Leita í fréttum mbl.is

Lát oss ekki leiðast í freistni !

Víða eru þýðingaskekkjur slæmar og geta valdið misskilningi, þó kannski hvergi eins og þegar þær eiga sér stað í texta Biblíunnar. Þegar um enskan texta er að ræða þykir mörgum best að nota King James Version (KJV) frá 1611 vegna þess að allar síðari tíma þýðingar þykja yfirleitt lakari og fjarlægari frumtextanum. Það segir kannski sitt um það hvernig staðið er að málum á þessu sviði.

Og það verður að segjast eins og er, að ekki virðast íslenskar þýðingar Biblíunnar hafa batnað í seinni tíð, enda færast þær sýnilega því lengra frá frumtextanum og skilningi hans sem þær verða fleiri. Mannlegur mennta og fræðaskilningur virðist aukast einhliða á kostnað hins andlega og trúarlega skilnings. Við slíka stefnubreytingu gagnvart textanum og innihaldi hans hlýtur útkoman að verða á þann veg að útþynna efnið og gera það merkingarminna.

Tíðarandinn spilar þar auðvitað líka inn í málið, því eftir því sem hann verður siðlausari er dregið úr áherslum varðandi þá breytni sem skilar sér í agaðra og löghlýðnara samfélagi. Dæmin eru mörg sem sýna hvernig á er haldið í þessum efnum.

Í raun og veru er það svo að Guðs Orði verður aldrei komið til skila með réttum hætti nema Andans fylltir menn fjalli um textann. Faglegt réttindafólk í málfræði og málskilningi á heimsins vísu getur verið fullkomlega andlaust gagnvart texta sem hefur guðlegan boðskap fram að færa og spillir því málum meira en lítið þó það telji sig vera að skýra allt betur en áður var gert - í krafti lærdóms síns !

Tökum dæmi : Eitt af nöfnum Satans er Freistarinn, hann sem freistar, hann sem leiðir fólk afvega, hann sem fær fólk til að gera annað en samviska og heiður býður. Í Jakobsbréfi er hinsvegar vísað til Guðs sem þess sem freistar ekki nokkurs manns. Samt er Faðirvorið flutt þannig að við biðjum Guð að leiða okkur ekki í freistni !

Rétt þýðing úr frumtextanum er hinsvegar önnur, þar erum við að biðja Guð að láta okkur ekki leiðast í freistni. „ Lát oss ekki leiðast í freistni“ væri líklega næst lagi þýðingarlega. Við erum að biðja Guð að vernda okkur fyrir þeim freistingum sem kunna að sækja að okkur, svo við föllum ekki fyrir þeim !

Tökum annað dæmi með hliðstæða villutúlkun: Í Biblíuþýðingunni frá 1912 segir í 22. kafla 1. Mósebókar „Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham“ sem er einmitt það sem gerðist. En í yfirlýstri „endurbættri og lærðari þýðingu“ frá 1981 er textinn orðinn svohljóðandi: „Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams !“

Þá er Guð sem sagt orðinn freistari eins og sálnaóvinurinn og þýðingin orðin fullkomin andstæða við Jakobsbréfið sem og Orðið í heild. Þannig fer vandvirkni í vinnubrögðum aftur og þessvegna eru fyrri þýðingar Biblíunnar yfirleitt réttari og betri en þær síðari. Með hverri nýrri útgáfu hefur Orðið nefnilega verið þynnt út í samræmi við ríkjandi viðhorf sem ráðast meðal annars af lækkandi siðagildum samtímans og fólk fyllt Andanum kemur þar hvergi nærri. Túlkunin á andans fylltu efni er eingöngu orðin málvísindaleg og verður því oft að efnislegu rugli !

Fólk sem er menntað í málvísindum getur sem fyrr segir verið algerlega trúlaust og gráðupakkað inn í skriftlærða efnishyggju. Hvernig á slíkt fólk að geta fjallað um guðlegan texta, algerlega ónæmt fyrir því sem Andinn talar ?

Í raun og veru virðist sérhver krafa um endurþýðingu á Biblíunni koma fram á grundvelli þess að færa þurfi textaboðin til samræmis við tíðarandann. Mönnum finnst textinn líklega stinga samviskuna þar sem breytni þeirra er orðin með þeim hætti að hún dæmir sig í gegnum Orðið !

En sannleikurinn er sá að Biblían hefur ekki fjarlægst samfélag manna heldur hefur samfélag manna fjarlægst Biblíuna. Mannleg breytni hefur sagt skilið við kenninguna og vitnisburðinn. Og hvað hafa menn tekið til bragðs gagnvart æ augljósari merkjum um það. Það er reynt að brúa gjána með því að þynna út boðskap Orðsins og gera hann skaðlausan eins og sagt er og þar með nánast merkingarlausan !

Og það er margt að varast. Í ritningarlegum efnum þarf sem víðar að stýra milli vantúlkunar og oftúlkunar. Alltaf eru til einhverjir sem vilja túlka hlutina út frá eigin sérgæsku-sjónarmiðum. Það á ekki hvað síst við þegar trúmál eru annarsvegar. Þeir sem fara fram með trúarleg öfgasjónarmið eru þannig að vinna hliðstætt eyðileggingarverk og þeir sem þynna út merkingarlegt gildi Orðsins. En Ritningin sjálf segir að menn eigi að reyna hlutina og halda því sem gott er !

Ef við ætlum að ganga lífsveginn með það fyrir augum að rata heim, til eilífs samfélags við Skapara okkar, verðum við að gæta að vörðunum og vegvísunum sem okkur hafa verið gefnir í Ritningunni. Færum því ekki þær vörður til með röngum og útþynntum þýðingum og snúum ekki vegvísunum við. Verum minnug þess að enginn ratar rétta leið þegar villa er við völd !

Höfum það í huga og hjarta að Orð Guðs er vegvísir hverjum þeim sem vill rata heim og handbók lífs og ljóss fyrir mannssálina !

Gleðilega páska !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband