Leita í fréttum mbl.is

Pælingar vegna valdaskiptanna í Frakklandi !

 

Nýkjörinn forseti Frakklands Emanuel Macron flýtti sér til Berlínar strax og hann hafði tekið við embættinu. Hann þurfti þar trúlega að hitta óformlegan yfirboðara sinn, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, en eins og allir vita er Þýskaland voldugasta ríkið í Evrópu-sambandinu og ræður þar málum mikið til núorðið. Það kann því að fara svo að menn fari að tala um Stór Þýskaland á komandi árum !

 

Það sem Þjóðverjum tókst ekki að vinna með vopnavaldi í tveimur heimsstyrjöldum, hefur þeim nú mikið til tekist að höndla með yfirburðum í fjármálalegri getu á evrópskum vettvangi. Forustuhlutverk þeirra í málum Vestur Evrópu er nú óumdeilanleg staðreynd.

Frakkar sem í upphafi voru að jöfnu við Þjóðverja, eða jafnvel öllu heldur taldir í aðalforustu Evrópu-sambandsins, hafa dregist mikið aftur úr þeim og hafa orðið að sætta sig við það í stöðugt auknum mæli vegna pólitískrar vangetu forustumanna sinna og efnahagslegra þrenginga heimafyrir.

 

Það er eflaust beiskur biti fyrir Frakka að una stöðugt vaxandi valdastöðu Þýskalands innan Evrópu-sambandsins, en kannski skiptir það ekki svo miklu máli fyrir hinn nýkjörna forseta þeirra sem er víst mikill Evrópusambandssinni. Hugur hans er því kannski fullt eins mikið bundinn við Brussel og París og kannski er hann tilbúinn til þess að taka sérstakri tryggð við Berlín vegna hollustu sinnar við Brussel ?

 

Ástæðan fyrir útgöngu Breta úr Evrópu-sambandinu kann að vera sú að hluta til, að þeim hugnist ekki sú staða sem þar er komin upp við vaxandi forræði Þýskalands !

Sú var tíðin að utanríkisstefna Breta miðaðist við það að ekkert eitt ríki réði öllu á meginlandinu. Þeir áttu hreint ekki lítinn þátt í að þar héldist það sem þeir kölluðu jafnvægi og það jafnvægi varð auðvitað að vera þeim þóknanlegt.

En Bretar hafa nú um langa hríð búið við slaka leiðtoga og þegar forustan heimafyrir er léleg verður oft þrautaráðið að skríða í það skjól sem boðið er upp á.

Það kom hinsvegar nokkuð fljótt í ljós að Bretar fundu  sig ekkert sérlega vel við stórborðið í Brussel. Þeir náðu því aldrei að samlagast hávaldaklíkunni þar og voru þar stundum eins og ljóti andarunginn !

 

Frakkar hafa löngum fundið sig nokkuð í andstöðu við Breta og umsagnir sumra háttsettra franskra pólitíkusa hafa stundum opinberað nokkra andúð á grönnunum handan sundsins, sem þykja oft nokkuð stífir og stirðbusalegir í samskiptum. Þá hafa átt það til að falla orð um “lousy cooking “ og fleira í ergelsi samskiptanna. Frakkar hafa líka sem Bretar búið við frekar lélega leiðtoga í seinni tíð og það hefur sett mark sitt á stöðu þeirra !

 

En meðan bresk og frönsk viðhorf voru meira og minna að takast á í hinum ýmsu málaflokkum, virðast Þjóðverjar hafa getað í mestu rólegheitum siglt fram úr þeim sem afgerandi forustuþjóð að völdum í Brussel. Og nú er svo komið að Bretar hafa sagt sig úr klúbbnum og Frakkar hafa verið að skrúfa sig dálítið upp í fýlu út af hinum mjög svo breyttu valdahlutföllum, sem hafa dregið úr vægi þeirra á ráðstjórnar-sviðinu í Brussel !

Fróðlegt verður því að sjá hvernig hinn nýi forseti þeirra kemur til með að taka á málum gagnvart því forræði Þjóðverja innan Evrópu-sambandsins sem er staðreynd í dag !

 

Emanuel Macron er raunar nánast óskrifað blað, og jafnvel þó nýstofnaður flokkur hans vinni góðan sigur í komandi þingkosningum, er vandséð hvernig hann geti unnið Frakkland upp úr núverandi stöðu til meiri vegs og virðingar á þeim tíma sem hann ætti að hafa til þess. En það mun allt koma í ljós hvernig honum tekst til !

 

Í staðreyndaljósi Sögunnar má hinsvegar telja það nokkuð ógnvekjandi hvernig nýir menn geta komist til valda, mjög svo skyndilega, óreyndir og nánast óþekktir. Hætt er við að með slíkum hætti geti komið fram menn sem enginn vildi hafa á valdastóli þegar til lengdar léti !

 

Aldrei er það vænt til vinnings í gæfusóknarmálum, að fólk stökkvi á eitthvað sem enginn veit hvað er og kjósi óþekktu stærðina bara vegna þess að aðrir valkostir séu taldir svo slæmir. Slíkt hefur stundum haft illar afleiðingar svo ekki sé fastar að orði kveðið !

 

Atgervi þeirra þjóðarleiðtoga sem kastljós fjölmiðla beinist helst að um þessar mundir er í besta falli mjög umdeilanlegt. Við getum talað um ýmsa í því sambandi og kannski er nærtækast að benda á það sem kalla mætti embættisleg óreiðumál hins nýja forseta Bandaríkjanna. Hann virðist eiga erfitt með að höndla hlutverkið sem hann tók að sér og þar á sýnilega margt eftir að gerast enn og valda titringi víða á næstunni !

 

Og raunar er það svo, að þegar litið er yfir þann söfnuð sem hér um ræðir, fer ekki hjá því að Angela Merkel kanslari Þýskalands virðist vera með hæfari leiðtogum nú um stundir og kannski er það svo. Hinsvegar er það líka sýnilegt að aðrir leiðtogar veita henni ekki sérlega mikla samkeppni í þeim efnum !

 

Fróðlegt verður að sjá hver framvindan verður í Vestur Evrópu og Bandaríkjunum hvað þetta varðar í komandi tíð !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband