Leita í fréttum mbl.is

Þarf stuðning einhvers svikaaðila !

 

 

Mjög lengi virðist svo hafa verið, að sjálfstæðis-flokkurinn hafi beinlínis gert út á það að fá einhvern af hinum flokkunum í samstarf með sér, á þeim forsendum að viðkomandi flokkur svíki stefnu sína !

 

Eftir að íhaldið missti meirihluta sinn í höfuðborginni varð það að bíta í það súra epli að það yrði að mynda meirihluta með öðrum og fá einhvern flokk til að tryggja sér þann meirihluta. Það var hrokafullu langtíma yfirgangsliði hin mesta auðmýking, en þannig var staða mála orðin og við því varð að bregðast þótt bölvað þætti !

 

Alþýða manna var loksins orðin það upplýst, að hún skildi að íhaldið var henni engin vörn eða heillaþúfa í málum og hafði aldrei verið það eða myndi nokkru sinni verða það. Blekkingin í þeim efnum var loksins að baki og búin að glata áhrifavaldi sínu. Og auðvitað hefði hún löngu fyrr mátt afhjúpast sem slík !

 

Þýlyndið og sleikjubeinahátturinn undir borðinu var að mestu liðin tíð hjá alþýðu manna og fólk var að vakna til vitundar um samfélagslegan rétt sinn. Það leiddi til þess að íhaldið sat eftir með sárt ennið og harmaði sín misstu tök á því atkvæðavaldi sem það hafði í raun alltaf misnotað !

 

Og nú varð að afla sér stuðningsaðila. Fylgið var einfaldlega ekki nægilegt til að hægt væri að deila og drottna sem fyrr. Það þurfti að fá einhvern til að svíkja og gerast Júdas við stefnu sína og þannig heilaþveginn hjálparkokkur áframhaldandi íhaldsvalds !

 

Og þannig hefur verið haldið á málum síðan. Alltaf hafa einhverjir fengist til að svíkja. Alltaf hafa einhverjir gengist inn á það að veita íhaldinu þrælsþjónustuna. Aðallega hefur slík þjónusta þó verið veitt á þjóðmála-sviðinu, eins og varðandi myndun á ríkisstjórn. Um það vitna dæmin enn í dag á peningasjúkum markaði mannsdómsfallsins !

 

Viðskiptakjörin í samningum varðandi slíkt skulu ekki rædd hér, en alltaf hefur auðvitað eitthvað verið í boði og alltaf hefur það verið á gildiskostnað þess sem þjónustuna hefur veitt hverju sinni. Allir skaðast nefnilega á samstarfi við íhaldið, hvort sem er á þjóðmálasviðinu eða í sveitarstjórnarmálum !

 

En nú sækir ótti að íhaldinu. Sumir andstöðuflokkarnir eru farnir að lýsa því yfir, jafnvel fyrir kosningar, að samstarf við íhaldið komi ekki til greina. Slíkar yfirlýsingar eru eins og eitur í beinum sérgæskumanna !

 

Það er sem sagt hætta á því að svikarar verði ekki lengur til þjónustu reiðubúnir. Það er skiljanlegt að íhaldinu bregði og líki ekki sú sviðsmynd sem upp virðist komin. Enda heyrist að fulltrúum þess lítist ekki á blikuna ef svo fer sem horfir !

 

Hið tækifærissinnaða spilverk hinna viðskiptafúsu og framasjúku framboðsaðila, um að ganga með óbundnar hendur til kosninga og vera opnir í báða enda, er gengið sér til húðar. Almenningur vill hreinar línur !

 

Menn vita nú betur en áður að íhaldið er hinn raunverulegi andstæðingur allrar félagshyggju og alþýðlegrar velferðar og menn eigi að berjast gegn því en ekki að þjónusta það. Og þessvegna kemur svikahlutverkið ekki lengur til greina að margra dómi, svo íhaldið óttast útilokunarstefnu !

 

Á sínum tíma, undir meirihlutavaldi íhaldsins, var farið fram á það við bæjarfulltrúa í Reykjavík af þáverandi forseta bæjarstjórnar, að þeir stæðu upp í virðingarskyni við Jón Þorláksson sem þá var nýlátinn !

 

Björn Bjarnason, sem þá var bæjarfulltrúi kommúnista, síðar formaður Iðju, sat þá sem fastast. Hann sagðist ekki standa upp fyrir bæjarstjóra íhaldsins, lifandi eða dauðum. Afstaða hans þótti hneyksli á þeim tíma !

 

En hvað átti Björn Bjarnason að virða við Jón Þorláksson ? Af hverju átti hann að standa upp í heiðursskyni við dauðan broddborgara sem alla tíð hafði verið andstæðingur hverskyns alþýðuvalds ? Björn sá eðlilega enga ástæðu til þess og var sjálfum sér samkvæmur á þessum fundi og enginn betur en hann !

 

,,Kurteisi kostar ekkert“ er löngum sagt, en kurteisi getur kostað talsvert þegar ætlast er til að menn sýni af sér hræsni í kurteisisskyni og gangi gegn sannfæringu sinni. Björn Bjarnason ætlaði ekki að kalla það yfir sig að sagt yrði við hann síðar : ,, Þú stóðst nú upp fyrir Jóni Þorlákssyni !“

 

Nei, hann gerði það ekki. Hann hafði, samkvæmt sinni sannfæringu, nákvæmlega ekkert að virða við þennan dauða foringja íhaldsins og honum datt ekki í hug að hræsna þar neitt. Sagði bara sína meiningu !

 

Menn eiga að vera sjálfum sér samkvæmir og standa á sannfæringu sinni við hvaða aðstæður sem um er að ræða. Manngildi dæmist ekki síst af frammistöðu við slíkar aðstæður !

 

Samstarf við íhaldið af hálfu vinstri flokka á því ekki að vera til umræðu. Íhaldið vill aðeins samstarf á þeim grundvelli að einhverjir svíki yfirlýsta stefnu sína og gangi í lið með því, svo það geti framkvæmt sérgæskustefnu sína gegn vinstri áherslum á kostnað almannaheilla !

 

Sem betur fer hefur íhaldið ekki lengur bolmagn til að halda völdum eitt og sér. Hjálparkokkar þess hafa í gegnum árin fengið sína refsingu fyrir þau svik sem þeir hafa sýnt og nú síðast eru vinstri grænir að ganga þar í gegnum sitt hýðingar-tímabil !

 

Það er þó vafasamt að þeir ætli sér í forherðingu sinni að læra neitt af reynslunni, því Kata er svo sæl á toppnum. En þeir fara þá bara innan tíðar endanlega á öskuhaug sögunnar og því fyrr sem það verður því betra. Sannari og betri öfl munu þá taka við í nafni lýðræðis og félagshyggju !

 

Þegar íhaldið kemst í þá stöðu að það fær engan til að svíkja lengur, sama hvaða gylliboð og mútur kunna að vera boðnar, þá mun margt breytast á Íslandi til bættra almennra kjara. Fólk mun fljótt fá að sjá þar muninn !

 

Forréttindaættirnar munu þá missa fyrri tök sín innan stjórnkerfisins, aðalsveldi kvótagreifanna mun líða undir lok og miklu manneskjulegra mun verða um að litast, um allt svið samfélagsins !

 

Samfara því verður komið í veg fyrir hverskyns spillingu sem enn lifir góðu lífi í baktjaldasamhengi við forsendur svikræðis og blindrar sérhagsmunahyggju. Jafnræði mannréttinda þarf að ná fullu gildi. Það er leiðin til almennrar velferðar á Íslandi !

 

Íhaldinu og sérgæsku þess mun að vísu seint verða alveg útrýmt, en við valdaþrotin þensluskilyrði þess og fallandi stöðu mun það í framhaldinu skreppa saman. Þegar það getur ekki lengur arðrænt aðra, verður það að lokum að nærast á eigin hít !

 

Þá mun það sjálfkrafa éta sig upp og vonandi drepast af afleiðingum eigin uppdráttarsýki !

 

Það verður mesta landhreinsun Íslandssögunnar !

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 94
  • Sl. sólarhring: 350
  • Sl. viku: 874
  • Frá upphafi: 357055

Annað

  • Innlit í dag: 87
  • Innlit sl. viku: 695
  • Gestir í dag: 87
  • IP-tölur í dag: 87

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband