Leita í fréttum mbl.is

Að tortíma eigin arfleifð !

Það eru kannski ekki margir sem spyrja sjálfa sig þeirrar spurningar í dag:

Hvernig verður íslenskt samfélag eftir 50 ár, með sama skeytingarleysi og hefur verið sýnt að undanförnu gagnvart þeim gildum sem gert hafa okkur Íslendinga að þjóð ?

 

Kröfur augnabliksins, með nánast allsráðandi efnishyggju að leiðarljósi, gera það að verkum að fæstir huga að því sem á eftir kemur. En við erum meðal annars að smíða framtíðina með því sem við gerum í dag. Við erum að leggja grunn að þeim aðstæðum sem börnin okkar koma til með að búa við. Og spurningin er – gerum við það með ábyrgð og fyrirhyggju ?

 

Nei, síður en svo ! Við miðum allt við ávinning augnabliksins og hirðum lítið sem ekkert um afleiðingar þess framferðis, til lengri tíma litið. Og slík afstaða til þess sem verða á er ekki til heilla. Með þeim sofandahætti gagnvart farsæld barna okkar og eftirkomenda í framtíðinni, sem við erum að leggja grunn að með ábyrgðarlausum athöfnum okkar í dag, erum við að stefna málum til tortímingar hamingju þeirra og lífsfriðar !

 

Af hverju segi ég það ? Jú, vegna þess að Ísland getur orðið með sama áframhaldi vígvöllur eftir nokkra áratugi. Það getur komið að því að vopnin verði látin tala vegna þess að þeir sem búa þá í landinu eigi ekki lengur samleið. Gjárnar sem skapaðar hafa verið verði ekki lengur brúanlegar og er þá ekki friðurinn úti og fjandinn laus ?

 

Hverjir erfa landið með sama áframhaldi ? Það eru ekki bara ferðamenn sem flæða inn í landið. Þeir fara aftur, en það flæðir margt inn í landið sem fer ekki aftur og mun setja mark sitt á framtíð mála hér og ef til vill með þeim hætti sem fæstum okkar kynni að hugnast. Þurfum við ekki að hafa einhverja stjórn á því fyrir hverju er sáð ?

 

Svokölluð fjölmenning endar alltaf með því að einhver hópur nær ráðandi stöðu og fer að ráðskast með aðra hópa í krafti þeirra yfirráða. Þá verður fjölmenning sannarlega ekki lengur slagorð dagsins. Fjölmenningar-kenningin um að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir gengur ekki upp. Dýrin í skóginum verða aldrei vinir til lengdar. Rándýrin sjá sér leik á borði þegar værðin leggst yfir íbúa skógarins, værð sem er fölsk og undanfari þess að allur friður verður endanlega rofinn !

 

Hverjir hafa nýtt sér fjölmenningar-boðskapinn ? Sjá það ekki allir sem vilja sjá ? Eru það ekki þeir hinir sömu sem eru að leggja undir sig evrópska arfleifð í skjóli þessarar áróðurs-blekkingar sem allt of lengi hefur viðgengist í álfunni okkar ?

 

Það hefur alltaf verið nóg af mönnum hérlendis sem annarsstaðar, sem hafa verið fúsir til að semja við skollavaldið og fulltrúa þess. Slíkir menn vilja svo - eftir gerða blekkingarsamninga, koma ríðandi á hvítum hesti í hlaðið sem sjálfskipaðir riddarar friðar og eindrægni og – fjölmenningar ! O þá segja þeir auðvitað - af mærð og mikilmennsku - eins og Chamberlain forðum :” Sjá,ég færi yður frið um vora daga !”

Og síðan þegar feigðarværðin hefur sigið á mannskap með luktar sjónir og flestir eiga sér einskis ills von, skellur óveðrið á með öllum sínum þunga og drepandi dómi !

 

Hvað kennir sagan okkur ? Af hverju viljum við aldrei læra af henni ? Af hverju höldum við alltaf að nýtt mannkyn hafi fæðst í meðförum ríkjandi kynslóðar, að allt sé orðið breytt og blessun yfir öllu ?

Já, þegar við ættum að geta séð, jafnvel með hálfluktum augum, að við þræðum sömu villusporin, aftur og aftur og gerum sömu mistökin æ ofan í æ og virðumst ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut ?

 

Var Hitler ekki kosinn til valda með lýðræðislegri kosningu, héldu ekki um 13 milljónir þýskra kjósenda að hann myndi koma málum í betra lag, jafnvel þó ekkert raunhæft benti til þess ? Er ekki nýbúið að kjósa mann til einnar mestu valdastöðu í heiminum í svipaðri trú, þó enginn viti hvað sá maður stendur fyrir og hefur í raun að geyma, og er þegar farinn að ganga valdaskeiðið í þokuhringjum eigin þankafars ?

 

Hvar er viskan í hinni upplýstu samtíð ? Hvar er hin andlega forusta, hvar skilar hin hálofaða menntun sér í raunverulegri umhyggju fyrir mannlífinu ? Í yfirgnæfandi hlutfalli er aukið menntunarstig aðeins notað sem sterkari viðspyrna til hærri launa !

Þar virðist engin hugsjón til staðar fyrir sam-mannlegum markmiðum, aðeins hrokafull sjálfselska og peningagræðgi á mismunandi háu stigi !

 

Enda má spyrja, ef allt á að vera í himnalagi eins og sumir segja, hversvegna staðreyndirnar tali allt öðru máli ? Hversvegna þær tala um veröld á hverfanda hveli, um vistkerfi sem eru að hrynja, um lönd full af mengun og viðbjóði, þar sem ekkert marktækt er verið að gera til að snúa óheillaferlinu við ?

 

Það vantar alla forustu til góðra verka. Allir eru að hugsa um sjálfa sig og enginn vill bera ábyrgð á því sem er að gerast eða kosta þar neinu til – allra síst spillt og skammsýn stjórnvöld um heim allan !

 

Af hverju eru nú göngur farnar til stuðnings vísindastarfi í heiminum ? Er það ekki vegna þess að niðurstöður vísindamanna um hrikalegt ástand umhverfismála hafa verið hundsaðar vegna þess að þær gera of miklar kröfur til manna lítilla sanda og sæva, þeirra stjórnmálamanna sem eru víðasthvar við völd ?

 

Ætlaðir valdamenn ráða augljóslega ekki við hlutverk sín sem þjónar almennings og svíkja skyldur sínar hver sem betur getur. Þar með vilja þeir koma pólitískri spennitreyju á vísindalega hugsun svo hún verði þeim leiðitöm og undirgefin !

Og þeir sem vilja ekki hlýða þeim og kjósa að segja það eitt sem þeir vita satt og rétt mega búast við að verða sveltir og fá ekki fé til vísindarannsókna sinna !

 

Umhverfissóðarnir alræmdu sem stjórna auðhringum þessa heims, standa enn sem fyrr að tjaldabaki og toga þar í strengjabrúður. Þeir eru á fullri fart - með óseðjandi græðgi sinni - í því vítisverkefni - að breyta heimkynnum mannkynsins á þessari jörð í eitraðan, heilsuspillandi verustað, þar sem á endanum enginn getur lifað !

 

Það þarf ekki kjarnorkustyrjöld til að eyðileggja heiminn ! Það má gera það til fulls með þeim hætti sem verið er að gera og allt of margir neita staðreyndum og sýnast vilja fljóta sofandi að endanlegum feigðarósi !

 

Til hvers hefur sú lífsbarátta verið háð sem menn hafa stundað í þessum heimi okkar, í gegnum aldirnar, í sveita síns andlits ? Auðvitað til þess fyrst og fremst að skila sem best af höndum mannlegri frumskyldu, að byggja undir næstu kynslóð, að færa þeirri kynslóð, kynslóð barna okkar, í hendur kyndil lífsins, kyndil friðar og frelsis !

Og hvernig gerum við það best ? Með því að þoka góðum málum fram til betra gengis og varðveita heimili okkar – jörðina !

 

Hvar eru gömlu göturnar ? Höfum við endanlega týnt þeim ? Þurfum við ekki að leita þær uppi, endurreisa hin gömlu gildi, gera þau fersk í huga rísandi kynslóðar og bjarga þessum hrynjandi heimi okkar frá sjálfskaparvítinu mikla, hinni yfirvofandi glötun ?

Hvers er verkefnið – ef ekki okkar ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband