Leita í fréttum mbl.is

Um samfelldar andstæður í veltandi veröld !

 

 

 

 

Hvað er frelsishetja, hvað er hryðju-verkamaður ? Getur sami maður verið frelsishetja og hryðjuverkamaður ? Já, í þessum heimi er það víst alveg mögulegt. Hann getur jafnvel verið friðarpostuli líka. En stangast það samt ekki allt á ?

 

Ekki í þessum heimi ! Í þessum heimi geta menn leikið andstæð hlutverk í lífinu eins og ekkert sé. Og fylgismenn skortir ekki þó menn fari í gegnum sjálfa sig og það margsinnis og séu ekki trúverðugir fyrir fimm aura. Af hverju er þetta svona, er það kannski vegna þess að mannleg heimska sé takmarkalaus - eða hvað ? Margt bendir reyndar til að svo sé !

 

Eftiröpunin og endurtekningarnar er líka ömurlegar uppákomur í pólitík því þar verður oftast hver ný útgáfa þeirri fyrri verri. Justin Trudeau er ómerkilegri leiðtogi en Pierre Elliott Trudeau faðir hans og virðist fljóta áfram á lýðskruminu einu. Kanada hefur sett niður í augum heimsins á valdatíma hans, enda virðist dómgreindar-inneignin ekki sérlega burðug hjá þessum leiðtoga sem þrífst sennilega helst á því að vera sonur pabba síns !

 

Og nú er annar Marcos sestur að völdum á Filippseyjum. Ekki var faðirinn góður og varla mikil spurning hvernig sonurinn verður. Hversvegna í ósköpunum kýs fólk svona menn yfir sig ? Er spilling samfélagsins á svona háu stigi, eru ranghugmyndir almennra borgara svona yfirtaks öflugar í því að villa mönnum sýn og blekkja þá ? Hvað veldur því að fólk kýs sérgæskusinnaða valdamenn svo oft og iðulega yfir sig gegn almanna-hagsmunum ?

 

Við Íslendingar skerum okkur ekki mikið úr í þessum efnum, en líklega er aðalmeinið hjá okkur, að atgervisleysið hjá þeim sem vilja vera leiðtogar á Íslandi er svo hrikalegt. Sumir frambjóðendur geta svo sem talað og sykurhúðað hverja setningu, en þar fyrir utan er hæfnin engin og ekkert gefur þar vonir um neina hugsjón eða þjóðlega endurnýjun !

 

Leiðtogahæfni í íslenskri pólitík er þannig nánast engin. Síðustu hálfa öldina hafa engir pólitískir foringjar komið fram, hvorki til hægri né vinstri, sem hafa náð að stökkva yfir meðalmennskuna og tekist að bjóða þjóðinni upp á skýra og heilbrigða framtíðarsýn. Líti menn bara yfir sviðið. Nokkrir framagosar öðluðust að vísu tiltrú á þessu tímabili, en það gerði þeim bara auðveldara um vik að skaða þjóðina og orðspor hennar í óstöðugum heimi !

 

Og við vitum að þegar allt var komið í óefni, vegna vanhæfni og getuleysis stjórnvalda, var eina ráð kerfiskónganna að segja : ,,Guð blessi Ísland“. En auðvitað var ekki hægt fyrir Skaparann að blessa það Ísland sem búið var að sjóða saman úr forhertri fjármálaspillingu og mismuna öllu mannlífi hér í gegnum alls konar mafíutengda kerfisklæki. Og þrælslundin gagnvart erlendu valdi virðist nú hafa drepið niður allan manndóm Íslendinga !

 

Mikið hefði það verið dásamlegt, ef við Íslendingar hefðum getað búið við einhverja mannkostaforustu og haldið tryggð við sjálfstæðis-hugsjónir fyrri kynslóða í þessu landi. Ávaxtað þannig pund okkar með heiðarlegum hætti og notið virðingar annarra þjóða fyrir staðfestu og þjóðlegar dyggðir. En því hefur ekki verið að heilsa. Græðgisfarsótt Vesturlanda settist hér að sem víðar !

 

Allir sem spilla og eyðileggja samfélög, ræna þjóðareignum og hlunnfara almannahag eru hryðjuverkamenn, og slíkir menn hafa sannarlega komið við sögu hér. Margir íslenskir aðilar hafa prédikað frið hér en hafa samt staðið fyrir ófriði um leið, sennilega án þess að gera sér grein fyrir því. Samfellur andstæðna virðast fylgja mörgum hérlendis sem erlendis !

 

En frelsishetjur, þjóðfrelsishetjur, sannir varnarmenn sjálfstæðis Íslands, slíkar persónur virðast hinsvegar ekki sjást lengur á pólitíska sviðinu og finnast sennilega ekki lengur hér. Menn geta líklega verið svo til allt á Íslandi og það jafnvel á mjög andstæðufullan hátt, nema hetjur í þágu hugsjónar sjálfstæðis og frelsis eigin þjóðar. Það verða Íslendingar víst seint héðan af !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 34
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 603
  • Frá upphafi: 365501

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband