Leita í fréttum mbl.is

Úrkynjun Bandaríkjanna og kristindómur auðhyggjunnar !

 

Í Bandaríkjunum eru sennilega til staðar mestu hræsnarar sem fyrirfinnast á jörðinni. Víða er hræsni manna vissulega mikil en líklega þó hvergi eins og í Bandaríkjunum !

 

Bandaríki Norður Ameríku eru ríki sem tekið hafa meiri auð frá öðrum ríkjum jarðar en dæmi eru til um. Arðrán Bandaríkjanna um allan heim er svo mikið að öll hin margauglýsta góðgerðastarfsemi þeirra í þágu annarra, vegur bókstaflega talað ekki neitt í þeim samanburði !

 

Það er eins og ádeiluvísan góða : – Til að öðlast þjóðarþögn / þegar þeir aðra véla / gefa sumir agnarögn / af því sem þeir stela, - hafi beinlínis verið ort með framferði Bandaríkjanna í huga. Þar smellur allt saman og lýsir hræsninni og inngróinni helgislepjunni sem liggur yfir bandarísku þjóðlífi eins og lamandi snara fuglarans !

 

Afkomendur fólksins sem flúði vestur yfir haf, frá kúgun og misrétti gamla heimsins, hafa sannarlega ávaxtað allt það vel - þarna fyrir vestan – sem flúið var frá !

Andi Mayflowerfaranna er löngu horfinn úr bandarísku þjóðlífi, andstæðan ríkir þar !

 

Glæpir eru yfirvaðandi, byssan hefur völdin, jafnvel í grunnskólunum, fangelsin eru yfirfull og miskunnarlaust peningavaldið stjórnar öllu. Allir beygja sig fyrir því, allt frá snauðasta skítahreiðri upp í sjálft hið kolsvarta Hvíta hús !

 

Og á sama tíma tala ýmsir bandarískir forustumenn í andlegum efnum fjálglega um Bandaríkin sem kristið ríki ! Þeim virðist gjörsamlega fyrirmunað að sjá tákn tímanna og skilja að bandarískur kristindómur er að stórum hluta fallinn undir drottinvald dollarsins og Kristur með sinn boðskap er þar að mestu utan dyra !

 

Ef Babylon er til á jörðinni í dag, þá er hún sannarlega holdtekin af því ríki sem við þekkjum sem Bandaríki Norður Ameríku. Við getum séð það á svo mörgu !

 

Ræður andi kristindómsins framgangi mála í Bandaríkjunum ? Nei, síður en svo, auðhyggjan ræður í Bandaríkjunum, óheftur kapitalismi er þar nánast allsráðandi afl.

Og hver er þá stefnan, hvert er stefnt með þessum alræðis kapitalisma - til himnaríkis - eða helvítis ? Svari því hver fyrir sig ? Ávextirnir af breytninni sýna væntanlega hvaðan þeir koma og hvert er stefnt !

 

Hver sagði : “Annaðhvort þjónið þér Guði eða Mammón, þér getið ekki þjónað báðum ” ? Og hvar skyldu Bandaríkin nú vera stödd í þjónustunni við Mammon, skyldi hún geta verið öllu meiri en hún er ?

 

Amerískir prestar og trúarlegir forstöðumenn, sem býsna margir myndu flokkast undir það að vera svonefndir “prosperity preachers,” segja svo sem margt fallegt um amerískan kristindóm. Þeir segja: “Ameríska þjóðin er sannarlega þjóð sem trúir á Guð !” Þeir segja:

Við lifum í Guðs eigin landi”. Þeir segja: “Valdamesta land í heimi er einnig eitt af þeim trúuðustu !” Og margt, margt fleira er sagt í þessum dúr, þó sannleikurinn sé víðs fjarri í þessum efnum og í raun allur annar !

 

Og í hverju skyldu þá áhrif þessarar valdamestu þjóðar veraldarinnar skila sér til góðs fyrir kristindóminn á heimsvísu ? Af hverju hafa gífurleg Mammons-áhrif þessa syndum spillta ríkis flætt árum saman um alla heimsbyggðina, henni til ómælanlegs skaða, en kristindóms-áhrifin frá “ Guðs eigin landi ” verið svo lítil í þeim samanburði að trúleysi og afguðadýrkun hefur stórlega aukist á sama tíma ? Og það einkum í þeim heimshlutum sem mest hafa verið undir áhrifum Bandaríkjanna, í Vestur Evrópu og víðar ?

 

Í meira en sjötíu ár hafa Bandaríkin setið hræsnis og hrokafull á tróni heimsvalda-stefnu sinnar, deilt og drottnað - og sett óafmáanlegt bölvunarmark sitt á heiminn á þeim tíma. Af hverju hefur úrkynjun og uppreisn gegn öllum góðum gildum farið hamförum á þessum sama tíma, af hverju hefur afkristnun og virðingarleysi gegn öllu sem heilagt ætti að teljast, margfaldast á þeim tíma ? Það er vegna þess að það sem er látið vaka á yfirborðinu er aðeins falskur gljái. Undir niðri er falsið og svínaríið algerlega ólýsanlegt !

 

 

Kristindómur Bandaríkjanna hefur verið sveigður markvisst undir takmarkalausa þjónustu við peningaöflin í landinu og það þykir ekkert athugavert lengur. Fjöldi “ kristniboða ” í þessu maðksmogna Mammons landi lifir í slíkum vellystingum og veltir sér í þvílíkum peningum að það ná engin orð yfir það. Og það gera þeir í hungruðum og blæðandi heimi, þar sem heilu þjóðirnar hafa ekki í sig og á !

 

Þetta heimslystarfólk virðist ekki hafa mikla andlega sýn til himnaríkis. Það vill sjáanlega taka öll gæðin út hérna megin. Það vill njóta alls í botn hér, þó Orð Guðs segi að ólýsanleg séu þau laun sem bíði trúrra manna á landi lífsins……..!

Það ætti því enginn að undrast þó maður spyrji : Hversvegna er þetta fólk sem telur sig vera í andlegri forustu í kristnum söfnuðum svona óstjórnlega gráðugt í efnislegar vellystingar ?

 

Eitthvað vantar þarna verulega á eðlilega hluti. Lúxuslífið á þessum trúarleiðtogum er æpandi andstæða við hófsama framgöngu Krists og fordæmi hans allt. Þessir svokölluðu leiðtogar passa sig ævinlega á því að setja ekki fram gagnrýni á neitt sem heft gæti efnalega velgengni þeirra. Þeir eru Saddúkear í eðli og anda, reiðubúnir til allra málamiðlana sem gefa þeim efnislegan ávinning !

 

Sumir þeirra tala ekki lengur um neitt nema peninga. Í raun og veru staðfesta þeir þannig að þeir eru ekki í þjónustu Guðs heldur Mammons. Sá sem dýrkar fjármagnið er þjónn Mammons !

 

Þeir Guðsmenn sem hafa óhikað gagnrýnt það sem hefur verið í gangi, og á lítið sem ekkert skylt við sannan kristindóm, hafa fengið að heyra það óþvegið, ekki síst frá fölskum leiðtogum, þessum “prosperity preachers”, mönnum sem eru eins og Hananja spámaður !

Þó að slíkir menn hafi áður staðið fyrir geysilega ávaxtaríkri þjónustu við Guðsríkið og verið viðurkenndir fyrir tákn og undur því samfara, hættu menn að hlusta á þá þegar þeir fóru að boða afturhvarf til réttra siða og hlýðni við Guðs lög !

 

Fyrst var William Branham rakkaður niður á allan hátt og síðan var á svipaðan hátt komið fram við David Wilkerson. Þessir menn vildu ekki taka þátt í spillingar-veislunni, neituðu að taka þátt í Mammonsþjónustunni !

Þeir voru trúir sínum málstað og vitnuðu um það sem þeir vissu satt og rétt, eins og þeir fáu sem vöruðu við hérlendis fyrir íslenska efnahagshrunið. Þeir spilltu gleðinni í hallarglaumi helvítisaflanna. Þeim var því útskúfað og reynt að þegja þá í hel !

En það mun sannast þó síðar verði að þessir menn höfðu rétt fyrir sér og þjónuðu Guði með þeim óeigingjarna hætti í Bandaríkjunum sem fæstir gera núna !

 

David Wilkerson segir í bók sinni Set the Trumpet to Thy Mouth að dómurinn yfir Bandaríkjunum hafi þegar verið felldur og það sé bara tímaspursmál hvenær honum verði fullnægt. Þrátt fyrir stórkostlegar gjafir, gífurlega hagsæld og hlunnindi í áranna rás, hafa Bandaríkin fallið á prófinu sem lagt var fyrir þau, af hálfu Guðdómsins. Þau áttu að verða heiminum til góðs en áhrif þeirra hafa orðið þveröfug. Þeirra bíður óhjákvæmilegt fall !

 

Það dugir ekki einu sinni fyrir Bandaríkin að iðrast eins og Nínive. Dómurinn er fallinn og honum verður ekki breytt. Enn eitt táknið um ógæfuna sem koma skal er komið fram. Það er valdataka hins dæmalausa forseta sem - þrátt fyrir hin stóru og hrokafullu orð um að hann ætli að gera Bandaríkin mikil aftur, mun í raun draga þau enn dýpra niður í svaðið – áleiðis til endanlegrar glötunar !

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband