Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um íslenskuð Biblíunöfn !

 

 

Erfitt er að segja hvaðan nöfn manna koma, hvert upphaf þeirra er. Í raun er líka alltaf verið að búa til ný nöfn með einhverjum hætti. En það fer auðvitað oftast þannig að sum festast í sessi en önnur detta fljótlega út. Margt er sérkennilegt við nafnagerð og þjóðlegar hefðir þar mjög sérstæðar. Til dæmis er ólíklegt að menn fengju nafnið Jóhannes skírari hér, en í Frakklandi hafa ótaldir menn fengið það nafn – Jean Baptiste !

 

Athyglisvert er samt, að þrátt fyrir það sem margir vilja kalla afkristnun þjóðarinnar, virðast nöfn úr Biblíunni alltaf nokkuð vinsæl hver sem ástæðan kann að vera. Hjá okkur eru nöfnin Adam og Eva til, ekki síður en Askur og Embla, og geta menn velt vöngum yfir því hvað þar er um áþekk nöfn að ræða. Líklega tengjast þau sitthvorri útgáfunni af sama upphafinu !

 

Oftast virðist nú sem fólk hafi heldur kosið að láta heita eftir nöfnum hinna betri manna úr Ritningunni, má þar nefna nöfn eins og Enok, Nói, Ísak, Samúel, Daníel, Jónatan o.s.frv., en það er þó ekki einhlítt. Ekki hefur nafnið Abel til dæmis náð festu hér, en önnur nöfn orðið nokkuð algeng svo sem Jakob (hælhaldari), Aron, Davíð og Benjamín. Sérlega algengt hefur nafnið Jósef orðið, enda voru þeir menn sem það tengist helst í Biblíunni miklir mannkostamenn !

 

Aronsnafnið hefur orðið mjög vinsælt á seinni árum og miklu algengara en nafnið Móse (s). Kannski að það sé vegna þess hvað margir virðast helst af öllu vilja steypa og tilbiðja gullkálfa í dag ? Aron var auðvitað enginn leiðtogi eins og Móse og að því er virðist heldur veikur fyrir tíðarandanum. Það er því ekkert undarlegt þó nafni hans sé hampað nú á tímum.

 

Spámannanöfn eru nokkur þekkt hérlendis, Elía (s), Jóel, Jónas, Daníel, Hósea (s), Natan, Sakaría (s), og nöfn engla eins og Mikael og Gabríel !

 

Ekki höfum við tekið upp nöfnin Sem og Kam ( eða Ham), en Jafet höfum við hinsvegar vakið til lífs hér. Synir Jakobs eða Ísraels eru til í nöfnunum Leví, Jósef og Benjamín (Sonur Suðurlandsins, hamingjusonur). Sá síðastnefndi var reyndar nefndur Benóní (hryggðarsonur) af deyjandi móður sinni og það nafn höfum við líka meðtekið !

 

Nöfn guðspjallamannanna eru öll til í okkar nafnaflóru, en nafnið Lúkas er þó einna sjaldgæfast. Við höfum reyndar lagt út nafnið Jón á fleiri en einn veg, svo sem Jóhann og Jóhannes. En nafnmyndin Jón hefur þó orðið langsamlega algengust hérlendis af þeim útfærslum !

 

Hafa þeir sem heitið hafa Jón, og jafnframt verið Jónssynir, verið svo margir á Íslandi til þessa, að stundum hefur það valdið ættfræðisinnuðu fólki töluverðum erfiðleikum að greina þar á milli manna !

 

Nöfn postulanna eru sum alþekkt á íslenska vísu svo sem Símon og Pétur, Andrés, Jóhannes, Jakob, Tómas, Filippus og Páll. Önnur Biblíunöfn eru svo til hér, misjafnlega algeng þó, Salómon, Elí, Betúel, Bóas, Esra, Jósafat, Gamalíel, Job, Tímóteus, Samson, Metúsala (Methúsalem), Ebeneser (hjálparhella), o.fl. Nokkrir menn hafa fengið nafnið Abraham, en það hefur aldrei orðið algengt nafn á Íslandi !

 

Allmörg kvenmannsnöfn hér eiga líka að öllum líkindum rætur að rekja til Biblíunnar og þar ber nafnið María hæst. Einnig má nefna nöfnin Eva, Sara, Rebekka, Rakel, Rut, Marta, Ester, Anna, Hanna, Elísabet, Debóra o.fl. Nafnið Salóme er líka þekkt hérlendis !

 

Það þykir augljóslega öllu vinsælla á Fróni að halda uppi nafni Söru en Abrahams. Rakel er líka orðið nokkuð algengt nafn hér en Leu er nánast hvergi getið. Alltaf virðist hún blessunin sett hjá. Margt er hægt að hugleiða í þessum efnum út frá hverju nafni fyrir sig !

 

Líklegt má telja að um eða yfir 50 karlmannsnöfn hérlendis séu komin úr Ritningunni og sennilega um 20 kvenmannsnöfn. Mestur hluti þeirra nafna á sér hliðstæður í öðrum kristnum löndum á sömu forsendum !

 

Í arabískum heimi eru ættfeðranöfnin líka mjög algeng, Ibrahim, Ishaq, Yaqub, Yussef, enda uppruni þjóðanna sá sami þó friðsamlegra mætti vera innan þeirrar stórfjölskyldu. En máltækið segir víst ,,frændur eru frændum verstir ” og er það víst eitthvað sem flestir þekkja – því miður.

Með þeim orðum læt ég svo þessum pistli lokið !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 9
  • Sl. sólarhring: 260
  • Sl. viku: 1289
  • Frá upphafi: 367414

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1130
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband