Leita í fréttum mbl.is

“Er þetta ekki misréttisráð ? “


Nú liggur fyrir að svokallað Jafnréttisráð hefur verið skipað 7 konum og 4 körlum og þessi misjafna tölulega útdeiling er eitthvað sem viðkomandi ráðherra segir að verði að standa þar til næst verði hægt að sinna málinu, hvenær sem það svo verður. Líklega er þessi niðurstaða vitnisburður um einhverja þá mestu nálgun sem íslenskt ráðuneyti getur viðhaft gagnvart eðlilegum sjónarmiðum jafnaðar og félagshyggju !

 

Nú geta menn rétt ímyndað sér hvellinn sem orðið hefði ef 7 karlar og 4 konur hefðu verið skipuð í þetta kostulega ráð sem stendur greinilega ekki undir nafni. Það hefði náttúrulega kallað á ómælda gagnrýni rauðsokkaðra heimsbjörgunaraðila sem teldu sig þá hafa þar enn eitt dæmið fyrir sér um hina alvondu karlrembu, sem trúlega tröllríður öllu sem gott er - að þeirra hyggju !

 

En vegna þess að konurnar eru 7 og karlarnir 4 verður sennilega útkoman sú að hið svokallaða Jafnréttisráð mun enganveginn verða fyrir þeirri gagnrýni sem áreiðanlega hefði orðið í samfélagslegu hámæli ef hlutföllin hefðu verið á hinn veginn. Þegar misréttið er yfirlýstum “jafnréttis-sinnum” í hag er það bara talið gott og gagnlegt innlegg í baráttuna. Með slíkum hætti byrjar oft rangtúlkun á réttlætismálum sem leiðir fólk sífellt í verri og verri vegleysur uns það neglir sig upp við vegg forherðingarinnar til frambúðar og segir að það ranga sé rétt !

Með slíkri frávísun skynseminnar varð meðal annars til hið alræmda hugtak “ jákvæð mismunun “ eins og það er látið heita þegar lögin í landinu eru sveigð og beygð til að þóknast hinni kynbundnu hliðstæðu en þó andstæðu karlrembunnar – hinni algóðu kvenrembu !

 

Í sjálfu sér tel ég að það skipti ekki neinu höfuðmáli hvernig nefndir og ráð séu skipuð svo framarlega sem góð hæfnisgreining liggi til grundvallar valinu á þeim sem þar eiga að sitja. Fyrsta flokks fagleg niðurstaða í slíku getur aldrei verið eitthvað sem þjónar algerlega jöfnu kynjahlutfalli. Það liggur í hlutarins eðli því heilastarfsemi fólks er yfirleitt milli eyrnanna en ekki fótanna !

 

En hitt er svo líka staðreynd að við erum borgarar í því ofurmagnaða fyrirbæri sem kallast þróað nútímasamfélag, fremur lausgirtri mannfélagsheild sem heldur að sigurleiðin til fullrar farsældar liggi í gegnum hárnákvæm og hnífjöfn kynjahlutföll. Og ef svo skyldi nú vera, sem ég tel auðvitað ekki, hlýtur sú frelsandi skilgreining að eiga við á hvorn veginn sem er, annað getur þá ekki talist jafnréttisleg niðurstaða !

 

Í framhaldi mála verður líklega að stefna að því að skipa í allar nefndir út frá þeirri forsendu að hægt sé að skipta þar kynjahlutföllum að jöfnu. Fyrri skipan sem gekk út á oddatölumengi er sýnilega með öllu úr takt við hin þróuðu nútíma-viðhorf.

Þó að hinn vitri Salómon konungur hafi fyrirskipað að skipta barninu í tvennt fyrir mæðurnar sem deildu, gengur ekki í kynhlutfallajöfnu samfélagi að hafa nefndartölu sem þarf á slíkri aðgerð að halda. Og hálfir nefndarmenn í þeim skilningi verða líklega engu síður og jafnvel öllu fremur gagnslausir en hinir sem kunna að hanga saman í heilu lagi !

 

Ef það fyrirkomulag hins meinta Jafnréttisráðs sem nú liggur fyrir á að vera í anda þeirrar mannlegu viðreisnar sem viðkomandi ráðherra segist líklega standa fyrir, er flestum trúlega einboðið að treysta ekki mikið á fleiri “réttlætis” lausnir frá borði hans. Slík vinnubrögð sem hér um ræðir sýna ljóst að hugur fylgir ekki máli !

 

Einu sinni var maður sem ætlaði að bjarga heimsbyggðinni endanlega frá bölvun styrjalda. Hann lagði fram áætlun til þess, svokallaða 14 punkta, en það hlógu allir að honum og ekki síst hans eigin bandamenn. Lítill vafi er á því að maðurinn vildi vel en viðreisnaráætlun hans fékk engan stuðning og allt fór í tóma vitleysu í framhaldi mála. Ógæfan sem af því hlaust er enn að skaða mannkynið á ýmsa vegu !

 

Ég held að svokallað Jafnréttisráð og ætluð starfsemi þess sé eitthvað í ætt við þessa alfrelsandi 14 punkta, það er að segja, eitthvað er sett á blað og þykir afskaplega flott og svo á að vinna eftir því.

Veruleikinn er hinsvegar ekki hafður með í ráðum og jafnréttið verður að misrétti og jákvæðu punktarnir fá neikvætt innihald. Ekkert kemur síðan út úr hlutunum nema það að nefndarmenn halda líklega launum sínum meðan þeir sitja, og kannski snýst málið - þegar allt kemur til alls - ekki svo lítið um það - Quid Pro Quo !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband