Leita í fréttum mbl.is

Að af-íslenskast erlendis !

 

 

 

Sjálfstæðismál okkar Íslendinga eru sem löngum fyrr í nokkuð óljósum veruleika. Fölsk hollusta höfðingjavaldsins í landinu gagnvart þjóðargildum sjálfstæðis okkar veldur því engu síður en á Sturlungaöld. Það stafar engin hætta í þeim efnum frá almenningi á Íslandi, þó reynt hafi verið að villa um fyrir honum á allar lundir til margra ára. Íslensk þjóðarheill getur aldrei falist í endastöð í Brussel og það veit allt íslenskt fólk sem enn ræður sál og sinni, en því virðist að vísu fækka með hverju árinu !

 

Það ráða nefnilega ekki allir eigin sál og sinni á Íslandi. Markaðsauðvaldið hefur fjárfest býsna mikið í sálum á síðustu árum og sú fjárfesting á eftir að leiða það betur í ljós hverjir hafa þar glatað því sem skilar sér í manndómi og sjálfs-virðingu. Það er víða svo komið, að persónulegt innihald sálna er orðið rotið og spillt og margir landar okkar virðast hafa villst endanlega frá uppruna sínum og tilheyra nú allt öðru en því sem þeir gerðu meðan þeir hegðuðu sér enn sem ærlegir menn !

 

Mesta hættan fyrir sjálfstæði Íslands virðist geta falist í íslenskum mennta-skrípum sem vilja koma sér í mjúkinn hjá Evrópusambandinu, upp á efnahagslega eigin farsæld, og gefa sem úlfar í sauðargæru allskyns sérfræðiálit sem markast af slíkum viðhorfum sem eru þá hvorki heiðarleg né sönn í heilbrigðu samhengi !

 

Skólakerfið er mjög mengað í þeim efnum og villukenningar vaða þar uppi. Svokölluðum upplýsingum, sem flestar eru í formi blekkinga og lyga, er haldið svo fast að þjóðinni að sannleikurinn fær hvergi að komast að. Menntunarmál eru farin að skila sér með öfugu móti og til tjóns fyrir samfélagið !

 

Fjöldi fólks telur sig nú búa að svo mikilli menntun að það fæst ekki lengur til að vinna þjóðnýt störf. Það telur sig of merkilegt til þess. Það vill bara raða pappírum í skúffur á margföldu kaupi. Flytja verður inn útlendinga til að vinna nauðsynleg störf. Við Íslendingar virðumst því miður vera að úrkynjast. En landið okkar gerir sínar kröfur til þeirra sem búa hér og ef við mætum þeim kröfum ekki á manndómslegan hátt, erfa aðrir landið !

 

Að vera Íslendingur í eigin landi og það sjálfstæðu eigin landi, er og ætti jafnan að vera keppikefli frjálsra manna, en nú segja hálærðir menntamenn með spekinga-svip, að við eigum að varðveita sjálfstæði okkar með því að farga því. Þeir tala þá annaðhvort frá Brussel eða Washington en sama valdinu er þar þjónað – og sýnilega samviskulaust. Það sama var sagt um full-veldi okkar á sínum tíma, af hliðstæðum aðilum, að við ættum að varðveita það með því að farga því !

 

Sérfræðimenntaðir Íslendingar sem horfa til Íslands frá fræðastólum í Brussel, Washington eða London, komast gjarnan að niðurstöðum sem samrýmast þeim erlenda sjónarhóli sem horft er frá. Líklegt er að niðurstöður slíkra manna yrðu í mörgum atriðum aðrar ef þeir skoðuðu málin frá íslenskum tilvistar-punkti með þjóðlegum hætti. En það er ekki í boði. Til þess eru þessir fræðingar orðnir talsvert um of lærðir á erlenda vísu !

 

Sókrates sagði forðum ,, Þekkingin er undirstaða dyggðarinnar“, en nútíminn hefur sannað óþyrmilega fyrir okkur þá staðreynd að menn verða enganveginn betri menn fyrir svokallaða aukna menntun. Í mörgum tilfellum gerir hærra menntunarstig þá að verri mönnum. Þeir fyllast hroka og líta niður á aðra !

 

Sókrates hefði átt að segja ,, Dyggðin er undirstaða þekkingarinnar“. Þekking sem grundvallast á dyggð hlýtur alltaf að vera af því góða og þjóna samfélagi manna miklu betur en sú þekking sem vill baða sig í egoisma og sérgæsku. Hæfnisstig manna til samfélagslegrar þjónustu fer yfirleitt niður þegar hrokinn fer upp !

 

Við þurfum ekki menntafólk af því tagi og svokallaðir sérfræðingar eru þegar komnir með óeðlilega mikil völd í samfélaginu, þó þeir beri litla sem enga ábyrgð. Við höfum hér nú þegar allt of mikið af gráðugu gráðuliði, ekki síst innan ríkiskerfisins, og það skilar sér afar illa til gagns fyrir þjóðarheill í þessu landi, og er hér þegar orðið að afætum almennrar velferðar !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband