Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðingar um Davíð konung !

 

Ég hef tekið eftir því að mörgum þykir erfitt að átta sig á frásögn Biblíunnar um Davíð konung og reyndar er ég ekkert sérlega undrandi á því. Persónuleiki Davíðs virðist hafa verið mjög margslunginn því annarsvegar er hann mikill guðsmaður en hinsvegar á margan hátt býsna veraldlegur lífsnautnamaður !

 

Margt býr í manninum og Davíð Ísaíson er ekki minnsta dæmið um það. Margt innilega trúað fólk á erfitt með að höndla þá heildarmynd af honum sem Biblían gefur. Þessvegna er helst dvalið við hann sem unga, saklausa hjarðsveininn sem lék svo fallega á hörpuna sína. Það er sungið ,, Davíð var lítill drengur, á Drottins vegum hann gekk, o.s.frv.” En það segir ekki alla söguna !

 

Þegar Davíð óx upp beið hans líf sem var hvorki saklaust eða friðsælt. Hann varð stríðsmaður sem hafði báðar hendur blóðgar til axla. Hann felldi sín tíu þúsund og vafalaust miklu meira en það. Vegna manndrápa var hann ekki hæfur til að standa fyrir smíði musteris Guðs. Ferill hans er mörgum manninum sífellt umhugsunarefni !

 

Eiginkonur átti Davíð nokkrar. Ekkert er þó sagt hvað um þær varð eða hvernig skipti hans við þær voru eða hvernig þeim lauk. Einnig tók Davíð sér hjákonur lengi vel og virðist hann hafa þurft á miklu að halda í þeim efnum og verið kvennamaður mikill. Kannski var fjöldi hjákvenna einhver mæling á ríkidæmi, eins og dæmi eru til um í Austurlöndum, en takmörk hljóta þó að vera fyrir því hvað einn maður kemst yfir !

 

Þær tíu hjákonur sem hann skildi eftir til að gæta hallarinnar þegar hann flýði þaðan í uppreisn Absalons, urðu að þola það að hann lét setja þær í varðhald og sagt er að þannig hafi þær orðið að lifa innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna. Ekki er lýsingin fögur varðandi örlög þessara hjákvenna Davíðs !

 

Sagan segir að hann hafi engin samskipti haft við þær eftir uppreisnina vegna þess að Absalon hafði gengið inn til þeirra að ráði Akítófels. Sýnist þó á engan hátt vera hægt að ásaka þær fyrir það sem á undan hafði gengið og meðferðin á þeim því vera miskunnarlaus svo ekki sé meira sagt !

 

En við skiljum heldur ekki siðalögmál löngu liðinna tíma og dæmum út frá því sem gildir í dag og ekkert segir né sannar að það viðmið sé réttara en annað ?

 

En svo er það hið illræmda Batshebu-mál. Þar fyllist konungur mikilli ástríðu til giftrar konu, tekur hana og lætur síðan brugga manni hennar banaráð. Þar má líklega segja að Davíð hafi lagst lægst á sínum ferli. Margir hafa að vonum átt erfitt með að finna guðsmanninn í þessu framferði konungs og skilja hreint ekki hvað gerðist ?

 

Samt liggur skýringin að öllum líkindum fyrir í þeirri einföldu staðreynd, að Davíð hafi algjörlega gleymt sér fyrir ofurafli ástríðu þeirrar sem virðist hafa gagntekið hann er hann leit Batshebu augum. Hún er sögð hafa verið forkunnarfögur kona. Davíð var á þeirri stund bara maður á valdi tilfinninga sinna og réð ekki frekar en svo margur maðurinn við eigin löngun og þrá !

 

Það má Davíð þó eiga að þegar Natan spámaður opinberaði fyrir honum hvað hann hafði gert, opnuðust augu hans strax og hann iðraðist sárlega gerða sinna. En það kallaði ekki Úría til lífsins aftur eða hreinsaði burt synd hans. Davíð varð að búa við refsinguna fyrir þá synd til æviloka. Það var aldrei friður yfir húsi hans eftir þetta !

 

Einn mikilsverður kennimaður tekur það fram á einum stað í ritum sínum, að hann hafi þá trú að Davíð konungur hafi hryggt hjarta Guðs meira en nokkur annar maður á jörðinni, að Júdasi meðtöldum. Guð elskaði þennan hjarðsvein, þetta helgaða skáld, og gaf honum snemma ómælda smurningu. Hann greiddi honum veg í öllum erfiðleikum og var með honum í öllum reynslum hans og gerði hann að konungi !

 

Davíð fann í öllu að velferð hans var undir Guði komin eins og við ættum öll að finna. En honum var hætt og okkur er hætt. Við erum öll bundin mannlegu eðli sem leiðir okkur býsna oft frá því rétta. Davíð var blessaður af Guði, hann var orðinn konungur og allir hlýddu honum og hann var farinn að venjast því að fá allt sem hugurinn girntist, en þá gleymdi hann því sem var bannað – einnig honum !

 

Í kjölfar hórdómsins beitti hann svo lygum og þeim fylgdi að lokum morð. En Davíð var samt ekki hrifinn af hórdómi, hann hafði deilt hart á slíkt framferði sem og annað syndaferli í sálmum sínum, en hann gleymdi sér er hann sá Batshebu. Hann heillaðist af henni og annað komst ekki að í huga hans. Honum fannst að hann yrði að fá þessa konu !

 

Batsheba var ekki vond kona, síður en svo. Hún hafði verið trú manni sínum, en gagnvart hinum volduga konungi, guðsmanninum Davíð, gleymdi hún sér líka. Kannski hélt hún í fyrstu að ekkert sem Davíð konungur gerði gæti verið rangt !

 

Við skulum ekki gleyma því að þetta er konan sem átti eftir að verða móðir Salómons. Hún hlaut að búa yfir miklum mannkostum. Án andlegrar arfleifðar frá góðri móður hefði Salómon varla getað orðið sá maður sem hann varð. En fyrsti funinn, blossinn milli Davíðs og Batshebu varð að báli sem skildi víða eftir sitt brennimark. Þau urðu bæði að axla margt og þola margt fyrir brot sitt !

 

Sitthvað bendir þó til að hin seinni ár hafi samband Davíðs og Batshebu fyrst og fremst verið andlegt og byggst á sameiginlegri trú þeirra og lotningu fyrir Guði !

 

Við sjáum á örlögum þeirra hvílíkar afleiðingar það getur haft þegar guði helgaður maður og andleg kona opna sig hvort fyrir öðru án þess að hafa rétt skilyrði til þess. Þeim fannst þau eiga svo margt sameiginlegt, bæði elskuðu þau Guð og þeim fannst kannski bara eðlilegt að þau elskuðu hvort annað !

 

Kannski héldu þau bæði að kynni þeirra hefðu orðið fyrir vilja Guðs. Guð væri að styrkja þau með því að gefa þeim hvort annað. Einhvernveginn urðu þau bæði að trúa því að þau hefðu ekki gert neitt rangt með því að verða elskendur !

 

En Guð leit ekki þannig á málið. Synd var synd og synd hafði vissulega verið framin. Saklausu blóði hafði svo í kjölfarið verið úthellt. Glæpurinn var stór og afleiðingarnar hlutu að verða stórar. Þær urðu líka skelfilegar fyrir hús Davíðs !

 

Mannlegt eðli er löngum varasamt og enn í dag eru sömu hlutir að gerast, – jafnvel meðal guðsmanna. Enn segja menn: ,, Það bara gerðist ”, ,, við drógumst svo að hvort öðru, við vorum svo sameinuð í því andlega, það var eiginlega ekki líkamlegt, ekki eins og það var andlegt !” Þannig er talað en það breytir engu um verknaðinn !

 

Flestir sem drýgja hór hafa alls konar afsakanir á hraðbergi. Það bara gerðist….. segja þeir, en niðurstaðan er í öllum tilfellum sú sama – synd hefur verið framin og ekkert gott getur komið út úr því !

 

Davíð konungur varð mæðumaður sín seinni ár. Sverðið vék ekki frá húsi hans. Syndir hans komu niður á honum eins og drýgðar syndir koma niður á okkur öllum. Guð hlífði ekki Davíð frekar en öðrum við afleiðingum gerða sinna og Davíð var í raun meiri brotamaður en flestir aðrir þar sem honum hafði verið gefið svo mikið að ofan. En hann iðraðist og forhertist ekki. Það breytti miklu fyrir eilíf örlög hans !

 

Þegar við hugsum um Davíð, hjarðsveininn og sálmaskáldið, sem var kallaður til að verða konungur, megum við ekki einblína svo á syndir hans, að við gleymum því að hann hafði margt gott til brunns að bera. Eins er það í raun og veru með okkur öll !

 

Margt þurfum við vafalaust, hvert og eitt, að bæta í breytni okkar, en svo er Guði fyrir að þakka að öll, já, öll, höfum við eitthvað í fari okkar sem Guði er þóknanlegt og það þarf fyrst og fremst að fá að vaxa í hjörtum okkar !

 

Þar er um pundið okkar að ræða, talenturnar okkar, það sem okkur ber öllu öðru fremur að ávaxta í lífi okkar til endadægurs. En gerum við það ?

 

Væri okkur ekki hollast að minnast þess að við tökum ekkert með okkur sem blessun þegar við verðum kölluð burt úr þessum heimi, nema það í okkar lífi sem Guði hefur verið helgað !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 669
  • Frá upphafi: 365694

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 590
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband