Leita í fréttum mbl.is

Hvaðan kemur valdhafinn – hvers eðlis er hann ?

 

Allt er miklum breytingum háð í nútímanum og miklu meir en áður var. Nú veit enginn hverrar þjóðar þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum kann að vera í komandi tíð.

Það verður bara einhver, einhversstaðar frá og hananú ! Þannig virkar fjölmenningin, að allir eiga að geta komist til æðstu valda meðal þjóða á Vesturlöndum !

 

Sporin hræða þó nokkuð í slíkum efnum. Korsíkumaður einn tók völd yfir Frökkum, Georgíumaður einn tók völd yfir Rússum, Austurríkismaður einn tók völd yfir Þjóðverjum og í engu þessara tilfella varð niðurstaðan góð !

 

Valdabrölt viðkomandi manna varð til mikillar bölvunar fyrir mannkyn allt og olli dauða milljóna manna. Kannski vantaði þá eðlilega undirstöðu. Bestu mun yfirleitt gegna að hirðir og hjörð séu af sama meiði !

 

Ekki er heldur ýkja langt síðan innfluttur japanskur ,,afburðamaður” varð forseti í Perú sem einhverntíma hefði nú þótt ósennilegt að gæti orðið. En samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja á netinu, er samt tæpast hægt að segja að ferill viðkomandi manns sem forseta í Perú hafi verið perúvískum mannréttindum til mikils ávinnings eða innflutningurinn hafi skilað sér til þjóðarheilla !

 

Og hvert flýði svo maðurinn þegar honum var ekki lengur vært á forsetastóli vegna spillingar og misferlismála ? – Til uppruna síns, til Japanseyja !

 

Menn geta svona í þessu samhengi velt því ofurlítið fyrir sér hvaða líkur séu á því að innflytjandi frá Perú verði forseti í Japan ! Þær eru náttúrulega engar !

 

Eins og fyrr segir, virkar fjölmenning bara á Vesturlöndum og þá yfirleitt á kostnað þeirra manngildishugsjóna og menningar-arfleifða sem þar búa fyrir, enda virðist leikurinn fyrst og fremst til þess gerður að gildis og gengisfella þær og ónýta…….!

Það er þessi sjálfstortímingarhugsun sem mannskepnan burðast svo oft með sem virðist valda því að sífellt er verið að hlaða undir óþjóðlega afstöðu í málum !

 

En í ljósi þess sem getur gerst og er víða að gerast í nútímanum, getum við Íslendingar að sjálfsögðu fengið að upplifa þann veruleika að fá hér forseta eða forsætisráðherra frá Fjarskanistan eða hvaðan sem er. Við getum leikandi sett upp svolítið dæmi um slíkt !

 

Segjum nú - til dæmis - að við værum að tala um forsætisráðherrann okkar, - og ef við höldum okkur við fyrra dæmið, að við látum sem um innflutta japanska stúlku sé að ræða sem komin væri í það embætti !

 

Gefum okkur að stúlkan sú hefði verið snögg að sanna hæfni sína og námsgetu með því að renna eins og smjörklípa í gegnum menntakerfið og tekið flottar gráður þar. Hún hefði kornung þótt mjög róttæk og orðið flokksformaður í róttækum flokki.

 

Hún hefði síðan, líklega fyrir meinlega glettni örlaganna, færst jafnt og þétt til hægri og náð með því afstöðuskriði að verða forsætisráðherra í samsteypu-stjórn hægri afla. Skrúfað sig á skollavísu frá öllu því sem hún áður taldist standa fyrir !

 

Nú þurfum við eiginlega að gefa stúlkunni eða konunni nafn og það verður þá auðvitað að bera japönskum uppruna hennar nokkurt vitni á þjóðlega vísu. Þá er eiginlega allt orðið við hæfi í þessari litlu dæmisögu okkar. Við skulum því gefa okkur að konan heiti Natókata !

 

Við sjáum Natókötu njóta sín til fullnustu í sínu háa embætti, heimsækja aðra þjóðarleiðtoga, kanna heiðursvörð með þeim og brosa í allar áttir. Vera íslenskan leiðtoga af Zero gerð !

 

Við sjáum hana samþykkja þátttöku í stríðsaðgerðum þó að hún sé líklega friðsöm í innsta eðli sínu. En hún gerir það sem hentar henni og telur kannski viðkomandi aðgerðir nógu langt í burtu til að hægt sé að sofa fyrir þeim.

 

Og svo samþykkir hún kannski ýmislegt ef hún getur með því þóknast samstarfsflokkunum og því hernaðarbandalagi sem virðist standa hjarta hennar næst !

 

Að japönskum hætti er Natókata sveigjanleg og taktvís í sinni pólitík og því líklegust allra til að geta spilað á hið pólitíska hringferli með þeim hætti að hún geti hangið við einhver völd til lengri tíma. Það er auðvitað keppikeflið !

 

En hvort svo fer að lokum, að Natókata lendi í einhverjum vandræðum og verði kannski að síðustu að flýja til Japan eða í eitthvert annað skjól, það vitum við auðvitað ekki eins og sakir standa, því tíminn á eftir að leiða í ljós hvað verður.

 

En allt virðist þó leita til uppruna síns að lokum, hvað sem allri fjölmenningu líður, enda segir á vísum stað: - Römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til !

 

Kannski er það því einmitt aðalmálið í lífinu, að vita hvað maður er, hvar maður býr og hvað eðlilegast er að maður standi fyrir - í ljósi eigin gilda og arfleifðar !

 

Það virðist hinsvegar svo með marga á Vesturlöndum í dag, að þeir séu ekki með neitt af þessu á hreinu. Þeir kunna ekki að rata sína þjóðlegu leið, eru í því að glata gildum sem þeir eiga að virða og tapa áttum eins og Natókata !

 

Ætli það sé ekki alltaf allra hluta best að hver þekki sína arfleifð og hugi að henni ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 197
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 766
  • Frá upphafi: 365664

Annað

  • Innlit í dag: 192
  • Innlit sl. viku: 677
  • Gestir í dag: 189
  • IP-tölur í dag: 187

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband