Leita í fréttum mbl.is

Hin skjalfestu skurðgoð !

 

 

Margt sem í upphafi var gert og hugsað til skamms tíma vegna nauðsynjar yfirstandandi atburðarásar, hefur oft verið sett á stall og fljótlega orðið að einhverju átrúnaðarefni sem enginn má hagga við. Tilbeiðsla á slíkum hlutum er hinsvegar alveg jafn fráleit og öll manndýrkun yfirleitt. Meðal slíkra átrúnaðarefna sem hér mætti nefna, má til dæmis tilgreina Magna Carta Englands og hina marglofuðu og margtilvitnuðu sjálfstæðis-yfirlýsingu Bandaríkjanna !

 

Auðvitað voru þetta og eru ófullkomin plögg, gerð við allt aðra þjóðfélagsgerð en nú er til staðar og taka ekki í neinu til fjölmargra þátta sem nú þurfa skilgreiningar við. En þessi börn síns tíma eru komin á stall hjá býsna mörgum !

Þó má segja að mörg ákvæði sem þar eru skráð varðandi mannlegt frelsi eigi að vera í fullu gildi um alla framtíð, en það gætu þau auðvitað líka verið í endurnýjuðum útgáfum og enn fyllri gerðum af samfélags-sáttmála byggðum á sama gildismati !

 

Konungar Englands reyndu með ýmsum hætti lengi vel að sniðganga ákvæði Magna Carta, enda var hinn einskisnýti þáverandi konungur landsins John Lackland neyddur til að undirrita gjörninginn og tórði reyndar stutt eftir það. Að lokum leiddi andstaða konungsvaldsins við tryggingu almennra þegnréttinda til borgarastyrjaldar, sem lauk til allrar hamingju með sigri þingsins gegn konungi.

Þá fékk enska þjóðin gullið tækifæri til að stofna lýðveldi til frambúðar og losa sig við kostnaðarsamt og uppáþrengjandi konungsvald, en menn skorti kjark og getu til að stíga svo stórt skref. Aftur var málum hleypt í sama farið og hlaðið áfram undir konungsvald og sérréttindi. Það var mikið ógæfuspor og einkum með hliðsjón af almennum hagsmunum venjulegra þjóðarþegna !

 

Síðan hafa Bretar setið uppi með sitt yfirborðskennda og hlægilega titlatogskerfi þó þeir lofsyngi í orði kveðnu Magna Carta samtímis. Það er löngu orðin þeim inngróin fylgja að sleikja sig upp við konungsvald og aðalshirð hvað sem Magna Carta líður. Sumir geta sýnilega orðið býsna leiknir í því að þjóna til tveggja meginpóla sem í raun og veru eru þó andstæðir að öllu inntaki !

 

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var upphaflega samþykkt sem nokkurskonar fyrstaskrefs sameiningar-plagg þeirra íbúa Norður Ameríku sem gátu ekki lengur unað breskum yfirráðum. Það var aldrei meiningin á þeim tíma að þetta plagg yrði háheilagt og sett á stall um aldur og ævi. Reyndar var ameríska byltingin alls ekki eins glæsilegt fyrirbæri og sumir hafa alltaf viljað halda fram !

Efnameiri borgarar hrundu henni af stað til að þurfa ekki að borga móðurlandinu skatt. Allt snerist auðvitað um peninga eins og jafnan í “konungdæmi kapitalismans !”

 

Hin uppskrúfaða sjálfstæðisyfirlýsing sem rituð var af Thomas Jefferson, manni sem var nú ekki alveg sjálfum sér samkvæmur varðandi mannlegt frelsi, hefði auðvitað átt að taka sínum textabreytingum í áranna rás og uppfærast með eðlilegum hætti. En hún var fljótlega orðin svo heilög að það mátti ekki hrófla við henni. Það komu bara af og til lögbundnir viðaukar, sem voru þó eiginlega eins og ómerkilegir sneplar samanborið við hið gullna letur hins ofurdýrkaða Jeffersons !

 

Þegar Franklin D. Roosevelt tókst á við Hæstarétt Bandaríkjanna, sem hafði dæmt ýmis ákvæði New Deal stefnunnar andstæð sjálfstæðisyfirlýsingunni, sagði hann um dómarana sem vissulega voru margir hverjir komnir til ára sinna: “ Þeir lifa enn á tímum hestvagnanna !”

Og bandaríska þjóðin hefur lifað og lifir enn í sjálfstæðisyfirlýsingarvímu frá tímum hestvagnanna. Það breytir engu þótt stjórnvöld þeirra séu löngu búin að fótum troða flest það sem í yfirlýsingunni stendur og einkum það sem viðkemur mannlegu frelsi.

En flestir Bandaríkjamenn sjá sjálfstæðisyfirlýsinguna í rómantískri stjörnubirtu þrátt fyrir það !

 

En í hverju skyldi heimsvaldasinnað ofurveldi svo sem eiga samleið með frelsi manna ? Höfuðríki kapitalismans fær auðvitað ekki staðist ef það á að virða mannlegt frelsi og það út um allan heim. Blóðsugur þurfa blóð og mikið af því !

En sjálfstæðisyfirlýsingin er dýrkuð og tilbeðin af Bandaríkjamönnum þó mannlegt frelsi sé og geti verið víðsfjarri. Hver myndi til dæmis velja sér viljugur það hlutskipti - jafnvel nú á tímum - að vera blökkumaður í Júessei ? Og gleymum því ekki að það er árið 2017 og sjálfstæðisyfirlýsingin er frá 1776 !

 

Hvernig var tekið á mannlegu frelsi í Bandaríkjunum þegar mikill meirihluti íbúa Suðurríkjanna mátti ekki í nafni eigin frelsis segja skilið við ríkjasambandið ? Það kostaði þónokkuð yfir 600.000 mannslíf að neyða Suðurríkjamenn inn í sambandið aftur og eftir það 12 ára hömlulausan yfirgang Norðurríkjanna. Hin sigruðu Suðurríki urðu þannig raunverulega fyrsta nýlenda Bandaríkjanna !

Þar komst hið bandaríska stjórnvald fyrst verulega á bragðið með kúgun og arðrán og brátt var það farið að leika sama yfirgangshlutverkið gagnvart öðrum þjóðum sem Bretar léku gagnvart þeim 1776 !

Síðan hafa ráðamenn í Washington tekið svo miklu ástfóstri við þetta alræmda ágangshlutverk að þeir hafa verið að leika það síðan og það um veröld alla !

 

Það er svo sem ekkert nýtt að stórveldi hegði sér þannig, en Bandaríkjamenn eru hinsvegar svo miklir hræsnarar að þeir slá öllum við. Alltaf eru þeir góðu gæjarnir, alltaf eru þeir að siða aðra til og ekki síst í sambandi við mannlegt frelsi.

Þeir leyfa sér allt og þegar þeir gera hlutina er það allt í lagi, en ef að aðrir gera það sama er það rangt og óverjandi. Ef þeir reisa veggi milli manna er það bara öryggismál þeirra og kemur engum öðrum við !

 

Við þekkjum það að nútíminn tileinkar sér allskonar idol, menn eru dýrkaðir og talað um stjörnur og nú í seinni tíð um ofurstjörnur. En það á hvorki að dýrka skeikula menn eða mannanna verk. Hver verða líka oftast að lokum örlög þeirra einstaklinga sem teknir eru í guðatölu og dýrkaðir sem slíkir. Þeir fara líkamlega eða andlega eins og Heródes Agrippa þar sem hann tók við tilbeiðslu lýðsins, - tærast upp og rotna fyrir tímann !

 

Öll skurðgoð eru afvegaleiðandi andstyggð og hverskyns manndýrkun felur í sér vegferð til vondra hluta. Það á enginn rétt á tilbeiðslu nema Drottinn einn, Skapari himins og jarðar. Við mennirnir erum hinsvegar alltaf að tilbiðja eitthvað annað – á einn eða annan hátt - í meðvitaðri eða ómeðvitaðri uppreisn gegn Almættinu. Það er hættuleg ávanabundin uppreisn sem þar er að verki !

 

Sérhver maður - sem vill huga að varanlegri velferð sálar sinnar - þarf að gera sér grein fyrir því – sjálfs sín vegna - hver síðastur gengur fram á foldu og hjá hverjum allt dómsvald verður um síðir !

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband