Leita í fréttum mbl.is

Þriðja heimsstyrjöldin og sú síðasta ???

 

 

Hvað er að gerast ? ,,Er komið að endalokunum?“ spyr fólk víða um heim, einkum þó í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar er líka að mestu leyti uppspretta þess sem er að gerast. Eigum við kannski að skoða málið svolítið í ljósi þess sem hefur gerst og er að gerast ?

 

Margir héldu lengi vel að Sovétríkin myndu hefja þriðju heimsstyrjöldina. Allan kaldastríðs tímann var því haldið að fólki með linnulausum áróðri í Vestur Evrópu og Bandaríkjunum, að Sovétmenn væru til alls vísir. Þeir voru sagðir villimenn og barbarar og eins og það væri ekki nóg, væru þeir þar að auki bölvaðir kommúnistar. Það var nú það versta. Ekki þótti blandan góð !

 

En nógir voru til að trúa þessu og gengu fölir og vansvefta um vegna þess. Það er hægt að hræða lífið úr besta fólki með áróðri. Þá henda háttsettir menn sér jafnvel út úr gluggum á háhýsum !

 

En svo merkilegt sem það er, liggur nú fyrir að hin kommúnistísku Sovétríki hófu aldrei þessa umræddu gjöreyðingarstyrjöld og gera það ekki úr þessu. Og raunar var kannski hættan á því aldrei mjög mikil þegar allt kom til alls, nema þá fyrir tæknilega slysni !

 

Þjóðir Sovétríkjanna fundu nefnilega allra þjóða mest fyrir því í Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari hvað stríð er. Það gerðist í Landvarnarstríðinu mikla sem háð var gegn nazistum frá 1941 til 1945. Meira en 20 milljónir þegna landsins féllu í því stríði. Reyndar er talan oftast sögð allt frá 18 til 24 milljónir. Til samanburðar má geta þess að Bandaríkjamenn misstu líklega næstum 300.000 manns og Bretar um 360.000 !

 

Sovétríkin báru hita og þunga baráttunnar gegn Nazista-Þýskalandi og áttu drýgstan þáttinn í því að sú mannkynsógn var að velli lögð. En það kostaði sitt eins og tölurnar sýna. Og samt áttu Sovétríkin að vera æst í áframhaldandi stríð – með allan vesturhluta landsins í rústum og yfir 20 milljónir fallnar ? Fæstir myndu nú telja að slíkt kallaði eftir meira stríði !

 

Hverjir fjármögnuðu Hitler og hvað var honum ætlað að gera ? Breskt, franskt og bandarískt auðvald byggði nazistaríkið upp og því var ætlað að leggja Sovétríkin að velli. Sigrast á kommúnismanum sem var mesta ógnunin við auðvaldið í heiminum. Það var stríðið sem stefnt var að !

 

En vopnin snerust illilega í höndunum á auðvalds-ríkjunum. Eftir allan fjármagns-austurinn fór svo að Hitler lét ekki að stjórn. Hann vildi ólmur taka Frakka í gegn. Hann fór því ekki í austur. Hann fór í vestur !

 

Og í framhaldinu urðu Vesturveldin og Sovétríkin bandamenn sem hvorki mátti eða átti að gerast. Hvernig í ósköpunum gat svo farið ? Hvaða vald lét það gerast sem átti ekki að geta gerst ? Sannarlega var það ekki pólitík þessarar plánetu sem stjórnaði þeim furðu-snúningi. Þar var eitthvað á ferð sem enginn skildi !

 

Hin svokallaða síðari heimsstyrjöld fór við þetta alveg úr böndunum og í allt annan farveg en henni var ætlað af þeim sem hrundu henni af stað. Þar kom sannarlega vel á vondan. Vesturveldin komust þar líklega að þeirri íslensku þjóðsagna-staðreynd að það er ,,vont að vekja upp draug og verða að kveða hann niður“ eins og þar stendur !

 

Það tókst þó að lokum að koma kommúnismanum og Sovét-ríkjunum fyrir kattarnef. En það gerðist af því að forustumenn sovéska ríkisins voru hættir að vera kommúnistar og voru orðnir kapítalistar. Fjármálavaldið og peningahyggjan gerði þá að sama hyskinu og þrífst í Wall Street og öðrum Mammonshöllum heimsins þar sem hjörtu manna slá eftir dollaragengi !

 

Og var þá eitthvað í vegi fyrir friðsælli heimi ? Var þá ekki hið svonefnda heimsveldi hins illa sigrað og bara góðir kapítalistar komnir þar við völd ? Nei, það vantaði víst eitthvað ennþá í samstöðuna og vináttuna milli þjóða. Það hófst nefnilega mjög fljótt mikil valdatogstreyta um það sem við getum kallað dánarbú Sovétríkjanna sálugu !

 

Rússland sem taldi sig vera réttmætan aðalerfingja í því dæmi, gat ekki fyrst um sinn varið sinn ætlaða rétt þar. Kremlarheimilið var allt í upplausn meðan oligarka-innherjar og önnur arðránskvikindi fóru hamförum í ránskap sínum á ríkiseignum, í skjóli vanhæfra leiðtoga sem tóku þar áreiðanlega sínar prósentur. Það var veisla í gangi eins og hér fyrir hrunið. Allt fyrra skipulag fór til fjandans í þeim skollaleik sem þar var stundaður og undirlægjuríki Sovétríkjanna hlupu í allar áttir, líklega frelsinu fegin !

 

En þegar Rússland fór að rétta við eftir sitt hrun, sáu ráðamenn í Kreml sér til skelfingar að vestræn auðvalds-krumla var að teygja sig æ lengra austur á bóginn. Hin fyrrum sovésku áhrifasvæði höfðu mörg hver þegar verið gripin af henni og lukt í dollaragreip hinnar nýju nýlendustefnu. Hver yrðu lokin á þeirri ásókn ? Hvað yrði um Rússland ef svo færi sem horfði ?

 

Og þar með breyttist allt sviðið. Hið ævagamla andspæni sögunnar tók sig upp að nýju. Kapítalistar gegn kapítalistum og nú voru engin kommakvikindi til að skekkja myndina. Valdabarátta hefur alltaf verið sér-íþrótt kapítalismans og yfirtaka landa er þar á bæ jafnan sögð færa björg í bú. Það hlakkaði því í hræfuglum auðhringanna á Vesturlöndum !

 

Og sjötíu milljarða dollara fjárfesting á úkraínsku landi og atvinnulífi frá Brusselvaldinu, sem var bara byrjunin, átti að skila fjársjóðslandinu Úkraínu á silfurfati til hins vestræna auðvalds. Þannig átti allt að smella saman til að fóðra á komandi árum botnlausa hít Evrópusambandsins !

 

En það er enginn friður þar sem auðvald ræður og getur aldrei orðið. Arðrán kallar ekki á frið. Hinn kúgaði hlýtur alltaf að rísa upp að lokum. Það er í rauninni alveg sama hvort kúgunarvaldið kallast kommúnískt eða kapítalískt, því yfirgangsstefna getur aldrei gengið til lengdar !

 

En meðan næði gefst frá beinu stríði er hægt að stunda arðrán og það er miskunnarlaust gert af öllum kapítalistum, og nú á tímum jafnt í austri sem vestri !

 

Og fjármálaleg innrás er auðvitað allt annað en hernaðarleg innrás. Peningavald leggur nefnilega undir sig fleiri lönd en hervald og það er miklu klókara að múta mönnum til undirgefni en merja þá til bana !

 

Staðreynd málanna er, að hið vestræna auðvald er að leggja undir sig lönd og ríki austar í Evrópu, ríki sem það hafði misst úr fjármálaklóm sínum þegar Sovétvaldið flæddi þar yfir allt um miðja síðustu öld !

 

Eftir hrun Sovétríkjanna var sú stefna mörkuð af auðvaldsöflum Vesturlanda að leggja bæri Austur-Evrópu-ríkin undir Brusselvaldið, Bandaríkin og Nató. Ekki þó með hervaldi heldur fjármálavaldi. Og að því hefur verið unnið síðan og nú segjast Rússar vera búnir að fá nóg !

 

Þeir segjast nú vera til í allt og hvað þýðir það – kjarnorkustyrjöld ?

 

Þjóðverjar virðast loksins hafa lært það að hernaðarinnrás er ekki leiðin til yfirráða í Evrópu, enda líka búnir að reyna það tvisvar. Að ná valdi yfir öðrum löndum með fjármálavaldi er miklu árangursríkara. Það er bara að kaupa leiðtoga þess lands sem á að leggja undir sig, gera þá að milljónamæringum, og láta þá þjóna yfirtökuvaldinu á bak við tjöldin. Það var lengi uppáhalds aðferð Vesturveldanna í Afríku og er það líklega enn !

 

Og valdið í Brussel er nú sannarlega ekki samevrópskt eins og haldið er fram – af sumum. Það er heldur ekki franskt eða breskt, það er þýskt. Bretar fóru út úr Evrópusambandinu þegar þeim varð loksins ljóst að það átti bara að vagga þeim í svefn í Brussel. Þeir áttu ekki að fá að ráða þar neinu !

 

Og aumingja Frakkarnir, þeir eru fyrir allnokkru orðnir algerar undirlægjur Þjóðverja í Evrópusambandinu og hafa alveg glatað þar hinni upphaflegu jafnstöðu sinni gagnvart Þýskalandi. De Gaulle yrði sannarlega ekki hrifinn ef hann sæi stöðu mála í dag. En hann lagði þar sjálfur sigurgrunninn fyrir þýskan framgang og hafði sýnilega ekki hugmynd um hvað hann var að gera !

 

Þýska valdið ræður í Brussel og það virðist vera takmarkið bak við tjöldin að leiðrétta mistökin sem Adolf Hitler gerði. Andinn er sá sami og hann hefur alltaf verið. Nú skal haldið í austur í anda tevtónsku riddaranna, því Putin er sannarlega enginn Alexander Nevskí !

 

Þessi þriðja tilraun Stór-Þýskalands til yfirráða í Evrópu mun líklega raska öllum friði í álfunni og spilla þar allri velmegun enn einu sinni og jafnvel til frambúðar. Í svona valdatafli er leikið á ystu nöf og allt mögulegt í stöðunni. Allir virðast líka hjálpast að við að hella olíu á eldinn. Endurtekning frá 1939 !

 

Ef núverandi átök í Evrópu leiða að lokum til þess að kjarnorkuflaugarnar verða sendar af stað er þessu öllu lokið, og það verður enginn málglaður sigurvegari til viðræðu á eftir – jafnvel ekki sjálfur Volodymyr Selensky !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 20
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 1027
  • Frá upphafi: 394032

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 892
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband