Leita í fréttum mbl.is

Austurríski öskurapinn !

 

Það líður að þeim tíma að allir þeir sem upplifðu hryllinginn í kringum Þriðja ríkið og nazismann í Þýskalandi verði horfnir úr heimi. Þegar fórnarlömb og vitni verða ekki lengur til staðar aukast færin til þess að umskrifa söguna og bylta staðreyndum !

 

Það þarf enginn að efast um að vilji til slíks er víða fyrir hendi og til eru víst jafnvel menn sem eiga að heita sagnfræðingar sem neita því að helförin hafi átt sér stað.

Mannkynssagan er undarlegt fyrirbæri og þar hafa margir einstaklingar verið uppfærðir svo að gildi í sögulegri túlkun eftirtímans að flestum samtíðarmönnum þeirra myndi blöskra ef þeir sæju hvernig farið væri með sannleikann í þeim efnum !

 

Við vitum að fjölmargir einvaldar hafa hlotið auknefnið “ hinn mikli “ þó að þeir hafi verið þjóðum sínum verstu böðlar og grannþjóðum ekki betri. Tilhneiging margra til að skríða fyrir valdi og ekki síst misbeitingu þess er vissulega sjúklegt fyrirbæri !

 

Það er því alveg hægt að búast við því að Adolf Hitler, austurríski öskurapinn sem komst til valda í Þýskalandi 1933 illu heilli, muni einhverntíma í komandi tíð fá auknefnið “ hinn mikli. Það getur svo sem vel verið að reistar verði styttur af honum á ónefndum slóðum í siðvilltri framtíð og að farið verði að gylla nazistatímabilið á flesta lund !

 

En slíkt væri aðeins staðfesting á því hversu langt maðurinn væri kominn út af spori siðmenningarinnar og undirstrika afvegaleiðslu þeirrar kynslóðar sem er þar svo langt leidd, að hún telur sig sjá hetjuímynd þar sem skepnuskapur var allsráðandi !

 

Það er þegar ljóst að margt yngra fólk sem ekki upplifði hörmungar Hitlerstímans, er farið að lesa Mein Kampf eins og sumir lesa Biblíuna, og sýn þess á hryllinginn sem viðgekkst á valdatíma nazista virðist orðin fjarri allri dómgreind. Slíkt fólk virðist geta klætt þennan ógnartíma einhverri rómantískri hulu og sér eitthvað allt annað út úr hlutunum en var í raun til staðar.

Að umsnúa hryllilegum sögulegum staðreyndum í eitthvað sem virkar laðandi, virðist ekki sjaldgæft fyrirbæri meðal fólks sem nærir með sér annarleg viðhorf og á trúlega við einhver sálarmein að stríða.

 

Margt ungt fólk virðist hrifið af einkennisbúningum nazista og finnast þeir flottir. Það hefur jafnvel komið fram hjá afsprengi kóngafólks. “Mikið er skraddarans pund” var einu sinni sagt og víst mun það sannmæli. Hefði nazisminn aldrei verið annað en þessir búningar hefði margur dregið andann léttar á árunum 1933-1945, en þeir menn sem íklæddust þessum búningum voru hinsvegar þannig hugsandi að þeir hafa einna frekast af öllum mönnum sem lifað hafa hér á jörðu afklæðst mennskunni !

 

Af hverju er annars svona óskaplega erfitt fyrir manninn að draga lærdóm af Sögunni ? Af hverju gera menn sömu mistökin aftur og aftur ? Eru ekki vítin til að varast þau og hvaða víti hafa verið mönnum verri en nazisminn með öllu sínu djöfullega ferli ?

 

Hitlersandinn er ekki dauður, hvorki í Þýskalandi né annarsstaðar. Alls staðar finnast menn sem eru andlega í ætt við þá manndjöfla sem stjórnuðu Þriðja ríkinu og væru tilbúnir að þjóna slíku valdi ef það risi upp á ný. Mannkynið hefur ekki sigrað það svartnættisvald þó það hafi kostað tugmilljóna mannslíf á sínum tíma að bægja því frá. Enn eru viðlíka ógnir á sveimi og um stöðuna mætti því kveða eftirfarandi stef:

 

Einhver fer eldi um heiminn,

öskrar þar hátt sem ljón !

Einhver á andasveiminn,

ólmur vill skapa tjón !

Einhver vill alla svíkja,

eiga sér hæstan sess !

Einhver vill ráða og ríkja,

reynandi allt til þess !

 

Óvinur alls sem gott er

æðir um jarðarsvið.

Veröldin öll þess vott ber,

vantar þar allan frið !

Flest er í fari illu,

finnst það á hverjum stað.

Mannfólkið vafið villu

veltist um sitt á hvað !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 602
  • Frá upphafi: 365500

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 515
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband