Leita í fréttum mbl.is

Um fjölmiðlalyddur ?

Það er í meira lagi ömurlegt þegar fjölmiðlamenn fá Davíð Oddsson í viðtal. Það virðist ekki skipta neinu máli hverjir þeir eru. Þeir virðast ekkert vita hvernig þeir eiga að vera í viðmóti gagnvart honum. Það er engu líkara en þeir séu skíthræddir við hann og forðist eins og heitan eld að spyrja hann að einhverju sem gæti komið illa við hann. Ef það kemur fyrir að þeir missa eitthvað slíkt út úr sér, draga þeir sem óðast í land og biðjast eiginlega auðmjúklega afsökunar. Hverskonar lyddur eru þetta eiginlega ?

Það ætti nú að vera hægt að spyrja þennan mann að ýmsu og reyna að fá fram svör, því hver ætti nú að vita meira um atburðarásina sem leiddi til hrunsins en einmitt hann, sem öllu réð í landsstjórninni í hálfan annan áratug þar á undan ? Á hans valdatíma gerðist bókstaflega talað allt sem orsakaði hrunið !

Hver setti okkur inn í forstofuna hjá Evrópusambandinu, hver seldi eða gaf bankana, hver seldi Símann - að sögn til að fjármagna hátæknisjúkrahúsið sem var alveg að koma, hver setti okkur á stríðslistann alræmda o.s.frv. o.s.frv. Það er hægt að spyrja þennan lykilmann valdaheimsins fyrir hrun um æði margt, en það er bara ekki gert. Það má víst ekki styggja goðið !

Hvernig eru þessir fulltrúar fjórða valdsins, þessir mjög svo fjölvísu menn á fjölmiðlunum, eru þetta tómir vesalingar, er enginn þar sem getur talað við valdamenn eins og þeir gerðu á sínum tíma Ólafur Ragnar Grímsson og Vilmundur Gylfason ?

Þvílíkir rófuliða-rakkar og silkihanskasauðir eru þessir menn sem fara nú með upplýsingakröfugerð fjórða valdsins fyrir hönd almennings í landinu. Þar virðist hver seppinn öðrum afleitari og gjamma bara í vissum tilfellum, það er að segja þegar það er talið óhætt !

Það mætti gera ansi laglega ritgerð um samskipti Davíðs Oddssonar við fjölmiðla og fréttamenn í gegnum árin. Það hefur verið venja hans að valta yfir viðmælendur sína ef þeir hafa ekki verið reiðubúnir til að sleikja skósólana hans. Þannig byrjuðu drottningarviðtölin á Íslandi.

Það voru ófá þau skiptin sem Davíð kom einn í fjölmiðlaþátt til að lýsa sínum viðhorfum og sinni sýn á málin. Enginn var ræstur út til að vera á annarri skoðun og mynda þar lýðræðislegt mótvægi. Nei, Davíð virtist kunna illa við það þegar aðrir voru ekki sammála og það var náttúrulega látið eftir honum að hafa þar sína hentisemi.

Davíð fór snemma að tileinka sér það háttalag að ávarpa fréttamanninn með nafni og skapa þannig einhverskonar persónulega nánd. Síðan hafa aðrir tekið upp þann sið vegna þess að það þótti virka svo vel.

Ef fréttamaðurinn reyndi eitthvað til að vera beittur, en það kom stundum fyrir menn framan af, þá sagði Davíð sem svo: “ Já, sumir sem þekkja ekki til mála eru að ímynda sér þetta og hitt, en við vitum nú betur !” Og fréttamaðurinn varð eins og smjör og hefur líklega sagt við konuna sína er hann kom heim, hafi hann verið giftur :” Veistu hvað, hann Davíð ávarpaði mig bara með nafni !”

Frá ofurvaldsárum sínum hefur Davíð náð þessum tökum og hann er greinilega ekkert að sleppa þeim þó ýmislegt hafi nú gefið á bátinn síðan og trúin á leiðtogann mikla og sterka hafi nú orðið fyrir drjúgum áföllum.

Sú ímynd er í raun og veru farin í hundana þó sumir hangi á henni eins og hundar á roði. En þar er um að ræða lið sem aldrei myndi taka sönsum eða beygja sig fyrir nokkrum staðreyndum, svo því er ekki viðbjargandi.

Og það má auðvitað hver liggja eins og hann býr um sig, svo framarlega sem hann er ekki að svíkja einhverjar skyldur sem honum hefur verið trúað fyrir. En fréttamenn hafa skyldur við almenning og hafa nú oftast viljað undirstrika það sérstaklega, og þegar þeir liggja hundflatir fyrir einhverjum valdamanni og smjaðra jafnvel fyrir honum, eru þeir ekki að framfylgja þeim skyldum eins og vera ber !

Hundsleg auðmýkt af slíku tagi á ekki að þekkjast og Davíð Oddsson á ekki rétt á neinni sérmeðferð vegna þeirra miklu valda sem hann hefur haft í okkar samfélagi á liðnum árum. Þau völd hafa heldur ekki orðið íslenskri þjóð til farsældar.

Við Íslendingar höfum lengst af talið okkur eiga fullan rétt til þess að vera frjálsir menn í frjálsu landi, en sú afstaða leggur okkur þá skyldu á herðar að við sýnum það í hugsun og verki að við séum það !

Fulltrúar fjórða valdsins eiga þar að sýna gott fordæmi með reisn og skeleggri framgöngu, í stað þess að vera oft eins og lúpur og lyddur og þora ekki að tala eins og tala ber !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 127
  • Sl. sólarhring: 200
  • Sl. viku: 907
  • Frá upphafi: 357088

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 723
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 114

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband