Leita í fréttum mbl.is

“The Great President “ !!!


Eitt af helstu kosningaloforðum núverandi forseta Bandaríkjanna var að gera Bandaríkin mikil aftur, to make America great again ! Eitthvað hefur karli nú fundist hafa fjarað undan stjörnuríkinu á seinni árum úr því hann sá ástæðu til að taka þannig til orða. En það hafa fleiri fundið en hann og líklega þó með nokkrum öðrum hætti !

 

Virðing Bandaríkjanna meðal annarra þjóða er alls ekki slík sem hún var. Og það á sínar eðlilegu skýringar ef menn vilja leita þeirra. Um langt skeið hafa Bandaríkin grafið undan öllu trausti sem borið hefur verið til þeirra, með stórveldishroka sínum og yfirgangi gagnvart réttindum annarra þjóða. Það nýtur enginn virðingar til lengdar sem hagar sér þannig. Sumar þjóðir fylgja nú Bandaríkjunum að málum af hundslegri auðmýkt fyrir valdinu en ekki með virðingu eða í trú á góðan málstað !

 

Bandaríkin troða nú svipaðan feigðarveg og Rómaveldi forðum. Kerfisbundnir ,,kjörkeisararnir” koma stöðugt fram með útþynntar túlkunar-útfærslur á ákvæðum sjálfstæðis-yfirlýsingar Bandaríkjanna og enginn virðist sjá hvert stefnir. Senatorarnir á þinginu sitja bara í sinni deild í huglægum, hvítum skikkjum, við einskisnýtar, yfirborðskenndar umræður, fullir af sívakandi sjálfumgleði !

 

Ekki virðist hin þingdeildin burðugri og þingmenn sýnast yfirleitt vera lítið annað en rislágir kerfiskarlar. Valdið er löngu staðsett annarsstaðar en hjá þeim. Bandaríska þingið er orðið lítið annað en táknmynd einhvers sem var, einhvers sem þyrfti að vera en er ekki lengur til staðar. Hvergi finnast þar skörungar á við Clay, Benton og Webster eða nokkrir þeirra líkar. Horfin er vegsemdin sem var !

 

Núverandi forseti hefur sýnilega enga hæfni til þess að skapa samstöðu um góð mál. Og það sem hann telur góð mál er trúlegast eitthvað sem flestir aðrir myndu telja hið gagnstæða. Viðhorf mannsins til þess hvað er rétt og rangt virðist afar undarlegt.

Hann ræður starfsmenn og rekur þá jöfnum höndum. “ You´re fired ! “ virðist vera hans lausn á hlutunum þegar allt er komið í óefni – oftast fyrir hans eigin tilverknað !

 

Kannski er nú kominn sá tími, sem enginn hefði búist við að ætti eftir að koma, að Warren G. Harding teljist ekki lengur sá lakasti meðal forseta Bandaríkjanna. Núverandi forseti virðist á góðri leið með að múra sig inni í eigin delluköstum og virðing Bandaríkjanna rýrnar að sama skapi !

 

Sá maður sem ætlar í alvöru að gera Ameríku mikla aftur verður auðvitað að hafa einhvern mikilleika til að bera sjálfur, en því virðist ekki að heilsa. Ljóst virðist því vera að áhrif valdatíma núverandi forseta á bandaríska þjóðfélagið geta ekki orðið til þess að hefja það til meiri vegs á nokkurn hátt. Það er einna líkast því að núverandi forseti sé bara einhverskonar Dump president og ekki til langtíma nota !

 

Síðustu hálfa öldina eða svo hafa forsetar Bandaríkjanna ekki þótt sérlega merkilegir persónuleikar, enda virðast litlar atgervis-kröfur hafa verið gerðar til þeirra um slíkt. Kosning núverandi forseta er ekkert nema bein afleiðing þess sem á undan hefur gengið. Hafi hann verið besta atgervisvalið sem hægt var að fá úr 300 milljón manna þjóðfélagi sjá menn líklega að ekki er við miklu að búast.

 

Lengi hefur vont verið að versna í forsetavali í stjörnuríkinu stóra og vesturheimsvitleysan aukist að sama skapi, – eða kannski ættum við að segja – stjörnuvitleysan !

 

Afar ólíklegt verður því að teljast að einhver umræða eigi eftir að skapast um núverandi forseta sem The Great President heldur öllu heldur The Late President og það orðalag gæti þessvegna átt við – miðað við framvindu mála - fyrr en flesta grunar, því dramb er falli næst !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 25
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 594
  • Frá upphafi: 365492

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 507
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband