Leita í fréttum mbl.is

Íslenska ríkið er að farast úr innanskömm !

 

 

Íslenskir kjósendur eiga enga góða valkosti fyrir höndum og það er sosum engin ný staða. Margir kvarta yfir því að nú finni þeir enga á þjóðarþinginu sem hægt sé að bera eitthvert traust til og þaðan af síður í ríkisstjórninni. Þeir sem hafa orð á slíku virðast orðnir talsvert fleiri en var og er það vissulega þjóðlegt áhyggjuefni !

 

En þó er það meira áhyggjuefni, að þessi afstaða fólks er ekki einhver vitleysa, heldur byggð á nokkuð veigamiklum forsendum. Alþingi nýtur ekki mikils trausts meðal þjóðarinnar og þar er ekki við þjóðina að sakast. Þingið er einfaldlega þannig skipað að æ fleiri missa trú á getu þess til að leysa úr vandamálum samfélagsins. Það líkist æ meira einhverskonar stefnulausum innanbúðar klúbbi þar sem fólk fer í endalausa hringi !

 

Meirihluti þingsins er yfirleitt ábyrgðaraðili ríkisstjórnar-samstarfs og ótrúverðugur meirihluti þings er því ólíklegur til að fæða af sér trúverðuga ríkisstjórn. Enda sjáum við að hvorugt mengið kallar á traust meðal almennings. Þar dregur allt hvað annað niður með röfli um einhver gildislaus hégómamál sem engu skipta !

 

Ríkisstjórnin sem situr, komst á koppinn eftir síðustu kosningar, sem í heilbrigðu lýðræðisríki hefði átt að endurtaka, vegna gallaðrar framkvæmdar. Það var ekki gert sökum pólitískra hagsmuna flokksræðisafla og þar með var lýðræðislegum hreinleika valfrelsisins hent út af borðinu og varpað á dyr !

 

Sá sem fékk úrskurðarvaldið í því máli, var sagður hafa fengið feita tignarstöðu í ferilskrána fyrir vikið, og er slíkur gjörningur ekki fátítt verklag í þessu landi. Allt í kringum umræddan skollaleik undirstrikaði það, að ekki eru miklar forsendur fyrir virðingarhæfni þingsins eða ríkisstjórnarinnar og er það skömm fyrir öll þau þjóðlegu gildi sem við á hátíðisdögum teljum lýðveldi okkar til tekna og viljum upphefja, en aldrei nema þá !

 

Sumir tala um að þingið sé að verða einskonar saumaklúbbur eða snobbuð innanbúðar-samkoma sem fyrr segir, og umræða um mál þröngsýn og sjálfhverf. Flokkarnir eru allir að verða svipaðir hver öðrum og skýr stefna er hvergi sjáanleg. Þar virðist stöðugt slegið úr og í varðandi öll mál og engu að treysta. Fyrirmæli frá Brussel flæða inn í landið vegna EES svikanna og yfirvöld hér eru að verða valdalaus milliliður og þjóðinni til einskis gagns !

 

Ríkisstjórnin virðist aðeins einbeitt í einu máli. Það er að lafa út kjörtímabilið. Þá gætu sumir ráðherrarnir þessvegna sagt sig frá pólitík, enda líklega komnir með ráðherra-eftirlaun það sem þeir eiga ólifað. Þeir geta þá lifað á okkur hinum allt til endadægurs og kannski er einmitt að því stefnt í vel grunduðum framtíðarplönum forhertra ego-ista ?

 

Stöðugt færri virðast hafa trú á því að einhverjir séu heilshugar að þjóna þjóðinni í hópi þessa ráðamannaliðs, sem virðist ekki koma neinu stefnulega séð í verk, og lafir bara eins og Lúðvík kóngur við völd ? Þar líta margir Fróðárhirð falskheitanna !

 

Við þurfum ráðamenn sem standa í fætur í þjóðlegum velferðarmálum og nota okkar fé til að styrkja samfélag okkar og innviði þess. Raunverulega ráðamenn með jarðsamband við fólkið í landinu, sem liggja ekki hundflatir fyrir erlendu valdi !

 

Vegna augsýnilegs ódugnaðar ráðandi afla og slæmrar meðferðar þeirra á almannafé, er Samfylkingin að skora hátt í skoðana-könnunum. En það vita allir fyrir hvað Samfylkingin stendur. Það ætti ekki að dyljast neinum eftir atburðarás síðustu 30 ára og lengur. Hún stendur jafnt sem áður fyrir Brussel-valdið !

 

Nýr formaður hefur ýtt því máli í bili út af borðinu, en vaxi flokkurinn að styrk mun það mál fljótt verða endurvakið. Þá verður tengt við það að nýju, og ef flokkurinn verður þá kominn í stjórnaraðstöðu og jafnvel lykilstöðu þar, mun það ógna sjálfstæði okkar og öllu þjóðlegu frelsi !

 

Margir hafa lengi talið krata óþjóðlegasta hluta íslensku þjóðarinnar, og eiga þeir sem það segja oftast létt með að færa boðleg rök fyrir þeirri skoðun sinni. Sagan mótmælir heldur ekki þeirri staðhæfingu. Þvert á móti staðfestir hún hana !

 

Við þurfum umfram allt að vera á verði fyrir óþjóðlegum öflum innanlands og láta þau ekki festa okkur í fjötrum erlends valds að nýju. Síðast tók það okkur 656 ár að verða frjáls aftur og þjáningar þjóðarinnar allan þann tíma verða aldrei með tölum taldar. Fimmta herdeildin er alltaf það hættulegasta. Svikarar innan eigin raða !

 

Hugsum aðeins um sjálfstæða hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Lærum af Færeyingum og þjóðlegri stefnu þeirra. Þeirra ráðamenn virðast vita hvað þeim ber að gera, en okkar ráðamenn eru gagnslausir sem slíkir og virðast þjóna erlendum áhrifaöflum fyrst og síðast !

 

Mættum við verða laus við þá eins fljótt og auðið verður og fara að hegða okkur í verki eins og sjálfstæðri þjóð ber að gera.

Það er ekki seinna vænna !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 596
  • Frá upphafi: 365494

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband