnum eins og þeir frekast geta og hvernig mun það enda ? Það virðist hvergi um að ræða neina marktæka viðleitni til að miða viðskiptin við hóflegan arð. Það er bara botnlaus græðgi í spilinu og púra arðrán í gangi. Niðurstaðan verður því óhjákvæmilega eins og í öllum hliðstæðum dæmum.Ferðamenn fara að átta sig á því að Ísland er að verða eitt dýrasta land í heimi og okrið þar svo mikið að það fer að virka í vaxandi mæli sem óyfirstíganleg fyrirstaða þeirrar ánægju sem fólk getur annars haft af heimsókn til landsins.

Blóðsuguaðferðin gengur aldrei til lengdar !

Sú tíð mun því koma að ferðamenn munu heldur kjósa að ferðast eitthvað annað en til Íslands, þeir munu velja sér nýja áfangastaði þar sem heilbrigðari viðskiptahættir eru virtir.

Okur virkar á sama hátt og ofveiði. Miðin tæmast og ekkert aflast. Ætlum við áfram að fara fram með þeim hætti í ferðamálunum - að hin gefandi lind þorni upp ?

Hverskonar hugsunarháttur er það sem drottnar svona yfir afkomendum fólks sem var heiðarlegt og nægjusamt og gestrisið í liðnum tíma ? Við erum því fólki til skammar með þessu græðgisfulla framferði og kunnum bersýnilega ekki lengur að taka á móti gestum með viðeigandi gerðarbrag og almennilegheitum og hófstilltri þénustu !

Þetta þarf að breytast og því fyrr því betra, áður en þjóðfélagið situr uppi með hótel og gistiheimili út um allt, risavaxið móttökukerfi fyrir túrista, skuldsett í botn, en enga ferðamenn, enga gesti !

Þeir verða þá farnir annað, á einhverja þá staði þar sem tekið er á móti þeim með öðru og betra hugarfari en íslenskri græðgi !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 118
  • Sl. sólarhring: 309
  • Sl. viku: 898
  • Frá upphafi: 357079

Annað

  • Innlit í dag: 106
  • Innlit sl. viku: 714
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband